Vín til vandræða

Okkar ástkæri bæjarstjóri var í símatíma hjá Sirrí á rás 2 síðastliðinn sunnudag. Að sjálfsögðu vildu margir ræða bæjarins gagn og nauðsynjar, en fljótt barst umræðan að heitasta málinu í bænum þessa daganna. Þessu skipulagsklúðri að leyfa viðbyggingu við vínbúðina í Hólabraut. Vissulega er þessi búð löngu búin að sprengja utan af sér og þar ríkir oft ófremdarástand síðdegis á föstudögum en líklega er sú lausn sem í boði er sú alversta sem hægt var að finna. Staðsetning þessarar vínbúðar er einstaklega leiðinleg þarna rétt norðan við miðbæinn. Þar verða eilíf umferðarvandamál og bílastæðaskortur sem ekki munu minnka nema síður sé við stækkunina. Ónæðið af þessari starfsemi mun enn aukast hjá íbúunum og er þó vart á bætandi. Bæjarstjórinn talaði um að leitað hefði verið einhverra lausna en engar fengust. Raunar má segja að menn hafa ef til vill ekki verið mjög hugmyndaríkir í leitinni. Eitthvað var talað um að leigan á Glerártorgi hefði verið talin allt of há en á það má benda að það er sú lausn sem hlítur að teljast sú besta. Eitthvað mun það líklega auka söluna og það sem meira er að aðdráttarafl Glerártorgs myndi aukast þannig að það stæði undir hærri leigu. Hér má áfengisstefna VG og afdankaðra útrásarvíkinga ekki vera hindrun. Þessi stefna sem er í anda VG hefur svo sem ýtt undir hið marga og smáa hin þjóðlega heimilisiðnað, heimabrugg. Annað hvort mætti setja upp frekar litla vínbúð með algengustu tegundum á Glerártorgi og sérhæfðari búð við Hólabrautina eða það mætti opna aðra vínbúð á brekkunni til dæmis í verslunarmiðstöðinni við Hrísalund. Einhverja lausn í þessa veru þarf að finna í stað klúðursins við Hólabrautina.

Búsáhaldabylting í útrás

Við vitum hvernig þetta fór hjá útrásarvíkingunum. Þeir herjuðu ókunn lönd, vopnaðir fjármagni og fyrirhyggju sem engin reyndist þegar til kom svo þeir urðu að skilja fjármagnið eftir á Tortolu og lippast þeim með lafandi skott. En eftir stóðu þeir sem búsáhöldin börðu og allt í einu, eininglega án þess að vita af því, er búsáhaldarbyltinginn orðin að útflutningsvöru. Hörður Torfa og allir hinir eru nú orðnir að stórstjörnum hjá unga fólkinu á Spáni sem hugsanlega hefur fengið sögurnar af búsáhaldarbyltingunni frá drukknum íslensum ferðamönnum svo afbökuð sem byltingin virðist vera orðin suður þar. Unga fólkið á Spáni hefur auðvitað enga hugmynd um hinn íslenska raunveruleika, þetta reddast hagkerfi, verðtrygginguna og kvótakerfið. Varla hafa þeir sem suður eftir fóru til að boða fagnaðarerindið, náð að skýra mikið út, skiljandi sennilega ekki allt of mikið sjálfir. Enda staðreyndin sú að búsáhaldarbyltingin át börnin sín nánast áður en hún byrjaði enda hafði hún enga hugmyndafræði eða raunverulega stefnu um að skapa nýtt þjóðfélag og hreinsa til. Nýja vínið var einfaldlega sett á gamla belgi eða þá gamla vínið var sett á nýja belgi. Útkoman er óbreytt ástand samber nýjustu héraðsdómanna.

Paradísarheimt

Mig dreymdi merkilegan draum um daginn, mér fannst ég vera að horfa á sjónvarp. Á skjánum var heiðblár himinn, skært sólskin sem merlaði á bláum sænum. Ung ljóshærð stúlka í grágrænni dragt stóð við borðstokk á skipi og var að syngja fallegt lag um mann sem sigldi fram hjá Akurey og út á Faxaflóa. Ég hugsaði sem svo að þarna væri kominn enn ein Reykjavíkurrómantíkin en svo fór ég að hlusta betur á textann og heyrði að hann fjallaði um aldinn sjómann á leið heim til sín eitthvað út á land eftir langa dvöl í Reykjavík. Mér datt í hug að það hliti að vera löng leið sem hann ferðaðist víst hann ferðaðist með strandferðarskipi. Sviðið breyttist allt í einu. Allt var þakið snjó, gamall maður og lotinn var að moka snjó frá hrörlegu kofaskrífli. Staðurinn var Vopnafjörður. Gamli maðurinn hafði öðlast sína paradísarheimt.


Hörpur og hof

Jafnræði er orð sem mikið er notað í pólitískri umræðu. Þannig var nú blessuð ríkistjórnin gerð aftureka með ákvæði í litla kvóta varðandi rétt sveitarfélaga til að útdeila kvótum í nafni jafnræðis. Var það talið jafnræði að spillingin væri öll saman komin í sjávarútvegsráðnuteytinu en ekki vítt og breitt hjá sveitarfélögum landsins. Ekki fer minna fyrir blessuðu jafnræðinu í mennta- og ekki síst menningarmálum. Svo háttar til að þjóðin hefur verið látin byggja upp ósköpin öll af menningarstofnunum í Reykjavík stundum kennd við 'Island, öðrum ekki. Sveitavargnum hefur svo boðist að njóta allrar fínu menningarinnar þarna gjarnan með því að greiða okurverð fyrir að komast þangað. Svo bar allt í einu við einn daginn að menntamálaráðherra einn í kosningahug ákvað að byggja nokkur menningarhús og drita þeim niður hingað og þangað um landið sem smá sárabót. Akureyringar tóku ráðherra á orðinu og sömdu við ráðuneytið um byggingu menningarhús en það hefur komið í ljós að full þörf var fyrir þetta blessulega hús eins og í rauninni vita mátti þegar á því er byrjað. 'A sama tíma byggðu menn svo Hörpuna sína í Reykjavík. Var upphaflega gert ráð fyrir fallegu og smekklegu húsi upp á þessa fjóra til fimm milljarða en svo komust Björgólfur og útrásarvíkingar í málið og þegar upp var kosið var þarna komin montbygging upp á 27 milljarða. Og hér komum við að kjarna málsins. Ríkið hyggst leggja til af skattfé almennings peninga í rekstur Hörpunnar svo fölsk sem hún er nú en vill ekki veita sambærilegt framlag til Hofs. Hér er að sjálfsögðu um forkastaleg vinnubrögð að ræða. Það var að frumkvæði ríkisins að Hof var byggt og því hefur ríkið siðferðislegar skyldur til þess að stuðla að rekstri þess engu síður en Hörpunnar. Og mikil óskaplega dauðyfli eru þingmenn þessa kjördæmis að standa ekki saman í þrýstingi á þetta réttlætismál.


Hormónar og samfélag

Þann 19. júní 1915 veitti vor náðugi erfðakóngur íslenskum konum kosningarétt og má segja að það hafi verið einkar framfararsinnað skref á sínum tíma þar sem íslenskar konur voru aðeins aðrar í veröldinni að hljóta slík réttindi. Til þessa dags hefur verið minnst síðan á margvíslegan hátt en þó telja menn hina svokölluðu kvennabaráttu langt frá því að vera lokið. 'A síðustu árum hefur rutt sér til rúms svokallaður feminismi sem er dálítið einkennileg hugmyndafræði þar sem hún tekur ekki alvarlega tillit til þess að það sem aðgreinir kynin er ekki misjafnur réttur þeirra í þjóðfélaginu. Mismunurinn felst í þeirri líffræðilegu staðreynd að konur eru fæddar með aðra hormónastarfsemi en karlmenn og því auðvitað mjög ólíkar sem aftur leiðir af sér ólík hlutverk í samfélaginu. Hefðin hefur leitt af sér þessa stjórnun karlmanna en mæðraveldið er til, þeirra þekktast er touareg þjóðflokkurinn í sahara. Af karlaveldinu leiðir þessi 70% á móti 30% regla um þátttöku kynjanna í fjölmiðlum. Þannig er ekkert náttúrulögmál heldur afleiðing. Leiðin er ekki sú að skapa kvennkarlmenn eða karlkonur líkt og feministar vilja horfa til heldur stuðla að auknum jöfnuði í þessu hormónaskiptu samfélagi. Reyndar er þetta ekki eina tilvikið þar sem mannvitsbrekkurnar hundsa líffræðina. Nú eru einstaklingar kallaðir börn löngu eftir að þeir eru líffræðilega börn og meira að segja er hvatt til þess að menn haldi sem lengst í bernskuna en slíkt er að sjálfsögðu andstætt öllum náttúrulögmálum. Að þessum hlutum mættu náttúruverndarsinnar svolítið meira huga.


Nonni á afmæli

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að Jón Sigurðsson, hann Nonni frá Hrafnseyri varð 200 ára í gær. Hrafseyri hét til skamms tíma Rafnseyri áður en menn áttuðu sig á því að þetta var afbökun, sennilega dansk ættuð á nafni Hrafns Sveinbjarnarssonar læknis sem staðurinn er kenndur við.            Sitthvað hefur auðvitað verið rifjað upp úr ævi þessa merka manns en einhvernveginn hefur maður samt á tilfinningunni að um sé að ræða fremur yfirborðskennda sagnfræði og ef til vill lítt í anda hans sjálfs. Jón var sjálfur mjög gagnrýnin í skrifum sínum hvort sem um var að ræða sagnfræði, hagfræði eða eitthvað annað. Ekki hefur farið fram mjög gagnrýnin umræða um hugmyndafræði hans og afleiðingar hennar. Eitt atriði má til dæmis nefna. Hina miklu áherslu sem Jón lagði á eflingu Reykjavíkur umfram aðra staði á landinu en á þeim tíma voru staðir á borð við Seiðisfjörð, Akureyri og jafnvel Ísafjörð ekkert síður öflugir. Hinsvegar hafði sá Vísir að embættismannaaðli sem myndast hafði á Íslandi, hreiðrað um sig í Reykjavík og má vera að Jón hafi vitandi eða óaðvitandi haft tilhneygingu til að snobba svolítið fyrir þessum aðli í stað þess að berjast fyrir því að hér yrði til þjóðleg embættismannastétt, jafnvel ekki endilega menntuð í Danmörku eða tengd hinu danska valdi. Þá er umdeilanleg sú áhersla sem hann leggur á frjálshyggju í kenningum sínum en litla á aukin félasleg réttindi. Kann þetta að hafa haft þau áhrif að mjög skortir á félagslega hugsun í Íslenskum stjórnmálum. Íslendingar hafa eytt peningum í allskonar vittleysu meðan hið félagslea kerfi er mjög vanþróað, samanborið við það sem tíðkast á norðurlöndum. Um leið og við minnumst mikilhæfrar frelsishetju meigum við samt ekki setja hann svo á stall að gallarnir hverfi í ofbirtu.


Vetur á Sýrlandi

Það er vetur á Sýrlandi. Gömlu góðu hipparnir norpa ekki lengur einhversstaðar í bláum skugga reykjandi sitt gras, heldur eru þeir flestir orðnir kótelettukarlar sem fara með fjölskylduna á bæjarhátíðir eða fótboltamót. Og dópið er ekki lengur eitthvað dularfullt og spennandi. Mikla athygli hefur undanfarna daga vakið umfjöllun Kastljóss um unglinga og svokallað læknadóp en áður var læknadóp eiginlega eitthvað sem maður tengdi aðallega við eldri konur, með hillurnar hjá sér troðnar af allskonar lyfjaglösum. Frásagnir Jóhannesar Kristjánssonar af örlögum dóttur hans eru nöturlegar, en hinu má ekki gleyma að hugsanlega hefur hann og harmleikur hans verið notaður af Kastljósi í þeirri miskunnarlausu samkeppni sem Ríkisútvarpið er í við fyrrum vinnustað Jóhannesar. Þar sem þessar stöðvar keppa til dæmis hart á harðsvíraðasta auglýsingamarkaði landsins og æsifréttir selja. Maður skilur vel baráttu Jóhannesar en tilfinningin er samt einhvernvegin sú að hann sé svolítið misnotaður. Til dæmis þá talar hann sama mál og meðferðarbransinn í stað þess að tala við krakkana beint og milliliðalaust, á máli sem þau skilja. Að sprauta sig með morfíni er ekki það sama og að fikta við að reykja eina jónu eða fá sér eitt bjórglas. Þetta læknadóp er lífshættulegt, svo einfalt er það og þetta dóp tengist engum hugsjónum eða hugarútvíkkun eins og menn sögðu dópið í gamla daga gera. Veturinn er lagstur að á Sýrlandi og á þessum vetri munu einhverjir verða úti.

Litli heimsendir

Bandaríski uppgjafaverkfræðingurinn Camping spáði heimsendi klukkan 6 síðast liðið laugardagskvöld. Að sjálfsögðu rættist þessi spá ekki, að hans eigin sögn vegna þess að hann gerði villu í útreikningi sínum. Vonandi gerði hann ekki viðlíka villur í verkfræðistörfum sínum. En líklega hefur hann engar fréttir haft af því að einmitt á þessum sama tíma hófst eldgos á Íslandi svo dimmt varð um hábjartan dag í nokkrum byggðalögum og eldi og brennisteini rigndi.

Já, við fengum smjörþefinn af heimsendi á Íslandi um helgina og auðvitað kom uppákoman almannavörnum langmest á óvart af öllum enda var búið að vera þarna eldgos í fyrra og engin sérstök von á öðru strax. En samt varð það strax og við tóku aðgerðir í anda "þetta reddast" hugmyndafræðinnar sem að sönnu hefur ýmsa kosti og getur oft orðið til þess að bjarga í mikilli neyð. En "þetta reddast" hugmyndafræðin hefur þann ókost að hún horfir ekki til framtíðar og það var ef til vill þess vegna sem hrunið varð. Við eigum svo óskaplega erfitt með að hugsa fram í framtíðina. Það er til dæmis ljóst að eitthvað þarf að skipuleggja til framtíðar varðandi þann þátt að virkasta eldgosasvæði landsins er í túnfæti mesta þéttbýlis þess og helstu matarkistu þessa þéttbýlis. Við vitum að þarna eiga eftir að koma stór eldgos áfram. Katla gamla er löngu komin á tíma og Lakagígar eru án efa ekki dauðir. Hætt er við að mikil neyð kynni að skapast á suðvesturhorninu ef ný móðuharðindi yrðu. Þess vegna þarf til dæmis að skipuleggja öflugan landbúnað og byggð í öðrum héruðum til að standa undir framleiðslunni ef neyðarástand skapaðist á Suðurlandi. En slíkur framtíðarhugsunarháttur virðist vera svo óskaplega fjarri okkur Íslendingum. Þess vegna má alltaf búast við að hlutirnir fari úr skorðum og lítill heimsendir verði í hverju eldgosi.     

 


Snjór í maí

Veðurspáin fyrir næstu helgi er ekkert voðalega spennandi Angry .....boðið er upp á norðanátt með tilheyrandi kalsarigningu, slyddu eða snjókomu. Aumingja fuglarnir sem voru blekktir til að koma hingað með von um að hér væri orðið hlýrra en áður, eða blessuð litlu lömbin sem kúra sig í haganum Crying 

En það er víst ekki á allt kosið. Við búum á Íslandi og það getur enginn mannlegur máttur breytt því að það getur komið snjór í maí. Við verðum víst enn að sætta okkur við að þurfa að fara til Spánar Cool .....eða eitthvað enn lengra til að komast í örugga sól og hita, hvað sem líður gengisfellingum og annarri óáran af völdum okkar sjálfra Whistling


Aftur til fortíðar

Það virðist vera mikil fortíðarhyggja í þjóðfélaginu þessa dagana. Menn draga fram tónlist frá því í gamla daga, sögur frá því í gamla daga, útvarpsupptökur frá því í gamla daga og nú segja sumir að verið sé að gera lögin eins og þau voru í gamla daga. Til að mynda lögin um stjórn fiskveiða. Í þessu sambandi er dálítið athyglisverð grein sem Þorsteinn Pálsson skrifaði nýlega í Fréttablaðið. Þar komst hann að þeirri niðurstöðu að nýskipan fiskveiðistjórnunarkerfisins væri í raun ekkert annað en afturhvarf til gamalla stjórnarhátta áður en spillingin fór í útrás.

Þá var nú gaman..... þegar spillingin var bara til heimabrúks, sjóðasukkið á fullu. Vissulega man maður þá tíma þegar útgerðarmennirnir komu í betliferðirnar til Reykjavíkur. Þetta var jú alveg óskaplega atvinnuskapandi fyrir Reykvíkinga, meðal annars er það opinbert leyndarmál að í kringum þetta þreifst ákveðin tegund af vændi. Einkennilegt að Þorsteinn Pálsson, svo mikill Reykvíkingur, skuli ekki fagna þessu, svo mikil nýsköpun í atvinnumálum sem þarna er í farvatninu fyrir borgina. En maður verður að búast við því að flytjendur kvótafrumvarpsins geri ráðstafandir til að þetta sjóðasukk fari ekki af stað á ný.

Þá heyrir maður fréttir um að verið sé enn að herða á gjaldeyrishöftunum. Líklega mun þar brátt opnast ný spillingarleið og víst er að þessum spillingarleiðum mun fjölga eftir því sem við tökum fleiri skref í átt til einangrunar og afdalamennsku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband