Stjórnaraþing

Mikið er nú rætt og ritað um svokallað stjórnaraþing sem ætlað er að kjósa til hugsanlega næsta haust og sitja einhverja mánuði til að endurskoða stjórnarskránna. Þar skal strax tekið fram að í raun þá ætti þetta stjórnaraþing að semja nýja stjórnarskrá frá rótum. Því staðreyndin er sú að þjóðin hefur aldrei gefið sjálfri sér stjórnarskrá heldur notfært að mestu við plagg sem Danakóngur færði okkur fyrir meira en 100 árum og er nú orðið eins og stagbætt útslitin flík sem okkar ágæta lýðveldi er ekki lengur samborið. Það færi í raun vel á að ný stjórnarskrá gæti tekið gildi á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Gæti maður varla hugsað sér betri afmælisgjöf honum til handar. Í stuttum pistli er ekki hægt að fara nánar út í allar þær breytingar sem gera þarf. Meðal annars afnám þingræðis, gjörbreytt kosningafyrirkomulag, aðskilnað valdaþáttunna, vald forseta og fleira. Þá er einnig og um það hefur ekki mikið verið rætt, þörf á að slaka á þessu hrikalega miðstjórnarvaldi þar sem bókstaflega öllu er sankað saman í einn brennipott í Reykjavík. Til gamans má geta þess að Reykjavík er eina sveitafélagið á landinu sem er nafngreint í stjórnarskrá lýðveldisins. Það vekur athygli að engum dettur í hug að halda þetta þing annar staðar en í Reykjavík. Þótt margir staðir kæmu jafnvel enn frekar til greina og jafnvel fleiri en einn með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Merkilegt nokk, menn  hafa ekkert athugað hvernig nota má nýjustu fjarskipta og samskiptatæki til að draga úr kostnaði við þingið. En þó að sjálfstæðismönnum þyki þetta þing nokkuð dýrt spaug þá eru þeir samt svo innilega ábyrgðarlausir þegar það kemur að því að reyna að finna leiðir til að draga úr þessum kostnaði. En við sjálfstæðismenn skal þetta sagt: Lýðræði er dýrasta og versta stjórnarform sem hugsast getur en það er samt eina stjórnarformið sem hugsanlegt er.

Vor dagleg spaugstofa

Föstudaginn 6. Mars var vor dagleg spaugstofa les alþingi við Austurvöll á Skjónu,.Ýmis mál voru að vanda á dagskránni og meðal annars frumvarp til stjórnskipunarlaga en til að byrja með stóð til að ljúka umræðum og greiða atkvæði um frumvarp sem allir voru búnir að lýsa stuðningi við varðandi heimild til að taka út séreignalífeyrissparnað. En nú ber svo við að þingmenn sjálfstæðisflokksins komu í pontu og fluttu hvern langhundinn á eftir öðrum um það að þeir væru jú samþykkir frumvarpinu með breytingum þó. Tíminn leið og leið, alltaf komu sjálfstæðismennirnir og fluttu að því er virtist allir nánast sömu ræðuna og þeir bættu um betur og komu upp í andsvar hver við annan. Tilgangurinn með þessu jú, að draga fundinn á langinn svo stjórnskipunarlögin kæmust ekki á dagskrá. Á mæltu máli kallast þetta málþóf þó að stjórnarandstæðingar á hverjum tíma kalli það gjarnan ítarlegar umræður og því er oft beitt enda nánast eina beitta vopn stjórnarandstöðu og þetta hefur stundum tekist. T.d. þegar vinstri grænir stöðvuðu brennivín í búðirnar, eitt sinn með málþúfu en neituðu því reyndar ekki að um málþóf væri að ræða. Ennþá lengra aftur í tímann kúgaði einn þingmaður Ellert B Skran þingheim til að breyta lottófrumvarpinu. Núna kalla sjálfstæðismenn framgöngu sína ekki málþóf en maður spyr sjálfan sig hvaða annað orð er hægt að nota yfir þetta nýja fyrirbæri þegar menn beita málþófi en frumvarp ekki til að stöðva það sjálft heldur stöðva allt annað frumvarp.

Norsk - Franskur Stormsveipur

Íslensk stjórnvöld hafa í kjölfar athyglisverðs sjónvarpsviðtals ráðið konu eina Evu Joly til að rannsaka fúapytt þann sem opnaðist við efnahagshrunið í haust. Kona þessi sem er norsk að ætt en hefur lengi starfað sem rannsóknardómari í Frakklandi. Er vel þekkt fyrir að hafa afhjúpað stór fjármálahneyksli í Evrópu og má þar t.d. nefna; Elf Erap málið í Frakklandi og fótboltahneykslið í Marseille þar sem margir háttsettir menn komu við sögu. Eftir að hún kom hingað hefur hún talað nokkuð tæpitungulaust um hlutina hér. Auðvitað rekur hún strax augun í ýmislegt skrítið. T.d. það hvernig nokkrir tugir manna mynda hér eignartengsl, krosseignartengsl og gott ef ekki eignar krosseignatengsl og nýta svo aðstöðuna til að stela frá þjóðinni, veðsetja hana, koma henni síðan á hausinn og láta almenning borga skaðann. Þessi norsk - franski stormsveipur hristir ærlega upp og hressir við þjóðfélagið. Þó býr manni í grun að Joly hafi ef til vill ekki næga þekkingu á tilurð og skipulagi hinnar kerfislægu spillingar. Sem reyndar er ekkert ný af nálinni. Segja má að þetta nána samkrull efnahagslífs og stjórnmála megi rekja allt til upphaf heimastjórnar árið 1904. Þá þegar mynduðust vísar að stjórnmálaflokkum sem jafnframt voru fyrirgreiðslustofnanir fyrir ákveðna einstaklinga og fyrirtæki. Þessi þróun hélt svo áfram út alla síðustu öld með t.d. kolkrabbanum og smokkfiskinum, tveim viðskiptablokkum sem skiptu með sér auði þjóðarinnar og þar með stjórnmálunum. Þessi fyrirbæri liðu undir lok þegar markaðsþjóðfélag komst hér á við inngönguna í EES. En gömlu tengslin milli viðskipta og stjórnmála og því fór sem fór. Það er vonandi að hinu nýju straumar að utan nái að hreinsa upp þessa fúlu forarvilpu, græðgi, hagsmunapots og sukks á kostnað þjóðarinnar. 

Stóri Laugardagurinn

Í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum er til fyrirbæri sem nefnist stóri þriðjudagurinn. En það er ákveðinn þriðjudagur þar sem prófkjör fara fram í mörgum mikilvægum ríkjum. Laugardagurinn 14.mars var að þessu leiti dálítil íslensk hliðstæða því þá fóru fram ekki færri en átta mismunandi prófkjör, forvöl og uppstillingar á hina ýmsu framboðslista við komandi kosningar í apríl. Sitthvað athyglisvert kemur í ljós þegar úrslit þessara kosninga eru skoðuð og þá ef til vill fyrst það að svo virðist sem búsáhaldabyltingin sé að miklu leyti runnin út í sandinn. Sú krafa um endurnýjun sem allir settu fram og átti meðal annars sinn þátt í falli ríkisstjórnarinnar. Virðist hér ekki skila sér, hvað sem því veldur. Má vera að þegar allt kemur til alls þá treysti menn gamla liðinu best til að losa skútuna af strandstað. Jafnvel því liði sem syndi henni í strand. Hver veit nema það hafi bara verið fljótfærni hjá þeim sem ákváðu að hætta. Því sú endurnýjun sem prófkjörin hafa fætt af sér er ekki sérlega sannfærandi. Svo sem flesta grunaði þá reyndist ekki eftirspurn eftir Jóni Baldvin en leitt er að svo ágæt manneskja sem Ásta Ragnheiður fékk ekki góða kosningu kom hún þó ekkert nálægt hruninu. Hinsvegar fær aftur heilög Jóhanna næstum rússneska kosningu og ekki virðist það sérlega trúverðugt að sækja ættargrip Engeyjarættarinnar til að leiða íhaldið í kraganum en hafna svo góðu andliti sem Þorgerður Katrín er. Við þetta má bæta að enn fyrirgefast Árna Jónsen tæknileg mistök hans hér um árið. Þar sem hann fær glimrandi kosningu í 2.sæti í suðurkjördæmi. Að framansögðu má sjá að búsáhaldabyltingin er fyrir löngu búin að éta börnin sín og allt orðið slétt og fellt á ný.

Bjórdagurinn

Sunnudagurinn 1.mars er merkisdagur í Íslandssögunni. En fyrir 20 árum þann dag var aftur leyfð sala áfengs bjórs á Íslandi sem bönnuð hafði verið síðan 1915. Bjórbannið var á sínum tíma sett á samfara banni á öllu áfengi en einhverra hluta vegna var bruggun og sala bjórs þegar áfengisbanninu var afleitt árið 1933 og hefur maður aldrei fengið neina skýringu á því hvers vegna svo var og maður heyrði aldrei í rauninni nein skynsamleg rök fyrir því hvers vegna bjór væri svona hættulegur. Hinsvegar voru Íslendingar oft aðhlátursefni í útlöndum útaf þessu. Engin skyldi hvers vegna bannað var að selja 3% bjór en leyft að selja 75% vodka. Er þetta bara ein af þessum sérkennilegu sérviskum okkar Íslendinga. Nokkuð sem hlaut að hverfa þegar Ísland komst í takt við umheiminn. Enda allir byrjaðir að drekka bjór á Íslandi áður en bannið var formlega afnumið. Ein birtingarmynd þess var hið þjóðfræga bjórríki sem allir drukku tvö síðustu ár bjórbannsins. En bjórinn var heiftarlegt deiluefni og mikið tilfinningamál. Einn bindindisfrömuðurinn lét þá um mælt að ef bjórinn yrði leifður færi Ísland til helvítis. Ísland er að sönnu farið til helvítis en hér skal ekki tekin afstaða til þess hvort það sé bjórnum að kenna eður ey. Hitt er annað mál að innleiðing bjórsins hefur haft mikil áhrif á drykkjuvenjur Íslendinga. Líklegt er að í dag drekki menn oftar en minna en áður og ekki er ósennilegt að sú yrði þróunin áfram ef áfengi yrði selt í matvörubúðum. En þessi mál eru auðvitað öllsömul dæmigerð fyrir mál sem blessaðir þingmennirnir eru ófærir um að leysa og komi því til skoðunar varðandi frekari beitingu þjóðaratkvæðagreiðsla

Norska leiðin

Þá er hann Davíð loksins farinn úr seðlabankanum. Lengsta og flóknasta uppsagnarbréf sögunnar segja sjálfstæðismenn. En gátu þess þó ekki að þeir áttu sjálfir stærstan þátt í að gera það bæði langt og flókið. Þarna sannast eiginlega sem oftar að sjaldan launar kálfur ofeldið. Því ekki var að heyra annað en að í þessu dramatíska 60s leikriti sem Davíð bauð upp á í kastljósinu á mánudag væri fólgnar heiftarlegar árásir á sjálfstæðisflokkinn fyrir stórfelld afglöp í stjórnun efnahagsmála. Þó að aumingja Geir hefði að vísu enga ásökun heyrt. Annar mætti halda að þarna í Kastljósinu hafi þeir allir verið samankomnir Hamlet, Macbeth, Leó Konungur og túdorarnir. Það var auðséð að þarna var að kveðja maður sem var svo yfirgengilega stór að allt í kringum hann varð að tómu hismi og hjómi. Enda varð auðvitað að leita út til Noregs eftir eftirmanni hans líklega enginn svo stór á landi hér. Stjórnarskráarbrot segja einhverjir en við vitum það og Davíð líka að menn hafa löngum hér sagt; Hvað er ein stjórnarskrá milli vina. Samanber öryrkjamálið þar sem virtur lögfræðingur útvegaði Davíð lögfræðiálit þegar mikið lá á og fékk gott ef ekki stöðu hæstaréttardómara að launum. En nú fara í hönd spennandi tímar spurningin er hvort við fáum Davíð aftur upprisinn fram á pólitíska sviðið með öll sín hræðilegu ógnvekjandi leyndarmál. Að minnsta kosti er fyrsta sætið í suðurkjördæmi laust. Gott að taka svolítið í hnakkadrambið á Þorgerði Katrínu og ráðast síðan fíleldur gegn Ingibjörgu og Jóhönnu. Maður er jú kvensterkur 

Sofandi löggur

Ekki er hægt að segja annað en að lögreglan í okkar kæra heimabæ sofi vært þessa dagana. Þeir rumskuðu þó nokkuð að morgni þriðjudagsins 17. febrúar þegar mikil sprenging hvað við í húsi í um það bil 500 metra fjarlægð frá lögreglustöðinni. Þegar að var komið sást að sprenging hafði orðið í gaskútum sem þarna voru og reyndist maður hafa slasast hættulega þarna. Þegar betur var að gáð kom í ljós að gaskútarnir voru alls 25 talsins og kom í ljós að maðurinn sem þarna bjó hafði verið að sniffa af þessu gasi. Ekki var þá þarna um neinn ungling að ræða eins og vanalegt er þegar um slíka iðju er að ræða heldur mann sem var rétt tæplega þrítugur og hafði raunar áður komum sjálfum sér í lífshættu með svipuðu athæfi austur á landi. Fyrir utan að hafa setið inni fyrir kynferðisafbrot, reyndar kom í ljós að hluti gaskútanna var þýfi. Hér vakna nokkrar spurningar; Af hverju hafði lögreglan ekkert eftirlit með manni sem hafði þennan feril að baki og hlaut hún ekki að sjá þegar hann fór að draga að sér alla þessa gaskúta. Enginn heilvita maður geymir 25 gaskúta á heimili sínu og það hlýtur eiginlega að stríða gegn eldvarnarreglugerð. Það er nokkuð undarlegt að sjálfræði manna geta gengið svo langt að menn geti sprengt sjálfan sig og aðra í loft upp átölulaust. Þarna virðist lögreglan hafa sofið heldur betur vel á verði því aðeins tveim klukkutímum áður en sprengingin var tilkynnt um að verið væri að bera gaskúta inn í húsið og jafnvel að þar hafi verið um leigubíl að ræða. Hvað manninn áhrærir þá er eins víst að dómgreind hans er löngu farin út í veður og vind á margra ára sniffi. Hvað sem öðru líður þá hlýtur þetta mál að verða tekið til alvarlegrar rannsóknar. Augljóst er að hér er um að ræða sofanda hátt og afglöp margra aðila.

Mikilmenni til Sölu

Árið 1959 réðust óvígar sveitir Maors Formans inn í Tíbet þar sem þær hafa verið þaulsetnar síðan. Við lítinn fögnuð alþjóða samfélagsins. Leiðtogi Tíbeta mikilmennið Dalai Lama slapp við illan leik og mikið harðræði yfir til Indlands. Þar sem hann síðan hefur setið í útlegð en víða ferðast og boðað fagran boðskap friðar og kærleika. Nú er komið að því að hann heimsæki hið vesæla Ísland. Þrúgað af kreppu og hugarvíli. Auðvitað heyrist í Kínverjum en utanríkisráðuneytið svaraði því til að hann kæmi hér á vegum einkaaðila og rétt mun það vera að heimsókn hans mun verða í boði einkaaðila. Gott og blessað, en þegar maður heyrði viðtal við eina af þeim konum sem þar voru í forsvari runnu á mann tvær grímur. Það er ekki nóg með það að mikilmennið eigi að halda tölu í íþróttahöll sem staðsett er í þessari einu eilífu Reykjavík sem virðist vera upphaf og endir alls, heldur á líka að selja inn á herlegheitin og því hærra skal greitt fyrir sem menn eru á betri stað í höllinni. Þarna er auðvitað á ferðinni stéttarskipting sem er gjörsamlega óþolandi og það mitt í kreppunni. Það er ekki nóg með það að menn skuli þurfa að greiða fyrir að hlusta á hinn stórbrotna boðskap Dalai Lama. Eitthvað um 3000 kr. fyrir ódýristu sætin heldur bætist við auka kostnaður fyrir landsbyggðarfólk. Því ekki hefur heyrst að viðburðurinn verði sjónvarpaður, telja verður þá ólíklegt að Dalai Lama taki einhverja óskaplega upphæð fyrir ræðu sína. Slíkt væri hræsni. En það er engu minni hræsni ef það fólk sem að heimsókninni stendur ætlar sér að koma út í gróða. Vel mætti hugsa sér ýmsar leiðir til að fjármagna dæmið án þess að selja inn s.s. styrktaraðild, almenn samskot, sölu á sjónvarpsrétti og því um líkt. Af hverju ekki að láta þessa samkomu fara fram á einhverjum fallegum stað í íslenskri náttúru, nefnum þingvelli, Ásbyrgi, Keri,Öxnadalsheiði þar sem Sigurrós hélt tónleika sína, möguleikarnir eru óteljandi.

Endurtekning sögunnar

Einhverstaðar er sagt að sagan endurtaki sig í fyrsta skipti sem harmleikur og í annað skipti sem skopleikur. Um þessar mundir frumsýnir Freyvangsleikhúsið söngleik sem kallast Vínland. Ekki veit ég hvort þess er getið í söngleiknum sem fjallar um landnám í Vesturheimi að þarna er í rauninni um að ræða fyrstu misheppnuðu útrás hraustra víkinga. Hugsanlega hefur hún misheppnast vegna þess að þeir kunnu lítt til annarra lista en að drepa menn. Mörgum öldum síðar hófu Íslendingar aðra útrás sem auðvitað rúllaði enda þeim bent á að þeir kynnu miklu betur að veiða fisk en að standa í bankastarfsemi. Þessi endurtekning sögunnar var þegar öllu er á botninn hvolft að vissu leiti skopleg stæling á Leifi heppna og félögum. En um Vínarför hans lét Oscar Wild svo um mælt að Leifur hafi verið heppinn að finna Ameríku en að hann hafi verið jafn heppinn að tína henni. Annað dæmi um þessa endurtekningu sögunnar er í rauninni myndun síðustu ríkisstjórnar. Það undarlega er að enginn skildi taka eftir dagsetningunni þegar fyrsta konan var forsætisráðherra á Íslandi 1. febrúar. Þessi dagur er þó merkur í stjórnmálasögu Íslands því þennan dag árið 1904 fengum við heimastjórn og fyrsta ráðherrann, Hannes Hafstein og er það ef til vill skýringin á leikritinu sem sjálfstæðisflokkurinn setti á svið. Þar á bæ er Hannesi Hafstein af einhverjum ástæðum mjög hampað og því hafa sjálfsagt einhverjir framamenn í sjálfstæðisflokknum talið brýnt þar sem fyrsti ráðherra Íslands hafi verið Hannes Hafstein þá yrði nauðsynlegt að fyrsti kvenráðherrann kæmi líka úr sjálfstæðisflokknum. Fleira mætti til telja sem kalla má endurtekningu sögunnar eins og t.d. Þetta afturhvarf sem allir eru að tala um til fornra dygða og gamalla atvinnuhátta; Gamla góða sjávarútvegsins og landbúnaðarins sem hvoru tveggja eru reyndar á kúpunni en eiga samt að verða allsherjar bjargræðið. Eftir er aðeins að stilla tímavélina og færa þjóðina aftur um þetta 50 ár, gallinn er bara sá að það eru búin að líða 50 ár. Klukkan verður ekki færð aftur á bak vegna þess að hún er búin að fara áfram. 

Hlutverkum víxlað

Það hefur verið óvænt skemmtun af því að undanförnu að fylgjast með blessuðu alþinginu okkar. Þá ekki síst með því hversu hlutverkum þar hefur allt í einu verið víxlað. Gamli góði sjálfstæðisflokkurinn er nú allt í einu kominn í stjórnarandstöðu en hefur átt fremur erfitt með það að fóta sig á svellinu enda 18 ár síðan hann var í þeim sporum. Eiginlega afar erfitt að finna eitthvað til að gagnrýna nema ef til vill einhver eigin verk þar á umliðnum árum. Jú, menn fóru í deilur útaf höfundarrétti á frumvarpi og svo voru þar auðvitað blessaðar hvalveiðarnar. Það var ansi sniðugur leikur sem Einar Kristinn lék þegar hann gaf út stóran hvalveiðikvóta til 5 ára. Sitja í starfsstjórn sem þegar var lögst banaleguna og andaðist reyndar örfáum klukkustundum síðar. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvort þetta hafi verið löglegt en siðferðilega verður þetta að teljast mjög hæpið og gildir þá eiginlega einu hvaða skoðun við höfum á hvalveiðum sem slíkum. Þær skipta engu máli í þessu sambandi. Ákvörðunin var pólitísk en ekki efnahagsleg.

Svo er það vandræðabarnið hann Dabbi hann situr sem fastast upp í Seðlabanka og glottir þar sem ekki er hægt löglega að víkja honum úr starfi. Hvað sem allri tónlistinni frá Egó líður eða hávaðanum frá búsáhöldum. Þetta er vitanlega engin stjórnarandstaða heldur hálfvitaskapur. Þetta hefur hugsanlega skaðað orðstír þjóðarinnar meir en misskilningurinn sem kom fram í einhverju þýsku blaði á orðum forsetar vors. Sem gerði þá blessaða sjálfstæðismennina dálítið taugaveiklaða. En það er skammt til kosninga og ef sjálfstæðismenn ætla að verða trúverðugir gagnvart kjósendum þá þurfa þeir að fara að hugsa um mikilvægari málefni. En frákerskni seðlabankastjóra og leka á leyniplöggum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband