Ríkið og Kirkjan

Þann 27. júní næstkomandi ganga í gildi lög sem gera einhjúskaparlög fyrir alla einstaklinga án tillits til kynhneigðar eða kynhegðunar. Munu þá prestar meðal annars þjóðkirkjunnar fá heimild en verða þó eigi skyldir til að vígja samkynhneigð pör. Þessi mál hafa undanfarin ár valdið hatrömmum deilum innan þjóðkirkjunnar og er sjálfsagt ekki enn gróið um heyrt milli manna. En nú vaknar spurningin hvort það sé rétt að vera með einhverja sérstaka ríkiskirkju eða þjóðkirkju. Sú kirkja sem samkvæmt stjórnarskrá okkar er þjóðkirkja Íslendinga er að ákvæðu meiði Lúterskrar trúar sem uppruninn er í Þýskalandi og orðið hefur ofan á, á Norðurlöndum. Til þess liggja ýmsar sögulegar ástæður að þessi ákveðna grein Lúterstrúar hefur orðið ofan á, á Norðurlöndum þó hún sé í rauninni ekki svo stór innan lúterskunnar sem heildar. Í fjölhyggju þjóðfélagi nútímans hlýtur sú spurning að vakna hvort endilega þessi tegund kristni sé eitthvað réttari en aðrar tegundir hennar. Jú meirihluti landsmanna aðhyllist hana í orði án þess þó að vita hvað hana aðhyllist. En t.d. í Frakklandi eru 80% þjóðarinnar rómversk kaþólskir en er þó kaþólska kirkjan ekki ríkiskirkja, sumpart vegna arfleifðar byltingarinnar. Við hljótum því að spyrja okkur hvaða rök ýja að því að hygla svona ákveðið einni kirkjudeild. Einhverjir benda á alla menninguna sem kristnin hefur fært þjóðinni en þessi menning er bara ekkert frekar útlensk. Það var kaþólska kirkjan sem stuðlaði svo mjög að menningu Íslendinga á liðnum öldum og núna á tímum hins mikla aðhalds og sparnaðar er það spurning hvort þjóðin hefur efni á að halda öllu þessu dýra batteríi uppi sem kirkjan er. Hvort hinir trúuðu verði ekki að taka þann hlut yfir af sinni eigin hugsjón. Er hægt meðan skólar, sjúkrahús, öryrkjar, aldraðir og aðrir líða fyrir skerðingu og samdrátt að haldið sé uppi vellaunaðri prestastétt á kostnað skattborgara og reistar séu háar og dýrar byggingar þar sem nokkrir menn geta komið saman og hræsnað frammi fyrir almættinum. 


Fjólubláir sjúklegir draumar

Ein af fyrstu minningum manns í tónlist var það þegar Raggi Bjarna hinn ástsæli borgarlistamaður Reykjavíkur raulaði um það að Esjan og Skarðsheiðin væru eins og fjólubláir draumar. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og Megas líkti þessum draumum sem sjúklegum og geðbiluðum að sjá. Þessi lýsing minnir eilítið á vont LSD trip þar sem litríkar dýrðarferðir enda oft í geðveiki og hugsanlega eru síðustu borgarstjórnarkosningar svolítið dæmi um þetta. Reykvíkingar öðrum Íslendingum fremur hafa undanfarin ár svifið á einhverju rósrauðu skýi ódýrra bankalána þar sem fagrir jeppar, enn fegurri flatskjáir og enn stórbrotnari orku er svifu fyrir augum. En svo kom endir ferðarinnar hrottalegur og ljótur. En menn sáu allt í einu leik að slá öllu upp í grín og leiða fangavaktina til öndvegis í borgarstjórn. Akureyringar þurftu svo endilega að apa eftir stóru systur og kjósa einhvern leiðindalista til forustu. Eftir að fréttir bárust af hinum glæsta sigri fangavaktarinnar datt manni fyrst í hug að þetta væri á einhvern hátt merki um hnignun borgríkisins og vel kann svo að vera að einhverju leyti. Enda hafa borgríki aldrei lifað í sögunni en fleira kemur til. Landið er fámennt en stórt en sá hópur sem því stjórnar er þröngur og á litlu landsvæði, þessi þversögn gengur eiginlega aldrei upp og þegar við bætist að þjóðin er að stórum hluta ekkert annað en samsafn stórmennsku brjálaðra fíkla er ekki að furða þó að glundroði sé í landi og menn fari í örvæntingu sinni að biðja Guð að blessa Ísland. 

Steinsteipa í hjartastað

Hér á árum áður var sungið um syngjandi sjálfstæðishetjur með saltfisk í hjartastað. Sennilega eru sjálfstæðishetjurnar hættar að syngja að minnsta kosti er ekki lengur saltfiskur í hjartastað þeirra heldur steinsteypa. Það þarf ekki að taka fram að landið okkar er á kúpunni og menn eru einhverstaðar úti í horni að pukrast með að selja auðlindi þess til útlanda. Ef að útlönd eiga þær þá ekki þegar. En þó að landið sé á kúpunni þá er steinsteypan komin í hjartastað sjálfstæðishetjanna. Milli þess sem menn keppast við á síðustu dögum þingsins að rumpa af allskonar dellu sem þeir kalla lög frá Alþingi keppast þeir við að fara með lofgjörð um nýjasta steinsteypu báknið. Landspítalann mikla og fagra sem gnæfa á hátt yfir hringbrautina og dýrðin á að kosta 53 milljarða. En hvað eru svo sem 53 milljarðar milli vina. Þetta eru bara tölurnar sem menn voru að leika sér af að ræna úr bönkunum um daginn og flytja út á Tortólu eða annað. Reyndar er viðbúið að þessi bygging endi frekar í 530 milljörðum heldur en 53 en það er önnur saga. Þessi steinsteypu árátta íslenskra stjórnmálamanna er svo sem ekkert ný. Við sjáum vitleysuna út um alla Reykjavík. Seðlabankinn, Útvarpshúsið, Hæstiréttur og við getum enn haldið áfram. Þessi kynstur af arðlausri steinsteypu. Síðasta dæmið, Tónlistarhöllin sem átti líka að verða ráðstefnumiðstöð en reynist svo dýr að enginn hefur efni á að halda þar ráðstefnur og manni finnst blóðugt að hugsa um 53 milljarðana í nýja Landspítalanum. Hvílíka hluti mætti endurbæta og lappa upp á núverandi fjársvelt heilbrigðiskerfi. Koma mætti upp stöndugum, vel búnum heilbrigðismiðstöðvum í öllum landshlutum og öryggisneti ef bráðavanda ber að höndum. Þá mætti hækka verulega laun þess fólks sem í heilbrigðisgeiranum starfar. En nei, eins og menn fyrir nokkrum árum grenjuðu út nýtt og fínt Útvarpshús sem núna hýsir að mestu afkastamestu plötuspilara landsins, þá skal nú reisa fínasta landsspítala í heimi meðan sjúklingar deyja vegna langra biðlista eftir hjartaaðgerð.

Gleraugnabyltingin

Einhver frammámaður í öryrkjabandalaginu kom í fjölmiðla og fór að tala um að nú skyldi efnt til hjólastóla og hækjubyltingar. Í tilefni nýlegra ummæla félagsmálaráðherrans okkar um skerðingu fjár til velferðamála einnig má bæta því við að allt eins má hér tala um gleraugnabyltingu, göngugrindarbyltingu eða hvað annað. Skírskotunin er sú sama, hún er auðvitað til búsáhaldabyltingarinnar sem auðvitað át börnin sín hvort sem þau hétu Hreyfing, Borgarahreyfing eða eitthvað annað. Kveikjan að hinni boðuðu byltingu hinna fötluðu er ekki ólík. Sú klíka glæpamanna og skrípakarla sem ráðið hafa þjóðfélaginu undanfarin ár stálu auðvitað líka þeim peningum sem ætlað var í málefni fatlaðra. Félagsmálaráðherra er í raun nokkur vorkunn þó hann þurfi að skerða þessi framlög. Við Íslendingar erum nú farnir að taka við skipunum frá hinum svokallaða Alþjóðagjaldeyrissjóði sem hefur það að trúaratriði að upphaf og endir allra vandræða í efnahagsmálum sé að leita í ríkisfjármálum. Ríkjum sem þiggja hjálp er skipað að draga saman í öllu þörfu sem óþörfu án nokkurra skilyrða um kerfisbreytingu eða hreinsanir. Þannig er þeim sem kunnugt er t.d. Grísku þjóðinni harðlega refsað fyrir afglöp og spillingu sem þar hefur viðgengist í áratugi og eins á nú að refsa fötluðum Íslendingum fyrir glæpi og heimskupör sem þeir eiga engan þátt í. Á meðan fatlaðir á Íslandi þurfa ef til vill að lepja dauðann úr skel heima á Íslandi situr Siggi út í London og þorir ekki heim.

Tíðindalaust á landsbyggðinni

Sveitastjórnarkosningar eru á næsta leiti og að undanförnu hefur verið svolítið gaman að hlutsta á umfjöllun Rásar 2 um hin ýmsustu krummaskuð á landinu, allt frá Reykjavík til Reiðarfjarðar. Það er kærkomin tilbreyting að heyra umfjöllun um málefni fleiri byggða en Reykjavíkur á þessari Rás allra landsmanna sem hefur verið svo ótrúlega heimóttarleg og þröngsýn eftir að svæðisútvörpunum var slátrað. En það sem athygli vekur við þessa umfjöllun er það hversu ótrúlega tilefna lítil hún er. Helstu tíðindin eru yfirleitt þau að oftast sé allstaðar ríkjandi dofi og áhugaleysi um komandi kosningar. Hin hefðbundna hersing skólastjórans, sóknarprestsins og útgerðarmannsins mæta fyrir framan hljóðnemann og segja að eigilega sé allt í sómanum að vísu vanti peninga í þetta verkefni eða hitt og allir verða að skera niður. Allstaðar er ríkjandi metnaðarleysi og kæruleysi. Einstaka kvart heyrist þó eins og t.d. Patreksfirðingurinn sem þótti of mikið lagt í samgöngur með Ísafjörð þegar mest alla þjónustu þyrfti að sækja til Reykjavíkur. Það er ekki von þó að landsbyggðinni blæði ef hún hefur ekki metnað til þess að ráða sjálf málum sínum heldur fela þau öll einhverjum fulltrúum sínum fyrir sunnan og væða út fína vegi svo ódýrara verði að flytjast af heimaslóðunum. 

Gaman og Alvara

Til er tík sem er merkilegri en aðrar tíkur, þessi tík kallast Pólitík og hana stunda ýmsir bæði í gamni og alvöru. Það vekur mikla athygli af framboði sem upphaflega var hugsað sem grín skuli nú vera spáð fjórum fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur. En það er nú með það eins og annað, öllu gamni fylgir nokkur alvara. Það er erfitt að sjá t.d. hvort að Jón Gnarr yrði nokkuð verri borgarstjóri heldur en sumir þeir aðrir sem því starfi hafa gengt. Hvort sem um er að ræða afdankaðir seðlabankastjórar, viðutan sjálfstæðismenn eða valdalausir frjálslyndir og ef við lítum bara á landsmálin þá veit maður stundum ekki hvort maður á að gráta eða hlægja. Menn þurfa ekki lengur að ganga með byssur og lambbúsettur inn í bankana til að ræna þá, miklu þægilegra að sitja bara í forstjórastólnum og sjálf spaugstofan er orðin svo leiðinleg vegna þess að raunveruleikinn er miklu fyndnari. Í rauninni er það spurning hvort íslenska lýðveldið sé ekki orðið að einum stórum alþjóðlegum brandara. Gaman væri að vita hversu lengi alþjóðsamfélagið vill halda skemmtuninni áfram. Þó er eins og þarna séu að renna tvær grímur á menn því að þessi þjóð sem með mikilmennsku sinni átti besta handboltalið í heimi, fallegustu konurnar og sterkustu mennina er líka búið að eignast stórasta brandarann.

Hrunið á hraunið

Miklir atburðir eru að gerast þessa dagana, hrunið er komið á hraunið innan um alla dópsmyglarana, þjófana og morðingjana. Fallið er hátt úr mjúku sæti einkaþotunnar inn í þröngan einangrunarklefann, úr þægilegum leðursófanum, úr lúxusvillunni á harðann bekkinn hjá saksóknaranum. Hér á við hið forkveðna að þeir sem hreykja sér hæst falla dýpst. Sá sem í dag borðar gullið risotto borðar ef til vill fangafæði á morgun. Yfirvöld báðu um að ekki yrði skýrt frá þeim atriðum sem lágu að baki gæsluvarðhaldsúrskurðinum en samt virðast þessi atriði hafa lekið út. Hér virðast fyrrum þjóðhetjur hafa verið ákærðar fyrir glæpi sem ekki er hægt að kalla annað en bankarán innanfrá. Það kætast ýmsir yfir þessu en aðrir eru varkárari. Vissulega eru ákærurnar mjög alvarlegar en að hinu leitinu lagðist að manni sú hugsun hvort ekki sé eitthvað til í þeirri staðhæfingu Sigurðar Einarssonar um að þarna sé verið að setja á svið leikrit til að þóknast almenningi. Þarna eigi að leiða fyrir rétt nokkra blóraböggla, fella yfir þeim einhverja málamyndadóma og segja svo að nú sé málinu lokið og sannleikurinn er sá að það nægir ekki að finna blóraböggla. Hér verður að koma til róttækt uppgjör við áratuga gamalt, rotið og gjörspillt kerfi. Hér þarf að hreinsa til en ekki að efna bara til einhverra leika fyrir blóðþyrstan almenning. Það voru margir sem stigu dansinn í kringum gullkálfinn við hörpu Davíðs og flautu Geirs að viðbættum hálf fölskum söngli Ingibjargar. Stór hluti þjóðarinnar var meðvirkur, menn fylltu Kringlurnar og Smáralindirnar og framleiðslubirgðalögin tæmdust. Hinu ber ekki að neita að við stjórnvöllinn sátu menn sem vísvitandi mökuðu krókinn og bjuggu til peninga sem ekki voru til og það sem sárlegt er að menn voru að hugsa um að háskóli Íslands yrði einn af hundrað bestu háskólum í heimi þótt í ljós hafi nú komið að hann útskrifaði hagfræðinga sem ekki vissu einu sinni þá einföldu staðreynd að peningar eru ávísun á verðmæti eða lögfræðinga sem ekki höfðu hugmynd um að það væri refsivert að ræna banka jafnvel innanfrá. 


Lottóvinningur

Þær hamfarir sem gengið hafa yfir landið að undanförnu af völdum manna og náttúru. Hafa að vissu leyti komið eins og lottóvinningur fyrir Akureyri. Fyrir það fyrsta þá varð kreppan hér ekki eins djúp og t.d. á höfuðborgarsvæðinu sumpart einfaldlega vegna þess að hér varð eiginlega aldrei nein þensla, að vísu komu hingað nokkrir jeppar og flatskjáir en lítið meira. Hins vegar blómstraði hér ferðaþjónusta með tilheyrandi verslun og veitingarekstri. Einfaldlega vegna þess að þjóðin var sett í átthagafjötra lækkandi launa og ónýtrar krónu. Að viðbættu því að öll skíðasvæðin syðra lokuðu þannig að aumingja foreldrarnir fyrir sunnan urðu að senda börnin sín á skíði til Akureyrar í stað Austurríkis eða Ítalíu og upp hófst af því mikill grátur og gníst tanna í fjölmiðlum. Svo kom bónusvinningurinn, það fór að gjósa í Eyjafjallajökli og nokkuð sem aldrei hafði gerst fyrr var staðreynd. Flugvellir lokuðu vítt og breytt um Evrópu, þar á meðal í Reykjavík og Keflavík en Akureyrarflugvöllur var lengst af opinn og allt í einu var Akureyri orðin nafli alheimsins á Íslandi. Að sjálfsögðu högnuðust margir á þessu t.d. heyrði maður  af litlu hreingerningafyrirtæki sem græddi vel á því að þrífa flugvélar og einhverjir hafa líka grætt á því að hýsa allt þetta starfslið sem kom að sunnan. Þannig hefur vafalaust komið nokkuð fjármagn í bæinn. Mest er þó umvert að allt þetta hefur beint athyglinni að þeirri aðkallandi framkvæmd að stækka flugstöðina á Akureyri. Það er ekki viðunandi lengur að þessi varavöllur sé bara kríli eins og sagt var í einum fjölmiðli. Akureyringar hafa hagnast vel þessa síðustu daga, nú er bara að halda vel á því sem fengist hefur og sýna ráðdeild og fyrirhyggju. Láta þetta fé ekki renna burt í aðra landshluta en þó ber okkur auðvitað siðferðilega skylda til að hjálpa því fólki af öllu megni sem orðið hefur fyrir tjóni og áþjón við það þegar náttúran tók völdin af mannfólkinu.

Lýðræði til sölu

Eitt af því sem nokkuð hefur verið í umræðunni í tengslum við hrunið eru hin miklu framlög sem einstakir flokkar og stjórnmálamenn þágu frá bönkum og öðrum fjármálastofnunum til að standast straum á kosningabaráttu og prófkjörum. Námu upphæðir þessara framlaga á stundum þó nokkrum milljónum og verður ekki hjá því komist að hugleiða hvort þarna getur verið um einhverskonar mútur að ræða. Að lýðræðið hafi þarna verið til sölu til ágóða fyrir einhvern málstað eða einhverjar athafnir. Þeir sem þarna keyptu lýðræði gerðu það gjarnan til að ná fram einhverjum hagsmunum, fjárhagslegum eða praktískum t.d. í skipulagsmálum sveitafélaga og seljendur lýðræðis gerðu það til að standa straum að alls konar kostnaði til að mynda auglýsingum,kynningum, veisluhöldum og margskonar annarri kynningarstarfsemi. Þannig græddu báðir en vitað skuld bauð þetta upp á deigvænlega spillingu. Þingmenn og sveitastjórnarmenn hafa í sí auknum mæli orðið ekkert annað en handbendi hinna eða þessara þrýstihópa og þar af leiðandi ekki getað né heldur viljað beita sér í umvoðum. Nokkuð hefur verið rætt um prófkjörin í þessu sambandi en í því sambandi gleymist oft að prófkjörin voru í upphafi stórt framfaraskref fyrir tíma þeirra voru það yfirleitt fámenn flokkseigendafélög sem röðuðu á framboðslistana og urðu þeir oft á tíðum lítið annað en samsafn fulltrúa ráðandi þrýstihópa á hverjum stað. Menn tóku því prófkjörunum fagnandi í upphafi en valdaklíkurnar lögðu fljótt að notfæra sér þau til að planta þar fulltrúum sínum og gera efnalitlu fólki ókleift að taka þátt. Afleiðingin er sú að menn þurfa nú líkt og í Bandaríkjunum að vera annað hvort sterkefnaðir sjálfir eða bornir á vængjum hér af einhverjum fjársterkum sérhagsmunum til að komast áfram í Pólitík. Hérna urðu þessir þrýstihópar svo sterkir að þeir nánast þurrkuðu burt ríkisvaldið og köstuðu lýðveldinu fram af hengifluginu. 

Iðrun og Yfirbót

Það er mikið í tísku núna að gera iðrun og yfirbót. Hver stjórnmálamaðurinn eftir annan stígur grátandi í ræðupúltið og lítur yfir hvílík mistök hann hafi gert og hversu sinnulaus hann hafi verið. Margir segja af sér tímabundið að vísu enda liggur ábyrgðin sko ekki hjá mér heldur hjá hinum og allra síst hjá elsku flokknum mínum sem að vísu var ef til vill svolítið svolítið grandalaus og vissulega er flokknum nokkur vorkunn. Það gerðist nefnilega svo margt sem flokkurinn vissi ekki af, t.d. má nefna það þegar leiðtogar flokkanna gáfu eigur almennings nokkrum vinum sínum og flokksbræðrum án þess að spyrja kóng eða prest. Samt dönsuðu menn með og segja má að öll þjóðin hafi að vissu leiti tekið sporið með á tímabili, horfandi á fyrirmennin þá Elton John til að skemmta í afmælinu sínu eða borða gullflögur í útlöndum. Krakkarnir fengu jú að kaupa flatskjái og fína jeppa eins og þá listi. Ekki þarf að orðlengja að veislunni lauk með brauki og bramli, útúr fullir gestirnir búnir að eyðileggja veislusalinn en menn eru fljótir að gleyma. Besti reifari Íslandsögunnar var nýkominn út þegar náttúruöflin tóku að minna á sig. Skýrslan gleymdist fljótt og öll athyglin beindist að gosinu. Fólkið gerði sér allt í einu ljóst að við búum á mörkum hins byggilega heims þar sem það eru ekki bankastjórar og ráðherrar sem hafa síðasta orðið heldur eldfjöllin sem kúra undir drifhvítum jöklum tilbúin að smyrja eldi og einyrju lokandi fyrir allt flug og truflandi matvælaframleiðslu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband