Snæland lýsir yfir sjálfstæði

Í morgun þann þriðjudaginn 1. apríl kom saman á Akureyri hópur sem að undanförnu unnið að stefnumörkun fyrir nýtt ríki sem áætlað er að setja á stofn á því svæði sem almennt er kallað landsbyggðin á Íslandi. Hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að stefnt skuli að stofnun sjálfstæðs ríki á þessu svæði hið fyrsta. Hefur hún sent frá sér drög að sjálfstæðisyfirlýsingu. Þar er í fyrsta lagi ákvæðið að hið nýja land skuli bera hið forna heiti Snæland sem einhverntímann mun hafa átt að gefa Íslandi. Ríki þetta mun ná nokkurn veginn yfir það svæði sem í dag er nefnt Ísland að undanskildu svæðinu frá Keflavík að Akranesi. Mun hið fyrsta verða haft samband við Evrópusambandið og sótt um aðild og mint þessa nýja ríkis mun fyrst um sinn bera nafnið norræn evra. Mikill sparnaður verður á því að Seðlabankinn verður óþarfur enda sýnir sagan sig að slíkir bankar geri aðeins illt verra. Kvótakerfi í sjávarútvegi verður afnumið fyrst um sinn meðan færleg úttekt fer fram á því, því hvaða kerfi gagnist best við stjórn fiskveiða. Fyrr nefndur áhugahópur mun fyrst um sinn fara með stjórn landsins  þar sem svokölluð Alþingi og ríkisstjórnir hafa sýnt sig að vera vitagagnlaus fyrirbrigði. Síðar mun ef til vill verða stofnað þjóðþing allra frjálsborinna manna. Hafnar verða samningaviðræður við Reykjavíkursvæðið varðandi kaup á orku, matvælum og annari þjónustu. Leitað verður samstarfs við Færeyja og Grænland í sambandi við öryggismál og Landvarnir. Íslenskir embættismenn fá að halda stöðum sínum séu þeir ekki skipaðir af dýralæknum. Síðast en ekki síst, landið sækir þegar í stað um aðild að sameinuðu þjóðunum þannig að aðild verði orðin staðreynd nógu snemma til að landið geti greitt atkvæði gegn aðild Íslands að öryggisráðinu þangað sem það á ekkert erindi lengur.

Mannréttindi á útsölu

Djúpt í hugskotinu leynist bernskuminning um frétt sem hafði mikil áhrif á ungan dreng. Verið var að segja frá vondum Kínverjum í landi einhverju, langt fyrir austan sem hét Tíbet og sagt frá góðum manni að nafni Dali Lama sem hefði flúið undan vondu Kínverjunum til Indlands. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan þá, enn er þó Kínverjar þarna í Tíbet og eru nú jafnvel orðnir fjölmennari þarna heldur en Tíbetarnir sjálfir og ætla þeir sjálfsagt krafti þess að kúga Tíbetana og þurrka út þjóð þeirra og menningu en setja í staðin einhverja þvælu sem þeir kalla Kommúnisma. Þessu vilja frumbyggjarnir auðvitað ekki lúta fyrir framan byssukjafta þeirra gulu sem ætla líka að halda Ólympíuleika í sumar. Ólympíuleikarnir hafa víst ekkert með mannréttindi að gera eða svo var að heyra á Forseta íþrótta og Ólympíuleika Íslands. Margar sjónvarpsstöðvar hafa hótað að sýna ekki frá Ólympíuleikunum ef útsendingarnar verða ritskoðaðar en ólíklegt þykir manni að litla opinbera leikfangið sem við köllum ríkisútvarp hér á Íslandi muni hugsa sér nokkuð slíkt. Það lítur nefnilega rammpólitískri stjórn og þegar pólitískir hagsmunir eiga í hlut mega mannréttindin sín lítils. Hjá blessuðum utanríkisráðherranum okkar eru mannréttindin hreinlega komin á útsölu. Það má alltaf semja um að þegja um mannréttindabrotin gegn einu stykki atkvæði til öryggisráðsins og hver veit nema einhvern daginn þá muni Íslenskir líffara bankar leita eftir líffærum dauðadæmdra Kínverja en það mun vera ein tekjulind þeirra að selja líffæri manna sem teknir hafa verið af lífi og segja illar tungur jafnvel að tíðni aftaka fari eftir vöntun á líffærum. 

Hæstu hæðir

Verðlag og verðbólga ríkur upp í hæstu hæðir þessa dagana. Mjólkin í 100 kall, kjötið eitthvað álíka, olían ennþá meira og vextirnir ofan á allt saman. Allt hækkar nema náttúrulega launin og tryggingabæturnar. Það er eins og ráðamenn átti sig aldrei á því að undirstaða þess að fyrirtækin geti borið sig er auðvitað sú að fólkið sem í þeim vinnur geti dregið sómasamlega fram lífið en einhvernvegin er það nú svo að það er þessi undirstaða sem alltaf verður síðust. Verkalýðshreyfingin virðist nú vera sama sinnis því hún skrifaði undir kjarasamninga í febrúar sem gáfu skotleyfi á allar hækkanir á undan launum, meira að segja mátti lækka skatta fyrirtækjanna áður en hreyft yrði við persónuafslættinum. Hvernig væri nú ef menn gerðu nú einu sinni svolítið sniðugt og lækkuðu gengið en hækkuðu laun tryggingabætur og annan kostnað láglaunafólks en settu á verðstöðvun þannig að bankarnir, olíufurstarnir og okrararnir borguðu brúsann. Væri þetta ekki skemmtileg tilbreyting?

Sjónvarp á mannaveiðum

Sjónvarpið hans Palla er komið á mannaveiðar í boði Björgólfs og Landsbankans. Þess sama Björgólfs og útvegaði sér heiðursverðlaun tónlistarmanna á dögunum með því að láta Landsbankann kosta hátíðina. Nú er erfitt að segja til um það hvernig löggan á Íslandi myndi í raun bregðast við ef hún þyrfti að fást við raðmorðingja, þar sem slíkir hafa ekki verið á ferli hér á Íslandi síðan Axla Björn var og hét. En það er annað sem vekur meiri athygli í þessum þáttum en það er landafræðin og þarna virðist ekkert til tökumál að fara í skreppitúr frá Reykjavík og vestur í Búðardal, reyndar er ýjað að því að stúlka sæki vinnu í Reykjavík þaðan. Þessi landafræði kemur að vísu ekki alveg á óvart þegar um Reykvíkinga að ræða því komið hefur fyrir að maður hafi verið boðaður í læknisviðtal til Reykjavíkur frá Akureyri, rétt eins og verið væri að boða mann úr Árbænum eða Breiðholtinu. Ef til vill er þarna ekki um vestmannaeyjinginn að sakast, hann er jú eins og hver annar Palli, einn í heiminum og lætur sig engu um varða þó almenningur gagnrýni launakjör hans eða vilji fá að vita um launakjör Sigrúnar og Þórhalls. Palli ætti að vita það að hann var sjálfur veiddur en hann verður að átta sig á því að það er ekki hlutverk almennings að borga fyrir veiðileyfið á hann né aðra.

Milljóna fúaspítur

Það er ansi gaman að fylgjast með skipulagsmálum í Reykjavík þessa dagana. Eða eigum við heldur að segja um allt skipulagsleysið þar. Menn hafa allt í einu uppgötvað að miðbærinn er eitt alls herjar samansafn af fúaspítum sem eru þó milljóna virði og aðalega vegna þess að enginn virðist vita hvort þessar fúaspítur eiga að fara eða vera. Sagt er að verktakar vilji láta húsin drabbast niður svo ekki verði annað hægt en að rífa þau til þess að þeir geti byggt stærra í staðinn. En þversögnin er sú að friðunarsinnar vilja halda húsunum óbreyttum og gera þau upp. Einn kost hefur þó þetta ástand svo sérkennilegt sem það er, ekkert heyrist meira talað um húsnæðisvana útigangsmanna í Reykjavík. Þarna hefur borgin sparað sér stóran pening í málaflokki sem að hún hefur lengi vanrækt. Vera má að þessir útigangsmenn kveiki í kofunum þá er að minnsta kosti búið að leysa ágreiningmálið. Draslið allt saman brunnið og hægt að byggja nýtt. Svo má líka hugsa sér að miðborgin verði friðuð í óbreyttri mynd, það getur meira að segja vel verið að hún komist á heimsminjaskrá það er nefninlega ekki svo víða að finna fúaspítur sem eru milljónavirði.

Verðbólgnir páskar

Páskarnir eru óvenjusnemma í ár. Manni finnst eiginlega jólin rétt vera búin, þorrinn að baki og allt það. Allir fara á skíði til kanaríeyja eða eitthvað svoleiðis og meira að segja gengisfellingin fer í frí í nokkra daga enda þykir víst flestum nóg um hana. Nema hagfræðingum útversmanna sem allt í einu eru svo himinlifandi yfir því að fá fleiri verðlausar krónur fyrir fiskinn sinn en almenningur hann fær ekki fleiri verðlausar krónur þær fá bara útverksmenn, olíufélög og braskarar. Fyrir alla aðra verða þetta mjög verðbólgnir páskar þó vannst ekki tími til að hækka páskaeggin en til dæmis á bensínstöðvunum hafa menn vart haft annað að gera en að breyta tölunum á skiltunum sem sýna verðin á olíu. Eitthvað á olíuverðið að lækka út í heimi en gengisfelling kom þá eins og himnasending svo olíufyrirtækin þurftu ekkert að lækka. Ferðarskrifstofurnar hlupu auðvitað til og hafa ef til vill getað hækkað páskaferðirnar hjá einhverjum og matvörurnar eru búnar að hækka nú þegar þannig að ekki þurfti gengisfellingu þar á bæ. Það er nýbúið að gera kjarasamninga sem nú þegar er búið að strika út en forsætisráðherra segist ekkert ætla að gera. Eiginlega þá finnst manni ríkisstjórnin skulda almenningi það að þegar verði gripið til ráðstafana til þess að bæta fátæku fólki þessa gengisfellingu þegar í stað ætti auðvitað að hækka lægstu laun, tryggingarbætur og skattleysismörk og létta sköttum af olíunni. Spurningin er hvort það væri ekki verðug leið til að minnast frægustu pólitísku aftöku veraldarsögunnar og því sem henni fylgdi að auðstéttin væri loks krossfest fyrir syndir óráðsíunnar og græðginnar.

Fatlaðir dómarar

Síðastliðinn föstudag var kveðinn upp dálítið sérkennilegur dómur í máli þar sem móðir eða í framkvæmd reyndar tryggingarfélag hennar var dæmt til að greiða 10 milljónir króna í skaðabætur eftir að dóttir hennar sem haldin er aspargen heilkennum sem eru ein tegund einhverfu sem hafði slasað kennara sinn með því að skella á hann rennihurð. Þessi dómur er ansi merkilegur fyrir ýmsa hluta sakir. Fundnir voru tveir sérfræðingar til að athuga ásigkomulag hurðarinnar en ekkert var athugað ástand barnsins, jú menn litu í einhvern bækling þar sem sagt var að fólk með aspargen heilkenni ættu að vita muninn á réttu og röngu. Nú má vel vera að kennarinn hafi hér beðið varanlegan skaða en það er spurning, hver er skaðabótaskyldur í svona tilviki. Eiginlega finnst manni það vera ríkið sem verði að bera þennan skaða þar sem þarna er augljóslega verið um að ræða beina afleiðingu þeirrar stefnu sem rekin er og nefnd er skóli án afgreiningar. Það er ansi langsótt að fara að sækja skaðabætur til móðurinnar varla getur hún borið ábyrgð á því að barn hennar fæðist með þessa fötlun. Yfirleitt verður að fara mjög varlega í það að gera foreldra ábyrga fyrir tjónum sem börn þeirra valda. Réttast væri að samfélagið bæri slíkt sjálft en í þessu tilfelli virðast dómararnir hafa verið fatlaðir sjálfir fyrst þeir gátu ekki séð hvað hér væri á ferðinni en bara dæmt eftir einhverjum lagabókstaf. Nema tryggingafélögin hafa gaukað því að dómstólum að dæma í þessa veru svo foreldrar fatlaðrar barna hafi nú örugglega vit á því að fá sér heimilistryggingu til þess að lenda ekki í svona uppákomu.

Akureyri í Árbæinn

Síminn hringdi klukkan rúmlega 10 í morgun. Stúlkan sem talaði í símann sagðist hringja frá Augndeild Landspítalans við Eiríksgötu og var ég boðaður í tíma þar þann 13. Mars um klukkan 13. Auðvitað var manni svolítið hvellt við, ætli stúlkukindin hafi virkilega haldið að Akureyri væri allt í einu komin í Árbæinn og því ekkert mál að taka strætó niður á Eiríksgötu. þetta er svo sem ekkert eins dæmi, maður hefur oft lent í því að einhverjir að sunnan hafa hringt í mann og boðað í viðtalstíma með litlum fyrirvara. Reykvíkingar eru nefnilega svo heimóttalegir að þeir halda það að landið endi við Elliðará eða á Keflavíkurvelli og síðan taki auðnin ein við. Þeir skilja það ekki að fólk búi á öðrum stöðum á Íslandi en í þessa litla borgríki þeirra við Faxaflóann. Fleiri dæmi er um þetta; eins og þegar í fréttatíma sjónvarpsins á laugardagskvöldið. Þegar engin skíðasvæði væru eftir í heiminum nema blessuð Bláfjöllin og svo Alparnir einhverstaðar langt út í löndum, eða þá þingmaðurinn sem telur það brjóta jafnræðisreglur stjórnarskrárnar ef landsbyggðarþingmenn fái meiri stuðning en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Mikið óskaplega vildi maður að jafnræðinu væri þá komið á á fleiri sviðum. Mikið er það óréttlátt t.d. að það skuli alltaf vera við landsbyggðarvargurinn sem þarf að borga okurfargjöld ef hann bara þarf að skreppa til læknis eða finnst Reykvíkingum það ekkert dýr heimsókn til læknis sem kostar 17.000 kr.- Jú einhvertímann fæst endurgreiðsla frá Tryggingarstofnun eftir dúk og disk, nema hvað Sighvatur heilbrigðisráðherra fann allt í einu upp hjá sjálfum sér að landsbyggðarskríllinn yrði samt alltaf að borga 1000 kr.- í hvert skipti fyrir ferðina. Nú spyr maður hvar er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar núna ef fólk þarf að greiða mismunandi lækniskostnað eftir það hvar það býr á landinu. Það væri fróðlegt að heyra rökin fyrir því og það ber brýna nauðsyn einnig til þess að kenna skrifstofudúllunum í Reykjavík að Akureyri liggur við Eyjarfjörð en ekki í Árbænum.

Flotkrónan sekkur

Þeir sem nokkuð eru komnir til vits og ára muna sennilega þá tíð þegar sjávarútvegurinn fékk alltaf gengisfellinga dóp þegar illa gekk. Fyrir einhverjum árum var ákveðið að snúa af þessari braut og setja blessuðu krónuna á flot enda var vatnið einkar gott, vel saltað af erlendu gjaldeyris innstreymi vegna stóriðjuframkvæmda og ódýrs lánsfjárs að utan sem bankarnir fengu og endurlánuðu hér í allskonar vitleysu enda tók þetta enda. Samfara því að stóriðjuframkvæmdunum lauk og hófst alþjóðleg lánsfjárskreppa þannig að ódýra lánsféð hvarf. Vatnið kólnaði og seltan úr því hvarf þannig að krónan fór að sökkva og hún sekkur enn. Fólk og fyrirtæki eru óvarin þannig að verðbólga og þvílík óáran lætur á sér kræla. Auðvitað ráðum við ekki alþjóðamörkuðum en samt getum við sjálfum okkur um kennt um margt. Það hefur nánast engin hagstjórn verið í landinu, peningum þjóðarinnar hefur verið eitt í steinsteipukumbalda, bensínháka og risavaxna flatskjái. Ekkert hefur verið reynt til að styrkja undirstöðu þjóðfélagsins. Menn hafa trúað svo ákaft á hallalausan ríkissjóð að peninga vantar í bæði félagsmál,  heilbrigðismál svo ekki sé talað um löggæslu þar sem allir peningarnar hafa farið í einhverja einkaheri Bjössa dómsmálaráðherra. En patentlausnirnar eru fundnar upp, menn tala um að taka evruna upp í skyndi þó það sé ekki hægt fyrr en eftir nokkur ár, auk þess sem upptöku hennar mundi fylgja að við gætum ekki lengur hagað okkur eins og nýríkar fyllibittur. Davíð Oddson stjórnar nefninlega ekki seðlabanka Evrópu enda virðist ekki þurfa svo háa vexti á þeim bænum til þess að halda genginu uppi. En á meðan við höldum ennþá í þessa verðlausu sökkvandi flotkrónu verðum við að minnsta kosti að fara að huga að því að gera eitthvað áður en Íslensk alþýða fer endanlega á hausinn og nú verður auðstéttinn loks að fara að borga.

Álkóngar og Netþjónar

Hún Þórunn okkar umhverfisráðherra á ekki nú ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Þegar hún kom í ríkisstjórn var hennar fyrsta yfirlýsing sú að nú skildi koma á Stóriðjustoppi og það í all nokkur ár. En hvað getur ein lítil  Þórunn gert gegn öllum Álkóngunum. Nú bendir flest til þess að stórt álver muni rísa heima í kálgarðinum hennar á Reykjanesinu á mesta þenslusvæði landsins hvað sem öllum náttúruperlunum og fagra Íslandi líður. Ekki nóg með þetta; Björgólfur ríki er nú allt í einu orðinn netþjónn og ætlar sinni umhverfisvænu stóriðju stað á næstum sama blettinum og álverið og enn verður Þórunn að þegja þó svo beitalöndin á suðurlandi fari undir vatn. Auðvitað vantar umhverfisvænu stóriðjuna orku og því verður sjálfsagt virkjað í Þjórsá hvað sem einhverjir bóndadurgar segja þeir geta sjálfsagt fengið vinnu við nýiðnaðinn í Þorlákshöfn eða á Suðurnesjum. Já Suð-vesturhornið fær sinn afréttara eftir stóriðjufylleríið. Má meðal annars geta þess að ein helsta mótvægisaðgerð vegna þorskbrestsins hvað vera sú að stækka kringluna. Skítt með það, þó að verðmætin séu engin á bakvið verslunina. Menn slá bara láni í útlöndum en umhverfisráðherrann okkar á eitt tromp; Hún getur enn stöðvað álverið á Húsavík. Fagra Ísland er nokkuð sem landsbyggðarvargurinn getur borðað. Ef til vill getur landsbyggðin líka boðið suð-vesturhorninu veisluna. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband