Færsluflokkur: Bloggar
21.3.2012 | 22:00
Harmleikur í Frakklandi
Síðustu daga höfum við fylgst náið með hörmulegum atburðum sem átt hafa sér stað í Toulouse í Frakklandi. Ungur maður af alsírskum uppruna hefur gengið þar um og drepið fólk, nú síðast nokkur börn í gyðingaskóla. Komið hefur í ljós að þessi ungi maður hefur haft tengsl við hin illræmdu al-Qaedasamtök og er vafalaust haldinn blindri trúarfíkn. Svo blindri að siðferðiskennd hans hefur með öllu horfið. Maður á erfitt með að skilja hvers vegna einhver fordæmir glæpi Ísraelsmanna á herteknu svæðunum en fremur svo nákvæmlega þessa sömu glæpi sjálfur. Auðvitað gátu þessi aumingja gyðingabörn í Frakklandi ekkert gert að óhæfuverkum samlanda sinna í Ísrael.
Ef maður þekkir Frakka rétt þá eiga þessir atburðir ekki eftir að draga úr því landlæga hatri sem í Frakklandi viðgengst gagnvart Aröbum og á sér ýmsar sögulegar og félagslegar skýringar. Maður kynntist þessu vel á námsárunum þar. Arabar voru þá mjög áberandi í skólunum og voru ætíð litnir hornauga enda hópuðust þeir mjög saman. Einhvern veginn bar þó ekki á miklu trúarofstæki meðal þessara arabísku námsmanna og heldur virtust þeir taka trúna lítið alvarlega. Þeir þömbuðu bjór með öðrum ef svo bar undir og hálfskömmuðust sín ef maður spurði hvort það bryti ekki í bága við trúna. Hins vegar voru þeir öllu strangari varðandi svínakjötið. Það varð alltaf að vera eitthvað annað á boðstólnum ef svínakjöt var í matinn í stúdentamötuneytunum.
Eiginlega hefur það komið manni svolítið á óvart að hugsa um allt það hryllilega trúarofstæki sem margir ungir múslímar virðast vera haldnir í dag. Líklega er hægt að ánetjast trú eins og hverri annarri fíkn. Og þessi fíkn getur leitt af sér hræðilegri afleiðingar en flestar aðrar fíknir. En vonandi er að franska þjóðin fari ekki á límingunum eftir þennan hroðalega harmleik í Toulouse.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2012 | 21:20
Ljós Norðursins
Mikið ljós hefur kviknað yfir norðurhveli jarðar. Við Íslendingar höfum eignast okkar eigin Dalai Lama, að minnsta kosti að áliti vísra manna við háskóla í Boston. Ólafur Ragnar Grímsson er þar auglýstur sem hinn íslenski Dalai Lama, hið eilífa ljós Norðursins. Að sönnu hefur Ólafur Ragnar að því er virðist enga sérstaka trúarlega skírskotun og ekki er hann einhver gamall guð endurborinn.
En Ólafur hefur flutt með sér merkan boðskap um hlutverk Norðursins, um framtíð hins græna hagkerfis, vistvænnar orku og vistvænna lífshátta. Og þessi hugsun hans hefur gengið í marga, ekki síst marga bandaríska stjórnmálamenn á borð við Al Gore og Obama, enda Bandaríkjamenn allra manna umhverfisvænstir í orði samanber umhyggju þeirra fyrir hvölum á sama tíma og þeir eru stórtækustu hvalveiðimenn í heimi. Áköfustu leitendur að vistvænum orkugjöfum meðan þeir eru heimsins mestu notendur jarðefnaeldsneytis og komast varla hundrað metra án þess að vera á einkabílum. En mikið óskaplega er gott að einhverjir eiga sér eitthvað ljós þarna langt úr norðri til að boða okkur losun gróðurhúsalofttegunda og minnkandi olíunotkun meðan hraðbrautirnar stækka stöðugt og stækka og borgirnar verða óbyggilegar sakir mengunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2012 | 22:32
Blómstrandi kynlíf
Það er aldeilis að kynlífið blómstrar þessa dagana, ekki síst á öldum ljósvakans. Tilefnið núna er eitthvað frumvarp sem velferðarráðherra boðar um að skólahjúkrunarfræðingum og ljóðmæðrum verði heimilt að skrifa lyfseðla fyrir getnaðarvarnir stúlkna. Í allri umræðunni birtist frétt um það að stúlkur allt niður í ellefu ára væru farnar að stunda kynlíf.
Jú, maður hefur heyrt um þetta í Bandaríkjunum, einkum meðal svartra stúlkna í fátækrahverfum en ekki á Íslandi. Samkvæmt íslenskri hefð brustu allir í móðursýkiskast. Halda mætti að gjörvallar ellefu ára stúlkur í landinu lægju undir skólabræðrum sínum og fengju svo pilluna ávísaða án vitundar foreldra. Vitanlega er þessu ekki þannig varið. Hafi það gerst að ellefu ára stúlka hafi stundað hér kynlíf er þar um alvarlegt barnaverndarmál að ræða, enda stúlkur yfirleitt ekki kynþroska á þessum aldri.
Vandamálið er hins vegar stúlkur í kringum fimmtán ára aldur sem í mörgum tilfellum eru raunverulega farnar að stunda kynlíf og afstaða Guðbjarts í þessu máli verður að teljast skynsamleg. Öllu máli skiptir að forða stúlkum frá því að eyðileggja eigin framtíð með ótímabærum þungunum. En við verðum einnig að snúa að piltunum. Gera verður smokka mun aðgengilegri og helst ókeypis. Og umfram allt verður að afhelga kynlíf og gera það að eðlilegum hluta mannlegs lífs í stað þess að halda því í skúmaskotum öfuguggaháttar og klámvæðingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2012 | 22:18
Ný framboð
Skoðanakannanir segja okkur að þjóðin sé orðin hundleið á fjórflokknum. Að sönnu eru það margir sem álíta að gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn komi á hvítum hesti með alla útrásarvíkingana og bjargi málunum aftur. Aðrir halla sér að nýjum framboðum. Að minnsta kosti þrjú eru þegar í startholunum en svo virðist sem þau séu öll hvert örðu lík. Minna helst á sértrúarflokka sem allir trúa á sömu biblíuna en segja alla hina vantrúaða.
Stefnuskrár þessara nýju framboða eru að mestu leyti svipaður grautur í nokkurn veginn sömu skál. Allir vilja bjarga heimilunum en enginn gerir sér grein fyrir því að heimilunum verður ekki bjargað nema það komi niður á einstaklingunum og velferðarkerfinu. Allir vilja breyta stjórnarskránni, vitandi vits að það verður sennilega ekki gert, enda líklegt að helstu andstæðingar stjórnarskrárbreytinga muni vinna stórsigur í næstu kosningum. Og allir vilja ræða við Evrópusambandið og landa samningi sem allir vita að verður líklega felldur í þjóðaratkvæði nema hann verði þess betri og Evrópa nái að rísa úr núverandi öskustó. Nokkuð sem allir vona, því án sterkrar Evrópu er voðinn vís fyrir okkur öll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2012 | 22:26
Gamla góða Ísland
Við færðumst smá skrefi nær hinu gamla góða Íslandi í fyrradag þegar Alþingi afgreiddi með ofurhraða lög sem hertu á gjaldeyrishöftum. Það er nokkuð til í því sem Sjálfstæðismenn segja; höft leiða af sér alltaf meiri höft, því það þarf að loka fyrir glufurnar. Og ef svo heldur áfram sem horfir verða ekki mörg ár þangað til við verðum komin á það stig sem við vorum á fyrir nokkrum áratugum þegar að minnsta kosti fimm mismunandi gengi voru á krónunni og menn beittu ólíklegustu brögðum til að svindla á kerfinu. Margir urðu forríkir hreinlega á gjaldeyrisbraski auk þeirra gífurlegu fjárhæða sem runnu í vasa braskara með hinum tíðu gengisfellingum.
En á það hefur verið bent að blessuð krónan okkar muni ekki standast nema með þessum höftum. Aðalástæðan nú er sú að inni í kerfinu er allt yfirfullt af verðlausum rafkrónum sem meðal annars urðu til þegar við seldum dýru verði svikna vöru þar sem voru Jöklabréfin. Fyrir þessum bréfum var aldrei nein innistæða og þegar froðan fór úr hagkerfinu urðu þau auðvitað verðlaus. En eigendur þeirra vilja skiljanlega ekki viðurkenna þetta og skítblankur íslenskur almúginn verður að borga brúsann. Líklega verður ekki hægt að afnema gjaldeyrishöftin og búa við krónuna áfram nema með því að taka þetta út snögglega, fleygja burt verðlausu krónunum. En til að forðast kollsteypu verður annað hvort að afnema verðtryggingu með öllu eða setja verðtryggingu á laun og bótagreiðslur. Annars er hætta á neyðarástandi og skorti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2012 | 22:10
Læstur fótbolti
Nokkra athygli hefur vakið sú frétt að íslenski fótboltinn verði að heita má allur læstur inni á 365 á komandi sumri. Þeir kváðu hafa keypt einkarétt á sýningum frá Íslandsmótinu af einhverjum Þjóðverjum sem eiga sýningarréttinn. Nú spyr maður sig hvern fjandann Þjóðverjar eru að gera með það að eiga sýningarrétt á íslenskum bolta. Hann skiptir engu máli úti í Evrópu nema ef til vill ef einhverjir hafa gaman af því að sjá íslensku áhugamennina hoppa og skoppa í moldarflögum þeim sem hér kallast knattspyrnuvellir.
Auðvitað er það dagljóst að skítblankt Ríkisútvarpið hefur engin efni á að bjóða í þetta enda hefur það vart orðið efni á nokkurri dagskrárgerð sjálft. Til að mynda er laugardagurinn á Rás 2 allur kostaður, eins og hann leggur sig, auk bíómyndanna á laugardagskvöldum sem eru sýndar í samvinnu við eitthvert bílaumboð.
Palli gerir nefnilega stór mistök, hann stendur í að reka stóra fjölmiðlasamsteypu í blindri samkeppni við einkaaðila í stað þess að reka almannaþjónustu sem gæti réttlætt það fyrir skattborgurum að reglur yrðu settar sem kæmu í veg fyrir að dagskrárliðir á borð við íslenska boltann yrðu ávalt í opinni dagskrá. Sama má reyndar segja um ýmsa dagskrárliði aðra sem sameina þjóðina. Má þar nefna sem dæmi Spaugstofuna og Enska boltann. Ekkert mælir því í mót að settar verði reglur sem skylda fjölmiðla að hafa þessa liði opna fyrir almenning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2012 | 21:54
Sérkennileg vinátta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2012 | 15:17
Okursamfélagið enn.....
Undanfarna daga hefur mátt heyra í fjölmiðlum hljómfagrar auglýsingar frá Flugfélagi Íslands þess efnis að "ef ég sé orðinn leiður á að hanga í bíl skuli ég ferðast með stíl" að sjálfsögðu með téðu flugfélagi. Þetta er gott og blessað nema hvað það "að ferðast með stíl" finnst manni einhvern veginn merkja að það sé að ferðast með glæsibrag, jafnvel dýrt, með góða þjónustu og flottheit. Að sönnu er það vægast sagt dýrt að ferðast með þessu flugfélagi hvað sem líður þjónustu þess og glæsibrag. En það má líka segja að ef maður leggur þessa merkingu í orðtakið "að ferðast með stíl" þá á það einnig að nokkru leyti við um það að hanga í bíl því ekki er það heldur neitt sérlega ódýrt. Hvort tveggja eru þetta greinar af meiði þess sem við getum nefnt Hið íslenska okursamfélag.
Það er sama hvert litið er, alls staðar blasir okrið við. Og að sjálfsögðu gengur hið opinbera á undan með góðu fordæmi og hækkar skatta á öllu, lifandi sem dauðu. Og eftir höfðinu dansa limirnir. Fjölmiðlar laumast til að hækka áksriftir sínar án þess að tilkynna, sérfræðilæknar búa til nýtt gjald upp á 3500.- krónur þegar Sjúkratryggingar vilja ekki semja og ýmsum laumugjöldum er komið á án þess að nokkur taki eftir. Og öll er þjóðin orðin svo samdauna þessu samfélagi að enginn æmtir né skræmtir..... en þegar á að hækka lítillega laun eða tryggingabætur verður fjandinn laus. Hrópað er og kallað um að verið sé að setja þjóðina á hausinn, að kassinn sé tómur og því um líkt.
Á meðan situr Björgólfur úti í London og kaupir símafélag í Búlgaríu fyrir einhverja milljarða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2012 | 14:37
Landsdómsraunir
Sá sögulegi atburður hefur gerst að Landsdómur hefur tekið til starfa í fyrsta skipti og tekið fyrir mál Geirs H. Haarde sem þangað kom frá Alþingi. Þegar lög og reglur um Landsdóm voru sett á sínum tíma hefur sennilega enginn gert ráð fyrir því að til þeirra þyrfti einhvern tímann að grípa og þar af leiðandi ekki hugsað út í þann vanda sem leiða myndi af því að Alþingi kæmi fram sem ákæruvald.
Það er nokkuð til í því sem Sjálfstæðismenn halda fram að Landsdómur sé pólitískur. Einfaldlega stafar það af því að Alþingi er auðvitað pólistískt. Samkvæmt stjórnarskrá eru þingmenn að sönnu eingöngu bundnir af eigin sannfæringu en í framkvæmd merkir það í raun að þingmenn eru bundnir af sannfæringu þess flokks sem þeir eru kosnir fyrir. Þetta sannaðist reyndar þegar greidd voru atkvæði í þinginu um ákærurnar fyrir Landsdómi og af þessu stafa Landsdómsraunirnar núna líka. Hið pólistíska eðli réttarhaldanna virkar nefnilega einnig á hinn veginn.
Við þær vitnaleiðslur sem þegar hafa farið fram hefur komið í ljós að öllum vitnum ber að miklu leyti saman í vitnisburði sínum. Ein skýring þess kann að vera sú að flestir þeir sem vitni bera heyra til þeirrar fámennu klíku sem stjórnar öllu á Íslandi í dag og sem þekkist öll vel, spjallar saman daglega og drekkur saman kaffi. Það væri eiginlega næstum því undarlegt ef mikið bæri í milli í vitnisburði þessa fólks. Hitt er svo annað mál að þessar vitnaleiðslur hafa leitt það í ljós að ef til vill hafi ekki verið neitt hægt að gera í málunum en að á hinn bóginn hafi hinu raunverulega ástandi alveg verið leynt fyrir þjóðinni í meira en hálft ár. Hrunið hafi í raun þegar verið búið að eiga sér stað um áramótin 2008 þó menn hafi ákveðið að halda veislunni áfram fram í október.
Betra að geyma timburmennina fram undir jól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2012 | 20:23
Meðvirkni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)