Stórasta klúður í heimi

Það var voða gaman að vera Íslendingur í Júlí síðastliðinn þegar ísland vann silfurverðlaunin í handbolta á Ólympíuleikunum og landið var allt í einu stórasta landið í heimi. Síðan hefur margt vatn til sjávar runnið og allt í einu situr þjóðin uppi hnípin og vansæl með stórasta klúður í heimi. Bankakerfi sem eitt sinn var tólfsinnum stærra en hagkerfið farið á hliðina og síðan hlaupið í fangið á ríkismömmu. Krónan ónýt og fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í rauninni ekki til. Ráðamenn bæta um betur og blaðra einhverja vitleysu út í löndum sem enginn hendir reiðir á. Jú, heimskreppa ríkir og í raun hugsanlega hrun markaðshagkerfisins en það skýrir ekki hamfarirnar á Íslandi. Þegar við rifjum upp atburði síðustu ára kemur í ljós að hér ríkti eiginlega dálítið furðulegt ástand. Við vorum komin með bankakerfi sem var tólfsinnum stærra en hagkerfi landsins án eftirlits. Seðlabankastjóra sem þykir ekkert sjálfstæðara en að veðsetja þjóðina fyrir einhverju sparifé í Englandi. Bankastjóra sem hafa allt að 62 milljónum í mánaðarlaun, hafa semsagt engan tíma til að sinna bankanum því þeir eru uppteknir í að eyða eigin fé. Yfirstétt sem fær Elton John til þess að skemmta í afmæli sínu og legið fínustu tónleikahöll í London undir Stuðmenn. Þjóðin blindast af glýjunni, kaupir lúxusjeppa á flatskjái og byggir verslanahallir þannig að verslunarrími í Reykjavík hvað vera meira en í Kaupmannahöfn ekki í fermetrum á mann heldur í fermetrum svona yfirleitt. Fjármálakerfið dregur eins og blóðsuga fólkið úr framleiðslunni og umönnunarstörfunum. Heilu byggðarlögin eru ofurseld kvótakóngum og sjúklingar og aldraðir ofurseldir farandvinnufólki sem ekki skilur íslensku. Raunar er farið að braska með peninga sem ekki eru til vegna krosseignatengsla í bönkum og fjárfestingarsjóðum geta menn haft viðskipti við sjálfan sig og aukið bókhaldslegt verðmæti hjá sjálfum sér. 


Súr saft

Þessa dagana fer um landið einhver saft sem eftir því sem manni skylst er að halda ráðstefnur um tölvunotkun barna og unglinga. Saft þessi mun eitthvað tengjast samtökunum heimili og skóli sem eru samtök fínna foreldra barna í grunnskólum. Nú skal engin dul dregin á það að tölvunotkun barna og unglinga rétt eins og annara getur verið stórhættuleg. Netið svo merkt fyrirbæri sem það er, er stundum misnotað og annað vandamálið eru tölvuleikir af ýsmu tagi sem oft verða af fíkn. En á þessu máli er líka önnur hlið sem ekki er eins mikið um talað. Jafnvel einkafyrirtæki eru farin að bjóða síur alls konar til þess að loka fyrir óæskilegar síður en þessar síur geta lokað fleiru en óæskilegum síðum og erum við þá komin inn á það svið hvort að hér geti ekki verið um ritskoðunarhættu að ræða. Á því kann að vera að hætta að foreldrar reyni að loka síðum þar sem teknar eru fram skoðanir t.d. pólitískar sem þeim líkar ekki eða þá að þau í ofverndarskyni vilji halda upplýsingum frá börnunum. Þarna ætti Saftinn ekki að vera eingöngu súr heldur taka þessi mál til víðsýnnar og umburðarlyndar athugunar og eitt ættu menn að hafa hugfast. Það er gott að vernda börn fyrir barnaníðingum en fólk ætti að gera sér grein fyrir því að barnaníðingarnir eru stundum nær börnunum en á netinu. Oft er netið öruggara en heimilið sjálft.

Störf Alþingis

Vor daglega spaugstofa, sú sem við köllum venjulega Alþingi stóð svo sannarlega fyrir sínu í gær. Nú átti að afkasta miklu koma mörgum málum frá og ráðherrar flytja mikilvægan boðskap en eitthvað hafði gleymst. Í ljós kom að viðkomandi ráðherrar höfðu ýmsum öðrum hnöppum að hneppa þennan daginn en að standa fyrir máli sínu í þinginu. Handboltadómarinn og kynbomban í menntamálaráðuneytinu þurfti að huga að nýja opinbera leikfanginu sínu, það er að segja ríkisútvarpinu og mátti því ekkert vera að því að vera að ræða um opinbera háskóla fyrr en seinna. Samgönguráðherra áttaði sig allt í einu á því að hann hafði ekki nema takmarkaðan tíma til þess að mæla fyrir viðauknir um vegaáætlun af því hann áttaði sig allt í einu á því að hann þurfti að mæta á eitthvað samgönguþing. Nú eru góð ráð dýr en einhvernvegin tókst að púsla saman einhverju sem kalla mátti dagskrá en með þeim afleiðingum að ámótamikill tími fór í umræður um störf þingsins og fundarstjórn forseta eins og öll mikilvægu málefni ráðherrana. Uppákomur á borð við þessa eru svo sem ekkert nýtt. Það er eins og eitthvað svona gerist á hverju ári undir lok þingsins, nema hvað menn skipta stundum um hlutverk eins og framsókn og samfylkingin gerðu núna. Umræður þeirra á milli voru nefnilega nákvæmlega eins og í fyrra með öfugum formerkjum þó. Ekki er hægt að segja að svona uppákomur auki virðingu manna fyrir blessuðu þinginu og gera þingmennirnir sér sennilega ekki grein fyrir því hversu miklir bjálfar þeir sýnast í augum þjóðarinnar þegar farið er að sjónvarpa frá þinginu. Á þessu fínasta málfundarklúbbi Íslands ægir líka saman alls konar fólki. Þarna má finna kjaftfora sjóara, fyrrverandi tukthúslimi ekki svo hagsýnar húsmæður, pokapresta og misheppnaða lögfræðinga. Lagasetningar þeirra verða líka oft einstakt klúður samanber það þegar þeir óvart gerðu vændi löglegt á Íslandi og sumt í áfengislögunum er auðvitað hlægilegt, samanber bannið við áfengisauglýsingunum sem enginn virðir. Svo er nú komið að fólk lætur sér fátt um finnast hvað þetta lið er að bralla þarna við Austurvöll. Sennilega væri best að skera þetta lið niður um helming og sjá til hvort ekki yrði þá meira um gæði en magn. 

Græni hatturinn

Nú á föstudagskvöldið brá hugskotið sér á tónleika hins íslenska þursaflokks sem haldnir voru á græna hattinum á Akureyri. Voru þetta hinu ágætustu tónleika og þursarnir í miklu stuði. Í upphafi minnti Egill Ólafsson á þá staðreynd að þessi staður er nú um stundir, helsti tónleikastaðurinn á Akureyri og í raun eiginlega sá eini. Í sjallanum er að sönnu oft líka lifandi tónlist en þar er eiginlega meira um dansleiki að ræða heldur en tónleika. Ýjaði Egill að því að bæjaryfirvöld ættu að styrkja þennan stað og skal undir það tekið. Staðurinn er að vísu lítill en Egill bendir á það að slíkt geti verið allt að því kostur þar sem tónlistarmennirnir séu í miklu meiri nánd við áheyrendurnar heldur en á stærri stöðum. Smæðin gerir það hinsvegar að verkum að ef til vill fást ekki alltaf stærstu nöfnin hingað, og það er vandamál. Stundum gremst manni það þegar maður heyrir stór nöfn á borð við Eric Clapton, Bob Dylan, Paul Simon og fleiri auglýsta fyrir sunnan. Þetta er nokkuð ósanngjarnt því eins og kunnugt er þá er dýrt að fara suður akandi og enn dýrara en að þurfa að skipta við þessa okurbúllu sem menn kalla flugfélag Íslands, sem ekki áttar sig á því að það er styttri vegalengd frá Akureyri til Reykjavík heldur en til London. En því miður virðist enginn metnaður til þess á Akureyri að byggja sal fyrir stærri tónleika. Menningarhúsið er þarna ósköp lítil bót því ég held að stærsti salurinn þar eigi ekki að rúma nema um 1000 manns. En mikið væri nú gaman Ef þessir aðilar fyrir sunnan sæju nú til þess að við landsbyggðarvargurinn fengjum niðurgreidda farmiða til þess að sækja þessa viðburði sem þeir einoka. Á meðan svo er ekki verður full þörf fyrir græna hattinn og slíka staði.

Aumingja krónan

Það er illa komið fyrir krónunni okkar í dag. Hann Vilhjálmur, þessi með væluröddina hjá samtökum atvinnulífsins er búinn að segja að við skulum taka upp evruna eiginlega án þess að spyrja kónga eða prest. Hann leggur til að fyrirtækin geri upp í evrum, laun verða að hluta til eða í öllu greidd út í evrum og verðlag reiknað út í evrum. Krónan yrði við þetta að einhverskonar verðlausri hliðarminnt. Þarna yrði svo sannarlega um nokkuð furðulegt hagkerfi að ræða. Við mundum stunda viðskipti í Evrum sem enginn viðurkenndi. Líkt og reyndar á sér stað á Kúbu þar sem hinn opinberi gjaldmiðill er aðeins verðlaus pappír en öll alvarleg viðskipti fara fram í dollurum og allir vita hvernig ástandið er á Kúbu. Þar ríkir jú jöfnuður en þar er jöfnunin niður á við. Allir eru fátækir, nema auðvitað þeir sem geta útvegað dollara á svörtum markaði hjá ferðamönnum. Þannig að afleiðingin hlýtur að verða sú að ný yfirstétt, dollaravædd verður þarna til en alþýðan dregur fram lífið á verðlausum pappír. Mikil hætta er á því að svona ástand skapist hér ef Vilhjálms hagkerfið nær að festa hér rætur. Hið hrjálega er að hér á áður áðum þegar eitthvað bjátaði á í efnahagslífinu þá var alltaf svarið hjá Vilhjálmi Egilssyni: Fellum gengið. Nú þegar gengið er nú fallið , þá á sami maður engin ráð.

Björgum súlunum

Af því hafa borist fréttir að fjármálaráðherra gerist einkar kræfur í þjóðlendukröfum sínum þessa dagana. Gerir ríkið nú tilkall til súlnanna bæjarfjalls Akureyringa auk efsta hluta hlíðarfjallsins. Af viðbættum vatnsbólum bæjarins. Er ekki laust við að mörgum Akureyringnum hafi orðið kveld við, við þessar fréttir að ríkið skuli nú ætla að svipta okkur bæjarfjallinu okkar og einhvern veginn þá veit maður ekkert hvaða tilgangi þetta þjónar. Af hverju mega Akureyringar ekki eiga súlurnar sínar í friði og reyndar er það óskiljanlegt hvers vegna lagt var upp í þess þjóðlenduvitleysu á sínum tíma. Má vera að það hafi verið gert til að útvega einhverjum lögfræðingum í Reykjavík vinnu eða þá að tryggja ríkinu auðlindarrétt á hálendinu. Alla vegana þá er þessi vitleysa búin að kosta skattborgarana ófáar milljónir. Fyrir utan mannréttindabrot sem felast í eignaupptöku frá einstaklingum og sveitafélögum. Maður spyr sig: Af hverju í ósköpunum ekki mátti hafa það kerfi sem reynst hefur okkur vel í 1000 ár. En svo við snúum okkur að súlunum þá ætti nú bæjarstjórn Akureyringa einu sinni að sýna svolítið frumkvæði, meira en blessaðir þingmenn kjördæmisins sem flestir eru búnir að gleyma því hvaðan þeir komu. Jafnvel fyrrum bæjarstjóri á Akureyri sem var ósköp daufur í dálkinn þegar þetta mál var rætt á Alþingi enda ekki einu sinni maður til að loka fyrir túlann á bróður sínum þulnum sem ávarpar útvarp Reykjavík með síþynnkurödd sinni. Bæjarstjórn ætti ef kostur er að stækka lögsagnarumdæmi bæjarins þannig að það nái yfir bæði Glerárdal, Súlurnar og Hlíðarfjall. Ekki þarf að sameina hér sveitafélög þar sem engir eru íbúarnir. Fordæmið er fyrir hendi, fyrir nokkrum árum innlimaði Reykjavík Kjalarnesið og sagði Ingibjörg Sólrún við það tækifæri að nú væri Esjan komin heim, sem frægt er. Við Akureyringar hljótum að feta í fótspor hennar og heimta súlurnar heim. Björgum Súlunum 

Dýr er dropinn

Það fer víst ekki framhjá neinum að dropinn er dýr þessa dagana. Flutningabílar stöðva umferð og bílflautur eru þeyttar fyrir framan Alþingishúsið sem vitaskuld eru hin mestu helgispjöll. Ráðamenn hóta aðgerðum og bílstjórar gagnagerðum. Ekki eru þó aðgerðirnar ennþá orðnar neitt í líkingu við það sem stundum gerist t.d. í Frakklandi. Þar sem bílarnir eru hreinlega stöðvaðir á hraðbrautunum svo klukkutímum og jafnvel dögum skiptir. En ástæðurnar eru svipaðar, okurverð á eldsneyti sem sumpart bara stafar af þvi að spilltir arabakóngar vilja græða og enn spilltari olífélög á vesturlöndum vilja græða enn meira. Hér á landi bætist svo við að menn tóku allt í einu upp á því að falla gengið og það hressilega. Komið hefur í ljós að skattar á olíu hér eru ekki mikið hærri en t.d. á noðurlöndum og með einhverjum blekkingarráðum tókst mönnum að sína fram á að bensínverð væri lægra hér. Sá grunur vaknar að olíufélögin séu ekki með alveg hreint mjöl í pokahorninu, að minnsta kosti vekur athygli að þegar eitt þeirra er búið að hækka um ákveðna krónutölu þá koma hin með nákvæmlega sömu krónutölu eftir eina til tvær klukkustundir og svo segja menn að olíusamráðinu sé lokið. Í þessu sambandi vaknar svo spurningin um hvaða þörf er á því að hafa 3 stór olíufélög. Þau selja öll vöru sína á sama verði eða því er næst, kaupa að ég held inn frá sama aðila og eru með höfuðstöðvar á sama svæðinu. En þetta furðulega fyrirkomulag er í rauninni afurð frá þeim tíma sem olíuverslun var ekki viðskipti heldur pólitík. Líklega er eina lausnin að núverandi olíuvanda sú að þetta fáránlega kerfi verði tekið og skorið upp og t.d. hætt að veita allskonar aðilum á borð við 4x4 12 kr. afslátt á bensínlítranum. Meðan ekki er hægt að veita t.d. fötluðum afslátt á bensíni á bíla sína er engin ástæða til þess að fólk sé kvatt til þess að eiga fjórhjóladrifna bíla í von um einhvern afslátt.

Í leit að ímynd

Að mati stjórnvalda hefur okkar ágæta land skort almennilega ímynd að undanförnu og því var skipuð nefnd eða starfshópur í því skyni að reyna að lappa eitthvað upp á handa og var formaður þessarar nefndar kvensa ein sem mun vera rektor prumpháksóla þess sem kenndur er við Reykjavík. Nefndin hélt blaðamannafund og kynnti þar einhverjar tillögur að opinberri ímynd landsins undir kjörorðum sem voru kraftur, fresli og friður. Vel má vera að alla þessa þætti sé að finna í Íslenskri þjóðarsál en einu einkenni hennar gleymdu menn þó alveg en það eru þrjóska og þrái sem þurfa jú ekkert að vera neikvæðir hlutir, því án þrjósku og þráa hefðu Íslendingar sennilega aldrei getað þraukað á þessum óyndislega klaka. Í bókmenntunum kristallast þetta í persónum Bjarts í sumarhúsum og Jóns Hreggviðssonar. En ímynd einnar þjóðar verður aldrei búin til af einhverju opinberu apparati. Ímynd þjóðar er einfaldlega sú hugmynd sem aðrir gera sér um landið. Eftir þeim upplýsingum sem þeir fá eða kynnum af landi og þjóð og í sköpun þessarar ímyndunar erum við öll þáttakendur og flytjum ímyndina með okkur á ferðum okkar erlendis. Þannig hefur til dæmis ímynd Íslendinga verið á Spáni fyrir nokkrum árum; Kóðdrukknir víkingar sem lögðu heilu og hálfu hótelin í rúst. í dag er ýmindin sennilega Björk í svanslíki og nýríkir strákar á einkaþotum. Þessi ímynd er ekki búin til af einhverju stjórnvaldi, hún verður til með háttum okkar og gerðum. Ef til vill halda ferðamenn sem koma til Íslands að þjóðin samanstandi af sauðdrukknum villimönnum sem víkingasveitin þarf að fást við. Þessari mynd af landinu getur engin ríkisskipuð nefnd breytt, við verðum að breyta henni sjálf.

Smábörn með trúarsverð

Sjónvarpið hans Palla með ákveðna greininum sýnir alla jafnan eitthvað endurtekið efni á Sunnudögum til uppfyllingar í sparnaðarskyni. Aldrei þessu vant bar síðast liðinn sunnudag að lýta þar mjög áhugaverða heimildarmynd um svokallaðar Jesúbúðir í Bandaríkjunum. Þetta eru trúarlegar sumarbúðir en eiga þær lítið sameiginlegt með slíkum stofnunum t.d. hér á Íslandi. Þarna virðast börnin koma afar ung frá svokölluðum trúuðum heimilum og þegar heilaþvegin ganga enda oft ekki í skóla heldur kenna foreldrarnir þeim samkvæmt þrengstu Biblíutúlkun. Þegar svo í sumarbúðirnar kemur heldur heilaþvotturinn áfram á enn kerfisbundnari hátt og margt er þarna kindugt kennt. Að sjálfsögðu er þróunarkenningin þvættingur, Guð skapaði allt og t.d. eru gróðurhúsaáhrifin af guðs völdum en ekki manna og því má auðvitað ekkert gegn þeim vinna. Börnin tala tungum, öskra og æpa og uppáhalds tónlistin er kristilegt þungarokk. Þeim er auðvitað sagt að væri Harry Potter til þá væri hann deyddur. Maður spyr sig hvort börnunum hafi verið kennt að það liggi dauðarefsing við því að borða blóðmör en svo stendur í lögmálinu. Það versta er þó að í þessum búðum er börnum allt niður í fimm ára kennt að fara með hættuleg vopn. Í myndinni er nokkrum sinnum vikið að hliðstæðu þessa meðal öfgamúslima og verður að segjast að það verður að telja lágkúrulegt hjá þessum runnagróðri í Hvíta Húsinu að hugsa ekki um það hvað er að gerast í hans eigin landi. Svo gæti nefnilega farið að þetta unga fólk, þegar það vex úr grasi eru þau auðveld bráð alls konar öfgamanna, jafnvel glæpasamtaka, viljalaus verkfæri með staðgóða þekkingu á notkun hvers kyns gereyðingatóla.
Sverð trúarinnar gæti hæglega snúist gegn þeim sem það kenndi að nota.

Sundabrautarpóker

Áður en lengra er haldið skal þess getið að pistillinn frá því í gær um sjálfstæðisyfirlýsingu Snælands var birtur í tilefni dagsins 1. apríl. En öllu gamni fylgir alltaf svolítil alvara, það hefur líklega ekki verið neitt aprílgabb í gær þegar strákpjakkurinn frá Siglufirði Birkir J. Jónsson hóf utandagskrárumræðu á Alþingi í gær um sundabraut, hvernig sem honum hefur tekist að koma henni inn í kjördæmi sitt. Nema þá að þarna hafi hann verið að spila einhverskonar póker. Sem er víst á gráusvæði lagalega þó ekki sé hann einn um það meðal þingmanna að fara á svig við lögin. Þingmenn hafa verið teknir fyrir ölvunarakstur, kvótasvindl og síðast en ekki síst við að stela af almenningi og vel má vera að það sé einmitt atvinna þeirra. Þá er þetta svo sem ekki í fyrsta skiptið sem þingmenn sinna hagsmunagærslu fyrir höfuðborgarsvæðið þó þeir séu frá öðrum kjördæmum. Samanber það þegar þeir hlaða störfum án stafsetningar í kringum sig í Reykjavík og eyða einkavæðingarpeningum í framkvæmdir á Reykjavíkursvæðin. Samanber hátæknisjúkrahúsið sem reisa á þó menn hafi ekki efni á að reka núverandi landspítala en reyndar er sundabrautin inn í þessu dæmi líka. Eitthvað talaði jú strákpjakkurinn frá Siglufirði um Vaðlaheiðagöngin í dag þó allir viti að hann sé áhugalítill um þau og má vera að það hafi verið einn þátturinn í pókerspili hans.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband