Fylki í Noregi

Það er víst öllum ljóst að blessuð krónan okkar er ónýt og ýmsar hugmyndir eru nú á lofti um það hvernig hana beri að leysa af hólmi. Okkar nýskipaði fjármálaráðherra hefur sett fram þá hugmynd að við leitum eftir einhverju myntsamstarfi við Noreg taki jafnvel upp norsku krónuna. Hist hann ræða þetta mál við norska bloggsystur sína og einnig fjármálaráðherra þar í landi þegar hún kemur í afmælisteiti til vinstri grænna um næstu helgi. Fljótt á litið virðist þetta vera vænlegur kostur, norska krónan hefur staðið mjög vel, bökkuð af digrum olíusjóðum normanna. Þó hún hafi að undanförnu heldur sigið samfara lækkandi olíuverði og þarna komum við að fyrsta vandamálinu í sambandi við það að taka upp norsku krónuna. Það er ekki afkoma sjávarútvegsins sem ræður gengi hennar heldur heimsmarkaðsverð á olíu og við erum að minnsta kosti ekki enn orðin olíuríki þó svo Össur sé bjartsýnn. Sem kunnugt er þá nota norðmenn olíukrónur sínar meðal annars til að greiða niður sjávarútveginn. Sem þeir halda uppi sem einskonar byggðarstefnu og má vera að við gætum komist í þá aðstöðu að okkar sjávarútvegur kæmist einnig á norskt ríkisframfæri. En þá er hugsanlega skammt í fullveldisafsal því að þegar Norðmenn væru búnir að komast hér yfir allan sjávarútveg væri eftirleikurinn auðveldur: að kaupa upp brunarústir bankahrunsins, ná náttúruauðlindum landsins, í því sambandi má gæta þess að náttúruverndarsamtök í Noregi eru svo sterkur þrýstihópur að þau hafa komið í veg fyrir allar meiri háttar virkjanir þar á undanförnum árum. Það yrði nú aldeilis kósemtíð fyrir Norsk Hydro og önnur stóriðjufyrirtæki að komast í íslensk fallvötn. Er hætt við að jafnvel Kolla Halldórs mætti sín lítils gagnvart slíkum aðilum. Þó hún sé núna eitthvað að derra sig við Alcoa. Afleiðing þessa yrði sennilega sú á nokkrum árum að Ísland yrði innlifað í Noreg og gert að einu eða tveim fylkjum þar. Gamli sáttmáli leit ekki svo illa út á pappírnum þegar hann var lögtekinn en allir vita hver afleiðingin var. 


Gamla vínið

þá er nú gamla vínið komið á splunkunýja belgi. Heilög Jóhanna og Steingrímur farin að sænga saman og hyggjast halda sínum samförum áfram að minnsta kosti til 25. apríl. Jú, þetta eru nýir belgir. Minnihlutastjórn með ópólitískum ráðherrum en heldur er nú vínið í þessum nýju belgjum orðið gamalt. Rósrauð Jóhanna ásamt firrum þjóðvakastelpu og svo hinn veginn, gamli góði Steingrímur frá Gunnarstöðum ásamt liði sem sérhæfir sig í neikvæðni og hippaleg stúlka líklega sófa náttúruverndarsinni komin í menntamálin. Fyrir utan sérfræðingana tvo er hérna ekki um neitt stórfenglegt nýnefni að ræða enda sýnist manni fólkið eiga svolítið erfitt með að komast upp úr hjólförunum og hvorugur virðist vilja vægja í sérmálum sínum. Þannig vill Kolla stúta álverinu á Húsavík, Steingrímur norska krónu en Jóhanna evru og enginn veit sitt rjúkandi ráð. Framsókn hitnar svo eins og púkinn á fjósbitanum vitandi það að hún er allt í einu orðin valdamest flokka á Íslandi þó fylgið sé bara 7%. Að sönnu lék hún afleik í stjórnarmyndunarviðræðum af því að hún hélt að hún ætti að fá að vera með í stjórninni. En það er ekki bara á vinstri vængnum sem nýir belgir eiga að fara að birtast. Sjálfstæðisflokkurinn boðar nýja forustu og óháða, þar er vonarpeningurinn. Maður sem ber eitt fínasta pólitíska nafn á Íslandi; Bjarni Benediktsson náfrændi fyrrverandi dómsmálaráðherra og fæddur inn í eina fínustu ætt landsins. Til nýjunga má nú teljast að hann hefur verið við stjórn olíufélags. Keppinautar hans eru álíka mikið nýnæmi, kynbomban úr menntamálaráðuneytinu og fyrrum heilbrigðisráðherra sem afrekaði það helst að taka upp innritunargjald á sjúkrahús og flytja skurðstofur úr hafnarfirði til vina sinna í Keflavík. Sjálfsagt með viljugu vitund Eyjapeyjans sem þar er bæjarstjóri en sem einnig er nefndur til formennsku. Þá má að lokum geta þess að ekki er allt sem sýnist með endurnýjunina hjá framsókn. Það hefur hvergi komið fram í fjölmiðlum að nýr formaður hennar er sonur fyrrverandi þingmanns framsóknar Gunnlaugs Símonsonar sem frægur var þegar hann í gegnum fyrirtækið sitt Kögun komst yfir alla þjónustu við ratsjárstöðvar NATO hér um árið. En þetta var einn feitasti biti sem hægt var að ná í þá.

Búsáhaldabyltingin

Þegar Alþingi hugðist koma saman eftir ríflegt jólafrí, þriðjudaginn 20. janúar til að ræða bráðafkallandi mál á borð við brennivín í matvælabúðir og fleira smálegt. Mætti þingheimi dynjandi sláttur sleifa í potta og pönnur. Ásamt harðri hríð snjóbolta og eggja sem svarað var með táragasi í fyrsta skipti í mannaminnum. Þetta átti held ég ekki að verða nein bylting heldur svona smá gaman í vetrardrunganum. En svo gerðist það eins og oft vill verða, atburðarrásin tók völdin. Menn sáu að lýðurinn var ekkert hættur að mótmæla heldur hafði hann bara safnað kröftum yfir hátíðarnar og þetta kom mönnum í opna skjöldu. Allt í einu hafa menn séð að fólkinu var ekki lengur sama, enda allir farnir að finna fyrir kreppunni. Jafnvel liðið með flatskjánna á fínu jeppunum. Skiptir engu máli í þessu sambandi þó mótmælendur hafi verið sundurlaus hjörð. Allt frá drukknum unglingum og anarkistum til fólks tengt vinstri grænum, forvarnarbransanum og atvinnumótmælendum á borð við vörubílstjóra og stjórnvöld voru ótrúlega veik fyrir líkt og í Austur-Evrópu á sínum tíma þegar kerfið féll nánast eins og spilaborg. Afsögn viðskiptaráðherra á sunnudagsmorgun var undirstaðan sem féll domino áhrif þess urðu slík að ekkert stóð eftir sólahring síðar. 

Nýtt Ísland

Í umroti síðustu daga hafa heyrst þær raddir að best sé að fleygja þessu gamla handónýta Íslandi. Sem menn eru búnir að steypa í þrot og gera tæknilega gjaldþrota. Jafnframt vilja menn koma á fót einhverju fyrirbæri sem menn kalla nýtt Ísland eða jafnvel annað lýðveldið með skírskotun til Frakklands en þar eru lýðveldin orðin fimm. Bankahruninu hefur fylgt eitthvert siðferðis og stofnanahrun. En þó að allt sé í rúst eru hugmyndirnar um endurreisn ekki almennilega mótaðar. Þó virðast þær flestar hníga að því að skilja enn frekar en nú er milli löggjafavalds og framkvæmdavalds. Menn tala jafnvel um að kjósa framkvæmdarvaldið beint líkt og í Frakklandi eða Bandaríkjunum og finna eitthvert kerfi sem kemur í veg fyrir að forfalla dómsmálaráðherra sé skipaður bara til þess að koma syni fyrrum forsætisráðherra í dómaraembætti. Menn deila einnig um kosningakerfi, sumir vilja að landið verði eitt kjördæmi en aðrir skipta því upp í pínulítil einmenningskjördæmi. En bæði þessi kerfi hafa kosti og galla. Ef til vill mætti fara þarna bil beggja; kjósa hluta þingsins af landslistum og hinn hlutann í litlum kjördæmum. Einnig mætti kjósa alla þingmenn af einum lista en koma á fylkjaskipun. Mörg sjónarmið eru hér uppi og væri ef til vill ekki vitlaust að kjósa stjórnlagaþing sem t.d. sæti á Þingvöllum og sem ráðherrar og þingmenn ættu ekki sæti á. Upp úr slíkum suðupotti kæmi hugsanlega einhver bræðingur sem nota mætti til að lappa upp á gjörónýtt lýðveldið. 

Rauðgrænn Þorri

Enn er Þorri upphafinn með árvissum blótum sínum og blindbyljum. Að þessu sinni er þorramaturinn sem boðið er upp á að því er virðist með rauðgrænum lit. Hin bláhvíta stjórn sem við völd var sprakk með miklum hvelli og allt í einu var tími Jóhönnu kominn þó svo flestir hafi nú haldið að hann væri nú liðinn fyrir löngu. Ef satt skal segja þá var leikritið alveg drepfyndið, látið var af því liggja að stjórnin hefði sprungið út af metingi um það hvort fyrsti kvenkyns forsætisráðherrann kæmi úr sjálfstæðisflokki eða samfylkingu. Sennilega hefur þar meira búið undir því varla hafa menn verið svo arfavitlausir að taka svoleiðis tildur fram yfir þjóðarhag. Er þá líklegt að hin raunverulega ástæða hafi heitið Davíð Oddson. Þó slíkt sé ekki opinberlega sagt. En babb er komið í bátinn, menn hafa komist að því að það er ekki hægt sí svona að reka Davíð heldur þarf að breyta lögum eða eitthvað því um líkt. Annars verður fróðlegt að sjá hvernig hinn rauðgræni þorramatur muni bragðast. Ekki virðast menn ætla sér að sitja að snæðingi lengur en brýn nauðsyn ber til. Í augnablikinu virðist svo sem vinstri grænir fái því framgengt að kosið verði tiltölulega fljótlega, þannig að í raun mun enginn tími vinnast til, til þess að þeir þurfi að taka neina ábyrga ákvörðun. En um leið gegn sjálfstæðismönnum ekki góður tími til að ná aftur vopnum sínum. Einnig er líklegt að ýmsum brýnum málum verði sópað undir teppið eins og t.d. spurningunni um Evrópusambandið. Í augnablikinu virðist vera hagkvæmast fyrir alla að það mál verði sem minnst rætt og ekki mun heldur reynast tími til bráðnauðsynlegra úrbóta á stjórnarskránni. Eftir 2-3 mánuði munu menn sitja að sumbli við veisluborðið undir skærri lýsingu frá geislabaug heilagrar Jóhönnu. 


Þversögnin Ísland

Ísland, stórasta landið í heimi. Þetta litla örverpi þarna út í miðju atlandshafinu er mjög undarleg þversögn. Andstæðukennd og súrrealísk. Land elds og ísa, gert úr hrauni eins og segir í vinsælli sælgætisauglýsingu. Með endalausa sumardaga og biksvartar vetrarnætur og þessar andstæður endurspeglast í þeirri þversagnarkenndu þjóð sem landir byggir. Þjóð sem manni finnst næstum því að sé haldin geðhvarfasýki. Einn daginn vinnur hún silfurverðlaun í handbolta á Ólympíuleikum og tryllist við það af þjóðrembu. Eða kemst á Evrópumót kvenna í knattspyrnu með því að vinna leik sem meira minnti á íshokkí en knattspyrnu. Svo þegar þjóðin fer niður, sökkvir hún sér í kreppu svo mikla að slíkt hefur aldrei fyrr orðið og verður sér til skammar á alþjóðavettvangi. Byggir heimsins glæstu verslanahallir og býr til bankakerfi sem springur eins og heimsins stærsta helíumblaðra. Þessa þjóð blóðlangar að kjósa og skipta út öllu liðinu en það er eins víst að niðurstaðan verði sú að gamla settið verður allt komið á sinn stað aftur. Þjóðin mun sjálfsagt halda áfram að halda við einu sínu stærsta einkenni sem er yfirgengileg hræsni, guðsótti og forvarnir gagnvart öllum nema sjálfum sér. Stórasta landið eða málvillan í Atlandshafinu sem hefur það að einkunnarorðum "þetta reddast".

Nýir siðir ráðherranna

Það fer víst ekki framhjá neinum að allt er orðið breytt frá því sem áður var. Menn tala nú um fyrir kreppu og eftir kreppu og nýjum tímum fylgja nýir siðir jafnvel hjá gömlum herrum og það má með sanni segja um blessaða ráðherrana okkar. Þeir hafa nú tekið upp að ýmsu leiti nýja siði, það er ekki bara að hér séu nú tvær ríkisstjórnir sem hvorug veit í hvorn fótinn á að stíga. Heldur hafa nú ráðherrarnir  leitað að ýmsu leiti í farveg sem engin hefð er fyrir á Íslandi. Allt frá þjóðveldistíma hefur það verið ríkt í eðli þessarar þjóðar að standa saman og vera með samtryggingu á sem flestum sviðum. Áfall eins hefur verið áfall annarra. Þessu er nú verið að hverfa frá og ljósasta dæmið um það sú nýbreytni að fara skuli að selja inn á sjúkrahúsin. Nú er það í sjálfu sér ekki upphæðin, 6000 kr. sem skiptir hér máli heldur hugsunin á bak við þetta. Að þurfa að greiða sjálfur fyrir þá náð að verða veikur eins og það sé eitthvað sem maður kýs sjálfur. Samanber speki Sighvats hér um árið þegar hann sagði að menn yrðu að velja á milli þess að fara í sumarfrí til Mallorca eða hugsa um heilsuna, eins og þarna væri eitthvert val. Það hlægilega er við allt þetta að Geir forsætisráðherra viðurkenndi að þetta gjald skipti svo sem ekki sköpum fyrir fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar heldur væri bara sanngjarnt að þeir sem lögðust inn á sjúkrahús borguðu líka fyrst hinir sem fengju ferliverk yrði að borga fyrir þau. Þarna hefði verið auðvelt að leysa málin allt öðruvísi og jafnvel enn hagkvæmar með því að setja á einhverskonar almennt sjúkratryggingargjald t.d. 2000 kr. á mánuði þar sem allir tækju þátt í að greiða fyrir bæði ferliverkin, sjúkrahúsdvöl og jafnvel komur á heilsugæslustöð. Mig minnir að Guðmundur Árni hafi verið með einhverjar svona hugmyndir á sínum tíma og þess vegna er það stórfurðulegt að Samfylkingin skuli ljá máls á þessum hugmyndum frjálshyggjustráksins sem einhvernvegin álpaðist inn í heilbrigðisráðuneytið án þess að hafa hundsvit á heilbrigðismálum. Þótt reyndar sé nú mesti frjálshyggjuvindurinn úr honum. Nú er meira segja svo komið að jafnvel heilög Jóhanna er farin að beita blekkingum. Um daginn var það mikið básúnað að lágmarks bætur almannatrygginga ættu að hækka upp í 180 þúsund. Jú rétt er það, gallinn er bara sá að þetta voru ekki útgreiddar bætur heldur bæturnar áður en skattmann tók sitt. Því er það enn ævi margir sem fá mun minna útgreitt en þetta. Sá sem þetta ritar var nýlega að fá tilkynningu um tryggingabæturnar sínar, þar stóð upphæðin 161 þúsund en ekki 180.

Glæpir á Gaza

Frá því á annan í jólum hefur heimsbyggðin mátt horfa upp á Ísraelsmenn sprengja og eyðileggja allt sem fyrir er á Gaza svæðinu sem er annar hluti Palestínska heimastjórnarsvæðisins. Ástæðan, jú einhverjir hamarsasnar hafa verið að skjóta rakettunum sínum inn á ísraelskt land en öfugt við íslenska óvita þá veit þetta lið full vel að flugeldar geta verið hættulegir ef menn fara ekki varlega með þá. Ísraelsmenn aftur á móti miskilja þetta eitthvað og halda líklega að þarna sé um kjarnaflaugar að ræða að minnsta kosti eftir viðbrögðum þeirra að dæmi. Ráðist er á Palestínu með flugvélum, brotið allt og bramlað og nokkur hundruð menn drepnir og síðan senda þeir dátana sína inn til að kála enn fleiri. Segjast vera að drepa hamarsliða en svo virðist sem það séu mest mengis konur og börn sem þeir hafa drepið. Og að sjálfsögðu kennir raunarbróðurinn sem enn situr í Hvíta húsinu aröbunum um og hið sama lepur kynbomban í menntamálaráðuneytinu íslenska upp eftir honum. Utanríkisráðherra á þó heiður skilið fyrir að hafa fordæmt framferði Ísraelsmanna. Þó slíkt fari í taugarnar á samstarfsönnum í sjálfstæðisflokknum. Þá mátti sjá dálítið furðulega áróðursmynd sem halda mætti að gerð hafi verið á Mossat ísraelsku leyniþjónustunni á okkar kristilegu omega stöð. Þar var lagt að jöfnu persónulegt gyðingahatur, amfetamínsfíkilsins og parkinsonsjúklingsins Adolf Hitlers og hatur óvina Ísraelsríkis í dag. Hér er grófur misskilningur á ferðinni. Mörgum sönnum vinum gyðinga blöskrar framferði Ísraelsríkis, sem svarar smástríðni einhverra strákspjakka með fjöldamorðum. Auðvitað er þessi smábarnalega ögrun hamarsliða óásættanleg, en henni á ekki að svara á þennan viðbjóðslega hátt. Það þarf að taka flugeldana af Palestínumönnum en þá jafnframt að taka kjarnorkuvopnin af Ísrael.

Hvað boðar nýár...

Þá eru landsmenn búnir að sprengja upp gamla árið. Að sönnu ekki með sama glansi og áður en landinn var þó býsna samur við sig. Skaupið var ágætt, en það var bara ekki nánda nærri því eins fyndið og fréttaannálarnir. Enda afar erfitt að gera grín að þessu súrrealíska ári. Þar sem nokkrum aðilum tókst með efnahagssnilld sinni að setja landið á höfuðið og meira að segja að eyðileggja orðstír silfurliðsins. En nú er semsagt hafið nýtt ár og spennandi að sjá hvað það ber í skauti sér. Hvort þjóðarskútan sekkur endanlega til botns, strandar á einhverjum goðanum eða feykist um stefnulaust í óveðrinu með áhöfnina löngu búna að gefast upp og farin að drekka frá sér vitleysuna. En farþegarnir á skútunni eru annað hvort farnir að reyna að gera uppreisn eða húka ælandi úti við borðstokkinn. Víst er að komandi ár verður fjörugt og ballið byrjar strax í janúar með tveim flokksþingum þar sem allt mun leika á reiðiskjálfi og flokkar jafnvel klofna og sameinast. Allt út af Evrópusambandinu sem sumir vilja ólmir í en aðrir alls ekki sjá. Eins og málin horfa í dag þá held ég að flestir geri frekar ráð fyrir kosningum í vor en hitt. Kosningar eru líka í raun mjög þægilegar fyrir pólitíkusana. Eins og sumir Suður-Amerískir einræðisherrar nota fótbolta til að fá þjóðina til að gleyma, eða Rússar vodka þá er tilvalið fyrir stjórnmálamenn á Íslandi að fara í erfiðan kosningaslag og kenna hvor öðrum um hvernig allt fór. Á meðan hefur þjóðin að minnsta kosti ekkert annað að hugsa um. Sjálfsagt þá verður niðurstaða kosninganna sú að gamla liðið mætir aftur á svæðið ef til vill undir nýjum nöfnum. Gamla súra vínið verður komið á nýja belgi og útrásarvíkingarnir aftur mættir með illum feng sinn til að kaupa brunarústirnar fyrir slikk. 

Jól í Kreppu

Enn nálgast blessuð jólin. Jól sem að þessu sinni eru bæði í kreppu sjálf og eru haldin í kreppu. Sagt er að fólk muni að þessu sinni eyða mun minna fyrir þessi jól en undanfarin ár og t.d. þá verða ekki gefnir bílar eða flatskjáir í jólagjöf að þessu sinni. Gott ef ekki verða sumstaðar bara kerti og spil rétt eins og í þá gömlu góðu daga þegar þjóðin hírðist í torfkofum við kertaljós. Jólin hafa einhvernveginn alltaf sinn sérstaka sjarma, þrátt fyrir þá staðreynd að líklega hafi Jesús Kristur ekki fæðst 25.desember heldur annað hvort sennilega í apríl eða september og að öllum líkindum 4-5 árum fyrr en tímatal okkar segir. En það er vel til haldið að minnast sigur ljóssins í myrkrinu og í raun ekkert að því að minnast jesúbarnsins þar sem við vitum hvort eð er ekkert hvenær það fæddist. Það er og góður siður að gefa gjafir í minningu vitringanna, ríkisstjórnin er þegar búin að senda jólasveinana sína í þinghúsinu með gjafirnar handa landslýð í formi samdráttar, skattahækkana, vaxtahækkana, að viðbættri auðvitað blessaðri verðbólgunni. Svo kemur nýja árið með enn meiri kreppu og fjölda atvinnuleysi. Hugsanlega með miklum pólitískum átökum sem þess vegna gætu endað með stjórnarslitum kostningum og enn meiri kreppu.

Gleðileg jól þrátt fyrir allt 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband