Bronslitur og þjóðremba

Í útvarpinu er nú farið að hljóma lag sem mig minnir að heiti "við gefumst ekki upp". Texti þessa lags er í anda laga sem áður hafa komið fram t.d. lags með svipuðu nafni sem minnir að Erlingur Ágústsson hafi sungið að ógleymdu lagi Hauks Morthens "í landhelginni". Textar þessara laga eiga það sameiginlegt að í þeim er allt að því ýkt þjóðremba svo næstum verður að gríni. Þetta er í rauninni helsta einkenni íslenskrar þjóðrembu. Þegar silfur var gulli betra eftir Ólympíuleikanna sælla minningar, nenntum reyndar varla að spila úrslitaleikinn og svo unnum við líka Eurovision með því að vera í öðru sæti og núna er það bronsið. Þjóðin er búin að borða yfir sig af handbolta síðustu vikurnar og þegar bronsdrengjunum var fagnað dugði að sjálfsögðu ekkert minna en laugardagstörnin og Stuðmenn og ekki var látið nægja að fara með þá í rútu frá Keflavík, heil þota flutti þá þennan spöl til Reykjavíkur, maður spyr sig hvað það ævintýri útaf fyrir sig kostaði. Það hefur líklega tekið lengri tíma að ræsa þotuna heldur en að aka í bíl þennan stutta spöl en þarna er glöggt dæmi um misskoplega íslenska þjóðrembu. Okkur þykir gott silfur betra en gullið, með sömu röksemdarfærslu hlýtur bronsið að vera enn betra! Það er því óþarfi að vera að leggja milljónir í það að reyna að ná í gull í Svíþjóð á næsta ári og sennilega ætti Ríkisútvarpið að hætta að vera með í Eurovision í stað þess að leggja fréttastofuna í rúst.

Leyndóið hennar Katrínar

Þau hafa verið nokkuð mörg leyndarmálin hjá ríkisstjórninni nú síðustu vikurnar. Stundum dúkka upp einhverjar skýrslur sem þola dagsins ljós, stundum eru haldnir fundir sem ekki má fréttast af og stundum hleypur Jóhanna til útlanda án þess að nokkuð megi vitnast um það. Af enn einu leyndóinu hefur nýlega frést úr menntamálaráðuneytinu. Ákveðið hefur verið að eftirleiðist verði nemendur að greiða sjálfir 30% skólagjalda við háskóla sem Lín hefur hingað til lánað fyrir. Einhverstaðar segir að sönnu að tilgangur Lín sé að jafna stöðu fólks til náms en ekki getur þessi ráðstöfun beinlínis talist gerð í þeim tilgangi. Fyrirsjáanlegt er að margt efnalítið fólk verður að hverfa frá námi við virta góða háskóla og listaskóla t.d. í Bandaríkjunum þar sem skólagjöldin nema stundum einhverjum milljónum á önn. Svo virðist sem nú eigi að fara að rústa menntun á sama tíma og menn tala frjálslega um fjárfestingu í menntamálum! Því miður virðast blessaðir vinstri grænir ekki alltaf alveg fylgja eigin stefnu. Maður spyr sig t.d. hvers vegna verið er að ausa milljónum af skattfé almennings í þá hrikalegu prump fjárfestingu sem hinn svokallaði Háskóli í Reykjavík er. Einhvertímann var víst á stefnuskrá VG að ríkið hætti að styrkja einkaháskóla þarna eys það fé í offjárfestingarbyggingu sem er í göngufæri við annan fjársveltan skóla. Á meðan þetta gerist verður fjöldi efnalítilla íslenskra ungmenna að hverfa frá námi við góða erlenda háskóla. Vinstri Grænir eru að sjá til þess eins og í mörgu öðru að horfið verði til þeirra gömlu góðu tíma þegar skólaganga var forréttindi afkomenda fína fólksins!


Blessuð sjálfsbjargarviðleitnin

Kreppan okkar tekur á sig ýmsar myndir eins og í raun allar kreppur gera.  Einhvernvegin læra nöktu konurnar allt í einu að spinna, gömul og góð vinnubrögð lifna við og gamlir klækir eru í hávegum hafðir. Hér þurfum við ekki að minnast á þjóðaríþróttir á borð við skattsvik eða svarta vinnu. Heldur birtist sjálfsbjargarviðleitnin í mörgum nýjum óvæntum myndum. Sagt er að samdráttur í sölu lambakjöts sé 13% en landbúnaðarforustan lokar augunum fyrir því að lambakjöt er selt löglega jafnt sem ólöglega beint frá býli. Kjötiðnaðarmenn hafa margir mikla aukavinnu á haustin sem vitanlega kemur aldrei fram. Tölur sýna að áfengissala hefur dregist saman og allt forvarnarbatteríið hrósar í kór hinu nýju verðstefnu en blessaðir forvarnarsnillingarnir átta sig ekki á því að landinn rennur í stríðum straumum um göturnar sem aldrei fyrr og enn er í farvatninu að efla þessa heimaframleiðslu með frekari hækkun áfengisgjalds. Bruggarar þessa lands hljóta að fylgja sér um ríkisstjórn sem svo mjög gætir hagsmuna þeirra en vera kann að síðar fari að renna tvær grímur á forvarnarliðið þegar það kemst að því að ungviðið þambar landa eftirlitslaust um borg og bý. Lifi verðstefnan!

Blásið til útþynningar

Í gær þriðjudaginn 24.nóvember sameinuðust svæðisútvörpin á norður og austurlandi og var til þeirrar útþynningar blásið með miklum bæslagangi nokkrum dögum fyrr. Talað var um hið nýja öfluga svæðisútvarp með heilum 5 fréttamönnum. Menn gleymdu því bara að fréttamennirnir voru jafnmargir áður bara í tveim stöðvum en nú verða þeir formlega á einni stöð. Þarna er auðvitað um útþynningu að ræða vegna þess að umfjöllunin um málefni hlýtur alltaf að verða yfirborðskenndari eftir því sem útsendingarsvæðið stækkar. Svæðisútvörpin voru upphaflega sett á laggirnar til að annast staðbundna fjölmiðlun þar sem með réttu var álitið að Ríkisútvarpið væri mjög svo Reykjavíkurmiðað. Enda kallaði það sig útvarp Reykjavík og gerir svo enn. Það gefur auga leið að hin staðbundna fjölmiðlun verður ekki staðbundnari með því að stækka útsendingarsvæðið. Manni grunar að þetta sé ef til vill fyrsta skrefið í þá átt að leggja svæðisútvörpin niður eins og reynt var í fyrra. Næst verði allar stöðvarnar sameinaðar í eina og hún svo sameinuð þeirri fyrir sunnan. Þetta er sama stefna og í ýmsum öðrum málum, þannig á t.d. að gera landið að einu skattumdæmi, stofna einn héraðsdóm fyrir allt landið og jafnvel síðan einn lögreglustjóra. Vitanlega verður enginn sparnaður af þessu en nú verður bara hægt að stjórna öllu landinu alveg frá einum litlum bletti í miðborg Reykjavíkur. 

Tíðindalaust á þingvígstöðvunum

Ein frægasta stríðsmynd sem gerð hefur verið heitir Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum. Mynd þessi fjallar um hið tíðindalausa líf í skotgröfum vesturvígstöðvanna í fyrri heimstyrjöldinni. Mynd þessi er mjög sterk stríðsádeila sem lýsir tilgangslausum drápum í skotgröfunum þar sem þó aldrei gerðist neitt. Að sumu leyti má líkja Alþingi Íslendinga þessa dagana við það ástand sem þarna er sýnt. Meðan þjóðin siglir hraðbyri að tæknilegu gjaldþroti sitja þingmennirnir í skotgröfum og stjórnar og stjórnarandstöðu þar sem karpa um hina og þessa, oft á tíðum ómerkilega hluti. Þeir rísa upp við dögg, rétt svona ef að minnst er á að eyðileggja dómstóla, lögregluembætti og heilbrigðiskerfi vítt og breitt um landið. En vitleysan er alltaf eins, stjórn gegn stjórnarandstöðu og engin málefnaleg umræða. Maður spyr sig t.d. hvernig hægt er að eyðileggja héraðsdóm á Akureyri. Nema núna sé verið að fá ádillu til að koma Þorsteini Davíðssyni þegjandi og hljóðalaust aftur í hlýjuna fyrir sunnan. Icesave sefur í nefnd meðan Mogginn flytur orðið ekkert nema dánartilkynningar enda búinn að missa meira en fjórðung áskrifanda sinna. 

"Þetta reddast" hagkerfið

Þegar þetta er skrifað sitja þeir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sennilega með sveittan skallann við að reyna að ákveða hvort óhætt sé að veita þessari furðulegu þjóð Íslendingum efnahagsaðstoð. Margt hefur verið rætt og ritað um þennan alþjóða gjaldeyrissjóð og mörgum hér á landi þykir nærvera hans lítt áhugaverð. Því er nefnilega þannig varið að ferill þessa sjóðs er ekkert alltof glæsilegur, víða í þriðja heiminum skilur hann eftir sig sviðna jörð. Sums staðar hefur heilbrigðiskerfi verið rústað, sums staðar var vatn einkavætt og á einum stað var eitt af skilyrðum fyrir lánum frá sjóðnum það að brauðverð til almennings yrði stórhækkað. Hagfræðingar þessa ágæta sjóðs eru vel lesnir í fræðum Milton Freedmans og annarra forvegismanna frjálshyggjunnar og einkavæðing er töfraorð. En þó að þessir hagfræðingar virðast ekki þekkja neina hagfræði fyrir utan frjálshyggjuna verður að segjast eins og er að sú hagfræði sem stunduð hefur verið á Íslandi hlýtur að vera eitthvað sem þeir hafa aldrei séð á ævinni. Hér var að sönnu gerð tilraun með þvílíka frjálshyggju að hvergi hefur annað eins sést. En í ofan á lagt kom þessi sérstaka kenning okkar Íslendinga sem kalla má "þetta reddast" og "þetta reddast" var gerð tilraun með á gróðaeyristímanum. Menn tóku lán hjá sjálfum sér til að kaupa sjálfan sig með veði í sjálfum sér og þarna urðu til peningar sem beinlínis uxu á trjánum samanber kenningu sem gott ef Pétur Blöndal setti ekki einhvern tímann fram. Með peningum þessum voru byggð býsnin öll af steinsteypu og inn í hana troðið alls konar glingri og undir píanóleik Elton John runnu jepparnir og flatskjáirnir út úr búðunum og heimurinn stóð á öndinni. Var það virkilega rétt að peningar gætu orðið svona auðveldlega til? En allar blöðrur geta þanist of mikið út og þær springa með miklum hvelli. Forsætisráðherra biður Guð að bless Ísland og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veit ekkert hvað hann á að gera við þetta lið. 


Kerfiskerlingin Ragna

Málefni flóttamanna hafa nokkuð verið til umræðu að undanförnu. Fyrir nokkrum dögum var fjórum flóttamönnum sem verið höfðu hér á landi í einhvern tíma snúið aftur til Grikklands en til þess lands komu þeir fyrst inn á Schengen svæðinu. Þrír þessara flóttamanna voru gripnir glóðvolgir að sögn næstum því í rúminu og þeim pantað inn í flugvél áleiðis til Grikklands en sá fjórði komst undan og faldi sig í Reykjavík þangað til brottvísun hans varð frestað að beiðni evrópskra mannréttindanefndar. Lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að þetta hefði ekki verið nein geðþótta ákvörðun hjá henni hún hefði bara verið að fylgja lögum. Gott og vel, við eigum þá löghlýðin dómsmálaráðherra því hefur þó ekki alltaf verið að heilsa. Einhvernvegin finnst manni að dómsmálaráðherrar hafi verið mjög liðlegir í að teygja lögin og sveigja ef það hefur verið í þágu ættmenna eða flokksgæðinga t.d. Samanber mannaráðningar Björns Bjarnasonar. Að Ragna skuli vera kerfiskerling er í sjálfu sér ekkert undarlegt. Hún er komin í ráðherrastól úr starfsliði dómsmálaráðuneytisins sem að mestu er skipað einstrengingslegum bókstafstrúarmönnum, flestum afkomendum eldgamalla hálf danskra embættismannaættar. Fyrir þessu fólki eru lögin annað og meira en lög, þau eru lögmál. Hið kaldhæðnislega er að ráðuneytið hefur nú fengið nafnið dómsmála og mannréttindaráðuneyti. Ekki sýnist manni mannréttindi nú vera þarna í hávegum höfð nema ef vera skildi mannréttindi litháískra glæpaklíkna sem dunda sér við að kveikja í húsum, selja konur og dóp og lemja svo hvern annan. 

Bjartsýnn Forseti

Forsetinn okkar og útrásarvíkingurinn Ólafur Ragnar Grímsson var bjartsýnn í setningarræðu Alþingis. Hann benti á allt það sem okkar fallega land hefði upp á að bjóða þrátt fyrir það að á móti blési í bili. Sérstaka athygli vakti þegar hann gaf í skyn að ef til vill færi að birta til þegar líða tæki á næsta ár og þetta hefur maður reyndar heyrt áður. Sumir hafa talað um að kreppan muni standa í 2 ár. Hann benti réttilega á að kreppan hefði orðið mun alvarlegri í Reykjavík en annars staðar á landinu. En blessaður forsetinn áttaði sig ekki á því að það var aldrei kreppa víðar á landinu vegna þess að kreppan hefur alltaf verið til staðar.  Þannig að menn fundu engan mun. Munurinn verður auðvitað mestur á suðvestur horninu þar sem hagkerfið ofhitnaði og þúsundir rúmmetra af arðlausri steinsteypu voru framleidd í stað þess að skapa verðmæti. Steinsteypa þar sem búnir voru til peningar sem að ekki voru til. Þar sem Elton John spilaði undir borðum meðan yfirstéttin borðaði gullhúðað rissotto



Dabbi á Moggann

Upp úr rósrauðu minningarskýi unglingsáranna rís hann kastalinn Aðalstræti 6 virðulegur og ógnvekjandi. Kastala þessum náðu stórlaxar á borð við Matta Jó og Bjarna Ben og ungur og efnilegur strákur Markús Örn Antonsson nennti stundum ekki að fara í sendiferðir. Sjálfstæðisflokkurinn var kirkjan og kaninn var Guð. Herstöðvaandstæðingar löbbuðu frá Keflavík og Heimdellingar henti grjóti í rússneska sendiráðið eftir fundi við Miðbæjarskólann. En síðan er margt vatn til sjávar runnið. Mogginn yfirgaf kastalann og byggði fína höll í miðbæ sem aldrei varð miðbær og endaði loks í einhverri gríðar mikilli byggingu langt út í sveit. En nú er gamli góði mogginn aftur að hverfa til fortíðar. Einhverstaðar stendur skrifað að sagan endurtaki sig fyrst sem harmleikur og síðar sem skopleikur. Vissulega er það ákveðin endurtekning sögunnar að mogginn skuli nú aftur orðið flokksblað í raun og komið undir ritstjórn sjálfstæðismanns sem verður að teljast einhvers konar skopútgáfa af stórmennum eins og fyrrnefndum Matta Jó og Bjarna Ben. Fyrrum seðlabankastjóri og forsætisráðherra sem með sinni bláu hönd stýrði þjóðinni út í ástand sem ekki getur talist kreppa heldur hrun. Maðurinn sem lék á vaktaflautu sína fyrir hrunadansinum meðan Róm brann og lýsti upp nöturlega ásýnd svörtulofta. 

Ögmundur Farinn

Sprengja féll í hádegisfréttatímanum í gær. Hann Ögmundur heilbrigðisráðherrann okkar tilkynnti að hann hefði sagt af sér. Skýringu uppsagnarinnar kvað hann vera þá að hann hefði ekki sama skilning og aðrir ráðherrar á Icesave málinu. En virðist jafnvel hafa gert greinarmun á þessu Icesave máli og stjórnarsamstarfinu sem slíku. Aðrar ástæður geta einnig legið að baki eins og t.d. slæm samviska gagnvart félögum sínum í BSRB vegna þeirra launalækkunar og niðurskurðar sem hann hefur þurft að standa fyrir og svo dansar hann ekki með hinum í sambandi við ESB og stóriðjuna. Þó svo að Ögmundur sé maður einnkar þrár og ósveigjanlegur í mörgum málum er viss sjónarsviptir að honum í stjórninni og eiginlega þá verður maður að viðurkenna að hún er nokkru veikari eftir. Þó Ögmundur sé farinn er ekki þar með sagt að Icesave sé úr sögunni. Guðheiður Lilja og jafnvel fleiri eru enn dálítið ókyrrir þó enn lafi ríkisstjórnin. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband