Gulir og glaðir

Íslendingar hafa ástæðu til að vera gulir og glaðir þessa dagana; veturinn er á enda, kreppunni er að linna, sólargangurinn lengist og senn kemur betri tíð með blóm í haga. Sú gula lætur æ meira bera á sér og við höldum páska. Gildir einu þótt mörgum þyki sem Drottinn almáttugur hafi gengið til liðs við Samtök atvinnulífsins þetta árið að minnsta kosti er þar mikil hagræðing í gangi hvað varðar frídaga. Þetta byrjaði um jólin, síðan renna saman sumardagurinn fyrsti og skírdagur og loks sunnudagur og 1. maí.

Gult er litur páskanna, þessarar hátíðar sem líklega er upprunnin hjá Egyptum til forna en Gyðingar taka svo upp til að minnast brottfararinnar úr Egyptalandi og er haldin í Gyðingalandi á sama tíma og Jesús Kristur er krossfestur og varðveitist þar með í minningunni hjá kristnum mönnum. Í dag held ég að boðskapur hátíðarinnar sé fyrst og fremst sá að orð deyi aldrei þó það sé krossfest. Margir fleiri en Jesús Kristur hafa verið krossfestir fyrir skoðanir sínar má þar nefna Gandhi, Martin Luther King, John Lennon og Jón Arason.  Við skulum minnast þessara manna á sama tíma og við lesum Passíusálmana, borðum páskaeggin, förum á skíði eða liggjum og slöppum af. Þetta getum við gert þó svo að blýbækurnar frægu sem fundust við Dauðahafið riti okkur einhvern nýjan sannleik um krossfestinguna og upprisuna jafnvel að hún hafi aldrei átt sér stað. Þá verður boðskapur páskanna alltaf sígildur.   


Út í óvissuna

Stóra Nei-ið á sunnudaginn markaði upphaf ferðalags út í óvissuna og má segja að hinn skyndilegi endir sem varð á samningaviðræðunum á föstudaginn hafi verið fyrsti áfanginn á þeirri leið. Það var næstum því búið að stinga vöfflujárninu í samband í Karphúsinu þegar sprengju var allt í einu varpað inn á fundinn. Einhver yfirlýsing eða sáttatillaga í sjávarútvegsmálunum kom frá Jóhönnu en orðalagið á þessari tillögu fór vægast sagt fyrir brjóstið á fulltrúum atvinnurekenda sem voru rétt nýbúnir að reyna að múta verkalýðshreyfingunni til að koma með yfirlýsingu gegn ríkisstjórninni og þiggja 100 þúsund kall að launum.

Líklega hefur þó viljinn aldrei verið alveg heilshugar hjá atvinnurekendum að minnsta kosti hefur Vilhjálmur frá Sauðárkróki verið duglegur að verja kvótakerfið sínkt og heilagt. Þetta er stórhættuleg afstaða, menn eru hér að halda niðri allt of bágum kjörum í landinu út af ómerkilegu máli eins og eignarréttinum á óveiddum fiski.

Nú hélt maður svona einhvern veginn að óveiddur fiskur ætti sig sjálfur þangað til búið er að veiða hann og þá væri hann auðvitað verðmæti þeirra sem hann veiða. En svo virðist ekki. Óveiddur fiskurinn missir verðmæti sitt þegar hann er veiddur og sjávarútvegur á Íslandi er fyrir löngu í reynd kominn í eigu bankanna sem auðvitað vilja ekki sjá afnumda veðsetningu á kvóta, eins vitlaus og hún er. Því varla er til verri hagfræði en sú að veðsetja væntingar nema ef til vill það sem tíðkaðist í bólunni að prenta peninga sem ekki voru til verðmæti fyrir nema tölur í forritum.   


Kyrr kjör

Þau verða sennilega kyrr kjörin næstu mánuðina og árin eftir stóra Nei-ið á laugardaginn. Vera kann að menn nái saman um einhverja kjarasamninga til einhverra mánaða sem fela í sér einhverja verðbólgu. Við vitum að atvinnuleiðin hans Vilhjálms með væluröddina verður ekki ýkja greiðfær á næstunni.

Olíuverð lækkaði lítillega á heimsmarkaði í gær og vitanlega hækkaði það á Íslandi morguninn eftir. Það gerist alltaf. Það mun þannig allt hækka næstu vikur og mánuði nema laun og að sjálfsögðu tryggingabætur enda þykir ekkert tiltökumál þótt til dæmis öryrkjar lifi á 160 þúsundum á mánuði. Og vitanlega verður svo að vera þar sem auðmennirnir þurfa milljónir í vasapeninga meðan verið er að gera þrotabúin þeirra upp. Og óveiddur fiskur verður áfram um sinn einkaeign og verslunarvara milli misblankra útgerða.


Gullfiskaþjóðin

Þá er nú stóra Nei-ið komið. „Við borgum ekki“ segir þjóðin innblásin af lýðræðisást og þjóðrembu. Og afleiðingarnar hafa orðið ýmsar, sumar fyrirséðar eins og til dæmis fýlan sem þeir fóru í Hollendingar og Bretar, en einnig óvæntar eins og sprengjan sem Bjarni Benediktsson, hinn "vafningalausi" formaður sjálfstæðisflokksins, varpaði á þingi þegar hann boðaði vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Líklegt má telja að tillaga þessi sé fyrst og fremst ætluð til heimabrúks. Því er nefnilega þannig varið að Bjarni er síður en svo óumdeildur maður í sínum flokki. Ýmsir þar bera honum á brýn hálfvelgju og kveifarskap í stórum málum og má meðal annars geta þess að Davíð kóngur skammaði hann hressilega í Mogganum sínum um helgina. Því hefur Bjarni sennilega viljað með tillögu þessarri sýna svolítil mannalæti.

Hitt er svo annað mál að þessi tillaga verður að teljast mjög vafasöm pólitískt séð. Fyrir það fyrsta þá hlakkaði auðvitað í Jóhönnu þar sem nú gefst tækifæri til að þjappa stjórnarliðinu saman. En þetta veikir stöðu Bjarna innan sjálfstæðisflokksins og afleiðing þess gæti hæglega orðið sú að gamli góði Davíð stigi fram sem bjargvættur. Þjóðin hefur sem kunnugt er gullfiskaminni. Þannig að Davíð verður sennilega hinn nýi bjargvættur þrátt fyrir eitt stykki gjaldþrota Seðlabanka, hrunið fjármálakerfi og niðurhöggna útrásarvíkinga. Davíð fær annað tækifæri til að koma þjóðfélaginu endanlega á hausinn og þá líklega einnig Björgúlfarnir til að rísa upp og auðgast í þriðja sinn.


Hin ýmsu fjölmiðlafár

Margt fleira en hið sívinsæla Icesave hefur rekið á fjörur íslenskra fjölmiðla að undanförnu. Óhug sló að þjóðinni þegar fréttist af 7 ára dreng sem misnotaður var af föður sínum og frænda. Fréttir bárust af mönnum sem vildu kaupa sér íslenskan ríkisborgararétt um leið og ungri stúlku var neitað um dvalarleyfi. Mengun af ýmsu tagi hefur borið á góma og svo eru auðvitað þessar venjulegu fréttir af hópslagsmálum og líkamsárásum.

Það vekur dálitla athygli hversu mjög fjölmiðlar eru farnir að spila á tilfinningar fólks. Oft á tíðum verða tiltölulega smávægilegir atburðir upphafið að miklu fjölmiðlafári og virðist manni á stundum sem þar ráði nokkur tilviljun hvað verður að stórmáli. Það getur orðið að stórmáli ef að maður á Reykjanesi þarf að fá nýtt hjarta eða að Gunni hafi verið geðveikur. Þegar það verður engin stórfrétt að fjórir útigangsmenn verða úti í henni Reykjavík eða að hjartasjúklingur deyi af því að hann kemst ekki nógu fljótt í aðgerð. Þetta er allt svo miklum tilviljunum háð og stundum er æsingurinn svo vægt sé til orða tekið nokkuð mikill. Samanber Becromal málið þegar fréttir bárust af því að trillukarlar væru farnir að veiða lútfisk á Eyjafirði. Kastljósið ræddi lítið við heimamenn en þess meira við einhverja snoppufríða stelpu á Umhverfisstofnun fyrir sunnan. En tilfinningin sem lögð var í fréttina var mikil. Þetta á einnig við um díoxín-mengunina við Ísafjörð. Menn hafa miklar samúð með bóndanum sem þarf að farga öllum sínum skepnum en engum dettur í hug að deila á heilaga Umhverfisstofnun fyrir afglöp sem hún framdi.   

Sennilega er undirrót þessarar tilfinningafjölmiðlunar sú grimma samkeppni sem fjölmiðlar á Íslandi heyja. Væri nú ekki ráð að slíðra sverðin og taka sig saman um að gera fjölmiðlun á Íslandi æsingalausari, vandaðri og jafnframt ábyrgari og dýpri?


Af hverju "Já"?

Það á víst að kjósa um Icesave samningana á laugardaginn. Undanfarna daga hefur mátt heyra í útvarpi auglýsingar frá einhverjum Nei-hópi þar sem Egill Ólafsson segir frá því að á miðöldum hafi börn verið seld í ánauð til námuvinnslu í Englandi. Gott og vel. Þessi óþverri mun hafa átt sér stað. Sá sem mest barðist fyrir því að binda enda á þetta mun hafa verið Jón Gerreksson Skálholtsbiskup en örlög hans urðu þau að íslenskir höfðingjar drekktu honum í Brúará. Þeir þoldu víst illa afskipti hans af íslenskum innanríkismálum. Þetta litla dæmi sýnir svolítið í hnotskurn hversu mjög margir þeirra sem hyggjast segja "Nei" á laugardaginn bera mál sitt fram miklu meira af tilfinningum en skynsemi.

Auðvitað ber okkur í sjálfu sér engin siðferðilega skylda til að borga skuldir óreiðumannanna eins og Davíð sagði. Hins vegar gleymist það að það var Davíð sjálfur sem átti þátt í því að gefa leyfi með ríkisábyrgð til að óreiðumennirnir mættu stofna sér í þessar skuldir. Og þessum manni tyllti þjóðin á valdastól. Þetta eru í sjálfu sér ekki rök en það eru rök að við getum ef til vill séð fyrir hvað gerast mun strax dagana eftir stóra "Nei-ið". Lánshæfismat ríkissjóðs mun strax fara niður í ruslflokk og ákveðin lán til dæmis til handa Landsvirkjun voru háð því skilyrði að samningarnir yrðu samþykktir. Gengi krónunnar mun veikjast og síðast en ekki síst þá munu líklegast dragast allir samningar á vinnumarkaði og á meðan munu til dæmis bótaþegar Almannatrygginga sitja eftir með sömu lúsarbæturnar um 160 þúsund á mánuði meðan allt annað hækkar. Kyrrstaðan kann að standa í allt að 4 til 5 ár. Vissulega er ákveðin áhætta fólgin í samþykki en skuldin er þó ekki stærri en það að hún nær ekki nema broti af gjaldþroti Seðlabankans.

Það eru mörg lögfræðileg álitamál í þessu en í grundvallaratriðum er þetta ekki spurning um lögfræði heldur um stjórnmál og siðferði.


Flokkur eða fólk

2 Vinstri grænir þingmenn annað hvort hlupust undan merkjum eða stóðu staðfastir á stefnu flokksins, allt eftir því hvernig litið er á málið. En hvernig sem litið er á málið þá vaknar alltaf spurningin hvort þingmennirnir séu í slíku tilfelli eign flokksins, kjósenda sinna, kjördæmis síns eða þeirra sjálfra og svarið við þessu er alls ekki einhlítt. Þingmenn eru kosnir af flokkslistum en eiga samkvæmt stjórnaskrá að vera bundnir aðeins að eigin sannfæringu. Þeir eru fulltrúar einstakra kjördæma en á sama tíma fulltrúar flokka á landsvísu, sem er oft ekki auðvelt að samríma því oft vill það verða að það sé annað að vera fulltrúi Reykjavíkur og vera fulltrúi á landsvísu. Og þá er þetta í raun andstæða við persónukjör. Fólkið í kjördæmunum vill kjósa þann sem þau treysta best til að sinna sínum hagsmunum en flokkurinn fyrir sunnan hefur stundum alveg gjörólíka hagsmuni að verja. Þess vegna mun þetta sennilega alltaf vera svona á meðan þetta kosningakerfi er viðhaft hér, alltaf verða öðru hverju þversagnir eins og þessi.

Loftkastalar á Langanesi

Hún Katrín okkar iðnaðarráðherra sagði á Alþingi í dag að Þingeyingar mætta fara að undirbúa sig undir mikla uppbyggingu í atvinnumálum, að ég held bara á næstu dögum eða vikum. Hún hefur ef til vill verið að hlusta á fréttirnar í sjónvarpinu á dögunum um loftkastalana sem fyrirhugað er að reisa á Langanesinu. Þar kvað eiga að reisa stórskipahöfn, olíuhreinsunarstöð, þjónustusvæði fyrir olíuvinnslu og gott af ekki alþjóðaflugvöll þann næst stærsta á Íslandi. En vera má að hugmynd hennar sé að fylla þessa loftkastala með steinsteypu í stað lofts. Þessar hugmyndir virðast draumkenndar en hinu ber ekki að neita að Þingeyjasýslur og raun Norðurland allt á mikla efnahagslega möguleika. Mikla orku, margar náttúruperlur og gott menntakerfi svo eitthvað sé nefnt. Vel má gera Norðurland að heilstæðu og nokkuð sjálfbæru efnahagslegu svæði, en til þess þarf að ýmsu að hyggja, eitt að því eru t.d. Vaðlaheiðagöng. Margir hafa horn í síðu Vaðlaheiðaganga og telja þau ekki arðbæra framkvæmd. Má vera að Vaðlaheiðagöng séu ekki arðbærasta framkvæmdin í samgöngumálum í augnablikinu. Þau eru aftur á móti mjög þjóðhagslega hagkvæm sé litið til framtíðar, meðal annars í myndun þess efnahagssvæðis sem norður og austurland geta myndað. Þau gætu þannig orðið lítill biti í stóra púslinu sem við nefnum Ísland framtíðarinnar.


Ernirnir Lenda

Ernirnir lenda á Íslandi í byrjun júní og munu hefja upp raust sína í Laugardallshöllinni þann 9 júní. Eagles er hin ágætasta hljómsveit sem spilar lagrænt countryskotið popp, en það kostar skilding að heyra þetta "popp". 15 og 20 þúsund krónur miðinn eftir staðsetningu það er að segja eftir því hversu vel menn vilja heyra "Hotel California" hljóma. Það gefur auga leið að ekki hafa allir efni á að berja dýrðina augum. Þannig getur til að mynda ekki öryrki með hámarksbætur 159 þúsund krónur á mánuði farið, hann gæti jafnvel reyndar ekki farið þó í boði væru Bítlarnir með John og George í heimsókn frá himnum. 159 þúsund eru auðvitað nokkuð margar krónur en þær eru bara svo hryllilega verðlausar og þar af leiðandi er það ef til vill ekkert voðalega dýrt að borga 20 þúsund fyrir Ernina... 20 þúsund krónur eru nefnilega svo margar verðlausar krónur.


Bændur og Evrópusambandið

Góðbændur þessar lands komu að vanda saman í Reykjavík til svo kallaðs Búnaðarþings. Athyglisvert annars að Búnaðarþing skuli ávalt haldið í Reykjavík, af hverju ekki að styrkja ferðarþjónustuna víða um landið  með því að halda þingið þar? Hvað um það.. bændaforustan ályktaði með næstum rússneskri kosningu á móti Evrópusambandinu. Þetta verður að kallast skammsýni. Öllum má ljóst vera að við munum enda í Evrópusambandinu eiginlega hvort sem við viljum það eða ekki og ástæðan er einfaldlega sú að við getum ekki staðið ein lengur eftir að heimurinn fer að skiptast í fáeinar viðskiptablokkir. Við getum ekki til frambúðar búið við okkar litla gjaldmiðil nema vera með höft, hugsanlega svo víðtæk að okkur verði vísað úr EES. Bændur ættu miklu heldur að henda sér í það að laga íslenskan landbúnað að þeirri framtíðarsýn sem við blasir innan Evrópusambandsins. Vera má að einhverju þurfi að fórna til að standast samkeppni við innflutning, en þá eiga menn að snúa sér að þeim þáttum sem eru sterkir í íslenskum landbúnaði. Við getum aukið lífrænan og vistvænan landbúnað, aukið sölu beint frá býli og eflt ferðaþjónustu, við getum aukið kornrækt og til að mynda ýmsa afleidda framleiðslu þar eins og brauð og bjórbruggun, sem gæti orðið mjög sterkur atvinnuvegur hér vegna hins góða vatns. Íslenskur landbúnaður mun ekkert líða undir lok þó við göngum í Evrópusambandið. En hann mun breytast en að það sem ef til vill verður lagt niður en er hin íhaldssama bændaforusta á Hótel Sögu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband