Færsluflokkur: Bloggar

Stéttaskipt heilbrigði

Athyglisverð rannsókn var nýlega gerð á heilbrigði framhaldsskólanema og kom í ljós sú óvænta staðreynd að nemendur bóknámsbrauta voru alla jafna mun heilbrigðari en nemendur verknámsbrauta. Því kemur þetta á óvart, að manni hættir til að halda að nemendur bóknámsbrauta séu almennt meiri kyrrsetumenn og lífsstíll þeirra óhollari. Svo virðist þó ekki vera og læðist að manni sá grunur að skýring þessa sé að hluta til stéttaskipting.

Nú vitum við að nemendur bóknámsdeilda koma almennt úr svokölluðum betri fjölskyldum, hafa meiri fjárráð og betri aðgang að upplýsingum um hollt líferni jafnframt því að vera ef til vill móttækilegri fyrir slíkar upplýsingum. Á þessu þyrfti þó að gera frekari rannsóknir. Til dæmis voru þessir þrír skólar allir í Reykjavík og spurning hvort hér geti ekki einnig verið um mun milli byggðarlaga og landssvæða að ræða. Í þessu sambandi má minna á rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum og leiddi í ljós að konur á Akureyri væru mun feitari en konur í Hafnarfirði. Þetta gefur vissar vísbendingar.

Þá er líka spurning um það hvort að forvarnir í landinu séu ekki á alvarlegum villigötum, hvort ekki verði að breyta þeim, leggja ef til vill minna fé í beinar forvarnir en meira fé í að jafna lífskjör þjóðarinnar, gera fólk til dæmis almennt nógu efnað til að stunda tískulífsstíl millistéttarinnar í Reykjavík sem felst í að fljúga út um allar koppagrundir í því skyni að leika golf eða hlaupa maraþon.


Blind mannréttindi

Jæja, þá eigum við Norðlendingar líklega bráðum von á karlinum honum Nupo. Ja, nema gaurnum honum Ögmundi takist enn og aftur að koma í veg fyrir að þetta framfaramál Norðlendinga nái fram að ganga. Auðvitað fögnum við Nupo þó svo ekki sé það alltaf voðalega smekklegt sem hann lætur út úr sér í kínverskum blöðum.

En koma Nupo vekur líka upp þessa spurningu með samband mannréttinda og viðskipta. Það er ekki hægt að segja að Kínverjar séu beinlínis heimsmeistarar í mannréttindum og nýjasta dæmið um það er þessi blindi lögfræðingur sem strauk úr stofufangelsi og leitaði ásjár bandaríska sendiráðsins sem líklega hefur ekki talið það þjóna hagsmunum Bandaríkjamanna best að veita honum skjól þar heldur afhentu hann kínverskum stjórnvöldum gegn óljósu loforði um grið. Reyndar hafa Bandaríkjamenn ekki úr háum söðli að detta þegar að mannréttindum kemur.

Hitt er athyglisvert að kínverskum stjórnvöldum finnst það svara kostnaði að ofsækja blindan andófsmann og má þar segja að fatlaðir hafi þarna náð ákveðnum réttindum. Líklegt er að á Vesturlöndum, þar með talið Íslandi, myndu menn aðeins kinka kolli ef fatlaður maður væri með pólitískt andóf og segja: "Jæja greyið, honum líður eitthvað illa í dag."


Keyptur áróður

Mikið er skrafað og skeggrætt um kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar og sýnist sitt hverjum um þau. Hér skal ekki í sjálfu sér tekin afstaða til þeirra þó aðeins bent á að of mikil tilfærsla er í þeim á peningum frá landsbyggðinni til úthlutunarnefnda í Reykjavík. Svo sem ekki neitt nýnæmi í því en óneitanlega finnst manni allt tal Vinstri grænna um hagsmuni landsbyggðarinnar eitthvað hjáróma.

En það er annað atriði sem vert er að vekja athygli á. Að undanförnu hafa dunið í eyrum svokallaðar tilkynningar í útvarpinu frá ýmsum aðilum, ekki síst samtökum úterðarmanna í ýmsum byggðalögum, þar sem þessum frumvörpum er fundið flest allt til foráttu. Ein helsta röksemdin fyrir því að reka hér ríkistútvarp er sú að það tryggi hlutlausa umfjöllun um öll mál. Ekki er það beinlínis í þeim anda að hagsmunasamtök geti þannig keypt áróður og undarlegt að engar reglur skuli um þetta gilda. Jú, það má segja sem svo; aðstandendur frumvarpanna ættu að geta auglýst ágæti þeirra einnig, þó þeir hafi einhverra hluta vegna ekki látið af því verða.

Þess má einnig geta að hægt er að finna dæmi um að kostun dagskrárliða hafi haft beinlínis áhrif á dagskrárgerð ríkisútvarpsins. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir verja tilveru þess.


Sprellið um Bessastaði

Baráttan um Bessastaði er æ meir farin að taka á sig mynd eins allsherjar sprells. Nú þegar eru frambjóðendur orðnir átta sem merkir að tuttuguþúsundasti hver maður frá 35 ára aldri á Íslandi sé að bjóða sig fram til forseta. Og mörg hver eru þessi framboð miklu líkari einhvers konar skrumi eða gríni og vart hægt að taka þau alvarlega. Hitt hefur aftur átt sér stað að hæft fólk hefur ekki viljað taka þátt í sprelli þessu. Vísast eru frambjóðendur flestir hið ágætasta fólk en hvort það á endilega erindi á Bessastaði er dálítið annar handleggur. Það getur verið gott að blessað að vinna að friði í heiminum eða vinna að því að bæta hag heimilanna en slíkt getur út af fyrir sig varla talist nægjanlegt til þess að vera hæfur til að sitja á Bessastöðum.

Margir lögðu upp með það í byrjun að finna einhvern sem fær væri um að steypa Ólafi Ragnari en nú virðist svo komið að hann verði ef til vill kosinn forseti með minnihluta atkvæða ef atkvæði annarra frambjóðenda dreifast. Manni dettur í hug hvort hér mætti ekki ráða bót á með því að taka upp franska kerfið, það er allir biðu sig fram í fyrri umferð þar á meðal þeir sem auðsjáanlega bjóða sig fram til að vekja athygli á einhverju málefni. Í seinni umferð yrði svo kosið milli tveggja efstu frambjóðendanna þannig að forseti hefði alltaf fylgi meiri hluta þjóðarinnar. Raunar er þetta kerfi líka notað í Frakklandi við þingkosningar sem leiðir af sér að þar myndast í raun hálfgert tveggja flokka kerfi. Slíkt kerfi myndi án efa stuðla að meiri stöðugleika og hindra myndun máttlausra samsteypustjórna.

En sem sagt nú fara í hönd skemmtilegar vikur. Menn draga að vísu í efa hlutdrægni sumra fjölmiðla að þar sé tilteknum frambjóðendum hampað en alla veganna þá verður þetta örugglega skemmtilegt og sprenghlægilegt þó svo Bessastaði setji ef til vill nokkuð niður.


Hatur og tjáning

Þeir voru eitthvað að funda í Reykjavík á dögunum um hatursáróður, eðli hans og afleiðingar. Spurningin um hatursáróður er mjög merkileg. Hún er reyndar spurning um það hversu langt maðurinn megi ganga í því að níða aðra menn og hvar mörk tjáningarfrelsis og hatursáróðurs liggja. Við getum flest eða öll verið sammála um að það er ekkert göfugmannlegt við það að níða niður eða gera lítið úr fólki vegna þess hvernig það er á litinn, vegna kynhneigðar þess, fötlunar eða annarra slíkra sérkenna.

En það er spurning: Hvenær er farið að gera lítið úr einhverjum? Það getur verið að gera lítið úr einhverjum að segja til dæmis að hann sé alkóhólisti, aðrir gorta sig af þessu sama. Svertingi sem gert er lítið úr getur sagt á móti að hann sé stoltur af því að vera svertingi, þeir hafi lagt margt mikilvægt til heimsmenningarinnar, til að mynda í tónlist. En auðvitað geta hatursáróður og haturstilfinningar haft gífurlega mikinn skaða í för með sér, eins og við sjáum og heyrum daglega þegar við fylgjumst með hinum norska Breivik sem venjulegir menn álíta vissulega ekki með öllum mjalla en segist sjálfur vera heilbrigðari en þeir sem yfir honum rétta.

En mörkin milli haturs og tjáningar er erfitt að setja og líklega verður okkar heilbrigða skynsemi fyrst og fremst að dæma þar um.


Einskonar fötlun

Nokkra athygli og umræðu hefur vakið frétt þess efnis að  forráðamenn Hörpunnar dýru, fínu og fölsku hafi ákveðið að hætta að sérmerkja bílastæði konum og fötluðum. Bílastæði sérmerkt konum munu þekkjast víða í útlöndum og eru þau rökstudd eiginlega með því að konur eigi á hættu vegna kynferðis síns að verða fyrir ýmiskonar ofbeldi, og má eiginlega segja að þetta atriði jafngildi því að þær búi við einskonar fötlun, þar sem karlmenn verða aldrei fyrir líkamlegu ofbeldi sökum þess að þeir eru karlmenn. Ofbeldi gegn konum  er því miður einn leiðinlegast fylgifiskur hinna karllægu menningar sem ríkt hefur á jörðinni allt frá tímum goðsagnarinnar um Adam og Evu ef ekki lengur. En því miður hefur baráttan gegn þessum ósóma gengið út í öfgar með tilkomu femínista. En konur í þeim hópi hafa sennilega barist hvað harðast gegn sérmerktum bílastæðum fyrir konur í bílastæðahúsum. Þeirra er ábyrgðin, ef konum er nauðgað í myrkvuðum hornum bílastæðahúsa í Hörpu eða annarsstaðar. 

Tveir þorparar

Eitt vinsælasta lagið á Íslandi í dag heitir Þorpið og er flutt af þeim félögum Bubba Morteins og Mugison. Hið ágætasta lag með tregafullum texta og flutningur þess með ágætum. Þeir félagarnir Bubbi og Mugison hafa í fjölmiðlum kallað sig hálfgerða "þorpara" og  má vel vera að svo sé. Annar þeirra fór aldrei suður vegna þess að hann var næstum alltaf fyrir sunnan en hinn fór suður í haust vegna þess að það eru víst engir listaskólar á Tálknafirði og er þetta í raun kjarni textans. Fólkið hefur sogast suður úr þorpunum á vald bankanna og kvótagreifanna, því í þorpunum var ekkert um að vera. Það er auðvelt að finna beiskjuna í texta lagsins en því miður hafa höfundarnir ekki náð að skilja orsökina, til dæmis það hvernig fjármagnið hefur verið sogið burt úr þorpunum og fjárfest í allskonar Kringlum og Smáralindum. Eftir situr gamla fólkið með nál og tvinna þegar unga fólkið er komið suður í bankana leitandi að nýjum tækifærum fyrir börnin sín. En það er þversögn í textanum. Mugison ætlar að vera kyrr í þorpinu sínu vegna þess að konan hans er ólétt og það er víst að það er drengur og það er honum ljóst að þessum dreng bíður ekki mikil framtíð í þessu aldna samfélagi. Á Ólafsfirði er meðalaldur ríflega 41 ár á meðan hann er um 36 ár á landsvísu.

Pylsustríðið

Frá því var sagt í fréttum um daginn að skollið væri á stríð milli Slóveníu og Austurríkis. Deiluefnið er pylsa ein sem borðuð er í landamærahéruðum þessara landa og bæði telja þjóðarrétt sinn. Er nú svo komið að fyrir liggur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verður að skera úr um það hvort pylsa þessi sé austurrísk eða slóvensk. Deilur á borð við þessa eru svo sem ekkert einsdæmi innan Evrópusambandsins. Ríki eða landssvæði hafa krafist einkaleyfis á nöfnum framleiðslu sinnar. Þannig má ekkert kampavín koma nema frá Champagne í Frakklandi og koníak frá Cognac í sama landi. Grikkir hafa einkaleyfi á fetaosti og Ítalir á mozarella.

Við Íslendingar ættum að taka okkur svona einkaleyfi á skyri áður en t.d. Norðmönnum dettur í hug að fara að framleiða það, rétt eins og þeir hafa gert við saltfisk sem þeir hafa flutt til Spánar og kallað íslenskan.

En mikið hlakkar maður til nú í sumar þegar leiðin liggur til Slóveníu að smakka hina umdeildu pylsu og sjá hvort hún er þess virði að fara í stríð út af henni.


Einkavædd náttúra

Heill þotufarmur kínverskra ráðamanna var á ferð hér á landi á dögunum. Var að vanda farið í ferðalag með þá um Suðurland og sýndir þar helstu merkisstaðir eins og Þingvellir, Gullfoss og Geysir, Hellisheiðarvirkjun og svo framvegis. Einnig stóð til að sýna þeim hið svokallaða Ker sem mun vera mikið náttúrfyrirbæri þarna suðurfrá.

Nei! Lok, lok og læs!

Íslensk og kínversk stjórnvöld voru ekki þóknanleg eigendum Kersins og því fengu þeir ekki að sjá dýrðina. Nú veit maður að útgefandi Moggans og þó einkum ritstjóri hans eru ekkert yfir sig hrifnir af þeim sem halda um stjórnvölinn hér á landi um þessar mundir en óvíst verður samt að telja að þeir hafi heimild til að hindra för fólks að náttúruperlum, jafnvel þó að þær séu á einkalandi. Einhvers staðar mun vera til eitthvert lagaákvæði sem segir að mönnum sé frjáls för um landið í lögmætum tilgangi. Hvort lög standi til að hægt sé að banna aðgang að einkalandi er frekar óvíst. Svo virðist þó sem hægt sé að banna viss afnot af einkalandi svo sem til beitar, berjatínslu og veiði en ekki hefur svo ég viti til reynt á það hvort menn geti bannað að skoða land eða einhverja hluta þess, til dæmis ef að stjórnmálaskoðanir þeirra eru ekki þóknanlegar eigendum hins umrædda lands. Best af öllu væri þó ef þetta dæmi ýtti við mönnum að setja lög sem gæfu öllum skýlausan rétt á því að skoða hinar mörgu ómetanlegu náttúruperlur þessa lands. 


Hið týnda Guðsríki

Oft hefur maður skemmt sér við að horfa á sjónvarpsstöð eina sem nefnd er Omega og er að minnsta kosti að eigin sögn kristin mjög. Telur jafnvel þá sem ekki aðhyllast hennar útgáfu af kristni aðeins vera svokallaða nafnkristna og ekki aðhyllast frjálsa kristni. Reyndar er þessi frjálsa kristni svo óskaplega hlekkjuð af bókstafstrú að hinn minnsti andblær hristir hana og skekur.

Á miðvikudögum er á dagskrá þessarar stöðvar sérkennilegur þáttur sem nefnist Ísrael í dag og er þegar best lætur sakleysislegur þvættingur nytsamra smábarna en í versta falli illa gerðir áróðursþættir ættaðir beinustu leið frá Mossad hinni alræmdu leyniþjónustu Ísraelsmanna. Í þætti þessum fyrir viku var nokkuð fjallað um meintar ofsóknir sem kristnir mættu þola í týnda Guðsríkinu þar sem réðu ríkjum svokallaðir Palestínumenn. Reyndar kom í ljós ef vel var hlustað að sumir kristnir menn nutu þarna velþóknunar til dæmis Ortodoxar, kaþólskir og fleiri en svo fylgdi sögunni að baptistaprestur einn, bandarískur hefði sætt ofsóknum. Mikið rétt þessi baptistaklerkur hefur auðvitað ekki fengið að boða hið svokallaða orð þar sem kjarninn er að Ísrael sé hið útvalda ríki Guðs og Gyðingar eigi þar með óskoraðan rétt til lands á þessu svæði. Ekki myndum við Íslendingar taka því þegjandi ef norskir ásatrúarmenn kæmu hingað og segðu að Ísland tilheyrði hinni útvöldu, germönsku þjóð Noregs.

Hafi Gyðingar einhvern tímann átt einhvern rétt til að ráða Kananlandi þá hafa þeir fyrir löngu misst þennan guðlega rétt vegna framkomu sinnar. Munum að það voru Gyðingar en ekki Palestínumenn sem fyrir fáum árum frömdu helgispjöll í Fæðingarkirkjunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband