Færsluflokkur: Bloggar
7.1.2016 | 16:58
Allir á Bessastaði.
Jörðin Bessastaðir á Álftanesi er laus til ábúðar á komandi hausti. Þegar hafa margir líst áhuga á jörð þessari, enda mun hún sú virðulegasta á landinu. Það er eins og æði hafi runnið á þjóðina, allir vilja verða forsetar, þó svo mörgum þyki embættið frekar valdalítið og einhvernveginn vera svona bara uppá punt. En djobbið er víst nokkuð vel launað og því fylgja margvísleg fríðindi. Blikur eru samt á lofti, menn eru allt í einu farnir að átta sig á því að ekki er allt sem sýnist. Ef til vill er þetta starf ekki eins auðvelt og ætla mætti og víst er að Ólafur Ragnar hefur gjörbreytt eðli þess með því að virkja 26.greinina sem margir töldu óvirka, héldu einhvernveginn að forseti væri ekki ábyrgur gerða sinna. Ólafur sýndi fram á að eðli embættis hans væri þannig að greinin væri virk og því eru kosningarnar í vor einstaklega merkilegar og sögulegar. Við munum kjósa um það hvort við veljum pólitískan forseta eins og Ólafur Ragnar eða puntudúkku eins og danakonung. Fram til þessa hefur enginn sem við getum kallað alvöru kandidat endanlega líst yfir framboði en fjölbreyttur hópur er þegar kominn í startholurnar, fótboltastjörnur, fólk með geðræn vandamál, umhverfispostular, allskonar fólk og auðvitað hafa allir rétt á að bjóða sig fram. En maður spyr sig hvers vegna ekki er búið að breyta kerfinu þannig að nánast hver sem er gæti orðið forseti með minnihluta þjóðarinnar á bak við sig. Besta lausnin væri að taka upp tvöfalda umferð þannig að forseti nyti ávalt meirihluta fylgist þjóðarinnar og þá jafnvel að taka upp einhverja tegund forsetaræðis líkt og í Frakklandi eða Finnlandi, eða sameinað embætti forseta sameinaðs þings og gera það að valdalausri tyllistöðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2015 | 18:10
Kosið með farseðli.
Þeir settu lög á hjúkkurnar og ýmsa aðra opinbera starfsmenn sem sumir höfðu þó ekki einu sinni verið búnir að boða verkfall. En hjúkkurnar létu ekki að sér hæða, þær ákváðu bara að lama Landspítalann með því að segja upp og verður spítalinn eiginlega óstarfhæfur eftir þrjá mánuði. Ríkisstjórnin gerði ekki hið eina rétta í stöðunni, þ.e að segja af sér og boða til kosninga þannig að þjóðin geti dæmt um hvort rétt hafi verið staðið að málum og mikið finnst manni hann Óli á Bessastöðum eitthvað lítill bógur að hafa skrifað undir lögin en ekki sent þau í þjóðaratkvæði. En þó að ekki sé líklegt að menn fái að kjósa virðast ýmsir hjúkrunarfræðingar ætla að kjósa á sinn hátt, með farseðli sem oftar en ekki á stendur Oslo Airport í stað kjörseðils, og við þessu eiga stjórnvöldin eiginlega ekkert svar þó svo að þessar aðgerðir hjúkrunarfræðinga séu líklega ólöglegar, þar sem um hópaðgerð hlýtur að vera að ræða. Það verður fróðlegt að vita hvernig fram vindur næstu vikurnar t.d hvort ríkisstjórnin telji sig tilnefnda til að eyða stöðugleikaskattinum í að bæta kjör hjúkrunarfræðinga þó hann eigi víst alls ekki að fara út í þjóðfélagið, heldur ganga upp í skuldir þjóðarinnar sem menn vildu frekar sleppa að borga en að bæta hag einhverrra svokallaðra heimila.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2015 | 17:59
Útþynnt þjóðhátíð.
Hún var svolítið sérstök stemningin þarna á Austuvelli í gær. Forsætisráðherrann okkar dvaldi að venju í sínu Simmalandi þar sem smjör drýpur af hverju strái og allir eru svo óskaplega jafnir, sem aldrei fyrr. Undir hljómaði trumbusláttur og hróp um vanhæfa ríkisstjórn. Menn hafa talað um vanvirðingu við þjóðhátíðardaginn, en aðrir benda réttilega á að mótmæli á þessum degi séu sossem ekkert nýtt, þau séu bara heldur meiri núna enda tilefnið e.t.v. mun meira nú en áður. En sú spurning vaknar hvort þjóðhátíðardagurinn sé ekki hinn síðari ár orðinn svolítið útþynntur og að mestu farinn að ganga út á sprikl, kandífloss og blöðrur og öll herlegheitin yfirleitt búin þegar kvöldið er rétt að byrja. Hér áður fyrr var þjóðhátíðardagurinn mikil hátíð með ræðuhöldum, vönduðum skemmtiatriðum og loks balli sem stóð a.m.k til kl. 02 á Torginu og hápunktuinn var þegar stúdentarnir komu marserandi á miðnætti. Nú kann það að hlójoma þversagnarkennt að yfirlýstur evrópusinni sjái eftir alvöru þjóðhátíardegi. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er engin þversögn. Sannur evrópusinni er líka sannur íslendingur, en Ísland á sinn sess í samfélagið þjóðanna en ekki að verða fórnarlamb heimskulegrar þjóðrembu og gotts.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2015 | 17:25
Arður og íspinnar.
Það bendir allt til þess að menn ætli að fara að ganga frá kjarasamningum á almennum vinnumarkaði næstu daga, semja um einhverja tiltekna verðbólgu svo að allir verði ánægðir í nokkra mánuði. Menn hafa líklega verið orðnir hræddir um að Smáþjóðaleikarnir féllu niður eða eitthvað svoleiðis.
Eftir standa hjúkkurnar, dýralæknar og nokkrar slíkar láglaunastéttir sem bíða sjálfsagt eftir lagasetningu til að skera þær úr snörunni. Raunar er fólki nokkur vorkun þó það vilji sækja sér kjarabætur. Fregnir af gífurlegum arði og háum launum til stjórnarmanna fyrirtækja, meðan fólkið fær íspinna í Bónus gera menn auðvitað reiða. Forsætisráðherra bætir ekki úr skák með því að hóta skattahækkunum og allskyns óáran verði ekki samið á svokölluðum skynsamlegur nótum. Menn tala um norðurlönd og vissulega eru samningamál þar með nokkru öðrum hætti en hér, en að bera saman Ísland og norðurlönd er auðvitað að bera saman epli og appelsínur. Á norðurlöndum er allt önnur þjóðfélagsgerð, meiri samneysla, hærri skattar en fólk fær miklu meira fyrir skattana sína. Þar líðst mönnum ekki að fella bara gengið til að þurrka út kauphækkanir, enda ekki með auðlyndir þjóðarinnar í einkaeigu eins og hér tíðkast.
Það er engin von til að hér megi nást kjarasátt til framtíðar nema gerð verði róttæk kerfisbreyting, þjóðarsátt um stöðugleika, alvöru stöðugleika sem misvitrir stjórnmálamenn í vinsældarleik geta ekki ógnað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2015 | 17:12
Í hlekkjum málþófs.
Þá er hinu árvissa málþófi þingmanna lokið að þessu sinni, í bili að minnsta kosti.
Líklega hefur að þessu sinni verið sett íslandsmet í svona málþófi, en menn tóku sér víst ekki nema litlar tvær vikur til að ræða hina svokölluðu rammaáætlun og strjórnarandstöðunni tókst ætlunarverkið...að stöðva málið um sinn a.m.k. Líkt og gerðist á síðasta kjörtímabili þegar stjórnarskrárbreytingar og önnur þörf mál voru stöðvuð með málþófi og reyndar evrópusambands tillagan í fyrra.
Já þetta er ansi beitt vopn þetta málþóf, sem að heldur þinginu í hlekkjum á hverju vori. Mál þokast ekkert dögum og vikum saman en loks brestur stíflan og þá verða málin afgreidd með fálmi og flaustri, oft á næturna þannig að þingmennirnir hafa eiginlega enga hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja. Það myndast þarna einhverskonar uppistöðulón allskyns lagasetninga þegar stíflan brestur og það virðist enginn raunverulegur vilji vera til þess að gera á þessu umbætur.
Ýmsar leiðir eru þó til, þannig má auðvitað hugsa sér að ákveðinn hluti þingmanna geti sett mál í þjóðaratkvæði, slíkt hefur gefið góða raun t.d í Danmörku og einnig mætti hugsa sér að forseti þingsins yrði kosinn með tveimur þriðju hluta atkvæða þanni að hann yrði forseti alls þingsins en ekki ríkisstjórnar á hverjum tíma.
Það er tími til þess kominn að menn fari að gera ráðstafanir til að þingið fari að ræða eitthvað þarfara en það að hanga í 10 mínútur í að spyrja forseta hvenær fundi eigi að ljúka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2015 | 16:26
Græðgi og jöfnuður.
Landið logar í kjaradeilum.
Enn einu sinni vilja allir fá allt og sjálfsagt verður útkoman sú að enginn fær neitt þegar upp er staðið. Ef til vill fleiri verðlausa seðla í veskin, veislu í nokkra mánuði og síðan annað hrun. Fjármálaráðherrann okkar er ekki beinlínis að auðvelda lausn deilnanna með þessum yfirlýsingum sínum um að ef til vill hafi menn gengið of langt í átt til jöfnuðar. Hér er hann auðvitað að gefa skotleyfi á græðgina, fólk sem er með upp undir milljón á mánuði eða meira á sko rétt á kjarabótum til jafns við láglaunafólkið, þetta fólk sem hefur miklu lægri laun en víðast annarsstaðar í kring um okkur. Seðlaprentunarvélin verður bara sett í gang, verðlausum seðlum verður spýtt út á markaðinn og kaupgleði mun ríkja í nokkra mánuði. Ekki bætir úr skák að í pípunum eru gríðalegar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi yfirborgunum, viðvarandi húsnæðisskorti sem bætt verður úr með enn meiri byggingarframkvæmdum til að hýsa efnahagsflóttamenn af landsbyggðinni þar sem auðn ríkir og hverskyns lúxus mun streyma inn í landið með tilheyrandi viðskiptahalla, gengisfellingu og kreppu.
Nýtt hrun er óumflýjanlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2015 | 16:01
Kaldur sumarylur.
Það snjóaði á Sumardaginn fyrsta og snjóar enn þótt komið sé fram undir 1.maí. Lítil sól og sumarylurinn er heldur kaldur.
Hann er líka fremur kaldur sumarylurinn hans Gylfa Ægissonar, sá sem hann orti um í Listigarðinum á Akureyri á sínum tíma. Gamli góði klámhundurinn er allt í einu orðinn siðapostuli hinn mesti og farinn að skrifa fjálglega um þá synd sem það sé að vera kynvilltur, en það mun vera orðið sem notað var yfir samkynhneigða hér fyrr á árum. Jú það kann að vera synd að vera samkynhneigður, það kann líka að vera synd að vera fatlaður, lítill, svartur eða hjólbeinóttur, jafnvel að vera rauðhærður og laun syndarinnar kvað víst vera dauði. Það eru þá líklega margir sem munu deyja og þröngmikið í hinu neðra, því þangað fara jú syndararnir. Nú veit ég að Gylfi Ægisson er mjög biblíufróður maður. Eins og títt er í hinum ýmsu trúarsöfnuðum þá hefur hann vafalaust á taktinum alla kaflana og versanúmer hinna ýmsum ritningastaða. Því legg ég hér til við þig Gylfi minn að þú takir Biblíuna þína þér í hönd og flettir upp á sögunni um bersyndugu konuna, þar segir sjálfur Jesús Kristur, líklega gáfaðasti maður allra tima, "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum". Hugleiddu þetta Gylfi minn, taktu svo flugið til Akureyrar á fallegum sumardegi, farðu í Ríkið og kauptu flösku, labbaðu svo uppí Listigarð og sestu þar með flösku og gítar til að semja fallegt lag um fordóma og andúð þína á þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2015 | 16:46
Tóm steypa.
Segja má að íslenskt þjóðfélag sé að mörgu leyti tóm steypa.
Efnahagskerfi sem knúið er áfram af gengdarlausu kjarakapphlaupi, verðbólgu og óstöðugleika. Það er líka tóm steypa, beinlínis í eiginlegri merkingu, því svo gífurlegum fjármunum hefur þjóðfélagið eytt í steinsteypu sem í mörgum tilvikum er ekkert annað en hrein mikilmennska og flottræfilsháttur. Það þarf ekki að nefna dæmi, Hörpu, Kringluna, Ráðhúsið og fleira og þessi steypa skilar engum þjóðhagslegum arði. Hún skapar engin varanleg verðmæti, heldur stendur þarna sem minnismerki um arfavitlausa stjórn á landinu. Maður lætur sér koma til hugar hversu miklu betri kjör þjóðin byggi við ef forgangsröðun hefði verið önnur. Ef arðinum af auðlyndum þjóðarinnar hefði verið dreift til fjólksins en honum ekki safnað saman í höndum braskara eða misviturra stjórnmálamanna, og enn á að höggva í sama knérunninn, minnast á aldarafmæli fullveldisins með enn meira af arðlausri steinsteypu. Byggja á monthallir sem engu skila, maður spyr sig hvort ekki væri nú nær að minnast þessa merka áfanga með því að leggja grunninn að betra og réttlátara þjóðfélagi. Þjóðfélagi fyrir alla, sem tákngert yrði með nýrri nútímanlegri stjórnarskrá. Við höfum þrjú ár til að gera þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2015 | 16:34
Aprílgabb Sigmundar.
Margir héldu að forsætisráðherra nokkur, Sigmundur Davíð væri að láta þjóðina hlaupa apríl í sjónvarpsfréttunum þennan ágæta miðvikudag. Svo var þó ekki, en það má þó segja að hann hafi þarna verið að láta sjálfan sig hlaupa apríl. Forsætisráðherra trúði nefnilega einlæglega sjálfur þessum furðulegu tillögum sínum, m.a um að byggja nýjan Landspítala á lóð Ríkisútvarpsins. Áður var hann, að því virðist, búinn að láta ríkisstjórnina samþykkja stórkallalegar tillögur um það hvernig minnast skyldi aldarafmælis fullveldisins að þrem árum liðnum. Við nánari athugun hefur komið í ljós að allar þessar tillögur eru í besta falli illframkvæmanlegar og versta falli bera þær vott um að forsætisráðherra hafi misst öll veruleikatengsl, að dómgreind hans sé alvarlega skert. Margar af þessum framkvæmdum kosta milljarðatugi og sumar þeirra eru beinlínis ekki á hans valdi að setja fram, sbr. viðbygginguna við Alþingishúsið, en það mál mun vera á forræði þingsins sjálfs og meira að segja Valhöll, sú hugmynd mun heyra undir Þingvallanefnd en ekki forsætisráðherra. Það er alvarlegt mál að svona skuli komið að forsætisráðherra sé algjörlega úr tenglsum við samfélagið. Auðvitað væri best að hann segði af sér með reisn, ellegar ryfi þing og boðaði til kosninga. Hugsanlega væri hægt að fresta yfirvofandi verkfallsaðgerðum með lagasetningu til hausts í von um það að nýjar kosningar geti fætt af sér stjórn sem geti í alvöru tekið á málunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2015 | 17:23
26. september.
Læknafélag Íslands ályktaði nýlega gegn hinu svokallaða brennivínsfrumvarpi og var þetta aðalfrétt Ríkisútvarpsins á fimmtudaginn. Ekki veit ég af hverju. Það hefði verið miklu meiri frétt hefði Læknafélagið mælt með frumvarpinu. Hvað um það, þessi ályktun Læknafélagsins er svo kaldhæðnislegt sem það kann að vera, einhver mestu meðmæli sem frumvarpið hefur fengið. Svo illa hagaði Læknafélagið sér fyrir nokkrum vikum þegar það hótaði að setja heilbrigðiskerfi landsins á hausinn fengju félagsmenn ekki kjarabætur sem eru út úr korti við allt það sem til boða stendur og ríkisstjórnin lét auðvitað undan með þeim afleiðingum sem allir þekkja.
En brennivínsfrumvarpið er aldeilis ekki það eina sem menn deila um núna. Stjórnarandstaðan hefur lagt tillögu á alþingi að eflt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna við Evrópusambandið þann 26.september, sem kvað vera laugardagur. Nú spyr maður, af hverju er ekki bara ákveðið að kjósa um brennivínið og Evrópusambandið þennan sama laugardag og í framhjáhlaupi mætti líka kjósa um lífsnauðsynlegar breytingar sem gera þarf á stjórnarskránni, það yrði sko gaman að lifa næsta sumar. Menn hefðu nóg við að vera með að rífast um brennivín, Evrópusamband að ógleymdri stjórnarskránni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)