Varðmenn kassans

Mikið er alltaf gaman að stilla sjónvarpið sitt á þingrásina og hlusta á það hvað blessaðir jólasveinarnir okkar við Austurvöll hafa til málanna að leggja hverju sinni. Í dag voru þeir að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um sjúkratryggingar, varðandi kerfisbreytingar á þátttöku sjúklinga í greiðslu lyfjakostnaðar. Áður voru þeir búnir að hraðspóla gegnum þingið einhverju frumvarpi varðandi endurgreiðslu á tollum til vörubílakaupa sem virtist vera eitt af mest áríðandi málunum vegna nýgerðra kjarasamninga.

En aftur að sjúkratryggingafrumvarpinu. Þarna var jú mikið verið að ræða um hvort hið nýja kerfi væri hagkvæmara fyrir sjúklingana en hið eldra. Mest bar þó á í umræðunni hvort að kerfisbreytingin kæmi eins út fyrir blessaðan ríkiskassann okkar. Manni sýndust allir þingmennirnir í raun, hvort sem tilheyrðu stjórn eða stjórnarandstöðu vera sammála um það að höfuðatriðið væri að standa vörð um hagsmuni kassans gagnvart árásum þjóðarinnar. Ríkisfjármálin virðast vera stóri höfuðverkur allra en ekki það hversu góða þjónustu ríkið veitir þegnum sínum. Og þetta er í rauninni ekki séríslenskt fyrirbrigði. Um alla Evrópu kiknar nú lágtekjufólk undan birgðunum af þeirri áherslu sem allir setja á að kippa ríkisfjármálunum í lag án þess að tillit sé tekið til þess hvað það kostar að reka eitt stykki ríki. Í þessu er þó svolítill tvískinnungur. Allt í einu eru þingmenn farnir að átta sig á því að laun þeirra séu allt of lág og þá sofna varðhundar kassans allt í einu á verðinum.  


Jafnræðisgoðsögnin

Goðsögnin um jafnræði er mjög rík í allri umræðu hér á landi og jafnræði er meira að segja hátíðlega varið í stjórnarskrá. En þegar við lítum nánar á málin kemur í ljós að sumir eru stundum jafnari en aðrir. Það sem einna fyrst stingur í augum er jafnræðið milli landshluta. Svo virðist sem þar gangi ríkið stundum á undan öðrum í að skipuleggja misrétti. Nefnum sem dæmi þetta með ókeypis tannlækningar handa börnum frá efnalitlum heimilum. Þar njóta börn á höfuðborgarsvæðinu meiri réttar því þó fargjöld séu greidd fyrir hin þá er röskunin fyrir þau umtalsvert meiri.

Þegar ríkisútvarpinu var gert að skera niður var það með fullu samþykki ráðamanna fyrst og fremst gert á kostnað landsbyggðarinnar. Og nú bætist við misréttið í menningarmálum þegar Harpan glymur yfir sveitavarginum svo honum er örugglega löngu orðið bumbult..... og allt í boði Björgólfsfeðga.

En misréttið er á fleiri sviðum. Fatlaðir njóta ekki réttar á við aðra og hvað með flóttamenn sem ekki fá hæli meðan glæpagengin þeysa um á mótorfákum sínum, skjótandi sjálfa sig og aðra án þess að löggan depli auga. Og að lokum; grey útgerðarmennirnir, þeir eru farnir að skæla af því að það á að taka af þeim kvótann og leyfa fleirum að fiska í vatninu sem við öll eigum.


Kvótinn til fólksins

Þá er loksins að ljúka löngum og ströngum fæðingarhríðum kvótafrumvarpsins, en fæðing þess er næstum búin að valda móðurinni -það er ríkisstjórninni- dauða af barnsförum. Það virðast þó allir á yfirborðinu vera sammála að gera það sem gera þurfi það er að segja, að færa kvótann til fólksins og stöðva þessa ósvinnu að einstaklingar geti höndlað með það sem er í raun ekkert annað en þýfi: eign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni. Sú lausn sem hér er boðuð virðist við fyrstu sýn nokkuð sanngjörn. Arðinum af þessari auðlind er skilað, að minnsta kosti að nokkru leiti, aftur til byggðanna eftir að útgerðarmenn hafa margir hverjir flutt hann í stórum stíl burtu til að fjárfesta í verslanahöllum, bankakofum og lúxusvillum í öðrum byggðarlögum. Vel má jafnvel hugsa sér að lengra verði gengið í þessa átt þar sem vilji útgerðarmanna til fjárfestinga á heimaslóðum er afar takmarkaður. Þá hljóta þeir alveg eins að geta greitt veiðigjald til ríkisins eins og þeir geta greitt sjálfum sér. Aðalgallinn við hið nýja skipulag er þó sá að hann kallar á langvarandi lágt gengi krónunnar þó svo það verði ekki í þágu útgerðarinnar sem slíkrar, heldur í þágu þjóðarinnar sem heildar enda hún orðin raunverulegur eigandi auðlindarinnar.

Hálfa leið

Íslendingar stigu í kvöld að minnsta kosti fræðilega séð, hálfa leiðina að því að vinna Eurovision. Nokkuð sem allir eru dauðhræddir við en þjóðarstoltið kallar þó alltaf á. Nýverið var í fjölmiðlunum viðtal við einhvern náunga sem hafði skrifað prófritgerð í hagfræði um það, hvort þjóðin myndi tapa eða vinna á því að halda Eurovision og komst hann að því að líklega mundi þetta enda í lítilsháttar þjóðhagslegum hagnaði. Nú hefur maður ekki lesið þessa ritgerð og veit því ekki hvort allir kostnaðarliðir hafi þarna verið reiknaðir. Til dæmis... það er augljóst að líklega er hvergi á Íslandi hægt að halda keppnina nema í Reykjavík og einmitt þar er nánast eina inngönguleiðin inn í landið fyrir ferðamenn. Það gefur því auga leið að til að létta á þessu þyrfti að minnsta kosti tímabundið að hefja reglulegt áætlunarflug frá að minnsta kosti Akureyri og jafnvel Egilsstöðum til útlanda, aðeins til að fjölga aðkomuleiðum að landinu með tilheyrandi fjárfestingum í gistirými. Einnig yrði að gera einhverjar efnahagsaðgerðir til að sporna við ofhitnun hagkerfisins á suðvestur horninu. Augljóst er að fari svo slysalega að Íslendingar vinni keppnina á laugardaginn verður þegar í stað að efna til þjóðarsamstöðu um að halda hana að ári og ef þjóðin stendur saman þá gæti slíkt orðið mesti sóminn sem minningu Sigurjóns Brink væri syndur.

Okursamfélagið

Þá eru aðilar vinnumarkaðarins búnir að semja um kaup og kjör eins og það er kallað. Blekið á undirskriftum samninganna var ekki þornað þegar einhver hagfræðingur hjá Seðlabankanum gaf út það álit sitt að kauphækkanirnar í samningunum væru allt of miklar. Líklega hefur þessi aumingja maður alltaf lifað við svo háar tekjur að hann hefur  aldrei þurft að skorta neitt. Hann er ekki öryrki, einstæð móðir eða láglaunavinnuafl. Tekur varla nokkurn þátt í okursamfélaginu og þar liggur rótin, allt okkar samfélag er undirlagt af okri. Það er sama hvert litið er, allt þarf að greiða fyrir háu verði; olíuna, matinn, húsnæðið....... Allt er fast í einni allsherjar okurgildru og þegar einhver ætlar að reyna að losna úr henni koma fínu hagfræðingarnir og segja að kaupið sé orðið of hátt. Og nú er jafnvel verkalýðsforystan farin að dansa með. Að minnsta kosti svaraði hún ekki Seðlabankahagfræðingnum fullum hálsi.

Ef einhverjir kjarasamningar eiga að halda til lengri tíma í landinu verður að byrja á því að taka á þessu máli. Þar verða allir - auðmenn líka - að taka þátt. Það getur enginn komist undan því að taka á því að koma almennu verðlagi niður þannig að fólk fari að fá einhver verðmæti fyrir krónurnar sínar áður en þær brenna upp til agna.


Fyrirheitna fordómalandið

Ísland er ekki þekkt land á alþjóðavísu en í augum ýmissa er það sjálfsagt fyrirheitna landið þar sem allir eru góðir og fordómalausir. En mikill óttalegur misskilningur er þetta nú. Í gær gerðist sá atburður að íranskur hælisleitandi hellti yfir sig bensíni og ætlaði að kveikja í sér í höfuðstöðvum Rauða krossins í Reykjavík. Þetta er ekki óþekkt aðferð hjá Aröbum og má nefna til dæmis að byltingin í Egyptalandi hófst með því að maður kveikti í sér í mótmælaskyni. Og Íraninn í Reykjavík var svo sannarlega í mótmælahug líka og sjálfsagt alls ekkert geðbilaður eins og ýjað hefur verið að. Ástæða þessara mótmæla er svo sem augljós, maðurinn hefur beðið hér hælis í sjö ár og ekkert fengið nema neitanir þó svo sagt sé að hann hafi framið eitthvert afbrot sem varðar dauðarefsingu í Íran. Og þess má geta að það er ýmislegt sem varðar dauðarefsingu þar sem okkur þykir nokkuð fáránlegt. Ég held að það sé til dæmis ekkert sérlega heppilegt að láta það út úr sér að Múhameð hafi verið bjáni og forseti landsins einræðissinnaður kúgari. Við skulum spyrja sjálf okkur hvort við myndum taka menn af lífi fyrir eitthvað slíkt.

Af einhverjum ástæðum virðist þessi Írani hafa orðið fyrir fordómum fólks sem hugsar meira um hagsmuni kerfisins heldur en einstaklinganna eins og þessi Kristín sem er forstjóri Útlendingastofnunar og er í raun bara kerfið gangandi. Maður spyr sig af hverju þessi stofnun er ekki tekin undan innanríkisráðuneytinu og kerfisdurtinum Ögmundi og sett undir félagsmálaráðuneytið. Snúa ætti sönnunarbyrðinni við þannig að eftirleiðis yrði ríkið að færa sönnur á það að hælisleitandi sé óæskilegur en ekki hælisleitandinn að sanna það að hann sé hæfur til þess að fá hæli.


Kanadíska leiðin

Vor gamli skólabróðir og kunningi Guðmundur Ólafsson sagnfræðingur var í gær í viðtali á "bláa leikfanginu" hans Ingva Hrafns. Ræddi hann þar meðal annars það margrædda mál framtíðarmynd íslendinga og taldi okkur best borgið með því að taka upp Kanadískan dollar. Þessi Kanadíska leið lítur svo sem nógu vel út á pappírnum, Kanadadollarinn er stöðug mynt sem tekur litlum breytingum mikið til vegna þess að í efnahagslífi Kanada ríkir talsverður stöðugleiki. En óvíst er hvað myndi gerast ef alvarleg kreppa skylli á í Bandaríkjunum. Kanada hefur það mikil viðskipti við Bandaríkjamenn að kreppa sunnan við landamærin hlyti að hafa mikil áhrif. Þá er ekki ennþá útilokað að við yrðum eftir nokkur ár orðin að fylki í Kanada, við mundum hreinlega þurfa að segja okkur til sveitar líkt og Nýfundnaland gerði á sínum tíma. Værum við aftur á móti með evruna og inni í Evrópusambandinu værum við jafnréttháir aðilar að sambandi Evrópulanda og mundum væntanlega þiggja hjálp þaðan sem slíkir.

Ferðaþjónusta á villgötum

Það var gaman og mikil upplifun að heimsækja Siglufjörð síðastliðinn laugardag og skoða þessu nýju fínu göng sem búið er að gera. Sannarlega mikil framkvæmd og ekkert annað en bylting fyrir íbúa Siglufjarðar. En auðvitað var þessi framkvæmd umdeild, margir sáu ofsjónum yfir því mikla fé, sem veitt var í að koma nokkrum hræðum við ysta haf í nútíma samband við umheiminn. En hér, eins og svo oft áður hugsa íslendingar ekki í samhengi. Þessi göng gætu skilað margföldum arði ef ekki væri sú staðreynd að íslensk ferðaþjónusta er á villigötum. Jú, við getum sagt við einhverja ríka Ameríkana sem hingað koma að við eigum flóknasta glerlistaverk í heimi, fínan manngerðan hver inni í stórborg sem og laxveiðiá... En við hefðum ekki þurft að leggja í allar þessar fjárfestingar, við höfum nefnilega landið í allri sinni dýrð. Það er ekki Perlan eða nýja hvolfþakið á Hörpunni sem vekja á huga ferðamannanna heldur eru það fjöllin, eldurinn og ísinn, hafið og allt þetta. Við getum selt "Látúnshringinn" sem hringferð... ég fullyrði á heimsmælikvarða... Þessa leið frá Akureyri til Akureyrar... um Ólafsfjörð, Siglufjörð, Fljótin, Varmahlíð og Öxnadalsheiði. Hann jafnast fyllilega á við til dæmis Kerry´s hringinn á Írlandi sem ég hef farið. Og það þarf ekki nema brot af þeirri fjárfestingu sem lögð var í glerhjúpinn til að gera hring þennan að aðdráttarafli á heimsvísu.


Vanhelgir páskar

Þá eru blessaðir páskarnir afstaðnir. Við erum búin að borða páskaeggin okkar, fara á skíði, lesa glæpasögur og gera annað það sem sæmir að gera á þessu mestu hátíð kristninnar. Einhvernvegin er það þó svo að manni finnst þessir páskar alltaf að verða vanhelgaðri og vanhelgaðri. Búðir eru farnar að vera opnar jafnvel á föstudaginn langa og páskadag, svo og veitingastaðir og meira að segja bingóspil Ungra íhaldsmanna í Reykjavík á föstudaginn langa er ekki einu sinni fyndið lengur heldur asnalegt. Og að þessu sinni kom það berlega í ljós hverjum ríkisútvarpið þjónar... allt var vaðandi í auglýsingum og kostun sem ég held að hafi aldrei viðgengist þessa helgidaga. Jafnvel veðrið var í boði einhvers og að sjálfsögðu bíómyndirnar líka. Auðvitað eru allir búnir fyrir löngu að gleyma tilefni páskanna og nú bíða menn bara eftir því að Omega fjalli um Jesú í boði Mammons...  

Litla flugan

Það var sólarlandaveður á svölunum mínum í gær. Ég sat og hlustaði á Útvarp Sögu þar sem einhver ungur dagskrárgerðarmaður var að fara yfir feril Sigfúsar Halldórssonar. Spilaði hann þar meðal annars upptöku Fúsa sjálfs af Litlu flugunni og gat þess að þarna væri komið fyrsta íslenska dægurlagið. Nú er ekki hægt að fullyrða að svo hafi verið. Vel má vera að einhverjir hafi samið eitthvað sem kalla má dægurlag einhvers staðar áður. En Litla flugan er líklega fyrsti, íslenski „hittarinn“.

Lagið var spilað í útvarpsþætti og komið á allra varir daginn eftir enda útvarpsrásin aðeins ein og allir því hlustandi á það sama. En það er ekki eina skýringin. Skýringin er fyrst og fremst sú að lagið er í sjálfu sér mjög einfalt þótt það sé vel samið og textinn hann er líka mjög einfaldur og auðlærður en um leið skemmtilegur og myndríkur. Á þessu lagi fékk maður þegar uppáhald, ekki nema fjögurra til fimm ára líklega vegna þess hversu einfalt og einlægt það er. Sennilega er það þetta sem gerir lag vinsælt. Ef það er einfalt, vel samið og einlægt snertir það streng í brjósti fólks.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband