Færsluflokkur: Bloggar
6.6.2016 | 15:38
Höfuðið er mætt.
Vigdís Hauksdóttir hefur tekið gleði sína á ný. Höfuðið er mætt til leiks og því flokkurinn ekki lengur sá höfuðlausi her sem hann fyrrum var. Það er svo aftur á móti allt önnur Ella hvort að limirnir dansi eftir þessu höfði. Nýjustu fréttir herma nefnilega að áhrifamenn í kjördæmi höfuðsins séu eitthvað farnir að ókyrrast og hafi Höskuldur Þórhallsson fullan hug á að koma fram hefndum fyrir að vera sviptur leiðtogasæti sínu af aðskotadýri að sunnan meðfram vegna einskærs klaufaskapar akureyringanna sem sæti áttu í fulltrúarráði Framsóknarflokksins í kjördæminu. Og það verður að teljast ótrúleg áhætta sem Framsóknarflokkurinn tekur ef þeir ætla að dröslast með Sigmund í farteskinu sem leiðtoga í komandi kosningum. Varla getur fundist jafn mikill klaufi í allri stjórnmálasögu lýðveldisins. Nú síðast þegar hann segir að það hafi verið einhver ofsókn á hendur Framsóknarflokksins þessi frægi Kastljósþáttur og e.t.v. kann hann að hafa kórónað þennan klaufaskap með því að ætla að þrýsta á svíana að kippa út sínum þætti. Ef maður ræður Framsóknarmönnum heilt þá ættu þeir nú þegar að blása til flokksþings og velja nýja forystu og dettur manni auðvitað fyrst í hug Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. Ef einhver getur bjargað afmælisbarninu frá hruni þá er það líklega hún.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2016 | 15:56
Frelsi til sölu.
Það er algeng goðsögn að frelsi fjölmiðla sé í hávegum haft á Íslandi og nýlegir atburðir færa okkur heimsanninn um það að svo sé að nokkru leyti. En að ýmsu leyti er þetta frelsi fjölmiðla þó til sölu. Háð alskyns einkaréttasamningum og einkaleyfum þannig má ég ekki horfa á liðið mitt í enska boltanum leika nema kaupa mér rándýra áskrift af einhverjum pakka, en þetta er á vissan hátt afleiðing þessa furðulega skipulags að símafyrirtæki séu líka að vasast í sjónvarpsrekstri í stað þess að sinna rekstri kapalkerfa sem sjónvarpsstöðvar leigja eða jafnvel aðilar eins og t.d sveitafélög. Jafnvel sjálft Ríkisútvarpið sleppur jafnvel ekki alveg við að vera á þessu markaðstorgi. Nýlega þurftu þeir að loka síðu 390 í textavarpinu vegna þess að það stangaðist eitthvað á við réttindi Íslenskrar getspár. Þarna hríðversnar þjónusta við margt fullorðið fólk sem notað hefur textavarpið til að fylgjast með gangi mála í kappleikjum. Maður hlýtur að ætlast til þess að Ríkisútvarpið haldi áfram þessari þjónustu, en það virðist stundum gleyma því að það er þjónustufyrirtæki við almenning í landinu en ekki leiksoppur stjórnvalda eða viðskiptablokka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2016 | 15:42
Óli fer ekki í framboð.
Vor ástkæri forseti Ólafur Ragnar Grímsson verðu ekki í framboði í komandi forsetakosningum. Hann hefur ákveðið að hætta við að hætta við að hætta ekki, eða maður veit ekki hvar endaleysan endar. Um ástæðu þess að hann hættir við í annað sinn er erfitt að fullyrða. Ein af þeim gæti verið sú að Kóngurinn er mættur til leiks. Við vitum ekki hvort Óli sé þarna að koma endanlega í veg fyrir það að Davíð nái kjöri eða þá hvort hann er að reyna að gera honum leiðina greiðari á Bessastaði. Í ljósi sögunnar er hið síðara heldur ólíklegra eftir hin mörgu og litríku viðskipti sem þeir hafa átt í og fyrstu kannanir virðast benda til þess að Guðni Th. njóti helst góðs af þessu. Í margra augum er Guðni einhverskonar Kristján Eldjárn endurborinn meðan Davíð er sennilega að flestum talinn fulltrúi valdakerfisins, líkt og Gunnar Thoroddsen forðum. Það vinnur einnig á móti Davíð að því er ekki að leyna að viss embættisafglöp hans sem Seðlabankastjóra leiddu næstum til þjóðargjaldþrots og yrði það sannarlega kaldhæðnislegt ef sá sem næstum því hefði glatað sjálfstæði þjóðarinnar settist á Bessastaði til að lyfta þar Bermútaskál sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2016 | 16:06
Óli fer í framboð.
Það gerðist í kjölfar skrítna þriðjudagsins að forsetinn okkar blés til blaðamannafundar þar sem hann tilkynnti að hann hefði ákveðið að hætta við að hætta í sumar. Hann hætti semsé við í 100 daga, en sá svo allt í einu að það gæti verið skrambi gaman að vera forseti, ekki síst þegar eitthvað spennandi væri um að vera í þjóðfélaginu. Nýbúinn að senda forsætisráðherrann okkar heim og jafnvel snupra hann. Sá Óli að hann hlyti að vera alveg ómissandi. Stundum virkar forsetinn okkar svolítið eins og skopmynd af Charles De Gaulle sem eftir að hafa bjargað frökkum í stríðinu, taldi sjálfan sig alveg ómissandi þegar mikið gekk á. En sitt sýnist hverjum um þetta framboð og það hversu Ólafur er ómissandi og ekki bætir úr skák þegar stórasta demantafyritækið hennar Dorritar var með viðskipti í skattaskjólum. Vandinn er bara sá að það hefur eiginlega enginn nægilega sterkur frambjóðandi komið fram sem ætla megi að muni getað velt Ólafi undir uggum. Andri Snær er að mörgu leyti svo mikill einsmálefnismaður að hann nær litlu fylgi utan trúaðra náttúruverndarsinna. En sumir binda nú vonir sínar við Guðna Th. sem ef ég man rétt skrifaði um tengls Ólafs við útrásarvíkingana á sínum tíma. En tíminn verður að leiða það í ljós hvort hann nær að verða fyrsti maðurinn sem fellir sitjandi forseta á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2016 | 15:51
Skítug árstíð.
Á dögunum var Hugskotið á rölti í hjólastól sínum um hverfið þegar samferðarkonan hafði orð á því hve allt væri skítugt í umhverfinu, líkt og oft á vorin og líka jafnvel í minna mæli á haustin. Og þetta vor hefur svo sannarlega verið í skítugra lagi. Ekki sér enn fyrir endann á því sem Kastljósið varpaði ljósi á, eða afleyðingum skrítna þriðjudagsins sem á eftir kom. Það er ekki lengur fallegt landslag, enn fallegri stúlkur og besta handboltalið í heimi sem Ísland er frægt fyrir, heldur líklega mesta spilling amk miðað við höfðatölu, sem fyrir finnst á jarðríki. Sögur herma að uþb 72 milljarðar króna hafi horfið út úr hagkerfinu rétt fyrir hrun og að auki hafi yfirstéttin svo rækilega þrýst niður gengi krónunnar að almenningur býr við mun lakari kjör í dag en þjóðarframleiðsla segir til um. En nú á að slá upp veislu. Það er auðséð að stutt er til kosninga þó menn vilji sjálfsagt reyna að svíkja það eins og allt hitt, allavegana er varinn góður og því er verðbólgubálkösturinn reistur upp, farið er eins og venjulega í þenslukvetjandi framkvæmdir, mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess sem barnafjölskyldur og fleiri stórir kjósendahópar fá einhverja dúsu fram yfir kosningar. Menn verða fljótir að eyða þessum bankapeningum, en það er allt í lagi, syndafallið kemur eftir Sigurð Inga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2016 | 17:03
Náttröll
Sól upplýsingaflæðis skein skært í síðustu viku. Allt frá hinum fjölþjóðlega Kastljósþætti til loka föstudags lenti vart beinum fréttasendingum eða beinum þingfundasýningum. Fréttafíklar fengu nóg. Í þessu upplýsingasólskini baðaði Ríkisútvarpið sig ekki hvað síst. Það er hægt að hrósa því mjög fyrir umfjöllun sína, en svo þversagnarkennt sem það sýnist vera kom jafnframt í ljós að dagar hins hefðbundna stjórnmálavædda Útvarps Reykjavík eru taldir. Það er einfaldlega steinrunnið eins og hvert annað náttröll. Það þýðir ekki lengur fyrir stjórnmálamenn að ráðskast með fjölmiðla, því fólk fær einfaldlega upplýsingarnar annarsstaðar frá og allar þessar hefðir sem eiga að þýða einhvern stöðugleika eru eiginlega orðnar hjákátlegar, td úreltir fréttatímar, hjáróma klukknasláttur og þetta hvimleiða Útvarp Reykjavík. Það er ekki lengur hægt að reka einhverja steinrunna fjölmiðlasamsteypu í grimmri samkeppni við einkastöðvar á höfuðborgasvæðinu og láta sveitavarginn á hundaþúfunum borga brúsann. Okkar ágæti útvarpsstjóri hefur örgglega góðan vilja til að breyta en hann á örugglega við ramman reip að draga þar sem eru afkomendur fyrrverandi stjóra í þriðja og fjórða ættlið og einhverjir fauskar sem ekki fara úr Útvarpshúsinu fyrr en á grafarbakkann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2016 | 16:33
Furðuvikan.
Á föstudagskvöldum er á Rúvinu þáttur sem nefnist Vikan, undir stjórn Gísla Marteins nokkurn sem mun vera einskonar pólitískur flóttamaður úr Sjálfstæðisflokknum og sem merki er beinlínis hægt að segja að sé heimsins besti sjónvarpsmaður. Sjálfsagt hefur hann reynt sitt besta til að gera Vikuna eins og segir í kynningu upp á jákvæðum og vinalegum nótum, en það hlýtur að hafa verið nokkuð erfitt og hefði þátturinn eiginlega betur verið látinn heita Furðuvikan, því síðastliðin vika var í rauninni eitt stórt furðuverk, súrrelistískt furðuverk sem heimurinn stendur nú og gapir yfir, eða hlær sig máttlausan að. Ein lítil bloggfærsla veltir einkennilega þungu hlassi. Forsætisráðherra setur hvert metið á fætur öðru í klaufaskap. Stundum þegir hann þunnu hljóði en stundum blaðrar hann eitthvað útí loftið án þess eiginlega að vita hvað hann segir og er það nema von þó að blessaður forsetinn geti ekki alveg áttað sig á hvað um er að vera. Sigmundur þykist ætla að senda fjármálaráðherra einskonar bjarghring sem svo fjármálaráðherra telur sig enga þörf hafa fyrir enda forseti búinn að neita Sigmundi um þennan bjarghring, þó svo áhöld séu um það hvort hann hafi haft til þess heimild samkvæmt stjórnskipun landsins. Lýðurinn þyrpist á Austurvöll og heimtar kosningar, myndir af Alþingishúsinu þöktu eggjum og banönum sést í sjónvarpi, allt suður til Bosníu, af því mér er tjáð, og auðvitað fellur svo kerfið eins og spilaborg. Það verður sko fjör í sumar, tvennar kosningar og mikið stuð á fólkinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2016 | 16:43
Nýtt þrælahald.
Þrælahald mun líklega hafa lagst af á Íslandi upp úr kristnitöku árið 1000. Þangað til allt í einu í dag þegar það uppgötvast að ambáttir eru haldnar í Vík í Mýrdal. Þarna mun einhver náungi austan úr Asíu ekki hafa tímt að borga saumakonum sínum laun, þannig að hann hefur einfaldlega lokað þær inni í húsi sínu og látið sauma frítt, án þess að fyrirtæki það sem hann vann sem verktaki hjá hefði hugmynd um, amk sverja þeir af sér alla vitneskju um málið, þótt ótrúlegt sé að þeir hafi ekkert vitað. En það er einn smá misskilningur sem fjölmiðlar hafa dálítið verið með, þeir hafa kallað þann glæp sem þarna var vissulega framinn, mansal. Þessi glæpur er að sönnu mun alvarlegri en það að halda þræla. Með mansali er átt við það þegar konur eru seldar í kynlífsánauð, hér áður fyrr var þarna oft talað um hvíta þrælasölu. Að hneppa í þrældóm er aftur á móti kallað mannsal og þó vissulega sé það alvarlegt brot er það ekki jafn svívirðilegur glæpur og að selja afnot af líkama konu. Það er stigsmunur á að selja afnot af vinnuafli og afnot af líkama án endugjalds. En hvað sossem öðru líður þá er ótrúlegt að þessi maður hafi getað stundað þessa starfsemi sína um árabil án þess að hið alsjáandi auga Útlendingastofnunnar sæi. Þeir eru nógu fundvísir á flóttabörn og unga erlenda sjálfboðaliða til sveita sem ekkert gera af sér nema kynnast landi og þjóð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2016 | 16:24
Brúna vofan.
Brún vofa ásækir nú heimsbyggðina. Vofa þessi birtist í ýmsum myndum, sumum harla sakleysislegum til að mynda sannir finnar, svíþjóðardemókratar eða Framfara, en þó ekki Framsóknarflokkur. Annars staðar birtist vofa þessi í gervi skrítins uppskafning eins og Le Pen, eða þá eins og lélegt uppistand eins og hjá Donald nokkrum Trump sem mun vera afdankaður en ríkur sjónvarpstrúður í Bandaríkjunum. Veikt bergmál vofu þessarar mátti jafnvel heyra á alþingi í gær þegar þingmaður einn lýsti þeirri skoðun sinni að við ættum að læsa landamærum okkar og ganga úr Schengen. Ef ég man rétt þá vakti þessi sami þingmaður athygli fyrir það í fyrra þegar hann greiddi sér arð af tapi, hvernig svo sem það var hægt. Populismi og mannfyrirlitning virðast þannig ganga mikið upp núna og menn virðast fyrir löngu hafa gleymt því þegar brúna liðið, fasistar og nasistar af ýmsu tagi skyldu eftir sig milljónir látinna og særðra, sviðna jörð og eyðileggingu. Menn virðast ekki gera sér grein fyrir því að ef þessi öfl ná völdum í Evrópu gæti það endað með því að Evrópa eins og við þekkjum hana í dag, myndi beinlínis þurrkast út, og í versta falli taka það sem eftir er heimsins með sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2016 | 17:10
Örlæti Eyglóar.
Það var með nokkurri eftirvæntingu sem maður fór í bankann í gær til að athuga hvað maður fengi útborgað úr tryggingunum. Í ljós kom að útborgaðar tryggingabætur voru rétt liðlega 2500 krónur og höfðu hækkað um heilar 14.000 krónur frá því í desember. Þetta er nú örlætið hennar Eyglóar minnar. 14 þúsund krónur og auðvitað ekki afturvirkt. Slíkan munað fá aðeins dómarar, bankastjórar og aðrir slíkir. Sigmundur blessaður fær víst eina litla milljón og fjármálaráðherra segir að bótaþegar hafi aldrei haft það betra, með 246 þúsund krónur. Þarna lýgur Bjarni Benedikts. 246 þúsundin eru bæturnar fyrir skatta því auðvitað tekur ríkiskassinn aftur 40.000 af því sem hann greiddi í bætur. Þetta er svoldið skondið vegna þess að menn tala um hversu mjög hafi vænkast hagur þjóðarinnar eftir hina frábæru samninga við slitabúin sem valda því að hægt hefur verið að grynka á skuldum þjóðarinnar, þannig að á næsta ári er komið svigrúm til að halda mikla veislu fyrir millistéttina, sem er jú stærsti hluti kjósenda. Öryrkja og aldraðir eru það fáir að þeir skipta engu máli í pólitísku samhengi og engan hafa þeir verkfallsréttinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)