Þjóðremban á fullu

Eitt af sjúkdómseinkennum kreppunnar er sú vaxandi þjóðremba sem ríkir nú á fullu í landinu. Þó að Íslendingar í útlöndum læðist nú með veggjum og láti lítt á sér bera. Er þjóðarsálin á fullu hér heima við að dásama eigið ágæti. Veljum íslenskt og Íslandi allt heyrst nú kyrjað hvarvetna. Strútakjöt og frönsk gæsalifur verða ekki lengur á jólaborðinu. Heldur má þar aftur sjá gamla góða lambshrygginn. Allt sem útlend er, er barasta vont og hallærislegt í þessu stórasta landi og nú má meira að segja sjálfur Bretinn fara að vara sig. Menn ætla sér að eyða nokkrum milljónatugum í fyrirfram vonlaust málaferli útaf bankareikningum sem menn voru svo vitlausir að leifa einhverjum útrásar víkingum að setja á stofn í Bretlandi. Þetta er reyndar ekki óþekkt bragð, þegar illa gengur heima fyrir eru blórabögglar fundnir í útlöndum til að fara í stríð við. Auðvitað á láglaunafólk og bótaþegar almannatrygginga að borga brúsann. Því við máttarstólpunum Björgólfi, Birni Ármanns og hinum má alls ekki hreyfa. Nú er verið að færa tímavélina nokkra áratugi til baka með því að draga úr samfélagsþjónustu. Að vísu að kröfu vondra útlendinga. En hér innanlands munum við sjálfsagt fara að sjá ýmislegt gamalkunnugt. Sjónvarpslaus fimmtudagskvöld, þurra miðvikudaga, skammtað á gjaldeyri, bjórbann og líklega verða brátt allir fjölmiðlar utan ríkisútvarpsins þagnaðir og þjóðin flytur brátt aftur í torfbæina og fer á skak og tínir fjallagrös.

Enn um brennivínið

Enn skal talað um brennivínið. Þetta efni sem alltaf er vinsælt að tala um og hér í beinu framhaldi af umræðunni um brennivínsskattinn á dögunum. Mönnum þykir nefnilega ekki nóg að gert. Nýtt frumvarp er að verða að lögum um að hækka álagningu hinnar ríkisreknu einokunnar. Gott ef ekki til að bæta kjör vínheildsalanna svo mikið forgangsmál sem það er. Að minnsta kosti eru þessi áfengismál miklu meira í umræðunni heldur en frumvarpið um að lækka laun embættismanna sem hvað vera stranda í gegn. Umhyggjan fyrir brennivínsheildsalanum nær reyndar einnig til stjórnarandstöðunnar saman ber ræðu Kristins H. Gunnarssonar sem vildi helst hækka gjaldið meira þó það sé víst hæsta áfengisgjald í heimi. Að minnsta kosti var hann að kvarta yfir því að gjaldið yfir því hefði ekki fylgt vísitölu. Jæja, honum verður víst að ósk sinni að auka verðbólgu með þessu. Einnig talaði þarna einhver vinstri grænn stelpu krakki og blaðraði einhverja ósköp um lýðheilsu. En eins og Kristinn seldi sál sína fyrir fyrirtæki í heimabæ sínum þá er nú þessi stelpa hvað þekktust fyrir afskipti sín af atvinnumálum á landsbyggðinni sem hún ekki hefur hundsvit á. En svona í gamni, af hverju má þjóðin ekki í friði, drekka sig frá þessari bölvuðu vitleysu sem þetta lið er búið að koma okkur í. Það er furðulegt að hugsa til þess að þetta lið geti haft vit fyrir þjóðinni eftir að það er búið að setja hana á kvínandi hausinn.

Eftirlitsmaðurinn frá Washington

Það dylst víst engum að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur tekið yfir stjórn efnahagsmála á Íslandi. Spor hans má alls staðar sjá. Dregið er úr framlögum til vísinda og menntamála, framkvæmdir eru skornar hressilega niður, krukkað er í tryggingabætur og búvörusamninga, og það á eina barna og unglinga geðlækninum utan Reykjavíkur er sagt upp og í býgerð er að taka upp komugjöld á sjúkrahús. Fylgir þó ekki sögunni hvort menn verði rukkaðir stórslasaðir og meðvitundarlausir, kannski kemur sú tíð líkt og í bandaríkjunum að fyrsta spurningin þegar menn koma á sjúkrahús er hvaða tryggingu þú ert með en ekki hvað gengur að þér. Allt þetta láta blessaðir jólasveinarnir við Austurvöll ganga yfir sig. Þykir enda miklu vænna um flokkskírteini sín heldur en fólkið sem þeir eiga að þjóna. En þetta er víst ekki nóg. Nú boðar komu sína einhver eftirlitsmaður eða kommissar þarna frá Washington til að ganga nú örugglega úr skugga um að Íslendingar hlýði og séu ekki með nein undanbrögð. Svo tala menn um fullveldisafsal ef við göngum í Evrópusambandið. Það virðist nefnilega ósköp lítið eftir af fullveldinu þegar einhverjir frjálshyggjugaurar að austan eru farnir að skipta sér af hlutum sem þeir hafa ekki hundsvit á. Þeim er bara sagt að það hafi verið eyðslufyllerí þjóðarinnar sem kom henni á kaldann klakann en ekki þessir 30 karlar og 3 konur sem flestir telja að hafi komið þjóðinni á hausinn. Með full þingi einhverja eftirlitsaðila sem ef til vill flugu bara í sólina með einkaþotum útrása víkinganna og kærðu sig kollótta þó allt væri að fara til fjandans norður á Íslandi.

Árborg og Ísrael

Alltaf er nú gaman að stilla á ómega og fá þaðan kristilegan kærleika svona öðru hverju. Um daginn var þar að tala einn sérlegur vinur Ísraels, gott ef ekki meiri síonisti en Olmert sjálfur. Byrjaði hann tölu sína á því að kvarta yfir einhverjum bloggara á mbl.is sem hefði sagt eitthvað ljótt um blessaða stöðina. Síðan fór hann að ræða vítt og breytt um hið heilaga guðsríki þarna austur frá. Lýsti staðháttum og ýmsum misfrægum byggingum þó ekki aðskilnaðarmúrnum eða landamæragirðingunum á Gaza. Enda arabarnir vondir menn og ekki kristnir. Reyndar eru gyðingar það ekki heldur þó þeir séu útvaldir sem gefur þeim allan rétt til mannréttindabrota og harðstjórnar. Enda hafa þeir lítt lært af mörgum hersetum og helförum. Gyðingavinurinn góði sagði að land þetta hafi heitið Ísrael á dögum Jesús Krists. Þetta er varla nema hálfur sannleikur. Á tímum Jesús Krists voru þarna skattlönd Rómversk, stundum með yfir sér einhverja valdlausa Lettakónga en að sönnu munu ýmsir rétttrúaðir gyðingar hafa kallað svæðið Ísrael án þess að það hefði nokkra opinbera merkingu. Íbúar á ákveðnu svæði á Suðurlandi kölluðu þetta svæði Árborg án þess að það nafn hefði nokkra opinbera þýðingu heldur þar til sveitarfélagið Árborg varð til á þessu svæði. Hið sama gildir um Ísrael. Íbúar kölluðu eitthvað ákveðið svæði Ísrael en það nafn var auðvitað ekki opinbert fyrr en stofnun Ísraelsríkis árið 1947. Omegamenn eins og aðrir verða að læra sögurnar sínar betur. Það væri vel hægt að reka hér mjög vandaða kristilega sjónvarpstöð ef viljinn væri fyrir hendi en þá yrðu menn að hætta að vera alltaf með þessa síonista hálfsturluðu, amerísku sjónvarpspredikara sem reyndar sumir sitja í fangelsi fyrir skattsvik eða þá einhverjar uppþornaðar íslenskar fyllibyttur sem allt í einu þóttust sjá ljósið og frelsuðust en þetta fyrirbæri frelsun er reyndar vel þekkt í sálfræði nokkuð sem getur gerst þegar tilteknar kringumstæður eru fyrir hendi. 

Kjaftshögg á Lýðræðið

Lýðræðið fékk á sig svolítið kjaftshögg í gær þegar upplýst var að ritstjórn DV hefði hafnað frétt eða grein eins blaðamanna sinna vegna þrýstings frá eigendum sínum. Upp um strákinn Tuma komst þegar spiluð var upptaka af símtali milli ritstjórans og umrædds blaðamanns. Allt þetta kemur nokkuð á óvart. Reynir Traustason hefur í augum margra verið eitt helsta tákn ágengrar rannsóknablaðamennsku hér á landi og stundum gengið nokkuð langt. Eins og þegar hann lét stúlku ráða sig á elliheimilið Grund til að geta skrifað umdeilda úttekt á starfseminni þar. En nú bregður svo við að Reynir virðist allt í einu vera orðinn þægur þjónn Björgólfs eða einhverra annarra. Má vera að hann hafi tekið þessa ákvörðun til að bjarga störfum blaðamannanna en ólíkt hefði manni nú fundist það stórmannlega ef hann hefði hreinlega birt fréttina og aðra frétt um það að hann hefði verið beittur þrýstingi. Einnig hefði hann sem best getað lekið henni til annarra fjölmiðla og skýrt þannig frá því að hann þyrði ekki að birta hana. Það gefur auga leið að nú á þessum myrku krepputímum er frjáls, óháð og ágeng fréttamennska nauðsynleg sem aldrei fyrr. Manni finnst allt of mikið um það, að fréttamenn hlífi ráðamönnum. Auk þess sem miskunnarlaust er skorið niður á fréttastofum svo þær geta ekki með góðu móti valdið hlutverki sínu. Þess í stað er Gróa á leiti orðin fyrirferðamesti og hugsanlega áhrifamesti fjölmiðill landsins. 

Neikvæður jöfnuður Stjána

Stjáni Blái sem eitt sinn var bæjarstjóri á Akureyri mætti í Kastljósið í gærkvöldi til að eiga orðastað þar við Steingrím J. Sigfússon frá Gunnarstöðum. Hugðist bæjarstjórinn fyrrverandi nú heldur betur taka hinn vinstri græna bóndadurg í bakaríið og hóf upp miklar tölur um það að nú þyrfti heldur betur að spara og draga saman. Ein var sú speki sem hlaut að munni hins fyrrverandi bæjarstjóra þess sem reyndar er búinn að hrökklast frá að minnsta kosti tveim sveitarfélögum áður en hann kom til Akureyrar og það er sú speki að bótaþegar þurfi að taka á sig skerðingu rétt eins og aðrir. Nú kann rétt að vera að bótaþegar þurfi að taka á sig skerðingu, nema hvað, þeir tóku bara aldrei á sig neitt af góðærinu með það var og hét. Það voru ekki bótaþegar almannatrygginga sem voru með 62 milljónir í mánaðalaun, þeir hafa fæstir keypt sér dýra jeppa eða flatskjái og enn færri eignast digra sjóði til að hlaupa með í þrot! Rétt er það, þeir sem fá 150 þúsund á mánuði fá að halda sínu en óskaplega er það nú eitthvað lítið þessi 150 þúsund kall í allri verðbólgunni. Auðmenn sem aldrei hafa þurft að taka þátt í samneyslunni verða enga skerðingu að þola, þeir fá allir verðhækkanir umyrðalaust og meira að segja var með hraði fyrir nokkru breytt reglugerðum svo vínbúðirnar gætu hækkað nógu oft þegar þeir fengju verðin frá heildsölunum. Raunar datt engum í hug að fara nú að setja á hátekjuskatt. Hátekjuskatturinn á að vera vinnuletjandi og helst leggjast á ungt framtæknasamt dugnaðarfólk. Það kemur svo sem ekkert á óvart þó að svona heyrist úr munni sjálfstæðismanns. Sjálfstæðismanns sem meira að segja hefur svikið sína heimabyggð nokkrum sinnum í atkvæðagreiðslum á þingi í von líklega um ráðherrastól sem hann ætti þó að vita að búið er að ráðstafa stólnum fyrir löngu handa Engeyjarættinni. Hitt vekur furðu að Samfylkingin skuli dröslast með í þessa vitleysu. Það er jafnvel alveg slokknað á geislabaugnum hjá heilagri Jóhönnu. En víkjum aftur að bæjarstjóranum okkar fyrrverandi sem ætlaði sér án efa mikils ferils í pólitík. Illar tungur á Akureyri segja að hann hafi verið kosinn á þing eingöngu til þess að losna við hann úr bæjarstjórn en af því er best er vitað situr hann þar þó enn sem fastast. Líklega vegna launanna. Því þó hann álíti að bótaþegar almannatrygginga eigi að taka skerðingu þá gildir ekki það sama um fyrrverandi brottrekna bæjarstjóra!

Kvótinn líka

Hér hefur nokkrum sinnum verið fjallað um það hvernig höndlað hefur verið með peninga sem í rauninni eru ekki til. Réttara sagt að engin verðmæti eru á bakvið. Ein hlið þessa máls er kvótakerfið. Kvótakerfið var upphaflega sett upp í þeim góða og göfuga tilgangi að forða þorskinum frá því að verða útdauðum á Íslandsmiðum. Var kvótinn sem frægt er orðið færður útgerðinni að gjöf og síðar varð hann framseljanlegur og jafnvel veðhæfur. Smátt og smátt myndaðist á honum verð sem í raun þýddi að fiskurinn var miklu verðmæddari óveiddur en veiddur, vegna þess að kílóverðið á kvótanum varð hærra oft á tíðum en það verð sem fyrir fiskinn fékkst. Afleiðingin varð sú auðvitað að skynsamir útgerðarmenn hættu að róa. Það var miklu ábótasamara að selja eða leigja fiskinn óveiddan heldur en að hafa fyrir því að veiða hann. Þeir sem samt vildu nú veiða urðu að taka lán fyrir kvótanum oft á tíðum erlend og því er nú svo komið að sjávarútvegurinn er skuldugur upp fyrir haus. Gengisfellingar dópið sem alltaf hefur dugað vel er nú allt í einu orðið að andhverfu sinni því auðvitað hækka erlendu lánin í krónum. Menn eru farnir að tala um að brátt muni erlendir lánadrottnar koma inn í íslenskan sjávarútveg þó svo  þeir megi ekki vera þar nema í eitt ár samkvæmt lögum. Auðlindin sem menn vildu svo ólmir verja fyrir Evrópusambandinu verður farið úr landinu löngu áður en við gerumst aðilar að því.

Peningar á trjánum

Fyrir nokkru sagði stjórnmálamaður einn, að mig minnir Pétur H. Blöndal eitthvað í þá átt að peningar þeir yxu á trjánum. Auðvitað hristir maður höfuðið yfir slíkri firru en nú á þessum síðustu og verstu tímum er maður eiginlega farinn að trúa þessu. Maður heyrir nefnilega ævintýralegar sögur um peninga sem allt í einu verða til án þess að nokkurt verðmæti séu þarna að baki. Banki býr til fjárfestingafélag sem að lánar peninga til að kaupa hlutabréf í sjálfum sér gegn veði í þessum hlutabréfum. Eingöngu til að verð hlutabréfanna rjúki upp. Peningar hverfa líka án þess menn viti hvert eins og 30 milljarðarnir sem gufuðu upp úr Samvinnu tryggingum. Eitt dæmið enn er Sterling flugfélagið sem 5 sinnum gekk kaupum og sölum milli sömu manna og alltaf jókst verðmætið. Þetta er ævintýri sem auðvitað hlaut að enda ekki með sigri eins leikmananna eins og í Matador heldur með því að allir töpuðu. Peningarnir féllu af trjánum eins og laufblað á hausti og fuku burt í roki heimskreppunnar. 

Áhrif fólksins

Það er búið að hætta við að leggja niður svæðisstöðvar ríkisútvarpsins eins og Palli ætlaði að gera um daginn þegar á hann rann sparnaðaræði. Enda kom í ljós að sparnaðurinn að þessu var víst enginn þegar til kom. En þarna kom aldrei þessu vant í ljós að áhrif fólksins geta verið nokkur ef svo ber undir. Það reis nefnilega upp sterk mótmæla alda gegn ráðslagi þessu. Undanfarið hafa verið haldnir hinir og þessir mótmælafundir en því miður hefur aðsóknin ef til vill ekki verið sú sem skipuleggjendurnir vonuðust til. Einstaka unglingar hafa tekið sig til, kastað eggjum á Alþingishúsið og ruðst inn í Seðlabankann en árangurinn af þessu hefur ekki verið mikill. Nánast engöngu sá að sjá fjölmiðlum fyrir ódýri skemmtiefni. En þetta mál með svæðisstöðvarnar sýnir að fólkið getur haft áhrif. Hugsanlega væri ekki mikill vandi að knýja stjórnvöld til uppgjafar þannig að hægt væri að hreinsa til í kerfinu. Jafnvel allar sérsveitirnar hans Bjössa myndu lítt stoða ef þjóðin í alvöru setti hnefann í borðið. 

Óttinn við Stjórnvölin


Fyrir nokkrum mínútum var í útvarpinu viðtal við stúlku sem Hulda heitir Þórarinsdóttir og hefur numið stjórnmálasálfræði að ég held við Prinston háskóla í Bandaríkjunum. Þetta athyglisverða samtal fjallaði um notkun ótta sem stjórntæki og rannsóknir hennar á því sviði. Nú er það held ég allmennt viðurkennt og hefur í raun verið allt frá tíma Machiaveldis að það er miklu auðveldara fyrir stjórnmálamenn að láta þegnana óttast sig heldur en að elska. Eiginlega hefur maður stundum á tilfinningunni að fólk hafi tilhneigingu til að gera lítið úr stjórnmálamönnum sem eru sléttir og blíðir eins og t.d. Geir Haarde. Aftur á móti bera margir óblanda virðingu fyrir Davíð Oddsyni þó þeir jafnframt óttist hann og saki um valdnýðslu. Þannig eru nú allir skíthræddir þegar Davíð lýsir því yfir í viðtali við eitthvert danskt smábæjarblað að ef hann verði rekinn frá Seðlabankanum þá snúi hann bara aftur í pólitík. Nú virðist hann ekki njóta svo mikils fylgis en samt eru örugglega margir sjálfstæðismenn skíthræddir. Það kom fram í viðtali þessu sem í rauninni flestir stjórnmálafræðingar eru sammála um að ótti leiðir yfirleitt til þess að menn leita til fremur íhaldssamra flokka og finni þar öryggi. Kann þetta að vera meginskýringin á miklum uppgangi Vinstri Grænna. þar sem Vinstri Grænir eru mótvægi við hinn ráðandi Sjálfstæðisflokk en eru ef til vill á sumum sviðum ennþá íhalssamari en íhaldið sjálft. Auk einstrengingslegri þjóðrembu sem menn leita nú mjög til, teljandi allt útlent vont. Það er ekki lengur Elton John sem sóst er eftir í afmælisveislur höfðingjanna heldur er það Nonni Nikkari í Naustabæ.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband