Færsluflokkur: Bloggar
26.10.2016 | 15:58
Spítalasápa.
Í gær þriðjudaginn 25.október var á Rás 2 þáttur í þessari næstum endalausu Landspítalasápu, þar sem við ræddust tveir menn sem voru á öndverðu meiði um staðsetningu nýja Landspítalans, ágætur trommuleikasonur sem hefur starfað í bygginganefnd Landspítalans og framsóknarmaður einn Hermann að nafni, en það hefur verið eitt hjartans mál framsóknarmanna að byggja nýjan Landspítala á Vífilstöðum. Gunnar benti á að þegar væri búið að veita 3 milljörðum í uppbygginguna við Hringbraut og virtist framsóknarmaðurinn vera kominn inn á það að best væri að halda sig við að byggja upp við Hringbraut sérhæft hátæknisjúkarhús en byggja svo nýtt þjóðarsjúkrahús á Vífilstöðum. Benti hann á sem rök að þjóðarspítali þyrfti ekki endilega að vera í Reykjavík. Nú spyr maður hver munurinn sé á því að vera í Reykjavík eða Garðabæ. Ef byggja á sérhæfðan spítala við Hringbraut hlýtur næsta verkefni að vera að stórefla sjúkrahúsið á Akureyri sem fullkomið bráðasjúkarhús en hugsanlega mætti einhverntímann, í ekki svo mjög fjarlægðri framtíð reisa almennt sjúkrahús fyrir höfuðborgarsvæðið en ekki tvöfaldan Landspítala eins og gert var þegar Borgarspítalinn var reistur upphaflega sem almennt sjúkrahús en svo datt mönnum í hug að það þyrfti að kaupa ýmis sérhæfð tæki sem fyrir voru á Landspítanum þannig að tvö tæki voru til á landinu með örfárra kílómetra millibili en engin önnur. Auðvitað endaði þetta með að spítalarnir voru sameinaðir, þessi vitleysa má ekki endurtaka sig, þjóðin hefur ekki efni á því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2016 | 15:39
Ís handa öllum
Ís handa öllum, mamma borgar. Þetta gæti verið sameiginlegt kjörorð allra þeirra framboða sem við komum til með að velja úr næstkomandi laugardag. Já mamma er víst mjög rík núna enda þarfirnar margar. Eitt stykki spítali, ókeypis heilbrigðiskerfi, meira fé til háskóla, gera við ónýta vegi og því um líkt. Og til alls þessa á að afla fé með skattalækkunum. Þeir eru ekki sparir á loforðin blessaðir flokkarnir og vitanlega verða aldrei öll efnd enda kvað það víst kosta eina 200 milljarða að efla þau kosningaloforð sem koma hafa fram. Að efna þau myndi að sjálfsögðu kosta það að Ísland færi á hausinn, svo einfalt er málið. Engin framtíðarsýn, engar áætlanir sem ná yfir meira en nokkra mánuði fram yfir kosningar. Örlítil skíma er þó þessi hugmynd frá Viðreisn um myntráð. Spara á feitu árunum til hinna mögru með tengingu krónunnar við alvöru gjaldmiðil og Samfylkingin hefur aðeins ljáð máls á einhverju svipuðu. Hið versta er að þjóðin er bara alls ekki nógu þroskuð til að stíga þetta skref, við erum alltof föst í þessu fari og þessari hugsun....þetta reddast. Dómsdagur kemur eftir mitt kjörtímabil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2016 | 17:59
Hálfrar aldar sjónvarp.
Þess er minnst með pompi og prakt að hálf öld er liðin síðan íslenskt sjónvarp tók til starfa. Sumar kynningar sögðu reyndar að verið væri að minnast hálfrar aldar sjónvarps á Íslandi en það er auðvitað ekki rétt. Sjónvarpsútsendingar á Íslandi hófust fyrir 61 ári á vegum hins svokallaða varnarliðs á Keflavíkurflugvelli og svo kaldhæðnislega vill til að þetta hermannasjónvarp flýtti beinlínis fyrir því að sett var á stofn íslnenskt sjónvarp, hvort það var nú rétt á sínum tíma að fela ríkisútvarpinu sem slíku að koma því á stofn. Hugsanlega hefði sjálfstætt fyrirtæki í almanna eigu átt að standa að þessum rekstri. En hvað sem því líður þá má segja að nokkuð vel hafi tekist til með stofnun sjónvarpsins enda margt ungt hugsjónafólk sem lagði hönd sína á plóginn, þó svo örlað hafi á gamaldags útvarpsspillingu þarna, t.d þegar samningur var gerður við einstakt hljómplötufyrirtæki í eigu starfsmanns útvarpsins um skemmtiþátt þar sem leiknar voru plötur hans daginn fyrir útgáfu. Orðrómur var á kreiki um þetta en í afmælisþættinum um daginn kom í ljós að þetta var skjalfest. Hvað um það, margt hefur sennilega verið betur gert þá miðað við aðstæður en nú. Þó verður að segja að gagnsæi er meira, menn eru ekki að fela það lengur að sjálfur afmælisþátturinn er kostaður af fyrirtækjum, þetta ber að harma en þannig er lífið í markaðsþjóðfélaginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.9.2016 | 17:46
Misskilin náttúruvernd.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um raflínulagnir frá Kröflu að Þeistareykjum. Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að ógilda frestun einhverrar nefndar á þessari framkvæmd undir yfirskyni náttúruverndar. Líklega hefur enginn úr þessari nefnd augum litið þessa hraunfláka sem á að vernda og sennilega á enginn í nefndinni neinna hagsmuna að gæta varðandi iðnararuppbygginguna á Bakka. Nú er náttúruvernd góðra gjalda verð, en hinu má ekki gleyma að stundum getur hún verið of dýru verði keypt. Það er misskilin náttúruvernd þegar menn ætla að verja ósköp fallega hraunfláka sem reyndar á ekki að snerta neitt við sem slíka, ef það á eftir að kosta fjölda fólks atvinnuna og sveitafélag ef ekki gjaldþrot þá að minnsta kosti þungt efnahagslegt högg. Við skulum vernda náttúruna, gott og vel en við skulum fyrst og fremst vernda atvinnu og líf fólksins sem þetta land byggir og ekki vill allt lenda í ósjálfbærum faðmi borgríkissins við Faxaflóa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2016 | 17:36
Korter fyrir kosningar.
Klukkuna vantar korter í kosningar. Þetta vita allir nema e.t.v blessaðir þingmennirnir. Þeir rembast eins og rjúpa við staur að ljúka við öll stóru málin, sem svo miklu máli virðist skipta að koma í gegn áður en lýðurinn fær að kjósa um þau. Það á að losa höft, breyta lífeyriskerfinu, lánasjóðnum og Guð má vita hverju. Auðvitað dettur mönnum ekki í hug að láta þessi mál bíða og láta þannig fólkið einfaldlega segja álit sitt á þeim með því að greiða atkvæði þeim flokkum sem þessi mál bera fram. En aumingja þingmennirnir eru auðvitað haldnir þeirri áráttu að þeir einir hafi vit á að klára málin og sumir þeirra segja í hroka sínum að þeir einir allra geta um málið vélað. Þessi framkoma er ekki boðleg, þó svo kjósendur hafi stundum gullfiskaminni eiga þeir þó fullan rétt á að samþykkja eða hafna málum. Enginn þingmaður er yfir kjósendur sína hafinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2016 | 14:45
Sigmundur kemur heim.
Hið fallega lag sem Óðinn Valdimarsson söng hér á árum áður var notað í gær sem skreyting á sjónvarpsfrétt þess efnis að Sigmundur Davíð væri kominn heim. Heim hvert? spyr maður auðvitað, etv heim á eyðibýlið sitt heima á Austurlandi, varla heim í stjórnarráðið, amk ekki í bili. Og svo veit maður ekki hvort hann yfir höfuð fór einhverntíman að heiman. En vegir Sigmundar Davíðs eru alltaf svolítið órannsakanlegir. Það er mjög erfitt að skilja rökin fyrir þessari heimkomu hans nú. Jú hann er eitthvað svolítið fúll út í einhverja sjálfstæðismenn því þeir virðast ætla að standa við loforð sitt um kosningar í haust og jafnvel núverandi forsætisráðherra tók einmitt við af honum að vissu leyti á þeim forsendum. Ein skýring kann þó að vera sú að Sigmundur og Framsóknarflokkurinn séu haldnir einhverskonar sjálfseyðingarhvöt því það gefur auga leið að verði loforðið um kosningar í október, sem best færi á að halda fyrsta vetrardag 22.október, svikið þá verður þingið óstarfhæft í vetur og ekki mun sjálfstæðismönnum td lítast á það að sitja þannig verklausir heilan vetur, enda virðist svo sem þeim hafi að vanda tekist að koma öllum sínum skömmum yfir á samstarfsflokkinn og þeir því gengið til þess að gera rólegir til kosninga. Ef þeir aftur á móti taka áhættuna við að svíkja loforðið gæti það vopn snúist í höndum þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.7.2016 | 14:32
Heilbrigðislottó mosfellinga.
Svo virðist sem mosfellingar hafi unnið þann stóra í heilbrigðislottóinu. Einhverjir dulafullir aðilar eru búnir að semja við þá um lóð þar sem þeir ætla sér að reisa eitt stykki 30 þúsund fermetra Landspítala, eða amk ígildi hans hvað kostnað varðar. Og það kvað eiga að fljúga inn ríkum útlendingum en spyrja íslendinga sem þangað leita fyrst hvort þeir geti borgað áður en spurt er hvað gangi að þeim, rétt eins og í ameríkunni. Öllum er brugðið. Kára líka. Það skyldi þó aldrei vera að hann þurfi eitthvað að hækka kaupið hjá þeim í Íslenskri erfðagreiningu vegna hinnar nýju samkeppni. Allir muna hvað gerðist þegar hann byggði erfðagreininguna í túnfæti Landspítalans. Þessi uppákoma er annars alveg makalaus, maður hélt að almennt þjóðarstolt ríkti um það að koma ekki á amerísku heilbrigðiskerfi hér, en svo virðist sem hik komi á ráðamenn. Þeir tala um að í rauninni séu engin lög sem banni þetta. Þá spyr maður sig, er blessaður heilbrigðisráðherrann svo aumur að hann geti ekki lagt fram frumvarp á þinginu í ágúst til að stöðva þetta eða þá setja einhver tæknileg skilyrði sem útiloki málið, td að téður spítali verið ekki reistur á svæði innan 250 km radíus frá Landspítalanum og í öðru lagi að hann taki við öllum sjúkratryggðum íslendingum samkvæmt þeim töxtum sem Sjúkratryggingar Íslands setja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2016 | 16:05
Reykjavíkurheilkennið.
Einn þeirra þingmanna sem er að yfirgefa, því miður, hið sökkvandi skip Samfylkingarinnar er Kristján Möller frá Siglufirði. Mjög hæfur þingmaður og ráðherra. Enn því miður hefur svolítið borið á því hjá honum sem hrjáir alltof marga landsbyggðarþingmenn. Það er nokkuð sem við getum kallað Reykjavíkurheilkenni. Svo virðist sem Kristjáni sé meira í mun að styrkja Landspítalann í Reykjavík en sjúkrahúsið í eigin kjördæmi svo og ýmis samtök fyrir sunnan, á borð við t.d SÁÁ. Og nú síðast hefur hann sagt að skynsamlegt sé að kjósa í febrúar en ekki október. Svo virðist sem hann hafi þarna algjörlega gleymt þeim aðstæðum sem geta skapast á landsbyggðinni um hávetur. Þá hefur nú Steingrímur J. frekar rétt fyrir sér. Vel er hægt að vinna grunnvinnu fjárlaga í sumar og gera þær pólitísku breytingar sem nýr þingmeirihluti vill gera fyrir jól ef að kosið er t.d 15. eða 22. október, helst ekki seinna. En þeir eru fleiri sem þetta heilkenni þjaka, t.d heyrðist ekki múkk um staðsetningu millidómsþingsins, það ber ekki vott um frumlega hugsun að staðsetja það í Reykjavík af öllum stöðum. Það er eins og þingmenn séu allir orðnir heimóttarlegir reykvíkingar sem allt vilja hafa í göngufæri við sjálfan sig og kaffihúsin í 101.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2016 | 15:52
Bastarður.
Á laugardaginn gengur fólk að kjörborðinu til að velja lýðveldinu nýjan forseta. Margir eru kallaðir en aðeins einn útvalinn. En ef maður hefur fylgst með kosningabaráttunni hefur það eiginlega komið í ljós hvílíkur bastarður forsetaembættið okkar er í raun. Þetta á sér augljósa sögulega skýringu. Í nefnd þeirri sem samdi lýðveldisstjórnarskána 1944 var auðvitað enginn stjórnmálafræðingur og enginn stjórnmálaheimspekingur þar sem þessar greinar voru líklega ekki til sem sjálfstæðar vísindagreinar þá. Menn bjuggu til þess vegna einhverskonar þjóðkjörinn kóng af danskri fyrirmynd en þar sem hann var þjóðkjörinn var bætt við ákvæðinu fræga í 26.greininni. En auðvitað kemur í ljós nú í dag að það gengur ekki að vera með einhvern þjóðkjörinn kóng. Maður myndi ætla að Sturla Jónsson hafi ekki hundsvit á kjórnskipaninni þegar hann segir að við séum með forsetaræði eins og í Frakklandi eða Bandaríkjunum. En þegar betur er að gáð er þetta e.t.v ekki alveg út í bláinn. Menn héldu að 26.greinin væri dauður bókstafur árið 2004 en svo reyndist ekki og því skyldi þá ekki vera hægt að virkja aðrar greinar, t.d getur maður ekki séð að hægt sé að mæla á móti því að forseti geti neitað að staðfesta skipaninn í embætti t.d hæstaréttardómara ef honum þykir sú skipan lykta af pólitík og valdagráðugur forseti gæti ugglaust, ef hann fengi þjóðina með sér, allt að því orðið einræðisherra, með því kerfisbundið að hunsa vilja þingsins. Þannig að hér gæti komið upp kreppa eins og stundum hefur gerst bæði í Frakklandi og Bandaríkjunum. Því er augljóst að brýn þörf er á því að skilgreina völd forseta þjóðar og þings í nýrri og endurbættri stjórnarskrá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2016 | 15:52
Skýjaborg Ástþórs.
Ástþór Magnússon er maður þolinmóður eða öllu heldur þrár svo oft sem hann er búinn að reyna að verða forseti, til þess eins og hann segir að virkja Bessastaði. Aðal kosningaloforð hans að þessu sinni er sennilega eitt það stórkarlalegasta sem um getur á Íslandi. Að bjóða Ísland undir aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna sem reistar verði í hinu forljóta hrauni milli Hafnafjarðar og Keflavíkur, en þetta eitthvað það ljótasta landslag á Íslandi er jafnframt eitt það fyrsta sem útlendingar sjá af landinu. Upp á þetta landslag ætlar nú Ástþór að fríkka með byggingum miklum sem að hýsa eiga starfsemi Sameinuðu þjóðanna. En skýjaborgir Ástþórs hafa ýmsar afleiðingar sem hann hefur e.t.v ekki hugsað út í. Viðbúið er að þenslan sem þessar framkvæmdir myndu skapa yrði til þess að landauðn yrði víðast hvar á þessu stóra landi. Ekkert byggðarlag gæti keppt við launaskriðið auk þess sem auðvitað yrði flutt inn þrælavinnuafl frá þróunarlöndum meðan á byggingunni stæði. Þarna myndu skapast svo mörg hálaunastörf að ekkert atvinnulíf þyldi samkeppnina og við yrðum jafnvel að flytja inn gífurlegan fjölda sérfræðinga af ýmsu tagi, þannig að afleyðingarnar fyrir íslenska tungu og þjóðerni yrðu ófyrirséðar, jafnvel gæti svo farið að íslenska þjóðin yrði að einhverri örfátækri undirstétt sem þjónaði öllu fína fólkinu frá útlandinu, talandi einhverskonar lágstéttarmállýsku mitt á milli íslensku og ensku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)