Færsluflokkur: Bloggar

Stóru fötin hans Davíðs

Fátt er nú meira milli tannanna á fólki en hið fræga viðtal sem Gísli Marteinn átti einn sunnudag við blessaðan forsætisráðherrann okkar. Ef til vill er ekki rétt að tala um viðtal í þessu sambandi heldur var á köflum eins og þarna væru hundur og köttur að slást. Litla íhaldið í Efstaleitinu ætlaði nú að sýna að það ætti í fullu tré við stóra íhaldið niðri á þingi... þið vitið þetta græna.

Úr þessu urðu hin skemmtilegustu slagsmál þar sem báðir gengu nánast óvígir frá leik. Það er nefnilega dálítið hættulegt þegar menn fara að rífast við bróður sinn í stjórnarsamstarfinu, ekki síst þegar hann reynir að fara í stóru fötin hans Davíðs Oddssonar. En því miður verður að segja að þetta fór eins og það fer alltaf þegar menn fara í of stór föt, þau verða drusluleg. Jú, Sigmundur Davíð ætlaði að sýna það hver máttinn hefði og dýrðina og gerast spyrill sem aumingja spyrlinum þótti ekkert allt of sniðugt og brást hinn versti við. Sigmundur, að hætti Davíðs varð fýldur út í allt og alla hvort sem það var nú Seðlabankinn, háskólasamfélagið eða stjórnarandstaðan. Hann vissi betur en allt þetta fólk, líka það að buffaloostur getur orðið skeinuhætt samkeppnisvara við íslenskan landbúnað. Hversu mikið af buffaloosti er framleitt á Íslandi virðist ráðherra einn vita og virðist einn vita af því að Hagar geta notað tollkvótana sína til að flytja þennan ost inn.

Og aumingja Gísli situr þarna skömmustulegur, reynir með veikum mætti að rífa kjaft en verður svolítið ósannfærandi. Sjálfsagt hefur hann ætlað að skora marga punkta í drottningarviðtalinu við Bjarna Ben á dögunum en hætt er við að samherjar hans muni ekki allir sætta sig við að hann sé að reyna að klóra eitthvað utan í stóra, græna bróður niður á Alþingi.


Negrar fara á kreik.

Sumir negrar eru vangefnir, kynvillingar og fyllibyttur. 

Þetta er setning sem er víst sjálfsagt algjörlega bönnuð á Íslandi í dag.  Umræðan um þetta blossaði upp á dögunum þegar faðir var að skoða gamla kennslubók sem dóttir hans, að ég held 7 ára gömul, kom með heim úr skólanum.  Bók þessi var víst löngu úrelt, en notuð af kennara stúlkunnar.  Orðið negri er víst bannorð, þeir heita í dag þeldökkir menn, svertingjar eða eittvhað annað.  Vangefnir eru þroskaheftir, kynvillingar eru samkynhneygðir og fyllibyttur eru alkahólistar. 

 Þannig hefur íslenskt tunga gjörbreyst á aðeins 10 til 15 árum.  Menn hafa reynt að útrýma úr tungutakinu orðum sem þykja eitthvað særandi eða lítilsvirðandi, og er það sossem í sjálfu sér hið besta mál.  En önnur tilhneyging hefur einnig dálítið gert vart við sig, en það er að fegra eða breiða yfir hluti sem er óþæginlegt að tala um þannig er miklu þæginlegra að tala um sjálfsvíg heldur en sjálfsmorð, talað er um geðfatlaða í stað geðbilaðra og talað er um að fólk sem neyti eiturlyfja sé í neyslu.  Það þykir slæmt mál að tala um að menn dópi heldur er það falið með því að segja að menn séu í neyslu. 

Það er eitthvað í sálarlífi þjóðarinnar sem veldur því að hún vill á þennan hátt að vissu leyti útþynna málið og kann að vera að það missi eitthvað af krafti sínum og áherslum.  En vel má vera að það sé þess virði að setja þannig plástur á einhver sár.


Keisarans skegg.

Hún var svoldið sérstök umræðan hjá þingmönnum í gær. 

 Verið var að ræða þetta eilífðarmál Reykjavíkurflugvöll, en Mörður Árnason áttaði sig ekki á því, að um var að ræða flugvöllinn í Vatnsmýrinni.  En Mörður hefur aldrei átt lengi heima á landsbyggðinni og skilur þar af leiðandi ekki mál hennar.  Prestssonurinn frá Akureyri mátti hinsvegar ekki til þess hugsa að flugvöllurinn færi úr blessaðri Vatnsmýrinni.  Þjóðarvá yrði ef hann færi. 

En það er annars merkilegt hve mjög þessir tveir, að því virðist ólíku menn voru innilega sammála í lofgjörð þeirri og væmni sem þarna kom fram um hina dýrðlegu höfðuborg okkar.  Hversu nauðsynleg hún væri okkar ágætu þjóð.  Þessi væmni var mikil, jafnvel af þingmönnum að vera.  En leiðin að eflingu Reykjavíkur var ekki sú sama hjá báðum, annar vildi efla borgina sem samgöngumiðstöð, og raunar miðstöð alls í þessu landi, hinn vildi efla Reykjavík með því að byggja nýtt hverfi þarna í Vatnsmýrinni og henda einhverjum milljarða tugum í flugvöll einhversstaðar annarsstaðar og láta landsbyggðina sigla sinn sjó. 

 Hvað sem því líður þá var þessi umræða ósköp lítið framtíðarmiðuð.  Menn minntust ekki á það hversu eða hvort innanlandsflug yrði nauðsynlegt eftir 20 ár eða hvort okrið sem viðgengst á innanlandsflugi í dag muni einfaldlega ekki ganga að því dauðu innan tíðar.  Umræðan á þingi var deila um keisarans skegg og óskaplega lítið upplýsandi.


Eiturgræna afturhaldið.

Í vitum flestra er litur íhaldsins blár.

Menn tala um bláskjá, bláu höndina og annað í þeim dúr.  En nú er svo komið að nýtt íhald er komið fram á sjónarsviðið, að þessu sinni eiturgrænt að lit. 

Réttara væri þó að tala hér um afturhald frekar en íhald, því þetta eiturgræna afturhald hefur sýnt sig að saman standa að kyrrstöðu þjóðrembu og afturhaldssemi ýmiskonar, t.d. á sviði heilbrigðismála og forvarnarmála, þar sem menn slá sjálft bláa íhaldið alveg út af laginu. 

Nýjasta dæmið um þetta afturhald var nú í síðustu viku þegar þetta lið braut alla gerða samninga og kom í veg fyrir að vinsæll og mætur rithöfundur Pétur Gunnarsson næði kjöri í stjórn Ríkisútvarpsins.  En í staðinn náði kjöri einhver framsóknarlúði sem enginn veit neitt um nema hvað hann hefur eitthvað nöldrað yfir fréttastefnu Ríkisútvarpsins. 

Þessi yfirgangur framsóknarmanna er alveg óskaplega gamaldags, nú á tímum sátta og samstöðu.  Framsóknarmenn stóðu að því samkomulagi sem gert var við fjölgun fulltrúa í stjórninni að annar nýju fulltrúanna kæmi frá stjórnarandstöðu, en líklega hefur þeim ekki þótt hagsmunagæslan nógu öflug og því varð að beyta ofbeldi.  Framsóknarlúðinn skyldi inn, hvað sem tautaði og raulaði og menn eru nýbúnir að gleyma þeirri sátt sem líka fékkst þegar einróma var valinn nýr útvarpsstjóri, að flestra dómi besti og hæfasti umsækjandinn og það þótt sjálfstæðismaður væri.  Því verður að telja þennan gjörning framsóknarmanna til marks um óseðjandi valdafíkn og siðleysis sem ekki má líðast.


Grát nú Glerártorg

Dimm ský hanga yfir Glerártorgi.

Verslanir loka ein af annarri, sumar fara aftur inn í miðbæ en aðrar hreinlega úr bænum.

Menn kenna um fyrst og fremst hárri leigu í verslunarmiðstöðinni. Glerártorg mun nýlega hafa verið selt en ekki er vitað enn hvort hinir nýju eigendur hafa vit á því að lækka leiguna. Glerártorg var áður í eigu aðila í Reykjavík sem sennilega hafa ekki gert sér grein fyrir því að það þýðir ekkert að hafa hér jafnháa leigu og þar. Fyrir sunnan geta menn leigt húsnæði bæði í Kringlunni og Smáralind og einfaldlega velt leigunni út í verðlagið. Þetta er erfiðara að gera hér sakir þess hversu markaðurinn er minni. Það er augljóst að fyrsta verk hinna nýju eigenda verður að vera það að koma leigunni niður í viðunandi horf. Þá þarf að hefja alveg nýja sókn í markaðssetningu. Það þarf að auglýsa mun meira og það þarf að standa fyrir alls kyns viðburðum og uppákomum. Einnig þarf að auka fjölbreytni í þeirri þjónustu sem veitt er. þannig finnst manni stundum vanta til dæmis ferðaskrifstofu, hársnyrtistofu, jafnvel bíó og ekki myndi saka að setja á stofn vínbúð. En frá því var einmitt horfið fyrir nokkrum árum vegna þess hversu há leiga er á Torginu. 

Alla vega verður að hefja nýja sókn ef Glerártorg á ekki að verða líkt og Sunnuhlíðin, draugastaður þar sem enginn kemur. 

 


Sigmundur er villtur.

Það þykir ekki sérlega viturlegt að ana upp á öræfi um hávetur, illa klæddur, illa nestaður og illa búinn fjarskiptatækjum. 

Þetta henti þó hann Sigmund okkar forsætisráðherra á sunnudagsmorguninn.  Hann óð inn á Sprengisand algjörlega vanbúinn, varð enda fljótt villtur og stjórnandinn átti í hinum mestu vandræðum að beina honum til byggða, enda hríðin dimm. 

Aumingja manninum tókst þannig ekki að sannfæra bótaþegann um það að hann stæði betur með nýju fjárlögunum en áður.  Eitthvað var skuldaleiðréttingin líka þokukennd en verst var þó hríðin þega kom að verðtryggingunni. 

Svo hlálega vill til að ef við lesum skýrslu þessa vinahóps ráðherrans gaumgæfulega kemur í ljós sú niðurstaða að það er ekki hægt að afnema verðtrygginguna hvorki eftir tvö ár eða fyrr, nema með því að umbylta efnahagskerfinu gjörsamlega og hliðarráðstafanirnar sem gera þarf strax munu að öllum líkindum annaðhvort setja ríkissjóð eða bankakerfið á hausinn. 

Staðreyndin er sú að við munum búa við verðtryggingu í einu eða öðru formi meðan við ekki búum við einhverskonar alvöru gjaldmiðil. 


Írafár

Mikið írafár gekk yfir íslenskan landbúnað nú á dögunum. 

Í ljós kom að Mjólkursamsalan hafði flutt inn írskt smjör til að fullnægja óvæntri eftirspurn út af lágkolvetnaæði því sem nú geysar um heimsbyggðina. 

Að sjálfsögðu voru þeir Samsölumenn ekki svo hugmyndaríkir að þeim dytti í hug annaðhvort að auka mjólkurkvótann eða veita einhverjum aðilum leyfi til þessa innflutnings.  Nei heldur eyddu menn 50 milljónum í að kaupa þetta sjálfir, milljónum sem sjálfsagt koma inní útreikninga á mjólkurverði næst þegar þeir verða gerðir. 

Alltaf sama einokunin og kvótasetningin á öllum sköpuðum hlutum.  Bændur þræla nótt sem nýtan dag, en almenningur borgar samt okurverð þó svo lítið fari til bóndans og að sjálfsögðu voru menn ekkert að gæta þess að merkja írska smjörið.  Veit ekki hvort það er eitthvað öðruvísi á bragðið en hið innlenda því engar bragðprófanir fóru fram. 

Er nú ekki kominn tími til að íslenskur landbúnaður komist úr spennitreyju hafta einokunnar og dýrtíðar?  Peningunum fyrir okkar hreinu og góðu landbúnaðarafurðir er miklu betra komið í vasa bændanna sjálfra en í vasa hvítflibbakarlanna í Reykjavík sem maka krókinn á óréttlátu og gamaldags kerfi.


Þrír bílar og heiðin.

Þrír bílar komu að hárri heiði þar sem talið var að ófært væri vegna vetrarveðurs.

  Tilgangurinn var að kanna færðina á heiðinni.  Þarna voru Volkswagen bjalla án keðja, Pajero lúxusjeppi og snjóbíllinn Tanni, en hann var sem kunnugt er goðsögn fyrir austan á sínum tíma.

  Leiðangursstjórinn, sem hafði yfir takmörkuðu fé að ráða, ákvað að láta Bjölluna kanna leiðina fyrst þar sem hún þyrfti minnst eldsneyti og væri léttust.  Síðan skyldi lúxusjeppinn fara, enda bensínfrekari og öflugri. 

En þegar hvorugur lét á sér kræla hinumegin var snjóbíllinn sendur af stað, en sá komst ekki nema upp á miðja heiðina vegna þess að hinir sátu fastir á veginum. 

Sennilega skilja ekki margir þessa dæmisögu, en etv. skýrir það eitthvað ef við segjum að leiðangursstjórinn hafi heitið Kristján Þór Júlíusson. 

Hann hefur nefnilega ákveðið að auðveldast sé fyrir þá tekjulægstu að bera kostnaðinn við heilbrigðisþjónustu, þar sem þeir væru svo léttir á fóðrun og fengju lítið.  Því hlytu þeir að eiga greiðustu leið í gegnum kerfið. 

Síðar sendi hann svo jeppann sinn af stað, en sá komst auðvitað aldrei alla leið og þá var Tanni sendur af stað og hann komst aldrei þessa leið, því hinir voru strand á veginum.

  Heilbrigðisþjónustan verður stopp af því að þeir sem lítið hafa geta ekki notið hennar og loka þar með leiðinni fyrir hina.


Öfugmælavísur.

Öfugmælavísur er velþekkt fyrirbrigði í íslenskum kveðskap. 

Nokkrar slíkar mátti heyra á öldum ljósvakans nú í kringum upphaf þessa árs, sem markar sjötugsafmæli íslenska lýðveldisins. 

Af því tilefni bætti forsætisráðherrann okkar nokkrum dropum af sterkri þjóðarrembu út í kokteil, sem saman stóð að hverkyns öfugmælum og rangtúlkunum.  Ný sókn í nýsköpun og menningu, sem felst í því fyrst og fremst að skera niður við trog framlög til dæmis til vísindasjóða og kvikmyndagerðar,  en segjandi auðvitað að framlögin hafi aldrei verið hærri.  Sóknin í velferðar- og heilbrigðismálum felst fyrst og fremst í því að hækka gjaldskrár og draga úr kostnarðarhlutdeild hins opinbera. 

 Forsetinn okkar sló að vissu leyti á svipaða strengi daginn eftir á Bessastöðum þar sem saman var hrært goðsögninni um samstöðu og loftköstulum um stórasta landið á norðurslóðum, meðan forstöðumaður einhverrar norðurslóðastofnunnar í Reykjavík lyktaði af metnaðarleysi og einangrunarhyggju. 

Sjötugasta afmælisár íslenska lýðveldisins byrjar með þessu venjulega íslenska sundurlyndi og ístöðuleysi þar sem lítilmagninn er fyrsta fórnarlambið.


Öfgajól.

Það er stund milli stríða. Jólin afstaðin og handan við hornið eru áramótin með tilheyrandi sprengingum og kampavínsþambi. 

Það er annars merkilegt hvað allt jólahald á Íslandi er í eðli sínu óskaplega öfgafullt.  Menn raða í sig dýrindis kræsingum, að sjálfsögðu alltaf með samviskubit út af óhollustunni, enda fyllast líkamsræktastöðvarnar af áköfum iðkendum, sem púla og púla strax á annan í jólum. 

Snjallsímar voru víst í mörgum jólapökkum, ásamt lífstílsbókum hverskonar og þá tók áfengissala drjúgan kipp, ekki síst sala á jólabjór sem víða seldist upp og auðvitað var þá löng biðröð á Vogi, því allir þurftu að rjúka í meðferð eftir alla drykkjuna.  Patentlausnir eru auðvitað allra bestu lausnirnar. 

Þá má geta þess að sumir eru svo að drepast úr kvíða yfir öllu tilstandinu að neysla þunglyndislyfja margfaldast.  En nú er þetta liðið og við taka áramótin með sínum áramótamótaheitum, sem engin stendur lengur við en í svona tvær til þrjár vikur og nokkrir milljónatugir springa út í öllum regnbogans litum...jú þannig fjármögnum við björgunarsveitirnar sem stundum eru kallaðar út jafnvel á aðfangadagskvöld, til að leita að einhverjum fáráðlingum sem týnt hafa sjálfum sér í einhverju óveðrinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband