Auglýsingar ljúga

Ókeypis myndlykill hjá símanum, Lambakjöt léttur réttur, Ef þú ert tryggður færðu það bætt. Þetta er texti úr þrem ólíkum auglýsingum sem eiga þó eitt sameiginlegt þetta eru auglýsingar sem ljúga. Vissulega fær maður myndlykil hjá símanum en einungis ef maður gerist áskrifandi af adsl sjónvarpi. Ekki held ég að margir næringarfræðingar geti tekið undir það að lambakjöt sé léttur réttur og ef þú ert tryggðuru færðu það bætt nema annað sé tekið fram í smáa letrinu. Hér eru aðeins nefndar auglýsingar sem beinlínis ljúga eða sleppa óþægilega hlutanum. Mikið er svo um auglýsingar sem annað hvort blekkja eða segja aðeins hluta af sannleikanum, gott dæmi um það eru hinar margfrægu auglýsingar ferðaskrifstofanna þar sem gefin eru meðaltalsverð á hópa t.d. hin vinsæla ferðaskrifstofufjölskylda hjón og tvö börn 2-11 ára. Auðvitað er einstaklingaverð ekki auglýst því að verðið er svo hátt að upphæðin virkar fráhrindandi. Blekkingar í auglýsingum eru líka mjög algengar t.d. að efni sé skjannahvítt eftir eitthvert þvottaefni, bílar í fallegu íslensku umhverfi og þvengmjóar stúlkur baðaðar í fínustu olíu en þarna erum við reyndar komin inn á blekkingar sem geta orðið hættulegar. Svona auglýsingar geta skapað miklu meiri hættu en jafnvel það að einhver bjór sé góður eða macdonalds sé fínasta máltíð og þessar bláeygðu samfylkingastelpur verða að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að taka út fyrir sviga þátt eins og óholl matvæli. Margt fleira hangir á spítunni t.d græðgisvæðing samfélagsins. Ayglýsingar eru hluti hinnar allt um lítandi græðgisvæðingar.


Leikhús fáránleikans

Fyrir um hálfum mánuði brá hugskotið sér bæjarleið og sótti borgina heim. Allt gekk samkvæmt áætlun en að heimsókn lokinni situr sú hugsun eftir að maður hafi brugðið sér þangað í eitthvertskonar leikhús fáránleikans. Hraðinn, umferðaröngþeitið og hugsunarleysið það er einhvernveginn eins og enginn megi vera að því að lifa lengur, allur tími fólks fer í að gera eitthvað sem enginn veit hvað er eða þá í að komast á milli staða. Táknmynd þessa er t.d. Þetta dvalarheimili Sjálfsbjargar þar sem vöntunin á starfsfólki er orðin svo mikil að oft eru aðeins 3 á vakt á deild þar sem eru 13 íbúar sem þarnast mikillar umönnunar og þar sem meira er fyrir kemur að enginn þessara þriggja aðila skilur íslensku. Enginn íslendingur fæst lengur til þess að vinna umönnunarstörf vegna lágra launa sem vart nægja fyrir húsaleigunni og tveggja lífsnauðsynlegra bíla á heimili því auðvitað labbar enginn 20 km. í vinnuna. Samt er það nú svo að allir flykkjast þarna suður, allir eru spenntir fyrir því að sitja þrjár stundarfjórðunga í umferðarteppu á morgnanna og annan eins á kvöldin, hafa engan tíma til að gera neitt af því að menn eru ekkert að gera. Þegar maður fer suður vill maður afkasta svo og svo miklu en kemst svo að því að maður kemst ekki yfir helminginn af því. Eitt verður maður þó að viðurkenna að líklega er hægt að skilja þennan mikla áhuga Reykvíkinga á umhverfismálum. Menn sjá hálendið fallega og fossana í rómantískum dýrðarljóma frá Reykjavík, rétt eins og Jónas Hallgrímsson sá drangana sína í Öxnadalnum sitjandi út í Köben. Þannig er því líka varið með Steingrím J. hann er auðvitað ekki búinn að búa í Þingeyjarsýslu í marga áratugi og vill þar af leiðandi ekki sjá neitt álver á Húsavík, rétt eins og aðrir vinstri grænir þarna syðra skilur hann ekki að náttúruvernd verður ekki í askannalátið. Steingrímur eins og fleiri tekur fullan þátt í þessu leikhúsi fáránleikans. Þar sem átröskunarsjúkar stúlkur stíga hrunadans við undirleik. Lánskróna frá útlöndum í rústum vestlunarhallana.

Bæjarstjórnarklúðrun

Hún Sigrún Björk bæjarstjórinn okkar á ekki sjö dagana sæla nú um þessar mundir. Þetta byrjaði allt um síðustu Verslunarmannahelgi sem bæjarstjórn og bæjarstjóra tókst á ævintýralegan hátt að klúðra. Ýmislegt fylgdi á eftir það var enginn sómi í túninu hjá skipulagsyfirvöldum þarna inn í Naustahverfi þegar ákvörðun þeirra var hnekkt þess efnis að þar mætti rísa tveggja hæða hús þar sem annars eru þau ekki heimiluð. Reyndar hafa öll skipulagsmál á Akureyri verið í lausu lofti um nokkurn tíma og ekki er nóg með að þetta Sómatúnsmál hafi farið eins og það fór því svo tapaði bærinn óvænt máli útaf skúr einum út í þorpi þar sem stendur eina verslun Síðuhverfisins og bænum var mikið í mun að losna við hana til þess að geta byggt bílastæði. Ekki verður svo minnst á Skipulagsyfirvöld að ekki sé rætt um Íþróttavöllinn. Þetta frímerki hefur lengi verið nokkuð umdeilt og fyrir einhverju síðan hélt maður að barið hefði verið í gegn að þarna kæmi Hagkaupsverlsun en nei, blessunin hún Sigrún vill þarna ekkert Hagkaup, hún ætlar að hætta á að Baugur falli frá því að fjárfesta hér svo milljónum skipti og enginn veit hvað á að gera við Íþróttavöllinn, það á víst ekki að spila fótbolta þar lengur en vera kann að svæðið falli í skaut einhvers af vildarvinum bæjarstjórans og svo veit auðvitað enginn hvort fínu hugmyndirnar um miðbæinn sem komu fram á íbúarþinginu séu foknar út í veður vind. Vonandi stendur einhver steinn yfir steini þegar Sigrún BJörk kveður næsta vor.

Biblían og negrastrákarnir

Það hefur mikið gengið á hjá prestastétts þessara lands að undanförnu það eru ekki bara kynvillingarnir, fyrirgefið samkynhneigðir sem eru að velkjast fyrir þeim heldur einnig sjálf Biblían sem nýlokið er við að þýða. Margt er það nú víst orðið með nýjum brag. Bræður eru t.d. Orðnir systkyni og eingetinn er allt í einu orðinn einkasonur. Menn eru allt í einu farnir að sjá að ef til vill hafi hinir fyrri þýðendur ekki vel skilið Hebreskuna sína og Grískuna eða þá að menn hafa allt í einu bara uppgötvað að Guð almáttugur sé barasta orðinn gamaldags og forn í hugsun því þurfi svolítið að poppa hann upp. Vitanlega sjá allir að orðafari Biblíunnar hefur tekið mið af því orðafari sem menn notuðu á þeim tíma sem hún var rituð og af því samfélagi sem hún er sprottin úr. Við skulum taka sem dæmi að sjálfsagt hefur Móses þótt þrælahald eðlilegt þegar hann segir í boðorðinu: Eigi skaltu girnast eiginkonu hans, þjón hans né þræl hans. Ef við segjum þetta á nútímamáli hljómar setningin einhvernveginn þannig: Eigi skaltu girnast tölvu náunga þíns, flatskjá eða jeppa. Annað sem hugsanlega hefði mátt breyta er það sem segir í sköpunarsögunni að Guð hafi skapað konuna úr rifi Adams, þetta er líffræðilega rangt því það er konan sem ól af sér Adam en ekki öfugt fyrir utan það að enginn var til staðar sem hún gæti getið Adam með. Sennilega hefur Guð þessa tíma ekki búið þeirri líffræðilegu þekkingu sem til er í dag og því má spurja sig hvort ekki hafi verið nauðsynlegt að uppfæra Biblíuna til nútímaskilnings. Sjálfur talaði Jesús venjulegt alþýðumál sýns tíma og flutti dæmisögur úr daglega lífinu, margar t.d. úr landbúnaði sem allir skyldu og sé Guð Almáttugur þá hlýtur hann að gera sér ljóst að orðið verður að breytast með tíðarandanum til að það skyljist og mark verði tekið á því.

Í miðri Biblíuumræðunni stukku allt í einu upp á sviðið tíu litlir negrastrákar teiknaðir af hinum ástsæla Mugg, viðbrögðin létu ekki á sér standa. Allt í einu uppgötvuðu menn að þetta mikla Íslenska menningarverðmæti fól í sér mikla fordóma og kynþáttahatur. Voru það þessar stórkallaralegu teikningar Muggs ásamt notkun orðsins negri sem fór mjög fyrir brjóstið á mönnum. Hér gegnir það sama og um Biblíuna, verkið ber svip af hugsunarhætti þess tíma sem það var unnið. Það eru ekki ýkja mörg ár sem blökkumenn það er að segja negrar voru í vitund íslenskra barna blóðþyrstar mannætur sem börðust við góða og göfuga hvíta menn eins og Tarsan og í gamalli bíóauglýsingu máttu eitt sinn sjá að það væru ekta svartir leikarar sem léku í myndinni en ekki villimenn úr frumskóginum. Nú er þetta allt breytt negrarnir eru horfnir á braut meira að segja í Bandaríkjunum þar sem þeir kallast nú Afrískir - Ameríkanar og opinberlega köllum við þá ekki villimenn í dag heldur fátækafólkið í Þróunarlöndunum sem allir vilja hjálpa og þá helst ef hjálpin gefur okkur eitthvað í hönd.


Ríkið í Ríkin

Umræður standa nú sem hæst um þetta nýja áfengislagafrumvarp um það hvort leyfa eigi sölu bjórs og léttvíns í matvörubúðum. Einhvernvegin finnst manni umræðan vera endurtekning á umræðunni um bjórinn hérna um árið. Það er ekki líklegt að frumvarpið nái í gegn á þessu þingi til þess er umræðan ennþá alltof heit og tilfinningarík og í sjálfu sér er ekki víst að þjóðin sé enn orðin svo þroskuð að hún geti farið að umgangast áfengi á siðsamlegan hátt. Um það leikur alltof mikill ljómi bannhelgi í dag en það má ýmislegt gera í sjálfu sér án þess að fara að gefa þessa sölu frjálsa því ef menn vilja endilega láta Ríkið halda áfram að hafa vit fyrir sér þá má gera ýmsar umbætur. Fyrir það fyrsta þá er það áfengisaldurinn. Það má spyrja sjálfan sig hvort ekki sé óhætt að viðurkenna orðinn hlut og leyfa sölu bjórs og sölu léttvíns til fólks 16 eða 18 ára. Þá er spurning hvort ekki megi eitthvað megi fjölga útsölum þessara Ríkis í Ríkinu sem við köllum í dag Vínbúðir ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu en spurningin er hvort það þyrftu ekki að vera fleiri útsölustaðir t.d. á Akureyri. Einnig mætti spyrja sig hvort ekki mætti hafa útsölur á ferðamannastöðum. Þá má einnig hugsanlega breyta opnunartímanum til samræmis við það sem almennt gerist í verslunum einnig er spurning hvort ekki ætti að afnema þessa hræðilegu miðstýringu. Maður hefur heyrt að bjór sé keyrður frá Víking brugg á Akureyri í Sjallann um Reykjavík. Þá er þetta umboðsmannakerfi kapítuli út af fyrir sig, nokkrar heildsalafjölskyldur í Reykjavík hafa náð sér í umboð fyrir áfengistegundir en þar sem ríkið hefur einkasölu þurfa þessir umboðsmenn lítið annað að gera en að reyna að koma viðkomandi tegund inn í ríkið og hirða síðan umboðslaunin. Aftur á móti ef að fátækur námsmaður eða ferðamaður kynnist vínbónda í Frakklandi t.d. á hann varla þennan möguleika nema hann sé í skólaferðalagi með Versló. Sagt er að mörg vínumboð hafi fengist á skólaferðalögum Versló. Maður spyr sig af hverju útsölustjórar hafi ekki rétt til að velja að minnsta kosti að einhverju leyti þær tegundir sem á boðstolnum eru og einnig af hverju það er auðveldara að hafa rétt flokkskírteini til að verða stjórnandi í áfengissölu en að vera með próf í Vínfræðum. Auðvitað er auðveldara fyrir Ráðherramág að fá Vínbúð í verslunina sína en Villa viðutan að slökkva á bjórkæli.

Ríkið í Ríkinu

Umræður standa nú sem hæst um þetta nýja áfengislagafrumvarp um það hvort leyfa eigi sölu bjórs og léttvíns í matvörubúðum. Einhvernvegin finnst manni umræðan vera endurtekning á umræðunni um bjórinn hérna um árið. Það er ekki líklegt að frumvarpið nái í gegn á þessu þingi til þess er umræðan ennþá alltof heit og tilfinningarík og í sjálfu sér er ekki víst að þjóðin sé enn orðin svo þroskuð að hún geti farið að umgangast áfengi á siðsamlegan hátt. Um það leikur alltof mikill ljómi bannhelgi í dag en það má ýmislegt gera í sjálfu sér án þess að fara að gefa þessa sölu frjálsa því ef menn vilja endilega láta Ríkið halda áfram að hafa vit fyrir sér þá má gera ýmsar umbætur. Fyrir það fyrsta þá er það áfengisaldurinn. Það má spyrja sjálfan sig hvort ekki sé óhætt að viðurkenna orðinn hlut og leyfa sölu bjórs og sölu léttvíns til fólks 16 eða 18 ára. Þá er spurning hvort ekki megi eitthvað megi fjölga útsölum þessara Ríkis í Ríkinu sem við köllum í dag Vínbúðir ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu en spurningin er hvort það þyrftu ekki að vera fleiri útsölustaðir t.d. á Akureyri. Einnig mætti spyrja sig hvort ekki mætti hafa útsölur á ferðamannastöðum. Þá má einnig hugsanlega breyta opnunartímanum til samræmis við það sem almennt gerist í verslunum einnig er spurning hvort ekki ætti að afnema þessa hræðilegu miðstýringu. Maður hefur heyrt að bjór sé keyrður frá Víking brugg á Akureyri í Sjallann um Reykjavík. Þá er þetta umboðsmannakerfi kapítuli út af fyrir sig, nokkrar heildsalafjölskyldur í Reykjavík hafa náð sér í umboð fyrir áfengistegundir en þar sem ríkið hefur einkasölu þurfa þessir umboðsmenn lítið annað að gera en að reyna að koma viðkomandi tegund inn í ríkið og hirða síðan umboðslaunin. Aftur á móti ef að fátækur námsmaður eða ferðamaður kynnist vínbónda í Frakklandi t.d. á hann varla þennan möguleika nema hann sé í skólaferðalagi með Versló. Sagt er að mörg vínumboð hafi fengist á skólaferðalögum Versló. Maður spyr sig af hverju útsölustjórar hafi ekki rétt til að velja að minnsta kosti að einhverju leyti þær tegundir sem á boðstolnum eru og einnig af hverju það er auðveldara að hafa rétt flokkskírteini til að verða stjórnandi í áfengissölu en að vera með próf í Vínfræðum. Auðvitað er auðveldara fyrir Ráðherramág að fá Vínbúð í verslunina sína en Villa viðutan að slökkva á bjórkæli.

Aðgengileg Akureyri

Að undanförnu hefur talsvert verið fjallað um svokölluð ferlimál fatlaðra. Almennt er nú orðið viðurkennt að fatlaðir eigi orðið sama rétt og aðrir til þátttöku í þjóðfélaginu enda þegar allt kemur til alls líklega hægt að segja að flestir eða allir séu fatlaðir á einn eða annan hátt. Þannig getur einstaklingur sem fljótt á litið virðist alheilbrigðir vera ófær t.d. um að stjórna flugvél eða verða hershöfðingi. Því má segja að það að gera þjóðfélagið aðgengilegt sé réttindamál allra. Þó skortir mikið á að þjóðfélagið sé aðgengilegt öllum. Segja má að hugsunin um aðgengi hafi ekki orðið almenn fyrr en á allra síðustu áratugum og því eru oft tiltölulega nýjar byggingar fremur óaðgengilegar og ef við tökum byggingar sem reistar eru fyrir segjum 1960 þá er aðgengið að þeim fyrir fatlaða alls ekki til fyrirmyndar. Ef við beinum sjónum okkar að Akureyri sérstaklega þá má segja að nokkuð víða sé pottur brotinn í þessu efni. Þannig eru t.d. Ekki mörg veitingahús eða skemmtistaðir sérlega aðgengileg fötluðum, má þá fyrst þar nefna Sjallann þar sem aka þarf hjólastólum upp háan stiga og brattan til að komast inn í salinn þó fyrir það sé mælt í byggingarreglugerð þá hafa menn ekki tímt að setja þarna upp lyftu, þeir hafa þó mannað sig til þess að gera það í Leikhúsinu sem er þó enn eldri bygging. Nefna má það að kaffihús Kristjáns bakarís og yfirleitt verslanir Baugs eru til fyrirmyndar en slíkt hið sama má oft ekki segja um aðrar verslanir eða þjónustufyrirtæki. Hvað gangstéttirnar áhrærir þá erfiðara að aka á þeim í hjólastólum en í Tallin, því miður veit ég ekki hvort úttekt hefur verið gerð hér á Akureyri hvort heldur fyrir hreyfihamlaða, sjónskerta eða aðra fatlaða því nokkuð erfitt er um það að dæma hvort Akureyri stendur sig betur eða ver en önnur sveitafélög í þessum málum. Þjónusta við fatlaða er sennilega betri en víðast hvar á Íslandi það ætti því að vera metnaðarmál bæjaryfirvalda að aðgengismálin verði í þeim bestu lagi.

Svelgurinn fyrir sunnan


Föstudaginn 18. október héldu knattspyrnumenn lokahófið sitt á Brodway svo sem vani þeirra hefur verið undanfarin ár. Eins og venjulega var það lýst kjörið bestu og efnilegustu leikmanna, nokkuð óvænt var stúlka frá Akureyri kjörin efnilegust í kvennaboltanum og það var svo við manninn mælt svelgurinn fyrir sunnan fór í gang. Í hádegisfréttunum laugardaginn 19. október átti íþróttafréttamaður stöðvar 2 viðtal við stúlkukindina og spurði meðal annars hvort hún væri ekki á leið suður til stóru liðanna, sagði hún það mögulegt en ekki ákveðið. Hér verður að gera athugasemd, sú spurning vaknar hvort það sé eitthvað sjálfgefið að efnilegt fólk á landsbyggðinni sé dregið suður til hinna "stóru" liða. Reykjavík hefur á undanförnum árum verið að ná einokun á hverjum þættinum í þjóðlífinu hverjum á eftir öðrum og nú virðist vera komið að íþróttunum. Staðreyndin er sú að íþróttir ekki sýst knattspyrnan hafa verið í mikilli lægð hér á Akureyri að undanförnu og stór þáttur í því er að efnilegir leikmenn hafa umvörpum verð keyptir suður um leið og þeir hafa getað sparkað eitthvað. þar sem íþróttafélög hér hafa ekkert fjármagn til að halda í þá og í þokkabót þá hafa úrvalsdeildarliðin lánað fyrstu deildar liðunum á höfuðborgarsvæðinu góða menn sem þeir hafa ekki haft not fyrir líklega fyrst og fremst til að koma í veg fyrir það slys að landsbyggðarlið komi í úrvaldsdeildina. Fyndnasta dæmið um þetta voru auðvitað FH-ingarnir í Fjölni. Þessi lið fyrir sunnan eru ofurfjáð þar sem fyrir kemur að þau geta látið stórfyrirtæki jafnvel reisa fyrir sig heilu leikvangana og hallirnar eins og t.d. Vodafone gerði fyrir Val maður spyr sig nú bara hvers vegna stórfyritæki vill ekki veðja á lið eins og t.d. á Akureyri. Það sem liðunum okkar vantar er fjármagn til að kaupa leikmenn og reisa tilhlíðileg mannvirki og af hverju reisir Jóhannes í Bónus ekki glæsimannvirki á Þórssvæðinu og af hverju rýs ekki glæst Samherjasvæði hjá KA? Ef til vill er það metnaðarleysið sem er að draga mátt úr öllum íþróttum hér. ?

Bjórinn í búðirnar

Þá er blessað áfengið mætt á Alþingi enn eina ferðina að þessu sinni í formi frumvarps um að leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvörubúðum og eins og venjulega þá hafa þingmennirnir varla tíma til þess að tala um neitt annað þegar það er á dagskrá. Það eru vafalaust ýmis rök bæði með þessu og á móti en eins og venjulega þá eru þessi rök ekki færð fram heldur er málið rætt af jafn heitri tilfinningu og Evrópusambandið eða jafnvel sjálf stjórn fiskveiða. Sjálfstæðismenn fara mikinn og tala um verslunarfrelsi en Vinstri grænir aftur á móti tala frjálslega um það að áfengi sé ekki eins og hver önnur vara og að blessuðum unglingunum okkar sé ekki treystandi fyrir því að fara með áfengi, gleyma því að vísu í þessu sambandi að hver sá unglingur sem vill detta í það á í engum vandræðum með að útvega sér það nú þegar, sennilega hafa báðir aðilar nokkuð til síns máls. Það er eftil vill óeðlilegt að ríkið sé að versla með áfengi frekar en t.d. tóbak sem er jafnvel enn hættulegra, maður spyr sig hvers vegna ríkið hefur ekki einkaleyfi á smásölu tóbaks. Menn benda á að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu þess og kann svo að vera en ekki hefur þó alveg fyllilega verið sannað að tengsl séu þarna á milli þannig er t.d. áfengisneysla á mann miklu meiri á Grænlandi þar sem aðgengið er hvað erfiðast í heimi en á Spáni þar sem það er hvað auðveldast. Það sem líklegt er að gerist hér á landi er að sú þróun sem hófst með innleiðingu bjórsins árið 1989 muni halda áfram, menn muni drekka oftar en minna í hvert sinn. Eitt er það sem ekki hefur komið fram í þessu sambandi aðgengi að sterku víni mun verða mun torveldara þar sem áfengisverslunum ríkisins mun að líkindum fækka en á móti kemur að hugsanlega mun framboðið á léttu víni og bjór verða mun einhæfara sem sennilega mun valda vínáhugamönnum miklum vonbrigðum, það er nefninlega til vínmenning þó svo Árni Jónsen hafi ekki séð hana, hann hefði betur lesið menningarsöguna sína á Kvíabriggju heldur en að vera að burðast við að skapa listaverk. Vínmenning er eins og önnur menning, mismunandi frá landi til lands og hún á sér rætur langt aftur í tímann það sem mestu ræður um hana er hlutir eins og þjóðfélagsaðstæður, viðhorf, lagasetning, trúarbrögð og margir aðrir þættir. Vel getur verið að forvarnir skili einhverjum árangri í þessum málum þess ber þó að geta að forvarnir eru oft í besta falli óskhyggja.

Borgarstjórablús

Um það bil vika er nú liðin síðan meirihluti borgarstjórn Reykjavíkur sprakk með þvílíkum látum að slikt hefur ekki gerst síðan fyrir allmörgum árum þegar ríkisstjórn sprakk í beinni sjónvarpsútsendingu. Eins og með allar sprengjur þá hafa afleiðingar þessarar ekki enn komið fyllilega í ljós en það sem meira er enginn virðist vita í raun hvað olli henni. Sumir tala um Júdas í bjarnarlíki en aðrir segja að Villi hafi verið svolítið viðutan og slept því að lesa eitthvert minnisblað sem menn skildu eftir heima hjá honum. Menn týndu upp sprengjubrotin og klömbruðu saman meirihluta á þrem og hálfum tíma, skiptu í snarhasti á milli sín áhrifamestu stöðunum en geymdu smáatriði eins og málefnasamning og byttlingaverslun til síðari tíma. Síðastliðna viku hafa fjölmiðlar verið algerlega undirlagðir undir þetta mál og sjálfsagt er þjóðin löngu orðin þreytt á þessu en það er ýmislegt sem ekki hefur farið mjög hátt í allri þessari umræðu og má þar til nefna meðal annars þau áhrif sem þessi nýja staða hefur á landsbyggðina. Fyrst af öllu ber þar að nefna hið svokallaða flugvallarmál. Þeir Dagur og Björn hafa báðir lýst því yfir að Reykjavíkurflugvöll skuli flytja úr Vatnsmýrinni annað hvort upp til heiða eða út á sjó og að sveitavarginum komi þetta mál ekkert við. Þeim félögum skal hér vinsamlega bent á að vilji þeir flytja Reykjavíkurflugvöll þá er það yfirlýsing um að þeir vilji að Reykjavík hætti að vera höfuðborg landsins og rétt sé að aðrir taki þar við. Annað mál er þá eftirvill enn nær í tíma og það er ákvörðun dags um að setja 269 milljónir í að hækka laun umönnunarstétta, gott mál segja allir og þetta mál kann svo sannarlega að vera gott þó það lykti svolítið af þessu venjulega að skjóta fyrst og spurja síðan með því að fara að hækka laun þessarar stétta eru önnur sveitafélög sett í vanda og eftir að Hafró týndi þorsknum í vor standa ýmis sveitafélög mjög illa, það illa að þau standast ekki samkeppni við Reykjavík þar sem öll þenslan er. Mikið hefði manni nú fundist borgarstjóri betur hafa haft samráð við aðrar sveitastjórnir í landinu áður en hann hóf að leika þennan blús sinn. Eitt getum við hugsanlega lært af öllu þessu ef til vill er hér um að ræða fyrsta merkið um það að landið sé að þróast hættulega mikið í átt til borgríkis. Þarna varð sprenging í einu sveitafélagi sem skókoll allt þjóðfélagið, þetta gerðist í Aþenu, þetta gerðist í Róm og er ef til vill að gerast á Íslandi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband