Hin guðlausa Evrópa

Ef maður vill skemmta sér yfir sjónvarpinu er oft tilvalið að stilla á rás 16 á sjónvarpi símans þar er að finna stöðina ómega sem segist vera kristileg og er það sjálfsagt svona að einhverju leyti þótt þessi kristni sé svolítið takmörkuð og einsleit. Því þar heyrast sjaldnast sjónarmið fjölmennustu kristnu safnaðanna eins og kaþólskra Othodox eða bara íslensku þjóðkirkjunnar. Á þessari stöð hefur að undanförnu margsinnis verið endursýnd Amerísk heimildarmynd þar sem reynt er að færa fyrir því rök að Evrópusambandið séu einkar óguðleg samtök. Rökin fyrir þessu eru meðal annars sótt í opinberunarbókina þar sem talað er um Dýrið og Skækjuna og því haldið fram að með Dýrinu og Skækjunni sé átt við Evrópusambandið. Enda tákn þessara fyrirbæra á evrupeningnum. Þetta er nokkuð langsótt skýring, menn vita yfirleitt frekar lítið um opinberunarbókina annað en að hún sé ein margra slíkra spádómsbóka sem komið hafa fram fyrr á öldum og margar torráðnar en dæmi um slíkt er t.d. Nostradamus. Margar kenningar hafa komið fram um það hvað Dýrið í opinberunarbókinni eigi að tákna og er sú sennilegasta af þeim að þar hafi verið talað um Rómaveldi. En samsæriskenningar um Evrópusambandið eru svosem ekkert nýnæmi. Það hefur verið kallað samsæri auðhringa, valdablokka og jafnvel kaþólskra en sannleikskornið í því er að nokkrar Suðurevrópuþjóðir sóttu það fast að fá kristni nefnda í stjórnarskrá Evrópusambandsins þeirri sem aldrei var samþykkt. Hvað sem áttu myndinni á omega líður þá má benda á að þráhyggja sú sem birtist í því að vera að sýna myndina aftur og aftur á sennilega nokkuð skylt við fræga kenningu Göbbels áróðursmálaráðherra Hitlers sem segir sé lygin endurtekin nógu oft verður hún að sannleika.

Því þá að kjósa

Því þá að kjósa er spurning sem margir bera fram þessa dagana. Ekki það að menn beri einhverja óskapa virðingu fyrir þessu liði sem situr þarna samkjaftandi við austurvöll og þykist ekkert hafa að gera. Eftirvill vonast menn eftir einhverjum breytingum. Aðrir segja að það megi alls ekki kjósa slíkt væri eins og skipta hest í miðri á en hesturinn er nú reyndar dauður áður en hann kemst út í miðja ána. Það sem einnig er talið mæla gegn kosningum er það að á þing gætu komist allskonar kjaftaskar og lýðskrumarar eða þá einhverjir sem veita vilja föðurlega ráðningu en það verður að segjast að svona fólk má nú þegar sjá á þingi. Að sönnu er ekki mjög klókt að fara að kjósa strax uppúr áramótum. Þjóðin þarf jú að jafna sig eftir jólin. En vel mætti hugsa sér að kjósa seint í apríl eða í maí. Þá vorum við búin að gera upp við alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem gera í febrúar en að sönnu þá kemur auðvitað alþjóða gjaldeyrissjóðnum nákvæmlega ekkert við hvenær við kjósum til alþingis. Enda virðast skilyrði hans fljótt á litið fremur óaðgengileg og einna helst sett fram í þeim tilgangi að framlengja um einhverja mánuði vonlausa barráttu Davíðs Oddsonar við að halda á floti krónu sem er þegar löngu sokkin sakir eigin þyngdar. Það er brýn nauðsyn að nýtt fólk taki við svo byrja megi að hreinsa til í rústunum en það þarf auðvitað að gera áður en eiginlegt björgunarstarf hefst. Þeim sem vilja halda sömu stjórnvöldum meðan á rannsókn málsins stendur skal bent á að það er ekki sérlega heppilegt að sökudólgarnir sjálfir sitja við stjórnvölin meðan á rannsókn gerðar þeirra stendur.

Fullveldið Nýrætt

Það var lítill hnípinn hópur sem safnaðist saman fyrir framan stjórnarráðið í norðannepjunni þann 1.desember 1918. Enda mörg vág í landi; spánska veikin lá eins og skuggi yfir Reykjavík, hafís þakti firði og flóa og Katla gamla fór að byrsta sig. Samt var vonarglæta í augum hins hnípna hóps. Klofinn fáni hins nýja fullvalda ríkis yrði brátt dreginn að húni. Síðan eru liðin 90 ár og enn horfir hnípinn hópur löngunaraugum til stjórnarráðsins. Fullveldið sem menn svo heitt fögnuðu 1918 virðist nefnilega verið fokið á bak og burt. Því er og það eftirvill með réttu haldið fram að það sé komið í hendur alþjóða gjaldeyrissjóðsins og sumir vilja jafnvel halda því fram að hann vilji hlutast til um það hvenær við fáum að kjósa til þings. Að minnsta kosti virðist hann hafa látið okkur afgreiða með hraði lög um gjaldeyrisviðskipti sem færir landið ein 30 ár aftur í tímann til háttaáranna. Líklegt er að Færeyjaferðir séu nú í tísku svo menn geti séð hvernig eigi að stilla tímavélarnar til baka. En fullveldi er afstæður hlutur, spurningin er: Hvort við séum búin að henda þessu fullveldi okkar útí buskann með eigin fíflaskap eða hvort það eigi ennþá rætur í einhverju sem kalla mætti íslenska menningu.

Reykvíkingar

Reykvíkingar eru þjóðflokkur sem líkt og margar kindur halda sig helst í túninu heima. Er slíkt fólk oft kallað heimóttarlegt. Þjóðflokkur þessi hefur á undanförnum árum orðið hvað frægastur fyrir að byggja glæsilegar hallir og babelsturna Mammoni til dýrðar. Þetta var auðvitað allt gert fyrir peninga sem ekki voru til og eftir dýrðarveislurnar í höllum þessum komu svakalegir timburmenn svo ákafir að þjóðfélagið nánast féll á hliðina. En Reykvíkingar dóu ekki ráðalausir. Þegar krónan okkar blessuð var orðin nógu djúpt sokkin tóku þeir að bjóða útlendingum í veisluna. Enda veisluföngin ennþá ekki uppurin. Að sjálfsögðu hafa Reykvíkingar fyrir löngu gleymt því að eitthvað sé til sem heitir landsbyggð. Hún má bara éta það sem úti frýs og varla það. Ekki er þó eingöngu illsku þeirra að kenna heldur líka fordómum sem eins og aðrir fordómar spretta af vanþekkingu. Hér skal sögð lítil saga sem sýnir þetta.

Nokkuð lengi hefur til staðið að sá sem þetta ritar fari í augnaðgerð suður á Landspítala, gott og vel. Eftir margar ferðir fram og aftur milli Akureyrar og Reykjavíkur er nú loks komið að stóru stundinni. Hringt var síðdegis á fimmtudegi og viðkomandi beðinn að mæta kl. 11:00 daginn eftir. Það gleymdist að athuga að viðkomandi bjó ekki í Breiðholtinu heldur á Akureyri og þurfti ég að segja aumingja stúlkunni að hann þurfti að taka flugvél til að komast í læknaskoðunina, gott og vel. Málinu var frestað í viku. Þá skal viðkomandi vera mættur kl. 11:00 fyrir hádegi í forskoðanir. Síðan skal aðgerðin gerð næsta mánudag. En auðvitað er ekki hægt að skreppa til Akureyrar yfir helgina, jú fræðilega en ekki sakir kostnaðar. Því hér á milli eru ekki strætóferðir en þetta er auðvitað ofar Reykfirskum skilningi. Svo er þetta blessaða fólk undrandi á því að landsbyggðarvargurinn skuli heimta það að fá að kjósa. Væri nú ekki ráð Reykvíkingar fari að hugsa um það hvað orðið höfuðborg merkir. Það merkir ekki einasta forréttindi heldur ekki síður skyldur.


Hjónadjöfullinn Davíð

Davíð Oddson er maður sem mikið er í sviðsljósinu þessa dagana, Sumir segja að hann hafi komið Seðlabankanum í þrot þannig að allt bankakerfið hafi fylgt með. Aðrir segja að hann búi yfir ríkisleyndarmálum sem séu svo viðkvæm að ekki þolir dagsljósið. Þeir hafa nefnilega trúað honum fyrir því Bretarnir  af hverju þeir beittu á okkur hryðjuverkalögunum hérna um daginn með þeim afleiðingum að landið fór á hausinn. Nú kemur allt í einu í ljós að Davíð hafi verið einskonar hjónadjöfull fyrir nokkrum árum. Einhvernvegin virðist hann hafa getað dregið fram aldarfjórðungs gamla pappíra frá Englandi þess efnis að skilnaðarmálið hennar Dorritar okkar hafi ekki verið að fullu frágengið og því hafi hún verið að brjóta lög með því að giftast Ólafi forseta. En milli þeirra Ólafs og Davíðs hafði geisað eitthvert skítlegt eðlis um nokkurt skeið. Stríð sem náði hámarki með fjölmiðlalögunum sællar minningar. Að svona sísli má Davíð vera þó hann sé önnum kafinn við að stjórna landinu og síðan seðlabankanum. Er von þó hann átti sig ekki á því að bankarnir voru orðnir allt of stórir og eigi fé seðlabankans neikvætt. Á mannamáli seðlabankinn gjaldþrota.

Leynifélagið

Það er nú liðinn meira en mánuður frá svarta mánudeginum 29. September þegar leynifélagið sem gengur undir nafninu ríkisstjórn Íslands hélt frægan dramatískan fund að næturþeli og þjóðnýtti eitt stykki banka. Leynifélag þetta hefur síðan um stjórnvölin án þess að menn almennilega viti hvað hefur verið að gerast. Jú Geir hefur haldið nokkra blaðamannafundi, stundum með viðskiptaráðherra og alltaf eru þessir blessaðir blaðamannafundir eins rétt eins og alltaf sé verið að spila bilaðan geisladisk. Þar sem aðal lagið er á morgun eða næsta. Hin ljúfa rödd sveitasöngvarans hljómar ljúflega en eitthvað er nú textinn þunnur. Ólíkt því sem gerist hjá Jhonny Cash og lítið fer einnig fyrir þeim samfylkingarmönnum sem varla ná að syngja bakrödd. Jú Össur reynir svolítið að kyrja mótmælasöng um Bretana en Ingibjörg sussar á. Á meðan halda fundir leynifélagsins áfram í reykmettuðum bakherbergjum án þess að tóbaksvarnarnefnd hreyfi legg eða lið. Eins gott að þeir týni ekki landinu þarna í reykjarsvælunni.

Sof þú mitt Þing

Um daginn var á dagskrá Alþingis liður sem nefnist störf þingsins. Komu þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu í pontu hver á eftir öðrum og kvörtuðu yfir því hvað þeir hefðu lítið að gera og hversu lítið mark væri svona yfirleitt tekið á þessu þingi. Rétt er það að talsvert hefur verið rætt um það að undanförnu að þingið sé orðið að einhverskonar afgreiðslustofnun fyrir ríkistjórnir. Einhverskonar lifandi stimpilpúði og virðingin fyrir þessum kjaftaklúbbi þarna við Austurvöll hefur ekki verið ýkja mikil. Verst af öllu er þó að þingmennirnir gera sér ekki grein fyrir því að þeir geta haft töluverð völd ef þeir taka sig til. Í stjórnarskránni segir Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn en ekki eins og margir halda Ísland er lýðveldi með stjórnbundnu þingi. Ef að þingmenn myndu nú einu sinni gleyma flokkskírteinunum og bitlingunum þá er þeim í lófa lagið að hafa völd. Þeir gætu einfaldlega samþykkt vantraust á ríkisstjórnina og yrði hún þá að sjálfsögðu að fara frá og í kjölfarið neyddist forsætisráðherra líklega til að rjúfa þing og þar er sennilega komin ástæða til þess að menn gera þetta ekki. Mönnum þykir nefnilega svo óskaplega vænt um stólana sína og allar nefndirnar og ráðin að þessu vilja þeir ekki fórna fyrir áhættunni á að tapa í kosningum. Þess vegna er þingið svona áhrifalaust og við segjum bara rólega: Sofðu, sofðu þingið mitt.

 


Evrópa Strax

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum að Ísland er í dag tæknilega séð gjaldþrota ríki. Við skulum hér ekkert ræða það nánar hvernig slíkt gerðist. Fyrir því liggja ýmsar samverkandi ástæður svo sem heimskreppan, ógætileg bankastarfsemi, algjör vanhæfni eftirlitsaðila og síðast en ekki síst. Hin hrikalega miðstýring þar sem öllu þjóðlífinu er þjappað saman í einn allsherjar brennipunkt þar sem allir eru tengdir jafnvel hjónaböndum og allir þekkja alla. Þar sem stjórnmálamenn og dómarar troða afkvæmum sínum inn í fjármálakerfið og eiga svo að hafa eftirlit með öllu saman. Þegar einn banki hrynur fara hinir auðvitað á hausinn líka. Allt þetta er hreint ekkert undarlegt í borgríkinu Íslandi. Svo kóróna menn alla vitleysuna með því að brjóta ES samninginn. Þetta gerist með því að Davíð t.d. belgir sig upp í Kastljósinu og segist ekki ætla að borga fyrir óreiðupésana. Á sama tíma og hann er sennilega ábyrgur einmitt fyrir peningum þessara óreiðupésa. Brotið á ES samningnum felst í því að ætla að mismuna sparifjáreigendum eftir því hvort þeir eru Íslenskir eða erlendir. Hitt er svo annað mál að Bretar gerðu stór mistök með því að beita hryðjuverkalögum á okkar. Ef til vill hefðu hinar nú frystu eignir getað nægt langleiðina í að bæta tjónið. En þetta er búið og gert og verður ekki aftur tekið.

Í dag ríður á að við hættum á afneitunarstiginu og tökumst á við staðreyndir. Mikið liggur á að okkur takist að bjarga því sem bjarga verður að fullveldi landsins. Við verðum að ná einhverjum þeim neyðasamningum sem gera okkur kleift að fá lán. Þetta lán verður að einhverju leiti að nota til að bæta erlendum sparifjáreigendum tapið í stað þess að reyna að verja krónuna sem þegar er dáin og aðeins útförin eftir. Samfylkingin verður að gjöra svo vel að taka ábyrga afstöðu. Knýja verður sjálfstæðisflokkinn til að fallast a viðræður við Evrópusambandið um tafarlausar björgunaraðferðir með það fyrir augum að við getum gerst aðilar að því og tekið upp evruna innan tveggja til þriggja ára. Jafnvel að við fáum undanþágu til að taka hana upp í viðskiptum strax. Einnig verða sennilega nokkrir hausar að fjúka þó ekki nema sé til þess að við sínum að við þorum að taka á málunum til þess að verða trúverðug. Bráðabirgðastjórn og kosningar í vor er möguleiki sem einnig er hægt að skoða. Það er brýnt að samfylkingin sýni loksins að hún sé ekki einhver taglhnýtingur eða kjölturakki íhaldsins. Krafan hlýtur að vera Evrópa strax og án undanbragða. 


Útvarpslög brotin

Alþingismenn virðast ekki vera neitt voðalega uppteknir af kreppunni. Þeir dunda sér stundum við það að ræða ýmislegt annað og eitt af því sem þeir hafa voða miklar áhyggjur af núna eru áfengisauglýsingar sem þeir þykjast sjá í hverju horni. Má vera að einhverjir brjóti áfengislög með þessum auglýsingum rétt eins og það má vera að löggjöf okkar um þessar auglýsingar standi ekki EES samninginn. En það er eitt sem þingmenn mættu jafnvel frekar skoða en áfengislögin og það eru útvarpslögin sem eru þverbrotin alla daga án þess að nokkur taki eftir því. Í útvarpslögum er bannað að birta auglýsingar í fréttum eða fréttatengdu efni. Hér gengur Ríkisútvarpið sjálft á undan með góðu fordæmi, það er varla hægt að flokka Kastljósið og Silfur Egils öðruvísi en sem fréttatengt efni og þessir þættir eru löðrandi í auglýsingum. Kaupþing sáluga kostaði Ísland í dag á stöð 2 og svona mætti lengi telja. Þá er það reglan um hlutleysi fjölmiðla. Á Íslandi er rekin kristileg sjónvarpstöð sem nefnd er Ómega. Vissulega er þekki stöð kristileg en mjög einhæft kristileg. Tengd bókstafstrúuðum mótmælendasöfnuðum. Þar fá önnur afbrigði kristinnar ekki inni auk þess sem það er oft á borð borið safnfræðilegt fleipur og ekki er þetta Inn hans Inga Hrafns mikið betra. Þar er frjálshyggjan ennþá á fullu þó hún sé dauð annarstaðar. Við þetta má svo bæta að blikur er á lofti í fjölmiðlarekstri. Svo kann að fara að eftir nokkra mánuði verði Palli einn í heiminum með bláskjáinn sinn.

Nýju fötin Bjarkar

Það ríkir víst kreppa í fjármálum þjóðarinnar og ef til vill ekki síður í hugarfari hennar. Menn tala allir um orsakir og afleiðingar, úrræði og lausnir og má segja að í þessari umræðu séu allir sótraftar á sjó dregnir. Undanfarið hefur borið nokkuð á okkar ástsælu söngkonu Björk í þessu sambandi og í gær mætti hún í Kastljósið ekki í svansbúningnum heldur í nýjum, nokkuð smekklegum, svörtum að lit. Hún var að tala fyrir einhverju sem hún nefndi nýtt ísland sem manni virtist vera einskonar auglýsing fyrir nýtt lag sem hún var að senda frá sér. Í viðtalinu komu svosem fram hugmyndir sem eru út af fyrir sig góðra gjalda verðar en geta ekki talist neitt voðalega frumlegar. Þetta eru hugmyndir sem meðal annars vinstri grænir hafa nokkuð haldið á lofti um alls konar smáiðnar og smáfyrirtæki. Þess vegna vekur það athygli að Björk skuli þarna vera í slagtogi við meðal annars prumpháskólann í Reykjavík sem þrátt fyrir himinhá skólagjöld fær sama stuðning frá ríkissjóði og aðrir háskólar með þeim afleiðingum að öll alvöru háskólamenntun er í fjársvelti. Það er laukrétt hjá Björk að við getum ekki eingöngu treyst á áliðnað frekar en fisk eða fjármálastarfsemi. En einhverja undirstöðu þurfum við að hafa undir efnahag okkar. Sú pizza væri ekki lystug sem hefði aðeins úrvals álegg og sósu ef botninn vantaði. En botninn má hins vegar gera úr fleiru en einu hráefni. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband