16.000 kr. Læknisheimsókn

Fyrir kemur að landsbyggðarvargurinn þarf að bregða sér til læknis í höfuðborginni rétt eins og hinir útvöldu sem þar búa og til þess þarf oft að taka flugvélar. Að sönnu tekur Tryggingastofnun þátt í að greiða niðar þessar ferðir en oft með miklum eftirgangsmunum enda ef til vill vorkunn þar sem stöðugt er verið að stela frá henni peningum í milljónavís. Taka þátt í slíkum gerðum, oft gamlar heiðvirðar starfskonur með digri hjálp bannsettra öryrkjanna og auðvitað er afleiðingin óþarfa tortryggni gagnvart heiðvirðu fólki. En fargjöldin hjá einokunar flugfélaginu eru sem kunnugt er ekki neitt sérstaklega lág. Þannig verður sá sem þetta skrifar að greiða 16.000 kr. aukalega fyrir eina slíka læknisheimsókn auk allskonar aukakostnaðar sem til fellur og hugsanlega kostnaðar við fylgdarmann. Nokkuð hefur verið rætt um að undanförnu að koma á þurfi í innanlandsfluginu en ákveðin öfl innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar vilja ólm leggja stein í götu þessarar samkeppni og er sagt að þar eigi hlut að máli maður sem áður var talinn pólitískt lík af kjarnhirtum bloggara sem þarna hefur líklega óvart vakið manninn upp að dauðum eins og Jesús gerði með Lasarus forðum. Það vekur athygli að sumir þingmenn tala frjálslega um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárnar sem landsbyggðarþingmenn fá einhverja sérstaka umbun. Það væri fróðlegt að spyrja þá Mörð og Jón hvort það stríði ekki gróflega gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að sumir þurfi að greiða 16.000 kr. Fyrir að fara til læknis meðan aðrir þurfa ef til vill ekki að greiða nema u.þ.b. 130 kr. (eitt strætófargjald) til þess að fara til sama læknis.

Fatlafól með Haus..!

Einn er sá hópur fatlaðra sem ekki hefur mikill gaumur verið gefinn. Það er fólk með ýmsar mjög alvarlegar líkamlegar fatlanir en oftast með höfuðið í lagi oft á tíðum stórgáfað fólk og stundum vel menntað. Það hefur mikið verið gert í þágu þroskaheftra og jafnvel fjölfatlaðra og er það vel þó stundum þyki manni nokkuð mikið í ráðist eins og eitt sinn gerðist hér á Akureyri þegar af góðum hug, þroskaheftu fólki var gefið heljarstórt veggsjónvarp í fína nýbyggingu sem brotið var og bramlað held ég bara nokkrum dögum síðar. En gáfað fólk með líkamlegar fatlanir fær oft ekki svona þjónustu. Það er gjarnan geymt á einhverjum stofnunum innan um misjafnlega bilað fólk andlega sem veldur oft miklu álagi. Dæmi er um ungt fólk sem verður að hrökklast úr skóla vegna fötlunar, stundum bara af því að það fær ekki nógu mikla peninga frá kerfinu vegna þess að það vantar einhverjar vikur upp á 18 ára aldur. Þarna fór sem sjá mátti fyrir,  hækkaði sjálfræðisaldurinn hennar Jóhönnu sem leiddi til mannréttindabrota þar sem síst skildi auk þess sem allir vita nú hvernig barnaverndarkerfið virkar. Það má án efa margt bæta í kjörum fatlaðs fólks með gáfur en þetta fólk hefur ýmsar þarfir sem menn almennt tengja ekki svo mjög við fatlaða. Sumt af þessu fólki þarf t.d. á hjálp einkaritara að halda til þess að geta tjáð hugsanir sínar, sumt af því þarf að geta ferðast og notið menningarviðburða af ýmsu tagi. Má í því sambandi nefna að á Spáni eru sérhannaðir leigubílar fyrir hjólastólafólk niðurgreiddir af ríkinu þannig að þeir eru yfirleitt jafn dýrir eða ódýrari en venjulegir leigubílar. Búsetuúrræði þessa fólks eru einnig töluvert önnur, því hentar yfirleitt best að búa í sérútbúnum íbúðum innan um venjulegt fólk en ekki í geymslustofnunum á borð við Sjálfsbjörg t.d. En þess má geta að margt af þessu fólki kann illa við biðja um aðstoð samfélagsins því að nefnilega þannig varir að einhvernvegin lítur samfélagið svo á að fatlað fólk hljóti að vera illa greint og þarfnist því stjórnsamrar umönnunar og forsjár hinna heilbrigðu.

Ný áróðursdeild

Eins konar ný áróðursdeild hefur litið dagsins ljós hjá Sjálfstæðisflokknum eða svo mætti halda við lestur nýju skýrslunnar frá þessu OECD um íslensk efnahagsmál. Það er nefnilega erfitt að sjá hvort verið var að lesa alþjóðlega skýrslu eða landsfundaráætlun sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál. Þarna er nefnilega að finna allt þetta gamla góða vaxtaokur, einkavæðingu og samdrátt. Seðlabankinn á að halda vöxtunum háum svo að ekkert verði nú fjárfest. Einkavæða á svo hressilega í heilbrigðiskerfinu að enginn hafi efni á að nota það. Líka auka sem mest kostnaðarþáttöku almennings svo að bölvaður lýðurinn finni það loks að það græðir enginn á því að verða veikur. Þá á auðvitað að draga úr framkvæmdum, nema hvað sennilega mega bankarnir og verslunarauðvaldið byggja nokkra skýjagljúfra á höfuðborgarsvæðinu sem einskonar mótvægisaðgerð vegna hinna fjölmörgu sjávarþorpa og sveitabæa sem handónýta krónan okkar er búin að leggja í rúst.



Hlaupársdagur

Í dag er hlaupársdagur, þessi dagur sem skítur upp kollinum einu sinni á fjögurra ára fresti. Dagur sem af einhverjum stærðfræðilegum orsökum hefur verið skotið inn í árið til þess að jafna eitthvað. Það hlýtur að vera svolítið skondið að vera fæddur á þessum degi og eiga ekki afmæli nema fjórða hvert ár. En í framkvæmd þá halda víst flestir upp á afmælið þann 28. febrúar þau ár sem ekki eru hlaupaár. Það eru eflaust gild rök fyrir því að þessi dagur kemur fram í enda febrúar á fjögurra ára fresti eins og skrattinn úr sauðarveggnum en þegar allt kemur til alls þá er víst ekki alveg hægt að segja hið sama um tímatalið okkar. Það er að sönnu nokkurn veginn stærðfræðilega rétt reiknað en sagnfræðilega séð er það mun umdeilanlegra. Að mati flestra sagnfræðinga er nú talið að Jesús Kristur hafi fæðst u.þ.b fjórum til fimm árum áður en tímatalið gefur til kynna og þar fyrir utan veit auðvitað enginn hvenær Róm var byggð en við það miðast fæðingarár Krists samkvæmt Biblíunni. Fyrir svo utan þá staðreynd að hann fæddist líklega alls ekki á jólunum og önnur trúarbrögð hafa svo sitt eigið tímatal. Sú hugmynd skaut upp kollinum um þúsaldarmótin að allt mannkyn kæmi sér saman um eitt samræmt tímatal sem t.d. væri miðað við upphaf akuryrkju og þar með siðmenningar fyrir um það bil 10.000 árum. Þótt svo yrði stæði samt ennþá þessi hálfgerði bastarður sem hlaupársdagurinn er. 

Kjaftshögg á bloggið

Þá er búið að gefa blogginu æðra kjaftshögg. Búið er að dæma manni hár fébætur og málskostnað fyrir það eitt að bloggari kallaði hann rasista og útlendingahatara. Burt séð frá því hvort þessi almannatengill Impregilo sé eða hafi verið rasisti og útlendingahatari. Var þetta blogg víst sínum tíma fært í hita einhvers pólitísks leiks og má í framhjáhlaupi geta þess að ósköp finnst manni þessir Ítalir velja sér einhæfa samstarfsmenn á Íslandi. Flokksbundna sjálfstæðismenn og suma jafnvel umdeilda auk þess sem þeir eru gjarnan búsettir í Reykjavík þó þetta fyrirtæki sé með alla sína starfsemi á Austurlandi en hvað um það. Þeir fá aurinn sinn frá einhverjum lítt þekktur og sjálfsagt lítt efnuðum bloggara. Með dómi þessum er því slegið föstu að bloggið sé í eðli sínu eins og hver annar fjölmiðill en lítið hefur verið rætt um hina hliðina. Hún er sú hvort prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar nái ekki einnig yfir bloggið. Nema starfsmenn hins Ítalska fyrirtækis njóti svipaðrar réttarverndar og opinberir starfsmenn á Íslandi. En eitt er dálítið kaldhæðnislegt við þetta allt saman. Með því að fara í mál útaf blogginu er Ómar Valdimarsson búinn að auglýsa það út um allt sem fáir hafa ef til vill vitað að hann hafi að minnsta kosti verið kallaður rasisti og útlendingahatari á opinberum vettvangi

Tómar tunnur

Guði sé lof, flugeldasýningunni miklu í kringum hin svokölluðu Laugardagslög er lokið. Það sem eftir stendur eru tómar tunnur sem mishátt bilur í eins og þar stendur. Flestir held ég að séu sammála um að Friðrik Ómar samkynhneigði Dalvíkingurinn hafi átt það skilið að fá farseðilinn til Serbíu eftir tvær misheppnaðar tilraunir, Lagið var svosem ekkert til að hrópa húrra fyrir en hin lögin voru barasta ekkert betri og textarnir yfirleitt einhver moðsuða. Þess efnis að ég elski þig með ýmsum tilbrigðum, maður hefur ekki heyrt einn einasta texta í þessum undankeppnum þar sem fjallað er um mál sem öllum kvíða. Eins og gróðurhúsaáhrif, markaðsgræðgi og hernaðarbrölt hvað þá hungursneyð eða alnæmi. Allt þetta er gleymt innan um glysið, spriklið og ljósasýningarnar. Tómu tunnurnar fyllast af afgöngum frá markaðshyggjunni, sóuninni og græðginni. 

Blóðvellir bloggsins

Það flýtur blóð um velli bloggsins þessa dagana. Ráðherrar dunda sér við það á andvökunóttum að sparka lík í pólitískt dauða andstæðinga sína eða samherja sína eftir því hvernig litið er á málið. Auðvitað voru þessi blogg skrif Össurar ekkert voðalega ráðherraleg, maðurinn líkist allra helst vampíru sem er sléttur og felldur á daginn en farnast svo blóðs á nóttuni. En það er kjarni í þessu skrifi Össurar. Ekki er ólíklegt að einhver Sjálfsæðismaður; Gísli Marteinn, Hanna Birna eða einhver annar hafi í raun ætlað að steypa Villa og hirða hásætið en reiknað dæmið vitlaust og því hafi farið sem fór. Nú situr flokkurinn uppi með illleysanlegt vandamál. Bjórkæli sem er algjörlega rúinn trausti og hýenur sem bítast á um hræið. Hinn hálfnorski forsætisráðherra ræður ekki við neitt og margir hugsa til hinna gömlu góðu Davíðsdaga en hvað um það. Bloggið hans Össurars var svona fremur klaufalegt og gæti í versta falli stuðlað að því að Villi deyi píslavættisdauða fyrir frelsun flokksins úr ánauð árása og spillingar 

Fatlafól á Tenerife

Fatlafólið er nú snúið heim frá Tenerife. Eftir undarlega draumkennda viku í loftslagi sem meira minnti á einhvern óraunverulegan hita, júlídaga sem sjaldan koma á Íslandi en kuldann, snjóinn og rokið heima. Að koma aftur á klakann var eins og að vera vakinn upp af ljúfum draumi. Staddur í ísköldu fangelsi sem gætt er af illum bankastjórum í okurhug og enn verri fyrrverandi borgarstjórum sem þekkja sinn vitjunartíma. Vera kominn allt í einu á ný heim í alla reyfisleysuna, okurvextina, týndu loðnuna og sjávarútvegsráðherrann sem kominn er í heilagt stríð við landsbyggðina. Þegar loðnan týnist í nokkra daga er þjóðráðið bara að banna veiðar og senda rútu með fiskverkakonurnar á skaganum til að kíkka á lálaunastörfin á Hrafnystu. Nei þá er nú betra að sitja yfir bjórglasi úti á hótelbarnum á Green Golf og fara síðan niðrí strandbæinn á Tenerife. Þessi strandbær lítur að sönnu út eins og ein allsherjar tískubúð og er sennilega dæmi um hina nýju markaðssetningu Spánar sem ferðamannaland. Forkólfar í ferðaþjónustu þar hafa nefnilega uppgötvað þann sannleika að leiðin að pyngju eiginmannsins liggur í gegnum greiðslukort eiginkonunnar. Þetta hafa Íslenskir fjárfestingagaurar auðvitað löngu uppgötvað samanber allar Kringlurnar og Smáralindirnar. Spurningin er bara; hvað verður um allar þessar Kringlur og Smáralindir þegar bankakerfið lokar á lánsféð og konurnar átta sig á því að það er miklu sniðugra að versla í sólskyni og sæmilegu verðlagi, heldur en rigningu og okri. 

Vetur í bæ

Það er vetur í bæ sem rennur að vísu ekki alveg í sefgrænan sæ heldur, heldur mönnum við efnið svo um munar. Lægðirnar dansa kringum landið við undirleik dynjandi rokktónlist vindanna. Samgöngurnar fara úr skorðum og fólkið sem óvant er þessum látum ríkur af stað til þess að lenda í eða undir snjóflóðum eða verða innliksa á vegum þar sem björgunarsveitin kemur að þeim. Jafnvel krosstrén sjálf bregðast, millilandarflugið fer úr skorðum og farþegarnir hýma jafnvel heilu næturnar á Leifstöð. Býðandi eftir flugvélum sem þeim var búið að lofa en eru svo ekki tiltækar þegar á reynir. Ráðherrar verða veðurteftir sunnanlands og norðan og geta því ekki komið með boðskapinn til sauðtryggra áheyrandanna sem auðvitað fara á taugum yfir að fá ekki línuna sína. Það er annars einkar athyglisvert að fylgjast með fjölmiðlum þessa óveðursdagana, því svo virðist sem hríðin byrgi þeim svo sýn að þeir sjá ekki inn fyrir Elliðaár. Áðan mátti heyra náunga á rás 2 flytja tilkynningu frá Almannavörnum sem hann sagði hálf fýlulega að varðaði nú aðeins Vestfirðinga. Gott og vel, ef vestfirðir eru utan þjónustusvæðis þessa útvarps, hljóta þeir einnig að vera utan þjónustusvæðis þeirra herramanna gjalddaga og eindaga þegar rukkunin kemur. Hvað sem þessu líður öllu saman þá ætlar Hugskotið að taka sér smá hvíld og leika á veturkonung með því að fara til Tenerife þar sem er víst nokkuð hlýrra en á góðu Íslensku sumri.

Samtrygging ohf

Nýtt Tryggingarfélag leit dagsins ljós í gær. Hlaut það nafnið Samtrygging ohf og eru stjórnarmenn þess sóttir til hinna þriggja meirihluta sem ráðið hafa borginni undanfarna mánuði. Þessir menn sammættust um það að láta Svandísi stjórna einhverjum hóp fólks sem skildi rannsaka eigin gerðir og skila um þær mikilli skýrslu sem síðan hefur verið vegin og metin á alla kanta í fjölmiðlum svo nánast ekkert annað hefur komist af. Sápulöðrið Rey er enn meira sápulöður en áður ábyrgðina ber auðvitað enginn. Jú Borgarstjóri reynir að segja að einhver verði látinn bera ábyrgðina en getur alls ekki sagt hver enda blessuð skýrslan svo þokukennd og óljós að hún veitir engar upplýsingar. Menn bundu miklar vonir við það í haust þegar Svandís var skipuð formaður stýrihópsins en nú virðist hún líka hafa dottið niður í sama forarpyttinn og aðrir og það var svosem ekki við öðru að búast. Vinstri Grænir eru nefnilega ekkert hótinu betri en aðrir. Flokkur sem að mestu er skipaður afdönkuðum sveitamönnum, sóp af náttúruverndarsinnum og gömlum ömmum sem helst sjá hjálpræði í því að koma í veg fyrir endurbætur sem takmarka aðgengi að sterku áfengi. Samtrygging er svosem ekkert nýtt í Íslenskum stjórnmálum en aldrei hefur þetta fyrirbæri verið jafn augljóst og með þessa stofnun og það er í stofnun þessa Samtryggingafélags borgarstjórnarmeirihlutanna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband