Svart kjöt

Það er farið að hausta tíminn þegar rökkva tekur, uppskeran er borin í hús og féð kemur að fjalli. Lömbin albúin þess að bíða dauða síns og verða að indælu lambakjötinu okkar sem við svo mjög stærum okkur af. Undanfarin ár hefur nokkuð borið á því að bændur hafi slátrað heima og selt kjötið beint til neitenda án milliliða. Að sögn mun aldrei hafa verið jafn mikið um þetta og í haust. Hefur heyrst að góð vertíð sé nú hjá kjötiðnaðarmönnum við að handfjatla svart kjöt heima á hinum ýmsu bæjum. Auðvitað er það kreppan sem miklu ræður um þetta. Margir freistast til að ná í ódýrt kjöt með þessum hætti í stað þess að fara hinu dýru leið landbúnaðarkerfisins og sjálft á þetta landbúnaðarkerfi sök á þessari þróun. Þetta undarlega kerfi hefur þróast á þann veg að sauðfjárbændur eru skítblankir en neitendur kaupa kjöt á okurverði í búðum. Þróunin hefur líka valdið því að þetta er oft mun verri vara en áður. féð er flutt jafnvel hundruð kílómetra til slátrunar með þeim afleiðingum að kjötið verður stressað og ekki eins gott eins og af heimaslátruðu eða slátruðu nálægt búunum. Bændur hafa af ýmsum ástæðum hafnað Evrópusambandinu en sú spurning vaknar; hvort það kæmi sér ekki betur fyrir sauðfjárbændur að fá græna styrki Evrópusambandsins sem þeir gætu nýtt til að bæta aðstöðu til heimaslátrunar eða til að byggja lítil sláturhús sem gætu framleitt úrvalsvöru sem myndu sóma sér vel á fínustu sælkera borðum Evrópu.

Fjör á fangavöktum

Það virðist vera mikið fjör á fangavöktum þessa lands ef dæma má af þeirri miklu ásókn sem er í fangelsispláss þessa dagana. Sagt er að um 240 séu á biðlista sem taki allt að fjórum árum að stytta svo einhverju muni. Vel getur verið að mörgum útigangsmönnum hugnist vel að fá ókeypis fæði og húsnæði á vegum hins opinbera í nokkra mánuði en frekar held ég nú að almennt þyki fangelsi nú enginn skemmtistaður. Samt þarf að byggja þau en enginn gerir neitt í því. Menn eru uppteknir við að byggja tónlistarhallir, hótel eða knattspyrnuhús. Maður spyr sig í forundran hvers vegna nú á allt í einu að rjúka í að byggja nýjan landspítala þegar menn hafa ekki einu sinni peninga til að reka þann gamla. Af hverju er milljörðunum sem í hann eiga að fara ekki frekar varið í að byggja almennilegt fangelsi. Það er líka í Reykjavík svo ekki þurfa menn að metast út af því. Annar flötur á þessu máli er það hvort refsigleði sé stundum ekki fullmikil. Vel mætti létta á fangelsum með því að stytta eða gera jafnvel alveg refsilaus minniháttar afbrot á borð við búðarhnupl, kannabisræktun og landasölu. Hér skal líka sett fram ein hugmynd, ef til vill meira í gamni en alvöru: Af hverju ekki að taka upp útlegðardóma eins og tíðkaðist á söguöld. Dæma mátti menn til vistar á afskektum stöðum undir rafrænu eftirliti og banna komu þeirra til Reykjavíkur um eitthvert árabil. Fyrir marga unga afbrotamenn yrði þetta ekkert endilega mikið skárri refsing en fangelsi.

Óhreinu börnin

áður en lengra er haldið skal beðist velvirðingar á nokkuð sterki alhæfingu í pistli á dögunum. Þar sem því var haldið fram að aðgengi væri slæmt fyrir hreyfihamlaði á kaffihúsum á Akureyri. Á þessu eru undantekningar. Fyrir nokkrum dögum brá hugskotið sér á stað sem heitir Kaffi Jónson. Þar er aðgengi mjög gott bæði að staðnum og salernum og ekki spillir fyrir mjög lipur og mannleg þjónusta af hendi eigenda staðarins. Samt sem áður er víða pottur brotinn hvað þetta snertir, þó vissulega hafi orðið gífurlegar framfarir á síðustu árum. Segja má að allt fram á sjöunda áratuginn hafi verið litið á fatlaða eins og óhreinu börnin hennar Evu sem geymdir skildu á stofnunum, flestum í Reykjavík við alls kyns iðjudútl. Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað um gróf mannréttindabrot sem heyrnleysingjar máttu þola. Það var átakanlegt að sjá mann frá Akureyri sem rifinn hafði verið frá fjölskyldu sinni fjögurra ára gamall og sendur í heyrnleysingjaskólann í Reykjavík. Þótt þetta sé ef til vill grófasta dæmið þá voru brot framin á miklu fleiri börnum. Þau voru oft send kornung frá fjölskyldum sínum til hinna framandi Reykjavíkur sem að á þessum árum var ekkert annað en of vaxið sjávarþorp þar sem endalausar breiður af gráum húsum með rauðum þökum. Ekki voru það yfirvöld eða hið opinbera sem slíkt sem að þessu stóðu heldur alls kyns góðgerðarfélög sem venjulega voru með umboðsmenn á landsbyggðinni, presta eða kvenfélagskonur. Oft fluttu prestarnir stutt útvarpsávörp til að minna á merkjasölu þessarra félaga. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur þegar ályktað um þessi mál en einhverra hluta vegna hefur ekki heyrst orð frá bæjarstjórn Akureyrar. Manni finnst að bæjaryfirvöld á Akureyri ættu að taka sig til og kanna hvort og þá hversu mörg börn á Akureyri hafi orðið fórnarlömb mannréttindabrota af þessu tagi. 

Háskólar á tímamótum

Hún Katrín okkar menntamálaráðherra talar mikið um háskóla þessa dagana enda nýkomin út skýrsla starfshóps um háskólastigið sem byggð er á annarri skýrslu einhvers sérfræðingahóps en sá virðist ekki hafa kynnt sér sérlega vel staðhætti á Íslandi. Því hann lagði til að aðeins yrðu starfræktir tveir háskólar á landinu sem eru í göngufæri hvor við annan. Annars staðar átti að reka einhver lítil einskisnýt útibú svona rétt til að sýnast halda uppi byggðarstefnu. Svo er að sjá sem Katrín hafi ekki alveg kokgleypt þessari skýrslu en hefur samt talað um að efla þurfi samvinnu en þó svo fáránlegt sem það er einnig verkaskiptingu milli skólanna. Samvinna milli skóla er að sjálfsögðu ágæt svo langt sem hún nær en hún má þó aldrei verða til þess að skerða Akademískt sjálfstæði skólanna og aldrei vera notuð sem yfirskyn sameiningar, það er að segja innlimunar. Þessi hugmynd um miðstöð doktorsnám er svolítið varhugaverð þó hugmyndir ráðherra gangi ef til vill út á að miðstöðin starfi innan allra skólanna er hætt við samkvæmt íslenskri hefð að henni verði í hagræðingarskyni plantað á einn stað. Ekki þarf fjölyrða um það, hvar það verður. Eitt er það sem athygli veitir; vinstri flokkarnir og þá ekki síst vinstri grænir hafa mjög hampað því á stefnuskrá sinni að dragi verði úr eða ríkisstyrkur afnuminn til einkaháskóla sem innheimta skólagjöld. Nú er verið að draga verulega úr fjármögnun til háskóla sem er algjör andstaða þess sem kalla má góða fjárfestingu. Hefði nú ekki verið betra að spara með því að draga upp tillögurnar frá því í fyrra um afnám ríkisframlaga til einkaháskóla. Þjóðin hefur einfaldlega ekki efni á slíkum frjálshyggjulúxus. 

Fjarkað um auðlindir

Síðastliðinn sunnudag var á sjónvarpsstöðinni National Geographic athyglisverð heimildarmynd um jarðhita. Var þar nokkuð fjallað um Ísland og það meðal annars kallað ekki stórasta heldur grænasta land í heimi og þar vísað til þess hversu mjög við notum græna orku. Eina villan í þessari umfjöllun var sú að þeir sögðu Íslendinga ekki beisla hveragufu, þeim hefur sennilega ekki verið beint á Kröflu enda er hún ekki á Suð-Vesturhorninu. En einmitt á Suð-Vesturhorninu er nú verið að þjarka um jarðhitaauðlindir. Öllum er enn í fersku minni REI klúðrið sem kostaði minnisleysi og síðan brotthvarf borgarstjóra með eftirfylgjandi grundroða. Einn angi þessa máls teygir sig nú suður til hins svokallaða Reykjanesbæjar sem Rúnar heitinn Júl þoldi ekki. Árni Sigfússon bindispeyi og flokksfélagar hans hafa ákveðið að selja einhverjum kanadískum bröskurum hlut sinn í orkufyrirtæki og njóta til þess fulltingis flokksfélaga sinna í Reykjavík. Gangi þetta eftir mun það vísast skapa fordæmi Fleiri aðilar munu þiggja gott til glóðarinnar að ná sér í dýrmætan gjaldeyri með því að selja útlendingum aðgang að allri okkar grænu orku. Í stað þess að nýta þekkingu okkar og tækni til að hjálpa öðrum að gera hið sama og við erum við farin hægt og hægt farin að selja landið okkar að hætti útrásarvíkinga.

Sjötug styrjöld

Um þessar mundir eru liðin 70 ár frá upphafi síðari heimstyrjaldarinnar, sem hófst eins og kunnugt er með árás þjóðverja á Gdansk í Póllandi aðfaranótt 1.september 1939. Við Íslendingar tölum um síðari heimstyrjöldina en í flestum málum er talað um aðra heimstyrjöldina. Einhvernvegin þá finnst manni nú íslenska útgáfan öllu geðfelldari því maður vonar svo sannarlega að aldrei komi til þriðju heimstyrjaldarinnar, enda hætt við að hún yrði sú síðasta. Líklega yrðu ekki margir sagnfræðingar eftir til að skrifa um hana. Síðari heimstyrjöldin er að margra mati talin stærsti einstaki atburður mannkynsögunnar og hún hafði gífurleg áhrif sem jafnvel enn sér ekki fyrir endann á. Talið er að einhverjir milljóna tugir hafi látið lífið í þessum hildarleik og eyðileggingin var gríðarleg. Því er það dálítið kaldhæðnislegt að við Íslendingar skulum hafa grætt á tá og fingri á stríðinu. Þó deila megi um hvort sá gróði hafi orðið þjóðinni að öllu leiti til góðs. Ýmsir fylgifiskar fylgdu henni. Okkur var beinlínis sparkað beint inn í nútímann, landið komst í þjóðbraut eiginlega án þess að við vissum að því og hér varð mjög alvarleg byggðarröskun með tilheyrandi glundroða og spillingu. Menn sem auðguðust á hermangi komust í áhrifastöður í stjórnmálum og viðskiptum, áhrifum sem þeir síðan notuðu sér til að skipta með sér þjóðarkökunni. Ef til vill má færa því rök að það kerfi sem varð til upp úr stríðinu eigi einhvern þátt í hruninu núna, að minnsta kosti má leiða að því getum að þarna megi leita rótanna að okkar ágæta fjármálasiðferði.

Bankablús

Hér kemur smá bankablús: Ungur námsmaður þurfti að auka yfirdrátt sinn úr 60.000 í 70.000 kr. í fjóra daga til að kaupa skólabækur. Þjónustufulltrúinn sagði nei, ekki var gefin nein sérstök skýring á þessu svo viðkomandi bað um að fá að tala við útibústjórann en þess skal getið að banki sá er hér um ræðir var Kaupþing. Útibústjórinn stóð fastur við nei-ið og þegar honum var bent á að bankinn hefði eitt sinn veitt útlendingi 100 milljarða yfirdrátt svaraði hann skætingi í þá veru að bankanum kæmu fjármál námsmannsins ekkert við. Hvað námsmaðurinn á braut með þeim orðum að hann mundi leita að skilningsríkari og persónulegri banka, síminn hringdi reyndar eftir 10 mínútur og námsmanni tilkynnt að yfirdrátturinn væri kominn inn á reikninginn. Þetta litla dæmi er mjög lýsandi fyrir þá óbilgirni og þann þjösnaskap sem bankastofnanir eru farnar að sýna viðskiptavinum sínum. Það er t.d. stórvafasamt að fara í svokallaða greiðsluaðlögun því þá er komið fram við þig eins og þú værir gjaldþrota. Meðal annars er greiðslukorti þínu lokað þó það sé ekkert í vanskilum. Þá má nefna þetta gjörsamlega siðlausa einkafyrirtæki lánstraust ef þú ferð á skrá þar eru þér bókstaflega allar bjargir bannaðar, færð hvergi lán, greiðslukort né aðrar fyrirgreiðslur. Í rauninni er spurning hvort fyrirtæki þetta eigi rétt á sér gagnvart t.d. lögum um persónuvernd. Það verður að ætlast til þess af fjármálastofnunum að þær sjái sjálfar um að kanna fjárhag viðskipta vina sinna og hafi þar ekkert samráð um.

Langavitleysa

Þá hillir loksins undir loka afgreiðslu þessa Icesave máls. Lönguvitlausunnar sem búin er að tröllríða öllu þjóðfélaginu í sumar. Líklega eru þingmennirnir fyrir löngu hættir að vita nokkuð um það sem þeir eru að ræða um. Sumir halda því fram að verið sé að koma fram með nýjan samning en aðrir segja þann gamla ennþá í fullu gildi. Menn halda langar ræður yfir sjálfum sér. Þingsalurinn auður og sumir meira að segja svo kærulausir að þeir fara bara í golf og detta í það. Á meðan er þjóðarbúið auðvitað á kúpunni, verðbólgan æðir um dali og hnjúka. Sumir undirbúa greiðsluverkfall meðan aðrir flýja land. Nú er spurningin hvort ekki hefði verið betra að samþykkja samninginn strax eins og hann kom af skepnunni og koma hlutunum á hreyfingu í kjölfarið en freista þess síðar meðal annars með hjálp Evrópusambandsins og fleiri að ná fram nauðsynlegum leiðréttingum. Ólíklegt verður að telja að Evrópa hefði látið gamalgróið þróað lýðræðisríki fara í hundana útaf peningaupphæð sem engu máli skiptir fyrir þessi stóru lönd en skilur á milli lífs og dauða fyrir okkar litla þjóðfélag. 

Fullir Þingmenn

Síðastliðna viku hefur þjóðin staðið á öndinni eftir að einn af þingmönnum kjördæmisins okkar fékk sér ofurlítið neðan í því og mætti síðan á þingfund. Til að ræða það söguna endalausu, þetta Icesave mál. Nú er þetta víst ekki í fyrsta skipti sem þingmenn fá sér neðan í því áður en þeir stíga í ræðustól. Flestum er í fersku minni hin fræga bermúdaskál Davíðs Oddsonar. Einhverra hluta vegna hefur þetta atvik vakið meiri eftirtekt á hneykslum heldur en áður og það þótt mikið af þessari fáránlegu helgisslepju sem verið hefur í kringum áfengi sé nú horfið. Nú verður það að teljast nokkurt dómgreindarleysi hjá þingmanninum að fara á þingfund eftir að hafa smakkað áfengi rétt eins og það er dómgreindarleysi þegar menn setjast undir stýri eftir að hafa fengið sér sopa. Annað dómgreindarleysi þingmannsins þarna hefur þó ekki verið jafn mikið gagnrýnt, að hann skildi hafa þegið golf og dýrindis málsverð í boði bankastofnunar. Að þingmenn geri slíkt hlýtur að vekja ýmsar spurningar og einnig það hvers vegna viðkomandi bankastofnun er að bruðla með því að efna til svona samkundu. Spurningin er.. höfuð við enn ekkert lært? 

Aðgengislaust fyrir alla

Því er oft haldið fram að á Akureyri sé veitt besta þjónusta við fatlaða á landinu. Þetta má rétt vera að mörgu leiti t.d. hvað varðar búsetuúrræði, liðveislu og annað það sem að bæjarfélaginu snýr. En margt er það samt sem úr má bæta. Í öllum bænum er ekki eitt einasta kaffihús fyrir utan te og kaffi í eymundsson þar sem aðgengi er fyrir hjólastóla og klósettin á þessum stöðum eru yfirleitt annað hvort uppi á lofti eða niðri í kjallara. Í göngugötunni svokölluðu sem reyndar hefur ekki verið göngugata í manna minnum er ekki að finna eitt einasta bílastæli merkt fötluðum. Reyndar má segja að ef til vill sé það stundum til einskis að merkja þessi stæði fötluðum því þau ertu oft upptekin af heilbrigðu fólki og löggan auðvitað hvergi sjáanleg. Menn tala mikið um að færa þurfi upp alls konar kostnað vegna verðbólgu samanber fréttina í sjónvarpinu í gær um ódýru skólamáltíðina. Þetta ætti bæjarstjórn Akureyrar að athuga svolítið. Hreyfihamlaðir hafa um árabil fengið niðurgreiddan leigubílakostnað. Niðurgreiðsla þessi var á sínum tíma ákveðin 600 kr. Síðan eru liðin 15 ár og menn hafa allan þann tíma verið duglegir að uppfæra alls konar kostnað vegna verðbólgu þeirrar sem verið hefur en ekki þetta. Halda mætti að bæjaryfirvöld álíti að leigubílar kosti það sama nú og fyrir 15 árum. Því er hér vinsamlega beint til bæjaryfirvalda að þau kanni þetta hjá leigubílastöð bæjarins. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband