Færsluflokkur: Bloggar

Grænlandshraðlestin.

Grænlandshraðlestin eða Greenland express er nafn á flugfélagi sem kvað ætla að hefja áætlunarflug frá AKureyri til Köben 11.maí, en er ekki enn byrjað svo vitað sé, enda ýmislegt dáldið sérstakt við flugfélag þetta. 

Þannig virðist það ekki hafa neina starfsstöð til að selja farmiða, er að vísu með eitthvað málamyndaheimilisfang á lögmannsstofu í Reykjavík, en ekki er vitað til að þetta fyrirtæki sé í neinum viðræðum við neina aðila hér á svæðinu. 

Þá er sitthvað dularfullt við flugrekstrarleyfi þess og ferðaskrifstofuleyfi.  Svo veit enginn hvort að flugvélar þess hafi fullnægjandi skilríki, þetta eru einhverjar Fokkerþotur sem enginn hefur heyrt nefndar, þó allir þekki vissulega Fokkerana sem fljúga hér innanlands og munu vera hollenskir. 

 Auðvitað er það hið besta mál að hefja beint flug frá Akureyri til útlanda, en til þess þurfa auðvitað að vera til staðar flugvélar, farmiðar og annað sem tilheyrir.  Svo virðist sem Grænlandshraðlesin hafi ekki yfir slíku að ráða og táknrænt er að sá sem sagður er forsprakki félagsins ber það ágæta nafn Brask. 


Lýðveldið sjötugt.

Það var í rigningu og sudda sem menn komu saman á Þingvöllum þarna um árið til að stofna lýðveldi. 

Eftir að lýðveldisstofnun hafði verið samþykkt í einskonar rússneskri þjóðaratkvæðagreiðslu rumpuðu menn saman í flýti stjórnarskrá þar sem virtist verða gert ráð fyrir einhversskonar þjóðkjörnum kóngi. 

Reyndar höfðu víst einhverjir viljað bjóða Vilhjálmi Stefánssynir landkönnuði að gerast kóngur yfir Íslandi.  En lýðveldið var samþykkt og stjórnarskrá sem skyldi vera til bráðabirgða og enn í dag búum við við þessa bráðabyrgðarstjórnarskrá 70 árum seinna. 

Höfundar lýðveldisstjórnarskrárinnar bjuggu vissulega ekki yfir þeirri þekkingu á stjórnmálafræði og stjórnmálaheimsspeki sem við gerum í dag og þar af leiðandi varð forsetaembættið að einhversskonar undarlegum bastarði eins og í ljós kom þegar Ólafur Ragnar gerði 26. greinina virka, án þess að nokkrum hefði dottið það í hug að slíkt væri hægt. 

Þetta er svosem í stíl við það hversu fáránlegt fyrirbæri lýðveldið Ísland að mörgu leyti er.  Með ríkjandi efnahagsstefnu sem við svo sannarlega getum kallað "þetta reddast". 

Öðru hverju er blásið til mikillar svallveislu þar sem Elton John og fleiri góðir skemmta og eftir eru timburmennirnir svo hrikalegir að þjóðin fær vart risið undir og enn í dag er verið að dúka veisluborðin.  Menn eru að dúkka upp kraga af kísilverum allt í kringum Reykjavík ásamt tilheyrandi byggingarframkvæmdum, segir enda Dagur að Reykjavík muni draga hagvaxtarvagninn á næstunni. 

En einhvernveginn finnst manni svo lítið fara fyrir hátíðarhöldum á þessu merkisafmæli.  Það eru þessar blessuðu barnaskemmtanir, útitónleikar, kandífloss og anditsmálun.  Lýðveldið sjálft er gleymt og grafið í glaumnum.


Lax lax lax

Það á að fara að opna Norðurá og mikið stendur til. 

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa þegið boð um að veiða í ánni einn og hálfan dag.

  Jóhanna Sigurðar gerir athugasemd, en hún er nú bara gömul skapvond amma. 

Við könnumst við þetta. 

Laxveiði var ein helsta táknmynd þess lífsstíls sem yfirstétt gróðærisins stundaði og ýmsar vísbendingar er í raun um að nýtt svona tímabil sé í uppsiglingu. 

Við erum að sönnu ekki enn farin að borða gullið risotto eða japönsk bjóralin naut, en þess er vafalaust ekki langt að bíða. 

Það er jú verið að redda heimilunum svo þau hafa allt í einu miklu meiri ráðstöfunartekjur og nýjustu fréttir herma að þau fái jafnvel greiðslur þó þau séu búin að selja og kaupa uppá nýtt. 

 Einhverjir öryrkjaræflar og einstæðar mæður hafa það skítt en hvern varðar um það við hlaðborð alsnægtanna. 

Sjálfsagt verður etið og drukkið af lyst næstu tvö árin, en margt bendir til þess að timburmennirnir komi árið 2016 og verði svo slæmir að enginn afréttari mun duga.


Pandóruaskjan.

Oddviti Framsóknar í Reykjavík var dálítið seinheppin á dögunum þegar hún fór að fiska í gruggugu vatni eftir atkvæðum í borgarstjórnarkosningunum. 

Sennilega hefur hún ekki verið alveg þess meðvituð að með því að fjalla um moskubygginguna myndi hún eins og Pandóra forðum opna öskju sem allskonar óhroði flaug út úr. 

 Því miður flykktust allskyns ofstækishópar og öfuguggar að þessu og var ein sóðalegasta birtingamyndin sá óþverri sem birtur var á Vísi, þar sem formanni félags múslima á Íslandi var hótað lífláti og ýmislegt ekki eftirhafandi um hann sagt. 

Við getum fordæmt þau hryðjuverk og þá glæpi sem framkvæmdir eru í nafni Islams, þeir eru óþolandi, en það þýðir ekki að allir þeir sem aðhyllast þá trú sé líka óalandi og óferjandi. 

Minnast skulum við þess að mörg óhæfuverk hafa líka verið framin í Jesúnafni, t.d útrýming heilla þjóða í Suður-Ameríku, þar sem prestarnir blessuðu sverð morðingjana, en auðvitað er þetta svo fjarri hinni fögru boðun Krists sem verða má. 

En maður furðar sig á að múslimar skuli þráast við að vilja byggja moskuna í Reykjavík eftir þessa uppákomu í Framsókn og atburðinn þarna með svínshausana. 

Manni dettur í hug af hverju moskan er ekki bara byggð á Akureyri, slíkt mannvirki yrði mjög fallegt og myndi vafalaust  draga að sér marga ferðamenn, því ekki einhverja forríka olíufursta sem ekki vita aura sinna tal.


Ský yfir Evrópu.

Kolgrá ský grúfa yfir Evrópu þessa dagana. 

Kolsvört regnský með eilítið brúnlitum fasistablæ.

  Í nýliðnum kosningum til evrópuþings unnu mikið á allskyns flokkar sem hafa á stefnuskrá sinni innflytjendahatur, andstöðu við Evrópu og þjóernislýðskröm. 

Sumir þessir flokkar daðra við fasismann. 

Ýmsar skýringar eru á þessu en e.t.v er sú skýring nærtækust að evrópusambandið og alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa gengið svo hart fram við lausn bankakreppunnar að nærri gengur kjörum alþýðuflólks og sagan sýnir okkur því miður að fólkið flýr á vald allskyns skrípakalla og öfgamanna sem boða engar lausnir, bara upphrópanir og öfgar. 

Gegn þessu standa unnendur frelsis, mannréttinda og mannúðar ráðþrota og jafnvel hér á Íslandi er daðrað við þetta, einkanlega í Framsókn, samanber moskumálið í Reykjavík og því ber ekki að neita heldur að Sjálfstæðisflokkurinn er örlítið farinn að bera keim af þessum þjoðernisöfgasinnum,  er farinn að gæla við fámenna sérhagsmunahópa og einangrunarsinna. 

Vonandi ber Íslenska þjóðin gæfa til, nú á sjötugsafmæli lýðveldisins, til að hrinda þessari ógn og gerast fyrirmynd annara um mannúð, réttlæti, mannréttindi og gagnsæi.


Í öðrum plássum.

Sagt er að Samfylkingunni á Akureyri sé helst legið á hálsi fyrir það að efsti maður á listanum vilji Reykjavíkurflugvöll burt úr Vatnsmýrinni. 

 Mikið óskaplega finnst manni nú kosningabaráttan hér í bæ vera lágkúruleg ef hún er farin að snúast fyrst og fremst um flugvelli í öðrum plássum.  Vatnsmýrarflugvöllurinn er að sjálfsögðu innanríkismál reykvíkinga og hér á Akureyri hlýtur kosningabaráttan að snúast um okkar mál, þar á meðal þau tækifæri sem kynnu að skapast á Akureyri ef menn flytja hjartað úr Vatnsmýrinni til Keflavíkur. 

Þetta verður að sönnu tæpast gert vegna þess hversu mikið reykvíkingar munu missa við það.  En manni finnst að það ætti að vera á stefnuskrá einhvers flokks hér að skipa starfshóp til að ath þær breytingar sem hér myndu verða við þennan flutning. Þau tækifæri og þær breytingar sem þetta hefði í för með sér og yfir höfuð finnst manni einhvernveginn vanta allan metnað fyrir hönd Akureyrar í kosningabaráttunni. 

Svo virðist sem enginn hafi það á stefnuskrá sinni að auka veg, virðingu og hagsæld okkar ágæta bæjarfélags.


Asnaleg stjórnsýsla.

Nú á heldur betur að hagræða í ríkisrekstrinum, ekki vanþörf á ef til eiga að vera peningar til að borga alla skuldaleiðréttinguna hjá ríka fólkinu. 

Eitt af því sem verið er að gera í hagræðingaskyni, er að fækka verulega sýslumönnum og lögreglustjórum svo þeir verða ekki nema þetta 8 eða 9 af hvorutveggja. 

En útkoman úr þessu verður í raun frekar asnaleg stjórnsýsla. 

 Það kvað víst eiga að láta lögreglustjóra og sýslumann sitja á sitthvorum stað í viðkomandi umdæmi, þó þeir heyri báðir undir sama innanríkisráðherrann, því auðvitað gleymdist að skilja að ráðuneyti dómsstóla og innanríkis þegar skilið var á milli lögreglustjórnar og dómsvalds, eftir hinn fræga dóm mannréttindadómsstóls Evrópu. 

Og svo virðist sem ekki þurfi endilega löglærðan mann til að gegna sýslumannsembætti lengur og maður spyr sig hvers vegna ekki er tekið upp bein eða óbein kosning sýslumanns í hverri sýslu.

 Með öðrum orðum að gera sýslurnar að sjálfstæðum einingum þegar þæru eru orðnar svona stórar. 

Nei, menn ætla enn að halda í gömlu góðu miðstýringuna sem tekin var upp með stjórnarskránni 1874.


Í öskustónni.

Nýverið kom út skýrsla um fátækt á Íslandi, á vegum Rauða krossins. 

Ýmislegt athyglisvert er að finna í þessari skýrslu.  Þarna er að sjálfsögðu rætt um þá hópa sem við flest vitum að teljist til fátæklinga, öryrkjar, einstæðar mæður og barnafjölskyldur. 

En hér bætist allt í einu við nýr hópur.  Ungir karlmenn á aldrinum 16-28 ára.  Menn sem hafa flosnað uppúr skóla, ekki komist inn á vinnumarkað og af einni eða annari ástæðu lent utanveltu í samfélaginu. 

Margir þessara ungu manna hafa, ef svo má segja, legið í öskustónni heima hjá pabba og mömmu  oft fram yfir tvítugt og enga framtakssemi sýnt, leitað sér vinnu eða haldið áfram námi, heldur hafa þeir snúið sólarhringnum við, setið við tölvuna eða leikið sér á hjólabrettum. 

Menn leita skýringa og þær er ekki auðvelt að finna. 

Hér áður fyrr þótti sá ekki maður með mönnum sem ekki vann fyrir peningum, en nú virðist fjárhagslegt sjálfstæði og þar með siðferðilegt sjálfstæði ekki vera keppikefli ungra manna lengur.

  Orsakirnar eru margvíslegar, almennt ábyrgðarleysi í samfélaginu, hækkun sjálfræðisaldurs 1996 hefur eflaust einhver áhrif og einhver andúð á öllu sem heitir vinna. 

Það er ekki auðvelt að sjá hvað hér er til úrbóta, en þeir hjá Rauða krossinum hafa sagt mér að þessi þróun valdi þeim miklum áhyggjum.


Hripleka ráðuneytið.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hið svokallaða "lekamál" sem eins og kunnugt er reis út af minnisblaði einu dularfullu, sem eiginlega enginn veit hvaðan komið er, þó margt bendi til að höfundur þess sé upprunalega lögfræðingur eða einhver annar starfsmaður innanríkis ráðuneytisins. 

En enginn veit hver samdi afritið, með orðalagsbreytingunum sem líka eru á kreiki.  Innanríkisráðuneytið virðist vera hriplekt og tilburðir ráðherra til að setja fyrir lekann eru frekar óburðugar og blaðamannafélagið leggst gegn því að heimildarmenn séu gefnir upp. 

Nú er friðhelgi uppljóstrara brýn nauðsyn svo hægt sé að fjalla um viðkvæm mál, en spurningin er hvort friðhelgin sé réttlætanleg ef yfirhylmingin er með lögbroti eða siðlausu athæfi. 

Hið siðlausa í þessu máli er auðvitað það að yfirhöfuð skuli vera minnisblað af þessu tagi í ráðuneytinu.  Í þessu minnisblaði virðist mjög vera hallað á hælisleitanda og nafngreindar konur, íslenskar, án þess að viðkomandi fái svarað. 

Þetta gengur auðvitað í berhögg við öll mannréttindi.  Einhvernveginn þá finnst manni að ráðherra ætti að gera hreint fyrir sínum dyrum, leiða fólk í allan sannleika um minnisblaðið og tilurð þess og gera ráðstafanir til að svo nokkuð endurtaki sig ekki.  Ella ber henni að segja af sér ef hún ekki treystir sér til þessa.


Fljúgandi frekjugangur.

Svo það á að setja lög á flugmenn.

  Þessi fljúgandi frekjugangur þeirra á ekki mikla samúð hjá almenningi og því tekur ríkisstjórnin þá áhættu að setja lög, þó svo að óvíst sé um viðbrögð manna í útlandinu.  Líklegt er að stjórnarandstaðan verði ekki mikil hindrun, enda óvíst að hún græddi mikið á að vera með andúð.  Sjálfsagt mun hún þó tala eitthvað um hinn heilaga verkfallsrétt, og ekki er að heyra á Ögmundi að hann muni greiða þessu atkvæði. 

Vissulega er verkfallsrétturinn heilagur, en það er nú svo að jafnvel helgustu hluti má misnota og vissulega sýnist manni svossem flugmenn ekki vera meðal þeirra sem mest þurfa á kjarabótum að halda, enda hafa þeir líka fengið einhvern glaðning frá stjórnvöldum, eins og annað hátekjufólk í landinu, hina síðustu daga. 

En það er umhugsunarvert hvernig fámennir hópar launþega, oft með bærilegar tekjur, geta sett allt á annan endann með mis raunsærri kröfugerð.  Maður hefur sossem enga samúð með Icelandair og auðvitað særir það réttlætiskennd manna að þeir skuli hafa hækkað laun stjórnarmanna hægt og hljótt.  E.t.v væri best á þá að lög yrðu sett þar sem lögfestar yrði ítrustu kröfur flugmanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband