Færsluflokkur: Bloggar

Göng fyrir alla

Á Sprengisandi Bylgjunnar hittust í morgun sveitarstjórnarmaður úr Fjarðarbyggð austur og blaðakona úr Reykjavík. Mátti í þætti þessum glögglega greina hvernig þau voru í raun fulltrúar hinna tveggja þjóða sem Ísland byggja í dag. Konan úr Reykjavík vissi varla að nokkuð væri til á Íslandi utan þessarar Reykjavíkur og Austfirðingurinn talaði um samgöngur og samgöngubætur sem lausn allra vandamála. Hann benti réttilega á þá staðreynd að fáránlegt væri að 600 metra fjallgarður skildi að einstaka hluta sveitarfélags. Raunar flaug manni í hug hversu fáránleg hugmynd það var að fara að sameina sveitarfélög hafandi 600 metra fjall í því miðju. Auðvitað hefði átt að byrja á hinum endanum, koma þessum göngum undir Oddsskarðið í gagnið og ræða síðar sameiningu sveitarfélaganna.

Réttilega benti hann á að nær fjórðungur af útflutningsverðmæti þjóðarinnar fari um Reyðarfjörð sem er í þessu sveitarfélagi og verður því að teljast rökrétt að eitthvað af þessu útflutningsverðmæti hefði farið í að bora þessi göng þar sem þau verða ekki boruð á markaðsforsendum eins og til dæmis Vaðlaheiðargöngin. En auðvitað datt engum í hug að nýta fjármagnið í heimabyggð og hið sama virðist ætla að verða með blessað kvótafrumvarpið þar á að taka allt fjármagnið á landsbyggðinni, flytja til Reykjavíkur og skammta síðan. Í þessu felst íslenska byggðastefnan sem hið hræðilega Evrópusamband segir að ekki sé til á Íslandi. Ef til vill eru menn hræddir við Evrópusambandið út af þessu. En verði arðurinn af útflutningi eins mikið eftir í heimabyggð og efni standa til verður án efa til nægilegt fjármagn svo hægt verði að bora göng fyrir alla.


Völundarhús velferðar

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður spurði velferðarráðherra nú um daginn hvers vegna svo mjög hafi hækkað gjaldið fyrir sjúkraþjálfun hjá sjúklingum og öryrkjum, meira hjá þessum hópum en öðrum. Velferðarráðherra svaraði en einhvern veginn hafði maður það á tilfinningunni að hann vissi ekki almennilega hvað verið væri að spyrja um. Svar hans var eitthvað þokukennt, óljóst stærðfræðiþrugl, líkt og væri hann lélegur kennari í skóla.

Nú skal þess getið að manni finnst þingmaðurinn dálítið vera að kasta steinum úr glerhúsi með fyrirspurn sinni þar sem ekki er langt síðan hann sem heilbrigðisráðherra vildi meðal annars setja á komugjöld á sjúkrahúsum sem ef ég man rétt áttu að nema fyrir öryrkja þrjú þúsund krónur. Það breytir því ekki að eitthvað finnst manni velferðarráðherra eiga erfitt með að rata um í völundarhúsi velferðarinnar. En hann er svo sem ekki einn um það því þannig er mál með vexti að íslenska velferðarkerfið hefur byggst upp sem alveg ótrúlegt völundarhús með ótal göngum og öngstrætum. Stundum jafnvel ýmsum vitleysum sem enginn hefur hugmynd um að til séu. Getum við nefnt sem dæmi svokallað orlof húsmæðra, reglur um að menn þurfi að hafa átt heima á Íslandi í 40 ár til að eiga rétt á tryggingabótum, þá staðreynd að menn hætta að verða öryrkjar við 67 ára aldur hver svo sem fötlun þeirra er. Eða að það þurfi að endurnýja á nokkurra ára fresti ýmsa hluti til dæmis foreldrar þurfa að staðfesta á tveggja ára fresti að börn þeirra séu með downs heilkenni og ýmislegt fleira í þessum dúr.

Það verður að teljast furðulegt að velferðarráðherrar hverjir svo sem þeir eru hafi ekki haft í sér geð til að laga þetta kerfi, aðlaga það nútímanum og gera það einfaldara og skilvirkara. Og síðast en ekki síst að losna við hreinar vitleysur sem í því eru. Svo virðist sem þeir séu alltaf uppteknir við að horfa á tölurnar sem birtast á tölvuskjánum, hvað kemur inn, hvað fer út, hvað þarf þessi að greiða til að hinn greiði svo rétt þannig að jafnan gangi upp.

Ríkiskassinn verður að stemma þótt fólkið sé fast í fátæktargildru.


Varalitur Jóhönnu

Mikið var um dýrðir síðastliðinn mánudag. Þátturinn Virkir morgnar á Rás 2 var sendur út héðan frá Akureyri. Tilefnið var ærið, að afhenda dýrasta kaffimál Íslandssögunnar sem orðið hafði að list við það að á það klesstist varalitur Jóhönnu Sigurðardóttur. Og herlegheitin boðin upp til styrktar langveikum börnum.

Hæsta boð kom frá Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri og var að heyra á forsvarsmönnum hennar að við það að Jóhanna þrýsti vörum sínum að máli þessu hafi það orðið að listaverki, sem reyndar seldist á liðlega hundrað þúsund krónur.

Nú má sjálfsagt lengi deila um það hvað er list. Andy Warhol staflaði eitt sinn upp súpudósum og kallaði listaverk sem selt var og mörgum er í fersku minni hin fræga heysáta sem Súmarar settu upp á Skólavörðuhöltinu, sællar minningar. Vel má vera að kaffimálið hafið þannig orðið að listaverki við það að heilög Jóhanna drakk úr því en ekki er það álit allra listamanna hér í bæ að svo hafi verið. Benda þeir margir á að þeir séu ekki allt of sælir er kemur að fjárveitingum til sjónlista. Því svöruðu forsvarsmenn Sjónlistamiðstöðvarinnar til að þetta ætti ekki að rýra það fjármagn sem ætlað væri til listaverkakaupa þar sem í bókhaldi miðstöðvarinnar yrði þetta flokkað sem auglýsingakostnaður. Og vel má vera að þetta hafi verið glimrandi auglýsingabragð, því listir á Akureyri eiga almennt ekki sérlega greiða leið að fjölmiðlum þessa lands. Og vonandi verður þetta til að bærinn mæti allur til að berja augum kaffimálið dýra þegar það verður til sýnis í Listasafninu á vori komanda.


Fatlafól á ferðalögum

Sumarið er í nánd og þar með sumarfríin með öllum sínum ferðalögum. Forsvarsmenn ferðaskrifstofanna segja að nú sé runnin upp sú gleðitíð að barnfjölskyldum sé að fjölga í sólarlandaferðum. En það eru eflaust fleiri sem vilja lyfta sér á kreik. Heyrst hefur að þau séu allnokkur fatlafólin sem hyggja á ferðalög þetta sumarið enda búa þau flest við þau einstöku forréttindi að fá að greiða tvöfalt jafnvel þrefalt fyrir ferðina. En mörgum þykir það alveg óskapleg frekja að þetta lið skuli dirfast að minnast á að það vilji ferðast. Menn eru ekkert voða hrifnir af því að sjá hjólastóla þvælast um á ströndunum eða inni á hótelbörum og því er um að gera að gera þeim eins erfitt og hægt er að ferðast. Enda fær þetta fólk hvort eð er pening frá skattborgurum fyrir að gera ekki neitt. Nú tilheyrir sá sem þetta ritar þessu forréttindapakki sem hyggst fara í ferðalag til útlanda í vor, verandi sjónlaus í hjólastól. Ferðinni er heitið í viku til Slóveníu en hún hefði sennilega ekki verið möguleg nema vegna ómetanlegrar hjálpar ættingja og vina, svo og sérstaks liðleika Ferðaskrifstofunnar Nonna á Akureyri, sem skipuleggur ferðina og hefur staðið sig einstaklega vel í öllum undirbúningi og mættu margir taka hana sér til fyrirmyndar. En svona heppnir eru ekki allir. Hún var átakanleg frásögn stúlkunnar frá Akranesi sem þarf að borga þrefalt fyrir útskriftarferð sína þó svo að bekkjarfélagar hennar ætli að hlaupa verulega undir bagga fyrir hana. Í umræðum um þetta hefur nokkuð verið minnst á orlof húsmæðra, en komið hefur upp úr dúrnum að í þetta orlof fara 100 milljónir á ári. Þetta svokallaða orlof húsmæðra hefur sjálfsagt verið hið mesta framfararspor þegar þetta var sett á laggirnar upp úr 1950 en í dag eru það víst mest miðaldra stútungkerlingar sem eru búnar að koma börnum sínum á legg sem fara á kostnað þessa orlofs í ferðalag til útlanda. Þarna eru sem sagt til peningar til greiða niður kostnað til dæmis fyrir fatlaða og aðra hjálp sem þeir þurfa á að halda á ferðalögum ef bara blessaður velferðarráherra kemur auga á peningana og menn hafa dug til þess að hreyfa við kerfi sem löngu er dautt og úrelt sem er þarna einfaldlega vegna þess að það er.

Ský yfir Akureyri

Það er margra mat að kreppan hafi ekki orðrið svo illvíg á Akureyri sem hún varð víða annars staðar á landinu. Að sönnu var nú líka bent á að kreppan hafi í raun aldrei  komið til Akureyrar vegna þess einfaldlega að á Akureyri hafi aldrei verið þensla og menn aldrei fundið fyrir þessum gífurlegu peningum sem allir voru að tala um. En nú í dymbilvikunni eru farin að hrannast upp nokkur ský á velgengnishimni bæjarins. Samherjamálið var byrjunin, þetta mál er svo sem ekkert merkilegt. Svo lengi sem menn muna hefur sjávarútvegurinn ekki skilað gjaldeyri sínum til fólksins, honum hefur verið sólundað í miklar verslunarhallir í Reykjavík og aðra vitlausa fjárfestingu. Samherjamenn mega þó eiga það að þeir hafa ráðstafað töluverðu af sínum meinta stolna gjaldeyri til góðra mála í heimabyggð sinni. En því miður brugðust þeir við aðgerðum Seðlabankans með því að láta Þjóðverjana hætta viðskiptum hér og tefla þannig atvinnu fjölda fólks í tvísýnu í stað þess að til dæmis  loka skrifstofu sinni í Reykjavík og hætta öllum samskiptum við reykvísk yfirvöld. En samherjamálið er ekki það eina sem hrjáir Akureyringa, til stendur að loka verslun Europris á glerártorgi, búið er að segja upp öllu fastráðnu starfsfólki leikfélagsins, og kjarasamningar Bekromal voru felldir. En það dugir ekki að berja sér, menn verða að standa og hysja upp buxurnar, bæjarbúar verða að segja nei við metnaðrleysi og deyfð og hefja sumarið með baráttuþrek og kjark að leiðarljósi. Við verðum að passa okkur að láta bæinn ekki drabbast niður í tittlingaskít og vonleysi.

Markaðssett ungmenni

Fornt grískt spakmæli segir: Heilbrigð sál í hraustum líkama. Það er mikið talað um hreysti og heilbrigði nú á síðari árum og mikið talað um það hversu nauðsynlegt sé að blessuð sálin sé nú heilbrigð og sé örugglega í hraustum líkama. Líkamsræktir og hugleiðslur spretta út um borg og bý eins og gorkúlur.

Fyrir nokkrum árum byrjaði á Skjá einum þáttur þar sem fimm eða sex grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu kepptu í einhverju sem kallað var hreysti og var tilgangurinn með þessu efni að efla hreysti og gjörvileik hinna íslensku grunnskólanema. Síðan er margt vatn til sjávar runnið. Skólahreystin hefur flust yfir á Ríkissjónvarpið og orðið að heljarinnar bákni sem kostað er af Mjólkursamsölunni og nær nú til nokkurra tuga skóla um allt land. En nú spyrja margir hvort hreystin sé ekki farin að ganga dálítið út í öfgar þegar hún er farin að lita alla leikfimikennslu þannig að heilbrigt íþróttastarf í skólunum er að hverfa vegna hinna stöðluðu æfinga fyrir sjónvarpið.

Mjólkursamsalan hefur ef til vill ekki mikinn hagnað af þessu en þetta er hins vegar gott tækifæri til að skapa góða ímynd auk þess sem það gefur tækifæri til að markaðssetja þá einstöku hollustuvöru sem á boðstólnum er handa íslensku ungviði, svo sem skólajógúrt og skólaostinn, Gotta sem heitir víst eftir gömlum mafíósa og síðast en ekki síst sultuskyrið sem á sennilega ekki mikið skylt við það gamla góða skyr sem krakkarnir þekktu í sveitinni hér áður fyrr og borðað var með mjólk eða rjómablandi. Þarna má segja að búið sé að markaðssetja grunnskólana líkt og Gettu betur er orðið að markaðsvöru í framhaldsskólunum. En því sem áður voru heilbrigðir leikir og skemmtun hefur nú verið fórnað á altari blindrar markaðshyggju þar sem ungmenni þessa lands fæðast til að verða fyrstu fórnarlömbin.  


Óbilgirni flugfélaga

Vorið er farið að tylla tá sinni hérna á klakann og með vorinu vaknar ferðaþráin. Í fjölmiðlunum bylja sífellt auglýsingar frá hinum ýmsu flugfélögum um tilboð á fargjöldum til útlanda. Og þau munu víst vera fleiri en nokkru sinni fyrr flugfélögin sem fljúga til landsins í sumar. Maður heyrir auglýstar ferðir hvort heldur sem er til London eða Köben fyrir þetta 15 til 17 þúsund krónur og eitt tilboðið hljóðaði upp á 11.900.- krónur til London aðra leiðina með sköttum.

Þetta er allt gott og blessað en þegar við förum að skoða tilboðin á netinu kemur ýmislegt í ljós. Auglýst er tilboð frá Akureyri til Kaupmannahafnar á rúmar 12 þúsund krónur + rúmlega 2 þúsund króna flugvallarskattur og einhver 9.200 krónur sem kallað er önnur gjöld án þess að það sé nokkuð útskýrt. Þess má einnig geta að oft eru þessi tilboð blekking það er að segja sætin eru svo fá að þau eru jafnvel uppseld áður en tilboðin eru auglýst. Og einnig er ef til vill hægt að finna ódýrt fargjald út en maður verður svo að sæta því að kaupa annað heim á okurverði.

Flugfélög sýna hér oft mikla óbilgirni í samskiptum sínum við neytendur og svo virðist sem enginn neytendavernd sé í boði gagnvart þeim. Ef þú til dæmis kaupir ódýrasta fargjaldið verður það líklega ekki endurgreitt jafnvel þótt þú deyir nema jú þú hafir vit á því að kaupa forfallatryggingu sem kostar einhver þúsund. Og svo máttu oft ekki hafa neinn handfarangur meðferðis. Eitt breskt lággjaldaflugfélag mun meira að segja hafa krafist 8 punda greiðslu fyrir hjólastóla sem er gott ef ekki er bannað með alþjóðalögum. Það er mjög áríðandi að yfirvöld hér á þessari eyju úti í ballarhafi séu vel vakandi fyrir því að neytendum sé tryggð hin besta vernd gegn þeirri óbilgirni og eigingirni sem einkennir flugreksturinn og hefur lengi gert.


Nýtingin á kvótanum

Þá er nú blessað kvótafrumvarpið komið fram eftir langar og harðar fæðingarhríðir, miklar deilur milli flokka og innan flokka og mikinn hasar á öllum vígstöðum. Fjallið er búið að taka jóðsótt en hvort afkvæmið er lítil mús eða heljarstór fíll skal ósagt látið. Kvótinn alræmdi hefur nú verið skírður Nýtingarsamningar og kvótarnir eiginlega nefndir nýtingarleyfi samanber t.d. námaleyfi eða virkjanaleyfi og þannig á nokkurn skondinn hátt komið í framkvæmd þessari hugmynd um þjóðareign á auðlindinni sem fyrirhugað er að setja í stjórnarskrá. Segja má að þarna sé um nokkra framför að ræða, að koma á einskonar opinberri nýtingu á kvótanum. Önnur ákvæði hins nýja frumvarps orka mörg hver meira tvímælis. T.d. þá óar manni við allri þessari ríkisforsjá. Sagan hefur kennt okkur að þetta kerfi sem byggir á því að úthluta verðmætum gæðum í þessu tilfelli fiskveiðiheimildum frá einhverri pólitískri stjórnsýslustofnun í Reykjavík til byggðanna það er ekkert annað en ávísun á gríðarlega spillingu. Fram að þessu hefur mikið af arði kvótakónganna farið í byggingarframkvæmdir í Reykjavík en nú kann að bætast við útdeiling á forsendum þess að sá arður myndist.

 

 

 

 

 


Hótelbærinn

Það er mikil gróska í hótelrekstri hér á Akureyri um þessar mundir, að minnsta kosti ef marka má allar þessar hótelbyggingar sem spretta hér upp eins og gorkúlur um allan bæ. Auðvitað veit enginn hvaða ferðamenn ætla að gista á þessum hótelum því ekki er að sjá að nein teikn séu á lofti um að reynt verði að fjölga ferðamönnum í bænum. Jafnvel Icelandair sem hefur sett á stofn eitt þessara hótela hefur ekki fylgt því eftir með því til dæmis að hefja beint, reglulegt áætlunarflug hingað frá útlöndum, jafnvel tvisvar í viku. Þetta flug frá Keflavík hefur mjög takmörkuð áhrif, nýtist líklega einna helst Akureyringum sem vilja losna við gistingu fyrir sunnan. Og nú á meira að segja að fara að breyta gamla góða Sjallanum okkar í hótel, án þess að nokkur æmti eða skræmti í fjölmiðlum. Við Akureyringar eigum engan Pál Óskar til að grenja í fjölmiðlum út af Sjallanum, eins og hann gerði út af Nasa. Þó er þarna um algjöra hliðstæðu að ræða.

Vissulega á þó Akureyri mikla möguleika til að verða leiðandi ferðamannabær. Hið sérstæða miðverópska andrúmsloft bæjarins er aðdráttarafl fyrir marga og einnig vekja akureyskir skyndibitastaðir furðu Reykvíkinga sem hingað koma. Þá má ekki gleyma skíðalandinu en við getum vel markaðssett skíðalandið til dæmis bæði í Færeyjum og jafnvel í Danmörku. Ekki síst ef við komum á skíðasvæði á alþjóðavísu, líkt og í Sviss, Austurríki eða Frakklandi. Þá mættu ýmsir viðburðir sem nú eru einskorðaðir við Reykjavík, teygja anga sína hingað norður, til dæmis Hönnunarmars, Icelandair Airwaves og Listahátíð. Einnig gætu skapast talsverð umsvif í ferðaþjónustu kringum Norðurslóðasamstarfið, ekki hvað síst ef hér yrði reist Norðurslóðahús. Og þá er mikilvægt að þegar í stað verði hafist handa við að gera Vaðlaheiðargöng og stækka flugstöðina. Allt kostar þetta auðvitað peninga en mikilvægt er að koma öllum þeim peningum sem liggja hér óhreifðir í vinnu og nú er röðin komin að Norðurlandi.


Tvískinnungur Ögmundar

Vítisenglum, Banditos og öllu því dóti hefur borist liðsauki úr óvæntri átt. Í dag var verið að ræða á Alþingi frumvarp Ögmundar okkar innanríkisráðherra um auknar heimildir lögreglunnar til forvirkra rannsókna. Töldu sumir þingmenn frumvarp þetta ekki ganga nógu langt og ekki breyta miklu en Ögmundur vildi ekki ganga lengra og lagðist meðal annars alfarið gegn banni við þessum samtökum eða jafnvel því að merki og einkenni þessara samtaka sæjust á almannafæri.

Hér þykir manni Ögmundur sýna nokkurn tvískinnung. Hann hefur lengi barist fyrir því að troða í gegn áfengislagafrumvarpi þar sem lagt er bann við öllum óbeinum auglýsingum á áfengi, þar með talið auglýsingum á léttöli sem líkist umbúðum á sterkum bjór. Það virðist þannig vera miklu hættulegra fyrir íslenskan æskulýð að sjá eitthvert bjórvörumerki heldur en að sjá einhver merki Vítisengla eða einhverra annarra glæpasamtaka. Vitanlega eru slík merki sterk tákn fyrir unglinga og af þeim stafar dýrðarljómi.

Ef Ögmundur ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér þá ætti hann að leyfa bjórmerki á hverju götuhorni en gera bara bjórinn óæskilegan í umræðu þjóðarinnar. Það er besta forvörnin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband