Menntunar mannréttindi

Af því hafa borist fregnir að 300 manns hafi verið neitað um skólavist í Verkmenntaskólanum á Akureyri.  Oft hafa í fjölmiðlum verið fréttir af þrengslum í framhaldsskólum og mörgum hafi verið neitað um skólavist en eiginlega hefur mátt heyra á hinu heimóttarlegu sunnlensku fjölmiðlum að þetta eigi nánast eingöngu við á höfuðborgarsvæðinu. En vandinn er semsagt víðar og víst að ástæðan er auðvitað þessi ríkisfjármálaskipun frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum en það er ekki bara að skólarnir geti ekki tekið við öllum sem um sækja. Það er næstum úr öskunni í eldinn ef maður kemst inn í skóla, svo dýrt er nú orðið að stunda nám. Þökk sé fína lága genginu á krónunni. Það kvað víst kosta þó nokkra þúsundkallana að búa út eitt grunnskólaball og þegar upp í framhaldskóla kemur hleypur kostnaðurinn á tugum til hudruði þúsunda. Ef húsaleiga samgöngur og annað er tekið með í reikninginn og ekkert heyrist frá stjórnvöldum. Sennilega hafa það verið hrapaleg mistök að færa fræðsluskildu til 18 ára í stað þess að einbeita sér að því að hjálpa þeim ungmennum sem náð hafa 16 ára aldri og á höllum fæti standa. Vel mætti hugsa sér t.d. að virkja námsráðna kerfið að einhverju leiti í þessu skyni svo og atvinnuleysistryggingar því það er auðvitað gjörsamlega ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi eins og okkar að fólk skuli þurfa að hrökkklast frá námi af efnahagsástæðum og auk þess er af þessu auðvitað enginn sparnaður til lengri tíma litið. Ef að fjöldinn allur af hæfu fólki dettur úr námi. Menntun er mannréttindi sem frumskilda hvers þjóðfélags ber að standa vörð um. Það er með hana eins og svo margt annað, að hana verður að efla þó að það sé ekki hægt. 

Miðstýrt Óðagot

Hún Ragna blessunin dómsmálaráðherrann okkar stendur í stórræðum þessa dagana. Hún ætlar ekki aðeins að bregðast við fjárskorti til löggæslu með því að búa til eitt lögreglu umdæmi í landinu heldur hist hún einnig fækka héraðsdómstólum niður í einn. Allt lítur þetta óskaplega vel út á pappírnum en þegar betur er að gáð sýnist manni sem þarna sé á ferðinni einhverskonar miðstýrt óðagot. Sú ofurtrú sem er hér á landi að aukin miðstýring og samþjöppun leysi allan vanda. Við höfum dæmi: Höfuðborgarsvæðið var nýverið afskert að einu lögregluumdæmi að sögn varð sú breyting til þess að silkihúfunum fjölgaði en mönnum á götunum fækkaði og þetta mun vitaskuld gerast á landsvísu. Það er nefnilega ekki svo auðvelt að hrufla við silkihúfunum þegar til uppsagna kemur, þær hafa venjulega ráðningasamninga til margra ára og sé þeim sagt upp verður að greiða þeim háa starfslokasamninga. Þetta myndi að sjálfsögðu líka gerast í dómkerfinu. Aðstoðardómurum og löglærðum fulltrúum mundi fækka en hinum átta starfandi dómörum yrði safnað saman í eina hrúgu í Reykjavík samkvæmt lögmálinu þannig að þjónustan á landsbyggðinni myndi stórversna. Jafnframt því sem kostnaður kynni að aukast verulega, því auðvitað þyrfti einhverja dómara til að dæma á landsbyggðinni eftir sem áður. Málin hverfa ekki þó að mönnunum fækki og glæpum fækkar ekki í hlutfall við fækkun lögreglumanna. En miðstýringin blífur, þó líklega hafi það verið miðstýringin og samþjöppunin á tiltölulega litlum bletti sem hafi átt stóran hlut í hruninu í fyrra.

Kýr á vori

Að mörgu leiti má líkja Íslandi við fjós. Það er ekki aðeins að lyktina leggi úr því út um allt fjármálakerfi heimsins og að mikla mykju þurfum við að moka upp úr flórnum. Heldur minna útrásarvíkingarnir okkar að mörgu leiti á kýrnar á vorin. Árið 1994 breyttist hagkerfi okkar meðal annars vegna aðildar að ES samningnum úr eins konar pilsfalda kapítalisma eða einkavæddum kommúnisma í frjálst markaðshagkerfi. Í fyrstu gekk allt vel, lífskjör bötnuðu eins og víðast þar sem þessi breyting varð. En líkt og kýrnar þegar þær eru leystar út á vorin gleymdu menn sér í öllu frelsinu en þar líkur eiginlega samlíkingunni við kýrnar. Yfirleitt róast þær þegar frá líður en útrásarvíkingarnir gáfu í og höguðu sér eins og væru þeir á einu alls herjar kókaínflippi, voru það reyndar sumir í bókstaflegri merkingu. Margt af þessum stráklingum eru reyndar afkomendur eð ættmenni góðu gömlu kolkrabbanna og smokkfiskanna sem syntu um spillingarhaf hins lokaða pilsfalda kerfis. Þannig er nú t.d. dálítið táknrænt að öll endurnýjunin hjá framsóknarflokknum er að kjósa sig formann sem er sonur fyrrverandi þingmanns flokksins sem hagnaðist vel á fyrirtæki sínu Kögun en það náði sem kunnugt er þeim stóra bita sem var kerfið í kringum ratsjárstöðvarnar. Þá er blessunin hann Bjarni okkar Benediktsson með sitt fína pólitíska nafn ekki alveg ókunnugur gamla genginu og líkt og frændfólk hans í Engeyjarættinni nátengdur olíuokrinu. Nú er spurningin munu þessir afkomendur kolkrabbans og smokkfiskins drukkna í eigin spillingarfeni eða verður þjóðin komin á hausinn áður?

Gamli sáttmáli gengur aftur

Í gær bárust af því fréttir að hafinn væri í Noregi undirskriftasöfnun, þar sem því er beint til stjórnvalda að Ísland og Noregur myndi ríkjasamband. Einhverjir Norðmenn hafa skráð sig og undanfarna daga jafnvel enn fleiri Íslendingar. Fyrir þessari undirskriftasöfnun stendur kona ein Silvía að nafni og hefur hún gefið í skyn að hugsunin á bakvið þetta sé að forða Íslandi frá því að ganga í Evrópusambandið. Er gamli sáttmáli hérna afturgenginn? Ekki kemur fram í fréttum neitt um það hvernig þessu ríkjasambandi skuli háttað, hvort menn eigi að sameinast t.d. um Kóng, utanríkisstefnu, auðlindir og síðast en ekki síst mynt. Það gefur auga leið að hér yrði að líkindum ekki um ríkissamband að ræða heldur innlimun. Sem að sönnu liti svo sem vel út á pappírnum eins og gamli sáttmáli gerði á sínum tíma en því varla fara Norðmenn að kasta olíukrónum sínum í eitthvert hræ út í ballarhafi. Í raun er eftir ýmsu eftir að slægjast fyrir þá: losna við samkeppni á fiskmörkuðum, ná yfirráðum yfir orkulindum sem þegar eru fullnýttar heimafyrir að viðbættum hugsanlegum olíulindum í framtíðinni. Það sem við fengjum í staðinn væri fyrst og fremst nothæf mynt og loksins líklega einhverja til að stjórna fjármálum okkar af viti. Eftir að við erum búin að steypa okkur í glötun. Norðmenn tóku við okkur eftir hjaðningavíg Sturlungaaldar og því skildu þeir ekki taka við okkur núna? Eftir ófarir útrásarvikinganna.

Krónan á botninn

Bjarni Harðarson heitir maður, fyrrverandi þingmaður framsóknarflokksins sem frægur varð síðastliðinn vetur þegar hann óviljandi sendi tölvupóst út um allar trissur sem ekki var ætlaður nema einum manni. Bjarni þessi var í viðtali nú um daginn á einhverjum fjölmiðlinum þar sem hann kom fram með þá kenningu að við eigum að afnema gjaldeyrishöftin nú þegar og láta krónuna okkar fara á botninn svo hún fari sjálfkrafa að rétta sig við aftur. Tóku menn samlíkinguna við alkahólista sem þyrfti að drekka sig á botninn áður en meðferðin hefðist. Nú er því þannig varið að það að drekka sig á botninn merkir í rauninni aðeins eitt, að deyja eða drekka sig í hel og varla fer dauður maður í meðferð. Svipuðu máli gegnir með krónuna, það er enginn botn til í sambandi við gengi. Ef gjaldeyrishöftum yrði snögglega létt af gæti það gerst að krónan færi að sökkva svo langt niður að hún rýrnaði margfalt. Við höfum dæmi: Fyrir um tuttugu árum fór sá sem þetta skrifar í ferðalag til Ítalíu og varð þá milljónamæringur í eina skiptið á ævinni, það er að segja fór með milljón lírur sem voru þá engin ósköp í íslenskum krónum. Efnahagur Ítalíu var þá engan veginn hruninn. Annað dæmi er t.d. þýska markið, rétt fyrir valdatöku Hitlers þegar eitt brauð kostaði milljónir marka og Sibambwe þar sem verðbólgan er einhver milljón prósent. En í þessum dæmum varð hrun. Þessi dæmi ættu að sýna mönnum að það er ekki til neinn botn varðandi verð á gjaldmiðli. Fallið verð hans mikið niður getur það þó valdið efnahagslegu hruni. 

Fækkar í fjósinu

Af því hafa borist fregnir að farið sé að fækka í fjósi því sem kallað er Ísland og sem meðal annars er þekkt fyrir þá megnu lykt sem frá því leggur um öll fjármálakerfin í Evrópu. Rotturnar, það er að segja útrásarvíkingarnir hafa þegar yfirgefið sökkvandi skipið og fleiri hugsa sér til hreyfings. Að áliti mannfjöldafræðinga er þó atgervisflótti ekki hafinn enn heldur sé hér fyrst og fremst um að ræða erlent farandvinnufólk sem hingað var flutt sem eins konar eldiviður á þennslubálið. Líklega er þetta rétt ályktað þar sem fækkunin er hvað mest á austurlandi og í Reykjavík. En aftur á móti fjölgar fólki t.d. á hinum voluðu Vestfjörðum. Ef til vill er bankaliðið að uppgötva það að peningar vaxa ekki á trjánum. Við getum þó ekki útilokað það að hér bresti á atgervisflótti þar sem líklegt er að þeir sem verst verða fyrir barðinu á kreppunni sé fólk á neyslualdri, þetta 18-40 ára. Fólk með risavaxnar skuldir og oft mikla ómegð. Fólkið sem á máli stjórnmálamanna er kallað heimilin í landinu. Erfitt er að sjá hvernig stemma má stigu við þessu, auðvitað þyrfti einhvernveginn að auka neyslu í þjóðfélaginu með öðrum orðum: bæta lífskjörin en það er víst ekki á dagskrá heldur hið gagnstæða. Við erum þess vegna í vítahring stöðnunar og fátæktar sem menn hafa komið okkur í en neita að biðjast afsökunar. 

Dýrt að skeina sér

Verðbólgan næðir um Hvannadali og hnjúka. Eihvernveginn þannig segir í vinsælum dægurlagatexta frá því um nokkrum árum. Þá næddi verðbólgan og var ósköp nöpur en enginn vissi hvílíkt verðbólgufárviðri milli skella á afar snögglega einn dag í október. Með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Það er erfitt að finna hluti sem ekki hafa hækkað duglega í verði. Hvort sem er fyrir tilstilli gjörónýtrar krónu eða skattaglaðra stjórnvalda. Um daginn átti ég leið í Nettó, einu sinni sem oftar. kom þar auga á tvær klósettrúllur sem stóðu upp á hillu, utan á pakkningunni var verðmiði 998 kr. Einhvernveginn kom það upp í hugann, fyrir fáeinum mánuðum hefði maður séð samskonar klósettrúllur á um það bil 120 kr. stykkið. Víða kemur verðbólgan við. Nú er  meira að segja svo komið að venjulegt fólk fer ekki að hafa efni á að skeina sér. Hver veit nema við þurfum að gera eins og Kínverjar, en þeir kváðu ekki nota klósettpappír. Enda hefur einhverstaðar verið sagt að ef Kínverjar tækju allir að skeina sér yrðu regnskógar heimsins uppurnir eftir 2-3 ár.

Sæti 2A í fokkernum

Sá sem þetta ritar hefur nokkuð oft þurft að heimsækja blessuðu höfuðborgina okkar vegna fyrirhugaðrar hornhimnu ígræðslu. Þessi hornhimnuígræðsla var fyrirhuguð fyrir um það bil ári og síðan hef ég þurft að fara all nokkrar ferðir þarna suður sem ekki hafa verið beinlínis til fjár. Stundum hefur þurft að lækka þrýsting á auganu með lasertæki, stundum hafa hornhimnurnar hreinlega tínst og ýmislegt annað hefur komið til. Alltaf hefur maður mátt þvælast í sæti 2A í fokkernum. Sem er komið í einhverja áskrift hjá mér núna. Auðvitað væru þessar ferðir fyrir löngu búnar að rústa fjárhagnum ef ekki kæmi til einstakt örlæti tryggingastofnunnar. Því ekki eru flugfargjöld svo gefins þessa dagana og engir afslættir í boði fyrir fatlaða þó svo að blessuð börnin fái af og til krónufargjöld sem reyndar eru nú víst 110 kr. í framkvæmd og er þó þessi einokunarbúlla sem kallast flugfélag Íslands víst komin í óbeina ríkiseigu eftir að Hannes Smára og félagar komu FL group og dótturfélögum þess fyrir kattarnef á dögunum. Þessar suðurferðir finnast manna ósköp feimlegar sem sumir benda á að þarna fái þá landsbyggðarvargurinn tilefni til að heimsækja borgina á kostnað skattborgaranna. Djamma þar og skemmta sér á meðan lækninga er leitað. Jú víst er það, maður notar auðvitað tækifærið til að djamma og skemmta sér í leiðinni ef kostur er á. En maður spyr sig samt, af hverju er íbúum blessaðrar höfuðborgarinnar veittur sami réttur. Á þá að djamma úti á landi um leið og þeir leita sér lækninga.

Týndar Hornhimnur

Hér kemur lítil saga úr íslenska heilbrigðiskerfinu. Sá sem þetta ritar er búinn að fara nokkrar ferðir milli Akureyrar og Reykjavíkur vegna fyrirhugaðrar hornhimnuígræðslu. Loksins rann upp stóra stundin nú skildi lagt í aðgerðina og meira að segja ferðinni flýtt um sólahring svo ekki skemmdust hornhimnurnar þegar þær kæmu. Ferðin kostaði morðfjár en maður gat huggað sig við að tryggingarnar myndu endurgreiða. Allt gekk að óskum ég var skoðaður, hjartalínurit og annað tekið. Augað var í toppstandi þannig að grænt ljós var gefið á aðgerðina og ég var lagður inn á augnskurðdeild Landspítalans. En rétt sem ég er komin þar inn hringir síminn. Þar er þá verið að segja frá því að hornhimnurnar séu týndar og enginn viti neitt um það hvar þær eru niðurkomnar. Einhverstaðar hélt maður nú í einfeldni sinni að líffæri týndust ekki svo auðveldlega í flutningum. Var því að ráði að ég var lagður inn ef svo færi að þessar hornhimnur kæmu skyndilega í leitirnar. Lág ég þarna inni þriðjudag og miðvikudag án þess nokkuð fréttist af hornhimnunum. Loksins á fimmtudagsmorgun ar mér sagt að hornhimnurnar hefðu fundist daginn áður en að þær væru ónýtar. Höfðu þær þá legið í frakt einhverstaðar á leiðinni þar sem frídagur var í Bandaríkjunum á mánudeginum en þaðan komu þær. Var mér tjáð að aðrar hornhimnur fengjust ekki fyrr en með haustinu. Og varð því að fara aftur norður um kvöldið. Greiðandi fyrir farið hálft lægsta fargjald til Kaupmannahafnar. Ekki var beðist afsökunar nema ef það hefur kallast afsökun að ég fékk reikning upp á liðlega 700 kr. fyrir einhverjar tvær rannsóknir sem gerðar voru inn á spítalanum. Þetta er líklega nýnæmi. Eitthvað í ráðstöfunum guðlegs Þórs sem Ögmundur hefur gleymt að afnema. Það hlýtur að bjóða hættunni heim ef að sjúkrahús geta rukkað svona fyrir rannsóknir inn á spítalanum. Þeir hljóta að hafa tilhneigingu til þess að gera heldur fleiri rannsóknir en færri er þörf er á. Til að afla blönkum sjúkrahúsunum meiri tekna.

Kvótakerfið í brennidepli

Frá því hefur verið skírt í fréttum að Evrópusambandið hafi hug á því að leita ráða hjá Íslendingum varðandi fiskveiðistjórn. Þeir hafa líklega komist í einhver plögg frá LÍÚ þar sem lýst er með fjálglegum orðum ágæti hins íslenska kerfis. Vegna þess að flestir aðrir hafa fundið þessu kerfi margt í móti. Hér skal ekki farið í það að ræða forsögu kvótakerfisins, sennilega hefur það í upphafi verið illskásta leiðin til að bjarga þorskinum frá útrýmingu. Framkvæmdin var hins vegar fáránleg. Það sem upphaflega átti að vera tæknileg útfærsla, það er að segja að skipta tilteknum afla milli skipa varð að einskonar peningaprentun. Verð myndaðist á kvótann og menn fóru að selja hann sín á milli eða leigja. Auðvitað var kerfið fáránlegt, það er nefnilega ekki til neitt verð á óveiddum fiski. Svo fór að margir útgerðarmenn töldu langskynsamlegast að hætta að róa til fiskjar heldur voru skipin bundin við bryggju og kvótinn leigður eða seldur. Þeir sem hann keyptu eða leigðu urðu svo að taka bankalán á okurvöxtum með þeim afleiðingum að sjávarútvegurinn er í raun kominn á ríkisframfæri ef ekki á framfæri þýskra banka. Þegar reyna á að greiða úr vitleysunni fer allt á hvolf og menn tala um landauðn. T.d. vekur athygli ályktun frá sveitastjórn Grímseyjar en rétt bráðum verður hverfi á Akureyri þar sem menn mótmæla fyrningarleiðinni. Þeir Grímseyingar ættu að minnast þess þegar einn kvótaeigandinn þar í byggðarlaginu seldi kvótann í burtu brá sér í land og keypti sjallann. Akureyringar mættu líka muna það þegar einn samherja frændinn labbaði burt með þrjá og hálfann milljarð, flutti til Reykjavíkur og fór að braska þar í fasteignum og þvíumlíku, sem ekkert kemur sjávarútvegi við.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband