Færsluflokkur: Bloggar
9.5.2014 | 18:18
Pollarnir áfram.
Íslensk leikskólabörn kætast ákaflega þessa dagana.
Það sem fæsta óraði fyrir gerðist. Pollapönkið komst upp úr riðlinum og Felix Bergsson fékk næstum því áfall af undrun, og nú stíga Pollapönkararnir á sviðið í þessari afdönkuðu skipasmíðastöð sem búið er að breyta í tónleikahöll og fóru herlegheitin að sögn, 45 milljónir, ekki íslenskra platkróna, heldur danskra ekki platkróna, fram úr áætlun.
Það er urgur í mörgum dönum út af eyðslunni, ekki síst landsbyggðardönum sem þykja DR vera allt of Kaupmannahafnarsinnað. Kannist þið við þetta, þið sem búið við Útvarp Reykjavík?
En sagt er, að til er stór og myndarleg íþróttahöll í Herning á Jótlandi og í dag horfum við upp á það sem er alltaf árvisst á Íslandi, við erum svo hrikalega góð í tónlist sem öðru og hljótum því að sigra léttilega í Eurovision.
Spurningin er hinsvegar, hvað við ætlum að gera ef við álpumst til að vinna? Ekki er ólíklegt að Magnús Geir, sem sjálfur skrapp til Köben á dögunum, verði undir þrýstingi að halda keppnina hér, þó svo það setji Ríkisútvarpið á hausinn og líklega þjóðfélagið líka.
Dramb er líklegast til falls.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2014 | 17:44
Lok lok, ekki læs.
Við lá í gær að landinu yrði lokað.
Dramatískar fréttir bárust af því að tekjutapið af verkfalli myndi nema milljarði króna á dag. Milljarður platkróna er jú alltaf milljarður og því voru góð ráð dýr.
Líklega hefur samningsaðilum verið stillt upp við vegg, annaðhvort semdu þeir eða lög yrðu sett. Hótanir Hönnu Birnu í gær voru lítt duldar. Það var meira áríðandi að passa uppá að landinu yrði ekki lokað heldur en að hugsa um þá erfiðleika sem á næstunni verða þegar hjúkrunarstéttir fara í verkföll á öldrunarstofnunum með tilheyrandi óþægindum og röskunum fyrir þá sem þar búa og aðstandendum þeirra.
Því miður þá getur maður ekki gert sér grein fyrir því hver raunveruleg kjör flugvallastarfsmanna eru. Fjölmiðlar greina aðeins frá tölum sem báðir aðilar gefa upp en hvorugur hefur rétta, en leytast ekki við að rannsaka hver hin raunverulegu kjör eru. Líklegt er að þarna sé um að ræða bæði fólk með bærileg kjör og einnig láglaunafólk, og næst eru það flugmenn sem ætla að segja lok lok og læs.
Maður spyr hvort Hanna Birna mun enn á ný hóta lögunum. Flugmenn eru ekki beint taldir vera láglaunastétt og því eiga þeir ekki svo mikla samúð almennings, hins vegar vitum við að stjórnvöld hafa að undanförnu frekar haft samúð með hinum betur settu, því er órökrétt að álykta að séð verði til þess að ekki verði lok lok og læs hjá flugmönnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2014 | 17:25
Framsóknarflugvöllurinn.
Þá eru þeir framsóknarmenn loksins búnir að ráða einhverja bót á klúðrinu með hann Guðna og það e.t.v. með öðru klúðri.
Sagt var að Guðni hafi ekki viljað fara fram vegna þess að þeir hafi ekki viljað hafa flugvallarvinina með, en nú kemur upp úr dúrnum að flugvallavinirnir hafa líklega alltaf verið inn í myndinni, nema þeir hafi allt í einu verið teknir inn í örvæntingu.
Framsókn stendur nefnilega í þeirri trú að þetta flugvallarmál sé eitthvað kosningamál í vor og hugsanlega hefur þeim tekist að koma því á dagskrá um stund. Þetta er þó mál sem í rauninni skiptir engu máli og að miklu leyti bara stormur í vatnsglasi. Flugvöllurinn mun líklega verða þarna í Vatnsmýrinni meðan að stjórnsýslan á Íslandi er svona miðstýrð eins og hún er.
Staðreyndin er nefnilega sú að innanlandsflugið er það dýrt að það nota nánast engir nema þeir sem þurfa annaðhvort að erinda í stjórnsýslunni eða leita sér lækninga. Líklega eru alltaf 2/3 farþega í innanlandsfluginu sem ekki greiða sjálfir fyrir sitt far, en vissulega er þæginlegt að hafa völlinn þarna fyrir alþingismenn og aðra sem geta skroppið heim í kjördæmin og aftur til baka á kostnað skattborgaranna sama dag.
Það er of mikið í húfi fyrir reykvíkinga sjálfa til þess að þeir láti flugvöllinn fara. Brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýrinni þýðir uppstokkun á öllu stjórnkerfi og heilbrigðiskerfi landsins og þetta verður erfitt að gera vegna þess að kostnaður við að byggja upp í Vatnsmýrinni verður hár þar sem byggja þarf upp í mýrlandi.
Framsóknarflugvöllurinn un líkega standa næstu áratugina með sínum hálfhrundu kofum sem kallaðir eru flugstöð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2014 | 22:22
Falska friðardúfan
Framsóknarklúðrið í Reykjavík er auðvitað efst á baugi þessa dagana. Menn ætluðu að draga fram bónda einn af Suðurlandi, hinn ágætasta og fyndnasta mann en ef til vill ekki endilega svo heppilegan borgarfulltrúa og ýta í því skyni til hliðar einkar frambærilegri og vafalaust mjög hæfri konu þó svo einhverjir minni á að hún hafi einhvern tímann verið að manga til við hina hægri grænu.
En Guðni þáði ekki sætið og leiða menn nú getum að því af hverju hann gerði það ekki. Til þess kunna að vera ýmsar ástæður meðal annars sú að hann hafi álitið að þar sem tveir Guðnar koma saman verði ekkert endilega úr því stórframsókn. Einnig kann hér um að kenna einkar rætnum árásum á hann í bloggheiminum. Fer þar hvar fremst í flokki þekkt friðardúfa sem hér virðist syngja nokkuð falskt. Að lesa óhroða þann sem friðardúfan kvakar á bloggsíðunni veldur manni ógeði og slíkt á ekkert skylt við stjórnmál.
Við getum öll haft okkar álit á Guðna Ágústssyni, þótt hann hallærislegur, sveitó og því um líkt en við getum samt ekki leyft okkur að skrifa um hann eins og okkur lystir. Guðni er maður og hann á allan rétt til mannhelgi eins og hver annar samborgari okkar.
Engar falskar friðardúfur geta rænt Guðna þeim rétti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2014 | 17:43
Aprílgöbb.
Það er liðin vika af apríl, samt eru blessaðir þingmennirnir okkar enn að hlaupa apríl. Þeir eru í óða önn að ræða þetta skuldaleiðréttingafrumvarp sem ekki mátti ræða þann 1.apríl af ótta við að það fengi uppnefnið aprílgabb, en aprílgöbb eru alltaf aprílgöbb þó að þau komi fram einum degi seinna.
Þetta aprílgabb er afar sérstakt. Það gengur útá að bæta forsendubrest einhverra sem svo kemur í ljós að hafa e.t.v. ekki orðið fyrir neitt meiri forsendubresti en aðrir. Aðferðin er líka dálítið merkileg. Þarna hlýtur að vera um seðlaprentun að ræða því svo virðist sem ekki séu til peningar fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Menntakerfið, heilbrigðiskerfið, Hafró og allt hitt, ekki til peningar og að auki á víst að reka ríkissjóð án halla.
Það gefur því auga leið að skuldaleiðréttingin verður ekki framkvæmd nema með seðlaprentun með þeim afleiðingum sem henni fylgir alltaf, verðfelling á peningum, öðru nafni gengisfelling, verðbólga og þar af leiðandi forsendubrestur á forendubrestinum sem verið er að lækna.
Spurningin er, mun ríkissjóður enn einu sinni hlaupa apríl að þessu sinni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2014 | 18:34
Harpan og hálendið.
Fyrir u.þ.b klukkutíma var útvarpað á rás 2 frá heljar miklum blaðamannafundi í Hörpu í tilefni af tónleikum sem þar eiga að vera í kvöld til styrktar Náttúruvernd.
Þar talaði m.a. hin þekkta söngkona Patty Smith fjálglega um fegurð íslenskrar náttúru, en í gegnum hugann flaug hvort hún hafi mikið meira séð yfir höfuð af íslenskri náttúru en Hörpuna og þessa meintu eftirlíkingu af hraundröngunum í Öxnadal, sem er turninnn á Hallgrímskirkju.
Á þessum sama blaðamannafundi var tilkynnt að Hagkaupsfjölskyldan ætlar að leggja fram 24 milljónir í sjóð sem hvað miða að því að miðhálendi Íslands verði gert að þjóðgarði. Það er svosem ágætt að gera miðhálendið að þjóðgarði, jeppaliðið úr Reykjavík fær þá að bruna um þarna inneftir til að detta íða í friði án þess að vera truflað af einhverjum virkjanasinnum og dóti.
Auðvitað verða sett upp hlið til að rukka fyrir aðganginn en varla verður gjaldið nógu hátt til að koma í veg fyrir fjöldaferðamennsku á hálendinu sem hlýtur að aukast með tilkomu þjóðgarðsins og hvar verður þá kyrrðin og víðernið? Allt vaðandi í túristum, menn sjá fyrir sér einn veitingastað hér, eitt tjaldstæðið þar og enn eitt lúxushótelið á þriðja staðnum.
Maður spyr sig, verður þetta ekki sama mengunin og ef farið væri að virkja. Og þegar allt kemur til alls verður ekki að nýta náttúruauðlindirnar ef menn ætla að byggja mörg náttúrurfyrirbæri á borð við hina dýru fögru Hörpu, sem stendur við Reykjavíkurhöfn, staurblankri þjóðinni til dýrðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2014 | 17:27
Snautlegur mottumars.
Hinn árlegi mottumars er upphafinn.
Við karlmenn, sjálf hreystimennin, erum minntir á það að hreystin getur stundum brugðist. Hinir stæltustu menn geta fallið fyrir þeim þunga vágesti sem krabbamein er kallaður.
Undanfarin tvö ár hefur hér á Akureyri verið haldin samkoma til fjáröflunar fyrir krabbameinsfélagið, þar sem matreiðslumeistarar og matvælaframleiðendur á svæðinu hafa kynnt vörur sínar og ágóðinn af þessari uppákomu hefur runnið til krabbameinsfélagsins. Hefur þetta mælst mjög vel fyrir, verið hin skemmtilegasta samkoma og vel mætt, en nú ber svo við að þessi samkoma hefur verið blásin af. Ástæðan mun vera svo að forráðamenn Hofs krefja þá aðila sem að þessu standa um það háa leigu að ekki er talið forsvaranlegt að leggja út í þann kostnað og bæjafélagið tímir ekki að veita neinn styrk.
Þetta eru vond tíðindi og illt afspurnar að bærinn okkar skuli ekki tíma að standa að svo góðum viðburði. Menn spyrja sjálfa sig hvort að listi fólksins sé endilega einhver listi fólksins eða einhverra annarra. Þetta er enn furðulegra vegna þess að maður skyldi halda að bæjaryfirvöld myndu vilja láta eitthvað gott af sér leiða, svona í aðdraganda komandi bæjarstjórnakostninga, nema menn séu bara svo fúlir vegna þess hversu litlu fylgi þeim er spáð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2014 | 17:42
Ómöguleiki raunveruleikans
Stjórnmálaumræðan á Íslandi í dag er alveg einstaklega fyndin. Raunveruleikinn er sagður vera ómögulegur. Menn segja ómögulegt að efna kosningaloforð sem gefin voru í vor þó svo að stór hluti þjóðarinnar kalli á efndir. Og skýringin er: Menn telja sig ekki geta fylgt eftir ákvörðun þjóðarinnar. Stjórnin sé á móti Evrópusambandinu og geti þar af leiðandi ekki verið í aðildarviðræðum við það.
Gott og vel, þjóðin er handhafi valdsins, það er frá henni komið. Ef þjóðin samþykkir í atkvæðagreiðslu að aðildarviðræðum skuli haldið áfram, hlýtur það að sjálfsögðu að leiða til þess að annað hvort verður núverandi ríkisstjórn að lúta vilja þjóðarinnar eða ef hún ekki vill það verður hún að segja af sér. Slíkt myndi væntanlega hafa í för með sér að mynduð yrði minnihlutastjórn Evrópusinna í Samfylkingu og Bjartri framtíð til dæmis, varin af Vinstri grænum og ef til vill einhverjum Evrópusinnuðum sjálfstæðismönnum. Þessi ríkisstjórn myndi væntanlega ljúka viðræðum með samningi, sem síðan yrði borinn undir þjóðina. Félli hann þar myndi þessi ríkisstjórn að sjálfsögðu segja af sér og boðað yrði til þingkosninga í kjölfarið.
Þetta er leið sem ekki hefur svo vitað sé verið rædd en hún virðist vera sú sem hvað best er út úr vitleysunni nema menn ætli að sættast á þá málamiðlun að þetta verði látið dankast og kljúfa þjóðina næstu þrjú árin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2014 | 17:09
Evrópufjör.
Það er mikið Evrópufjör á þingi þessa dagana.
Verið er að ræða skýrslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem utanríkisráðuneytið pantaði frá hagfræðistofnun og mun hafa greitt fyrir 25 milljónir. En nú virðist allt í einu ekkert eiga að taka mark á þessu dýra orði.
Í skjóli nætur var sl. föstudagskvöld dreift með sms, tillögu frá utanríkisráðherra um slit viðræðna. Ekki fylgdi sögunni hvernig þeir þingmenn sem ekki eiga gemsa fengu tillöguna, en hvernig sem því var varið skyldi tillagan strax á dagsskrá. Hún hefur þó ekki enn komið til umræðu að fullu vegna þess að menn eru að ræða hin þörfustu mál eins og fundarstjórn forseta, störf þingsins, meint stjórnarskáarbrot og annað því um líkt meðan mótmælendur lemja blikkdósir á Austuvelli.
Hver sem skoðun okkar kann að vera á Evrópusambandinu hljótum við að vera sammála um að einstaklega klaufalega hefur tiltekist hjá ríkisstjórninni með þeim afleiðingum að nú heimta allir þjóðaratkvæði, jafnvel þeir sem á móti Evrópusambandinu eru.
Verður að telja að ástæðan fyrir þessu sé hversu óreyndir ráðherrar eru og jafnvel vanhæfir, að taka við ráðleggingum frá blómaskreytingadömum og bóndadurgum úr Skagafirði er ekki vænlegt til árangurs í máli þar sem þörf er til víðtækrar þekkingar og yfirsýnar. En menn eru því miður allt of uppteknir við að sýna mátt sinn og meginn, skítt með fjárans þjóðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2014 | 20:49
Baðstrandarleikarnir
Það fer víst ekki fram hjá neinum að vetrarólympíuleikar standa nú yfir. Að þessu sinni eru þeir haldnir í borg einni við Svartahaf sem mun víst fyrst og fremst vera baðstrandarbær þar sem hitinn fer sjaldnast niður fyrir 12 gráður á veturna. En keppnin fer auðvitað að miklu leyti fram uppi í fjöllum þar skammt frá, þar sem búið er að byggja aðstöðu sem kostaði mörg fjárlög íslenska ríkisins að reisa. Þessir baðstrandarleikar eruð auðvitað ekki hvað síst haldnir til þess að Pútín geti sýnt mátt sinn og dýrð.
Þetta mun þó alls ekki vera í fyrsta skipti í sögunni sem leiðtogar halda ólympíuleika sjálfum sér til dýrðar. Frægasta dæmið eru auðvitað ólympíuleikar Hitlers í Berlín árið 1936 og De Gaulle gerði slíkt hið sama næstum í mýflugumynd þó stórt væri með vetrarólympíuleikunum í Grenoble árið 1968. Maður kom þarna tveimur eða þremur árum síðar og voru sagðar tröllasögur af gífurlegum fjárfestingum, sóun og spillingu og síðan samdrætti með staðbundinni kreppu. Og eitthvað þvíumlíkt, bara í enn stórkarlalegri mynd er nú að gerast austur í Sotsji. Þarna veður spillingin uppi og tröllasögur heyrast um tevatn í hótelherbergjum, skiptimarkaði á hurðarhúnum og ljósaperum og ýmislegt ámóta skoplegt. En öllu gamni fylgir alvara.
Þetta er svo sem ekki eina dæmið um spillt alþjóðamót í íþróttum. Talað er um að þúsundir farandverkamanna hafi látið lífið við undirbúning heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Qatar og ýmislegt er líka sagt gruggugt varðandi undirbúning sama móts og ólympíuleika í Brasilíu. Það hlýtur að vera kominn tími til að farið verði að hreinsa til í þessum alþjóðastofnunum sem skipuleggja mótin. Losa verður samtökin við þessa öldruðu, gjörspilltu karlfauska sem þarna virðast ráða og taka inn nýtt, ferskt hugsjónafólk sem getur komið á nýrri og bættri skipan þessara mála.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)