Orðagjálfur

Var að kíkja á þetta plagg sem kallað er Stefnumótun Ríkisútvarpsins til ársins 2021.  Mikið orðagjálfur en miklu minna um raunverulega stefnumótun.  Jú það er talað eitthvað um stafræna byltingu, krakkarúv, unglingarúv og Guð má vita hvaða rúv fleiri.  En ekkert um raunverulegar umbætur eða úrbætur.  Hér er bara á ferðinni gamla góða stjórnsýsluútvarpið, útvarp Reykjavík aðeins búið að skipta um föt, nýja vínið súrnar án efa fljótt á gömlu belgjunum.  Menn keppa áfram á sama harða auglýsingamarkaði höfuðborgarsvæðisins og halda meira að segja uppi heilu svæðisútvarpi reykjavíkur sem kallað er Rás 2, og rás 1 sem kallar sjálfan sig útvarp Reykjavík auðvitað er sennilega eina útvarpsstöðin í heiminum þar sem látnir menn annast dagskrárgerð.  Maður hafði alltaf mikla trú á Magnúsi Geir þegar hann tok við útvarpsstjórastöðu, hann hefur gert góða hluti m.a hér á Akureyri en þennan akureyrska vinkil sér ekkert í dagskrá ríkisútvarpsins í dag.  Hér verða menn að fara að snúa við blaðinu, breyta áferð og útliti ríkisútvarpsins, breyta því úr stjórnmálavæddu stjórnsýsluútvarpi í nokkra lifandi óháða og mannlega frjálsa fjölmiðla, útvarpsþjónustu fyrir fólkið í öllu landinu....íslenska útvarpsþjónustu.


Tóm steypa

Ef gefa ætti fjármálaáætlun okkar ágætu hægri stjórnar eitthvað nafn þá er það líklega Tóm steypa. Og það raunar í afar bókstaflegri merkingu þar sem mikið er af steinsteypu í þessari áætlun en minna til nauðsynlegs rekstrar og innviða uppbyggingar. Menn hreykja sér þannig að mikið verði aukið fé heilbrigðismála en þegar til kastanna kemur þá fer mest af þeirri aukningu í byggja 80 milljarða sjúkrakassann við hringbraut. Á meðan sveltur allt heilbrigðiskerfið, þar með talinn Landspítalinn, vegna fjárskorts. Sama má segja um aukninguna til háskastigsins mest af þeirri aukningu fer í að reisa svo kallað hús Íslenskra fræða. Á meðan drabbast allt annað háskólastarf og rannsóknir niður. Framhaldsskólarnir fá svo ekki neitt af þeim peningum sem sparast við styttingu náms til stúdentsprófs, eitt af gæða verkefnum hans Illuga. Menn tala um þenslu en ekki minkar það þensluna ef það á að fara flytja inn svo og svo mikið af lálauna vinnuafli frá Póllandi eða annars staðar til að byggja alla stein steypuna fyrir utan allt húsnæðið sem búið er að taka undir airBnB í miðborg Reykjavíkur. Lýðurinn skal halla sig upp í Úlfarsárdal.


Nútíma Nóa-flóð

Hún hefur sennilega ekki vakið mikla athygli fyrsta sýningin í sjónvarpi allra landsmanna fyrir nokkrum dögum. Þar var verið að fjalla um þann möguleika að stór hluti höfuðborgarsvæðisins kunni að verða undir vatni eftir um 100ár. 100 ár jú menn segja að við lifum þangað til en 100 ár eru varla sekónta í veraldarsögunni.Biblían segir okkur söguna af Nóa gamla sem bjargaði heiminum með því að setja í örkina sýnishorn allra skepna jarðarinnar áður en steypi regnið sem Guð sendi í refsibngar skyni helltist yfir. Forsjáll maður Nói gamli enda launa Guð honum þetta með lífgjöf. Á þessari sögu getum við ýmislegt lært. Menn segja að 100 ár séu ekki á morgunn en á sama tíma eru menn í óða önn að byggja þarna dýr og fín mannvirki sem eiga sjálfsagt að standa um ókomna tíð. Eins og veröldin hennar Vigdísar, Harpa og fleira gott og menn ætla að byggja meira. Nói gamli hefði hann lifað nú hefði líklega reynt að verja einhverjum af þeim peningum sem fara í alla steypuna í að rannsaka og finna út hvernig best væri að ráðast gegn þessum náttúru hamförum. Líklega er þörf svo mikilla breytinga og einviðar uppbyggingar að okkur veitir ekki af einni öld til að framkvæma þær án þess að allt fari í þennslu og vitleysu. En ef til vill munum við bara halda áfram íhinum íslenska oflátúmshætti byggja eitt stykki Landspítala, eitt stykki þjóðar leikvang, eitt stikk innanlandsflugvöll sem þess vegna gæti allt saman lennt undir vatni.


Vetur á Sýrlandi

Hér á árum áður sendu Stuðmenn frá sér nafntogaða plötu sem bar nafnið Sumar á Sýrlandi. Tvennum sögum fer að því við hvaða sýrland er átt í verki þessu en hvað sem því líður þá hefur einskonar vetur ríkt á Sýrlandi nú síðast liðin 6ár eða svo. Óteljandi hópar uppreisnarmann vilja koma Assad Sýrlands forseta frá völdum en hann hangir enn við völd þökk sé Putin. Og Íslamska leikur lausum hala um allanheim. Nýjasta uppátæki þeirra er að stela vörubílum og keyra niður fólk. Þetta aðhafast þeir á meðan þeir eru ekki að sprengja kirkjur og kynna vestrænar stúlkur til kynlífsþrælkunar í nafni þessa Guðs sem þeir kalla Allah og á víst að vera voða mikill en líklega er sú mynd sem þeir draga af þessum Guði sínum dálítið menguð. En við megum samt ekki fordæma áhangendur Guðs þessa þó svo ýmsir fremja óhæfu verk í hans nafni í Svíþjóð og víðar. Kristnir menn hafa líka framið alvarlega glæpi og einhvers staðar hefur maður heyrt að fleiri hafi látið lífið í nafni Jesú Kristheldur en þeir allri sem nasistar myrtu í síðari heimsstyrjöld. En mestan greiði geri nú þessir múslímsku ofstækismönnum spjátrungurinn Tromp með því að fara sprengja á Sýrlandi ef til vill fá þeir einhverja óvænta samúð út á þetta heimskulega athæfi hans.


Gatið dýra

Gatið í gegnum Vaðlaheiði er að verða nokkuð dýrt. Þetta mun víst ekki vera eins dæmi þegar að um opinbera framkvæmdir er að ræða, svo virðist sem það sé regla frekar en undantekning að opinberar framkvæmdir fari hressilega fram úr kostnaðar áætlun. Vaðaheiðargöngin eru þó að nokkru leyti dálítið öðruvísi en margar aðrar svona framkvæmdir. Þarna virðist að verulegu leiti vera um að kenna aðstæður sem ekki voru fyrir séðar. Heitt og kalt vatn tók að renna þarna í stríðum straumum þannig að á tímabili sigldu menn víst um göngin. Vissulega kann eitthvað að hafa skort á rannsóknir áður en hafist var handa með þessa framkvæmd en ekki er þó eingöngu hægt að skella skuldinni á mannleg mistök eða viljaverk. 

Öðru máli gegnir um ýmsar aðrar framkvæmdir til að mynda Hörpu sem átti að kosta 4-5 milljarða en endaði í 27 milljörðum. Mikið til vegna afglapa eða gríðarlegu bruðli og eyðslu verktaka. Vel þekktra fjárglæfra manna sem hleypt var að þessari framkvæmd og höguðu sér líkt og kýr sem hleypt er út á vorin. Afleiðingin er sú að þjóðin verður að borga fyrir milljarða á ári í ríflega 20ár fyrir þetta fyrirbrigði þar sem skalla poppar heimsins troða reglulega uppi misjafnlega raddlausir orðnir. Og nú eru enn meiri framkvæmdi í vændum hvað með nýja landspítalann t.d. hann á víst að kosta um 80 milljarða en vísast er að hann endi í 180 ef ekki meira, en þjóðin hún skal gjöra svo vel að borga.


Þversagnir.

Segja má að lýðveldi Íslands sé ein allsherjar þversögn. Við erum sögð þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi en eigum samt líklega heimsmet í hverskyns barlómi.  Við tölum um að gengið sé of hátt skráð og að þjóðin hafi það of gott, en svo þegar gengið lækkar fara allir að kveina og kvarta undan verðbólgunni því auðvitað fjölgar ekki krónunum í launaumslaginu þó að þær lækki í verði.  Þetta hugsar fólk ekki útí.  Við höldum áfram rússibanareið okkar þó allir vilji ná fram stöðugleika.  Auðvitað allir nema ég.  Meðan ég græði á óstöðugleikanum þá má óstöðugleikinn vera fyrir mér.  Við kvörtum yfir of mörgum ferðamönnum en viljum samt ekki að þeim fækki og förum að grenja þegar á að skattleggja ferðaþjónustuna eins og aðrar atvinnugreinar.  Það er talað um hin og þessi vandamál, hvað þau eru að sliga þjóðina en auðvitað er ekkert hugað að orsökum. Það dugir ekki að lækna krabbamein með því að gefa verkjalyf við magaverkjum, þau deyfa magaverkinn en taka ekki burt krabbameinið.  Í dag erum við á toppi rússibanans en dýfan bíður hugsanlega eftir sveitastjórnakosningar 2019.


Flóttamenn.

Þú skrúfar varla frá fjölmiðli án þess að verið sé að ræða húsnæðisvandamál höfuðborgarsvæðisins og þess virðist vandlega gætt að minnast ekki á húsnæðisvanda á öðrum stöðum eða ræða hina dýpri orsakir þessa téða vandamáls.  Þeir koma í röðum borgarstjóri, aðrir sveitastjórnamenn á svæðinu og aðrir frá ríkinu.  Allir tala um sjúkdómseinkennið en ekki sjúkdóminn sjálfan.  Einn þáttur þessa vandamáls er aldrei ræddur.  Það eru þeir sem kalla mætti efnahagslega flóttamenn sem í talsverðu mæli eru farnir að yfirgefa höfuðborgarsvæðið eða veigra sér við að flytja þangað.  Þessa gætir nú í einhverju mæli hér á Akureyri, auðvitað með tilheyrandi hækkun fasteignaverðs og fjárfestingum á jafnvel heilu blokkunum hérna.  Eitthvað er um beinan aðflutning fólks frá höfuðborgarsvæðinu og einnig mun vera töluvert um það að ungt fólk veigri sér við að fara suður vegna kostnaðar og verði hér áfram um kyrrt eða jafnvel leiti til útlanda.  Því miður virðist bæjarstjórn ekki mikið huga að þessu vandamáli, t.d með auknu framboði á litlum íbúðum fyrir ungt fólk og mikið óttalega finnst manni þetta aðalskipulag sem kynnt var á dögunum metnaðarlítið.  Að gera ekki ráð fyrir að íbúum fjölgi nema í 21.000 fyrr en 2030.  Ef vel ætti að vera þyrftu íbúarnir þá að vera komnir yfir 30-35.000 og óttalega finnst manni það hallærislegt að þeir geti ekki fundið annað byggingaland heldur en Kotárborgirnar þar sem kvað vera útivistarsvæði og verðmætar náttúruminjar.  Mun nær væri auðvitað að reyna að innlima Hörgárbyggð sem auðvitað er miklu viturlegra en það að innlima á sínum tíma Hrísey og Grímsey, eða að byggja þá áfram í suður í átt að Hrafnagili en þá kæmum við að því vandamáli að flugvöllurinn yrði innan byggðar.  Við megum ekki efna í norðlenska Vatnsmýrardeilu.


Flugvallasápa.

Enn heldur þessi sápa um Reykjavíkurflugvöll áfram.  Jón Gunnarsson, einn af nýju ráðherrunum vill hvergi hafa flugvöllinn nema í Reykjavík, en Bjarta framtíðin í borgarstjórn vill hann burt sem fyrst, og ekki seinna en 1924.  En þeir segjast þó vilja finna lausn.  Lausnin virðist vera sú að 20-30 milljarðar verði lagðir í að byggja nýjan flugvöll í 12 mín akstursfjarlægð frá risaflugvellinum í Keflavík, sem enn er verið að stækka.  Auðvitað veit hvert mannsbarn að innanlandsflugið hlýtur að flytjast til Keflavíkur innan 20 ára, enda innanlandsflug þá að líkindum að mestu leyti úrelt, nema sem tengiflug við millilandaflug og auk þess mun mikið draga úr flugi yfirhöfuð af umhverfisástæðum.  Af sömu ástæðum hljóta að verða settir miklir peningar í að rafvæða bílaflotann og stytta vegalengdir.  Auk þess sem byggðastefna framtíðarinnar hlýtur að ganga út á að byggðirnar verði sjálfbærar af miklu leyti og þurfi lítið að sækja til Reykjavíkur og þá helst með rafrænum hætti.  Maður spyr sig jafnvel hvort stóri dýri Landspítalinn sé tímaskekkja og ekki beri að leggja frekar áherslu á, 2-3 góð bráðasjúkrahús á landinu ásamt fyrsta flokks endurhæfingaraðstöðu en að flestar sérhæfðustu aðgerðirnar verði að sækja til útlanda og tryggja þá bestu mögulegu aðstöðu fyrir íslenska sjúklinga.


Endurtekning sögunnar.

Einhverntímann sagði einhver að sagan endurtæki sig.  Fyrst sem harmleikur, síðan sem skopleikur.  Líklega má að nokkru leyti segja að uppákoman um síðustu helgi sanni þetta að nokkru leyti. Vissulega var leiðtogafundurinn í Höfða fyrir rúmum 30 árum ekki beinlínis harmleikur, en þetta um síðustu helgi þegar orðrómur komst á kreik um meintan fund Trumps og Pútíns í Reykjavík virðist manni vera hálf skoplegur hlutur.  Breskt stórblað sló þessu upp í forsíðufrétt en menn Trumps báru þetta til baka en svo var aftur á móti farið að tala um að einhverjir starfsmenn Pútíns hefðu verið að fjalla um þetta, og nýji utanríkisráðherrann okkar sleikti útum.  Það væri sjálfsagt að greiða fyrir slíkum fundi.  En sennilega eru ekki allir jafn hressir.  Í margra augum yrði slíkur fundur sennilega fyrst og fremst haldinn til að þeir félagar gætu skoðað hvernig skipta mætti heiminum.  Minningin um fund Hitlers og Stalins á sínum tíma vakna óneitanlega upp.  Ekki er enn þegar þetta er ritað, búið að kveða orðróminn alveg fullkomlega niður en vonandi verður nýji utanríkisráðherrann okkar fyrir vonbrigðum.  Ísland má aldrei verða vettvangur fundar þar sem tveir hálfklikkaðir stórkarlar skipta með sér heiminum.


Fúlastjórn.

Þá erum við komin með nýja ríkisstjórn sem loksins leit dagsins ljós eftir miklar og erfiðar fæðingarhríðir.  Ekki hefur hún ennþá fengið neitt nafn en eitt nafn dettur manni strax í hug, nafnið Fúlastjórn.  Það virðist nefnilega svo sem allir séu meira og minna fúlir út í þessa stjórn, jafnvel þeir sem að henni standa og gagnrýna ráðherraval hennar og stefnu sem einkum virðist ganga út á það eitt að vera sammála um að vera ósammála, setja bara ágreiningsmálin í nefnd þar sem þau sofa vært framundir lok kjörtímabilsins og menn eru ekkert að fela ágreininginn t.d út af Reykjavíkurflugvelli og einnig er ömurlegt að heyra hvernig Viðreisn lúffaði í evrópumálunum, en reynir að halda andlitinu með því að vera í smá fýlu út í Sjálfstæðisflokkinn, en þar eru menn svo í fýlu, eins og fyrrum útvarpsstjóri sem ekki fékk ráðherrastól í kjördæmið sitt, vitanlega handa sjálfum sér, hann ætlar sér ef til vill að fara með suðurkjördæmi eins og hann gerði með landsbyggðina þegar hann var útvarpsstjóri og fann þá einu sparnaðarleið að leggja af svæðisstöðvarnar.  Hvað Bjarta framtíð varðar þá sýnist manni nú sem þar sé um einhverskonar öfugmæli að ræða, sennilega mun hún þurrkast út og þá mun Samfylkingarfólkið sem þangað fór líkast til aftur snúa heim. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband