Krosstréð sem brást

Fréttir hafa borist af því að 7 konur séu búnar að ásaka Gunnar í Krossinum fyrir kynferðisofbeldi. Þarna virðist krosstréð hafa brugðist og ekki einu sinni heldur oftar þannig að líklega getur enginn heilagur skítur bjargað því. Nú er þetta ekki í fyrsta skipti sem þessar sakir eru bornar á trúaða menn. Kaþólskir prestar og jafnvel biskupar hafa verið sakaðir um barnaníð. Einn biskup og einhverjir prestar íslensku þjóðkirkjunnar hafa verið sakaðir um óhóflega kvensemi. Hver skýringin á þessu er veit maður ekki en hugsanlega er hér um að ræða fyrirbæri sem tengist á einhvern hátt tilhneigingu til fíknar en alkunna er að trú getur orðið að fíkn og kynhvöt líka, rétt eins og áfengi, eiturlyf og eitthvað því líkt. Enda stundum notuð trúarbrögð við meðferð fíkna en menn gera sér þá ekki grein fyrir því að í rauninni er þá bara verið að flytja fíknina frá einu fíkniefni yfir í annað. Fleira er það í bókstafstrú sem minnir á fíkn, til dæmis oft á tíðum meira og minna þvinguð meðvirkni, tökum eitt dæmi... Nokkur umræða hefur að undanförnu verið um börn og heimilisofbeldi, en í því sambandi hefur ekki verið rætt um eina verstu tegund heimilisofbeldis sem börn verða að þola, en það eru börn í söfnuðum á borð við Votta Jehóva. Þessi börn eru svipt samneiti við félaga sína mega t.d. ekki halda með þeim jól.. spurningin er hvort þarna sé ekki framið á börnum eitt versta mannréttindabrot sem hægt er að fremja gagnvart barni !  Í Jesú nafni, Amen !

Félagsleg hugsun

Það er mikið talað um skatta þessa dagana. Mörgum þykir þeir keyra úr hófi fram á landi hér en aðrir benda á að skattar hér séu síst hærri en í nágrannalöndunum. Vera má að þarna gæti nokkurs misskilnings hjá fólki. Staðreyndin er nefnilega sú að við fáum eða teljum okkur að minnsta kosti fá, harla lítið fyrir skattana háu sem við greiðum. Á Norðurlöndunum greiða menn mjög háa skatta en fá líka mjög mikið fyrir þá, til að mynda ókeypis heilsugæslu, ókeypis menntun og verulega niðurgreiddan kostnað t.d. vegna tannlækninga og alls konar hjálpartækja. Hér á landi er ástandið aftur á móti þannig að bætur eru svo við nögl skornar að af þeim verður alls ekki lifað í þessu samfélagi okurs og ofurlauna og fyrir alla opinbera þjónustu hverju nafni sem hún nefnist, þarf að greiða fyrir stundum drjúgan skilding fyrir lágtekjufólk. Hér á landi skortir algerlega það sem við getum kallað "félagslega hugsun". Í þessu gengisfallna okursamfélagi skulu aumingjarnir sko borga fyrir sitt svo yfirstéttin geti lifað makindalega í höllum sínum og farið á tónleika í fölsku Hörpunni sinni. Skríllinn getur svo beðið í norðan næðingnum fyrir utan Mæðrastyrksnefnd eftir ölmusunni sem hrekkur af borðum miðaldra konu spillta bankastjórans, sem situr hreykinn yfir stolnum auðæfum sínum í lúxushöll sinni á Arnarnesinu eða þá á Manhattan.

Arabar vakna

Þetta byrjaði í Túnis, maður brenndi sig til bana og bálið hreyf með sér allt stjórnkerfi landsins, að meðtöldum einræðisherranum.

Fólkið fór allt í einu að biðja um lýðræði og frelsi en ekki Allah og gömlu Shariavitleysuna og lýðræðisbyltingin fór um Norður Afríku og Arabalönd eins og eldur í sinu. Mesta athyglin hefur að undanförnu beinst að Líbýu og geðsjúklingnum Gaddafi. Þetta er ekkert óeðlilegt því Líbýa er mikið olíuríki. Vesturlönd virðast hafa meiri áhyggjur af því hvað olíuverð hækkar í hvert skipti sem Gaddafi opnar túlann, heldur af því þegar hann gerir loftárásir á varnarlausar konur og börn. Það er annars makalaust hvernig minnsta hreyfing í Austurlöndum hækkar olíuverð. Sameinuðu þjóðirnar eru með Matvæla og landbúnaðarstofnun, barnahjálp, mannréttindavernd og hvað þetta nú allt heitir, en enga orkustofnun. Það er ótrúlegt að engin alþjóðastofnun skuli vera til sem reynir að hafa hemil á græðgi hinna alþjóðlegu auðhringa, sem í samvinnu við gjörspillta einræðisherra í Arabalöndum okra á efnahagslífi og almenningi í heiminum.


Öryrkjalúxusinn

Nefnd var að skila af sér skýrslu um stöðu og kjör öryrkja.

Nú hélt maður í sakleysi sínu að það þyrfti enga nefnd til að sjá hvílíku lúxuslífi maður lifir á 159 þúsund krónum á mánuði og ekki hefur maður heyrt þess getið að blessað millistéttarfólkið í nefndinni hafi gert tilraun til þess að lifa á þeim tekjum. En það er vitaskuld mikill lúxus að vera öryrki á íslandi, fyrir það fyrsta þá getur maður legið í leti frá morgni til kvölds og ríkið borgar manni laun og auðvitað fær maður að borga 30 þúsund í skatt á mánuði. Svo þarf maður að fæða sig og klæða eins og allir aðrir og hafa eitthvert húsnæði, en það gefur auga leið að öryrki þarf ekkert að vera að þvælast í bíó, á tónleika og hvað þá ferðast til útlanda, slíkur óþarfi er aðeins fyrir þá heilbrigðu. Eitthvað var nefndin góða að minnast á að hækka þyrfti bæturnar nema hvað ríkiskassinn er víst tómur, en maður spyr sig hvort ekki megi að minnsta kosti til bráðabirgða létta sköttum af örorkubótum, veita ýmsa afslætti t.d. á fargjöldum, bensíni og jafnvel ýmsum nauðsynjavörum út á örorkukort og að sjálfsögðu einnig að reyna að grisja út þá sem bætur þiggja. Mann bíður í grun að ekki séu allir svo voðalega miklir öryrkjar sem þiggja örorkubætur, þannig hefur maður heyrt af fólki gera sér upp þunglyndi til að fá bætur út á það, fullfrískir menn hafa fengið örorkubætur út á það að vera nýkomnir úr áfengismeðferð og ýmis álíka dæmi má ef til vill finna. Ef slík tilfelli væru hreinsuð burt yrði vafalaust meira til skiptanna, en fyrst og fremst þarf að breyta viðhorfi til öryrkja. Öryrkjar eru ekki samsafn allskyns letingja og fáráðlinga, heldur eru þeir allskonar fólk, eins og ég og þú.


Jól í skólanum

Mannréttindaráð Reykjavíkur sendi á dögunum frá sér yfirlýsingu varðandi trúboð í skólum. Fyrir nokkrum árum voru heitar umræður um pólitíska innrætingu í skólum en nú er það semsé hin trúarlega innræting sem veldur mönnum áhyggjum. Svo langt gengur umræðan að menn vilji útvísa allri trúarbragðafræðslu, sálmasöng og öðru trúarefni úr skólastarfi. Nú má deila um það hvort æskilegt sé að kenna kristinfræði í skóla, hvort ekki sé réttara að kenna almenna trúarbragðafræði, siðfræði og mannkærleika. En spyrja má hvort í þessari yfirlýsingu sé ekki gengið full langt ef t.d. á að banna jólaföndur, litlu jólin eða heims um ból. Jólin eru annað og meira en bara kristin hátíð þau eru hátíð ljóssins, sigur þess yfir myrkrinu og voru í raun til fyrir kristni. En það er í raun ekkert athugavert við að við minnumst á þessari hátíð ljóssins þeirri miklu persónu sem Jesús Kristur var og skiptir þá ekki máli hvort við köllum okkur kristin eða ekki. Kristnin er nú hluti af menningu okkar og jólin í raun lífsnauðsynleg í skammdeginu. Frekar má segja að það sé brot á mannréttindum ef börn eru hindruð í að taka þátt í jólaundirbúningi skólasystkina sinna. Mannréttindaráð Reykjavíkur ætti frekar að rannsaka hvort slíkt eigi sér stað í einhverjum tilfellum. Hitt er svo allt annar handleggur að vel má hugsa sér að endurskoða núverandi samband ríkis og kirkju á komandi stjórnlagaþingi.

Hið einkavædda ríki

Fyrir dyrum standa kosningar til stjórnlagaþings. Hlutverk þess er að semja nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland í stað þeirrar stjórnarskrár sem Danakonungur færði þegnum sínum 1849 og síðar Íslendingum þýdda og staðfærða árið 1874 en þessi stjórnarskrá gildir enn á Íslandi í grundvallaratriðum. Margir hafa sagt að hún hafi dugað okkur býsna vel og sem slík eigi hún ekki neinn þátt í hruninu. Þetta er þó ekki alls kosta rétt, stjórnarskrá okkar hefur stuðlað að afar miðstýrðu og samþjöppuðu valdi þar sem þrígreining ríkisvaldsins hefur eiginlega þurrkast út og eftir situr framkvæmdavald sem eiginlega öllu stýrir. Í ofan á lag þá hefur þessu framkvæmdavaldi verið lengt og ljóst stjórnað með hagsmuni útvaldra fyrirtækja í huga. Þá þróun má rekja langt aftur í tímann, jafnvel allt til heimastjórnartímans. Afleiðingin er sú að við sitjum uppi með ríkisvald sem er eiginlega einkavætt. Þetta sást auðvitað glögglega þegar fyrirbærin sem nefnd voru kolkrabbinn og smokkfiskurinn stjórnuðu því sem stjórna var hægt í landinu. Enn eimir nokkuð eftir af samanber það að ákveðnar ættir hafa allt að því áskrift af ráðherrastólum. Ein ljósasta birtingarmynd þessa einkavædda ríkis er kvótakerfið. Þar sem útgerðarmenn fengu ókeypis úthlutað aðgangi af höfuð auðlind okkar og síðar einni réttinn til þess að höndla með hana. Kvótakerfið er nú búið að valda því að útgerðin er í raun komin í eigu bankanna. En einnig má benda á það að kvótakerfið brýtur í raun öll lögmál pólitískrar hagfræði. Kvótinn er ávísun á væntingar en ekki raunveruleg verðmæti en sem kunnugt er þá eru peningar ekkert annað en ávísun á verðmæti. Eitt brýnasta verkefnið við endurskoðun stjórnarskráarinnar hlýtur að verða að færa ríkið aftur til þjóðarinnar og festa í stjórnarskrá algjört bann við varanlegu framsali á afnotum af auðlindum til einkaaðila.

Sjúkrahúsraunir

Skaðamaðurinn í heilbrigðisráðuneytinu hefur nú birt tillögur sínar um skipan heilbrigðismála í kjölfar mikils niðurskurðar úr fjármálaráðuneytinu. Niðurskurðar sem runnin mun undan rifjum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins enda bera þessar tillögur þess glögg merki að þar eru settar fram af mönnum sem ekki hafa neina þekkingu á staðháttum á Íslandi. Eða hverjum dettur það í hug að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra viti ekki að það getur verið lífshættulegt að aka yfir Víkurskarðið á veturna. Þegar hann ákveður að slátra sjúkrahúsinu á Húsavík hefur hann ekki gert sér grein fyrir þeirri staðreynd að ekki er búið að opna Vaðlaheiðargöngin, raunar ekki byrjað á þeim. Það er tómt mál að tala um flutningsþjónustu frá Húsavík til Akureyrar áður en Vaðlaheiðargöngin komast í gagnið og ámóta gáfuleg er lokun fæðingadeildarinnar í Vestmannaeyjum. Menn átta sig ekki á því að þar getur flugvöllurinn verið lokaður og jafnvel sjóleiðin líka þegar kona þarf að fæða barn. Fóstrið hugsar nefnilega ekkert út í samgöngumál þegar það ákveður að skríða út í lífið. Það kann að vera að stefna megi að því einhvertímann í framtíðinni að aðeins 2-3 verðbúin sjúkrahús verði í landinu en þetta er engan vegin tímabært í dag, það á svo mikið eftir að framkvæma í samgöngumálum áður en þetta verður gerlegt. Menn ættu heldur að snúa sér að því að finna einhverja leið til að afla fjár svo reka megi þessi sjúkrahús áfram. Auðga má við þorskkvótann og selja á uppboði, athuga má með skattlagningu lífeyris og sitthvað fleiri mætti tína til annað en þessar eilífu hækkunar á áfengi og tóbaki sem alltaf er gripið til.

Margskonar skuldavandi

Það heyrist varla nokkurt orð annað í þjóðfélaginu núna en skuldir. Menn tala um skuldir einstaklinga, fyrirtækja og oftast heimila. Sem er mjög athyglisvert, það eru ekki einstaklingarnir heldur einhver óskilgreind heimili. Varla hefur nú heimilið sjálft stofnað til þessara skulda enda þær oft á tíðum eiginlega ekki til komnar vegna heimilarekstrar beinlínis. Í mörgum tilvikum voru það forsvarsmenn heimilanna sem skuldbreyttu íbúðalánum þegar bankarnir buðu þeim nýju lánin á lágum vöxtum og notuðu mismunun í ýmiskonar neyslu. Nægir í því sambandi að nefna bara jeppana flatskjáina, vélsleðana og annað það dót sem klikkuðu karlmennirnir viðuðu að sér. Allir lifðu hátt og blessuð krónan var líka í hæðstu hæðum þangað til auðvitað allt sprakk, krónan sökk til botns og verðtryggingin sem allir voru búnir að gleyma fóru í gang. Auk þess sem gengisbundnu lánin sem enginn hafði hugmynd um að voru í raun ólögleg tóku stökk. Verðtryggingin svo og blessuð krónan okkar sem allir sögðu að hefðu bjargað okkur í kreppunni eru í raun búnar að ganga að dauðri hinni heilögu séreignastefnu Íslendinga í húsnæðismálum dauðri. Megnið af því húsnæði sem til er í landinu getur innan nokkurra mánaða verið að mestu komið í eigu bankanna og þetta húsnæði er auðvitað verðlaust. Manni sýnist aðeins ein raunhæf lausn á þessu og hún er að allt þetta húsnæði verði þjóðnýtt og sett á stofn leigufélög sem leigir fólki þetta húsnæði á vægu verði. Að gefa allar skuldir upp er líklega ekki ráðlegt vegna þess að við það hverfa þær ekki heldur lenda á skattborgurum með einum eða öðrum hætti. Það verða þá kannski ekki bara sjúkrahúsin sem hverfa af landsbyggðinni heldur jafnvel skólarnir líka.

Hinn týndi guð

Mikil leit hefur staðið yfir af Guði í fjölmiðlum heimsins að undanförnu. Svo virðist sem hann hafi horfið eitthvað burt langt inn í alla efnishyggju og auðlegðarglauminn. Jafnvel sá maður sem margir telja gáfaðast mann á jörðinni í dag, hinn fatlaði stærðfræðigáfumaður Steve Hawkins hefur lýst yfir efasemdum sínum um tilveru Guðs og sagt það fyllilega mögulegt að engan Guð hafi þurft til að framkalla mikla kvell. Slík bomba hafi einfaldlega getað orðið til úr engu, hvernig svo sem það má vera að eitthvað verði til úr engu. Þetta sannar að sönnu ekkert, hvort að Guð sé til eða hvort hann sé hreinlega ekkert og um þetta deilumál geta menn sjálfsagt rökrætt allt til enda veraldar. Vera má að Guð sé eingöngu mannleg uppfinning, einhverskonar haldreipi sem menn hafa skapað sér í sínum ófullkomleika en það má líka vel vera að hann sitji þarna einhverstaðar uppi, gamall og gráskeggjaður og hvíli sig eftir að hafa reynt að stjórna þessum óstýrlátu maurum sem hann kallar mannkyn.

Þrjár leiðir

Það er mikið um þetta deilt þessa dagana hvort að kreppan sé búin eða hvort hún sé ennþá miklu dýpri en áður. Mikið hefur verið rætt og ritað um orsakir hennar en öllu minna um leiðir til að komast varanlega út úr henni. Þessa dagana stendur þjóðin á einhverskonar vegamótum og virðast þrjár meginleiðir standa til boða en enginn vegvísir gefur til kynna hver þessara leiða er best eða greiðfærust. Má segja að hver þessara leiða hafi sína kosti og sína galla. Sú leið sem einna greiðust og skynsamlegust virðist vera er sú að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru svo fljótt sem hægt er. Þessi leið hefur þann kost að hún stuðlar að stöðugleika, lítilli verðbólgu, lágum vöxtum og stöðugleika en helsti galli hennar er að henni kann að fylgja nokkuð krónískt atvinnuleysi og viss ósveigjanleiki í efnahagskerfinu í landi sem býr við mjög sveiflukennt náttúrufar. Önnur leiðin er sú að afnema öll gjaldeyrishöft, láta krónuna síga til botns og valda þar með óðaverðbólgu. Þessari leið myndi fylgja nauðsyn þess að afnema verðtryggingu lána eða taka upp verðtryggingu launa þannig að við tæki víxlverkunarástand það sem hér ríkti fyrir þjóðarsátt. Þar sem sparifé landsmanna var notað sem eldsneyti á verðbólgubálið sem brenndi upp allar eigur manna. Þriðja leiðin er það sem við gætum kallað kyrrstöðuleið en það er að halda upp nokkurn veginn núverandi kerfi, verðtryggðri lág gengiskrónu með gjaldeyrishöftum og okurvöxtum til að halda uppi að einhverju leiti falskri gengisskráningu. Ef til vill getur þetta gengið í einhvern tíma en til lengdar veldur það samdrætti í fjárfestingu, atvinnu og þar með lífskjörum. Það er því ljóst að okkur er mikill vandi á höndum og spurningin vaknar hvort hægt sé að halda úti svona litlu hagkerfi án þess að um einhverskonar gervi hagkerfi sé að ræða með skrípaleik á borð við útrásina svokölluðu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband