Hriktir í Hofinu

Það hriktir svolítið í Hofinu okkar þessa dagana. Sem kunnugt er þá hafa bæjarbúar tekið því með fögnuði og aðsókn að viðburðum yfirleitt farið fram úr björtustu vonum. Samt virðast menn þar vera eitthvað blankir því nú hefur allt í einu verið gripið til þess ráðs að selja aðgang að hjólastólastæðum sem eru aftast í salnum. Þarna heggur sá sem hlífa skyldi því auk þess sem fólk í hjólastólum þarf nú að greiða fyrir aðgöngumiða sína þá þarf margt af því að greiða líka fyrir fylgdarmann . Varla er hægt að sjá að þessir aurar sem þarna fást geri eitthvað útslag í sambandi við rekstur Hofsins en hugsanlega er þarna um einhvers konar sanngirnismál að ræða..... það er jú svo óskaplega mikill lúxus að vera fatlaður að það sé nú ekki verið að veita afslátt út á slíkt.

Þá má nefna annað sem orkar svolítið tvímælis hjá þeim í Hofinu en það eru fyrirhugaðir tónleikar Björgvins Halldórssonar. Björgvin er nú orðinn sextugur og þessir tónleikar haldnir af því tilefni. Mjög fljótt varð uppselt á tónleikana og því ákveðið að efna til aukatónleika en þeir einhverra hluta vegna hafðir fyrr um daginn. Hætt er því við að þeir tónleikar sem fyrst voru auglýstir verði ef til vill ekki af þeim gæðaflokki sem ætla mætti einfaldlega þar sem söngvarinn hefur hugsanlega ekki úthald. Því hefði verið mun skynsamlegra að hafa seinni tónleikana daginn eftir. Spyrja má hvort þeir tónleikar sem haldnir verða síðar um kvöldið verði ekki vörusvik ef eitthvað lætur undan.   


Brauð og leikir

Það verður aldrei af honum Jóni Gnarr skafið að hann er duglegur við að skipuleggja alls kyns brauð og leiki fyrir íbúa borgarinnar. Hvers kyns hátíðir reka hver aðra hvort sem það eru kvikmyndahátíðir, djasshátíðir, blúshátíðir..... nefndu það og hámarkið var svo í gærkvöldi. Eina nóttin á árinu sem að mestu gengur yfir að deginum. Menn byrja á að hlaupa maraþon, borða á veitingahúsum, kíkja á alls kyns skipulagða og óskipulagða viðburði áður en þeir safnast saman í miðborginni að fylgjast með tónleikum sem raunar enginn tekur eftir. Líklega hefur jafnvel enginn heyrt gólið í Bubba Morthens sem löngu er útbrunninn og ekki hefur samið almennilegan texta síðan hann kom úr meðferð. Diddú flutti nokkur hjartnæm orð og síðan var kveikt á dýrasta og fullkomnasta lampaskermi í heimi. Hvílík vonbrigði..... ekki var meira ljós á lampanum en einhver smá glampi út um rifur sem erfitt var að greina. Skítt með það..... þetta er list og þess vegna hlýtur það að vera fínt og dýrt, sannur sómi höfuðborgar landsins..... enda á sönn menning helst ekki að skiljast. Og svo kom miðnætti og þá byrjaði hin sanna íslenska menningarnótt. Sjö líkamsárásir, einhverjir í steininum og allir fullir..... þó minni læti en undanfarin ár. Spurningin er sú hvort Íslendingum sé eitthvað farið að förlast í menningarvitundinni.

Gjaldþrot séreignarstefnu

Íslendingar eru landnámsþjóð. Afkomendur norskra ribbalda, smákonunga sem sóttu sér írskar prinsessur til fylgilags. Hinn konungborni uppruni þjóðarinnar hefur all mjög útvatnast gegnum aldirnar en um hann má þó ennþá sjá nokkur merki. Eitt þessarra merkja er sú séreignarstefna sem hér hefur verið í húsnæðismálum, raunar allt frá landnámi til þessa dags. Það hefur þótt ómennska hin mesta og aumingjaskap að legja húsnæði, menn hafa viljað vera konungar í sínu ranni þótt torfkofi væri. Bjartur í sumarhúsum hefur gengið um allar sveitir en nú hyllir undir að þetta sé að ganga sér til húðar. Menn eru farnir að eyða lunganum af ævinni í að borga af lánum til húsnæðiskaupa sem alltaf fara hækkandi eftir því sem meira er borgað af þeim. Um 1980 fóru menn úr þeim öfgum að láta sparifjáreigendur taka allann skellinn af verðbólgunni út í öfgarnar í hina áttina að láta skuldara taka skellinn. Og stóra skissan var þegar verðtryggingu var kippt af launum en ekki fjárskuldbindingum þannig að misgengi myndaðist. Til að bæta gráu ofan á svart var farið að verðtryggja höfuðstólinn líka sem er á mörkum þess að vera löglegt. Óréttlætið í kerfinu er að laun lækka, til dæmis við gengislækkun en fjárskuldbindingarnar halda sínu upphaflega verðgildi. Þetta hefur skapað hin svokallaða skuldavanda heimilanna. Með öðrum orðum í raun það sem kalla má gjaldþrot séreignarstefnunnar. Við Íslendingar þurfum nú að fara að gera okkur ljóst að við getum ekki lengur hagað okkur eins og litlir smákonungar. Við verðum að afnema séreignarstefnuna, versta vandamálið í efnahagsmálum þjóðarinnar í dag.

Nýtt blað

Nýtt blað er hlaupið af stokkunum hér á bæ. Ritstjóti þess er Björn nokkur Þorláksson sá sem missti starf sitt sem fréttaritari stöðvar 2 þegar þair fengu sparnaðaræði þar og ákváðu að byrja á landsbyggðinni. Sem kunnugt er fylgdi svo Rúv í kjölfarið en fyrsta og stærsta sparnaðaraðgerð þeirra var að loka svæðisstöðvunum þó þeir höfðu ekki til þess neina lagaheimild. Palli er einn í heiminum og honum varðar ekkert um lög þegar sparnaður er annarssvegar. Í hinu nýja blaði er réttilega bent á þann hrikalega samdrátt sem orðið hefur í staðbundinni fjölmiðlun hér á Akureyri. Þó svo að svæðisútvarpið hér hafi verið vel sjálfbært, hlaut það að hætta þar sem gæta varð jafnræðis meðal allra byggði nema Reykjavíkur og einkamiðlarinir voru ekkert betri. Allt þetta er þó aðeins sýnileiki þess hversu mjög hefur aukist metnaðarleysi og dugleysi Akureyringa, að geta ekki staðið að myndarlegri og vandaðri fjölmiðlun á landsvísu. Vonandi er þetta nýja blað sem braskarinn Ámundi stendur að, vísir að nýjum ferskleika í Akureyskri fjölmiðlun.


Kópavogsborg

Einhver ágætur Kópavogsbúi kom í sjónvarpið í gærkvöldi og ræddi þá hugmynd að Kópavogur yrði ekki lengur bær, heldur gerðist borg með öllu sem því tilheyrir. Í viðtalinu kom fram að eiginlega fylgdu þessu svo sem engin réttindi önnur en þau að bera þetta nafn Kópavogsborg sem er auðvitað fínna en bara Kópavogsbær. Á honum var að heyra að þetta væri ekkert mál en það er eins og mig rámi í það að Reykjavík hafi einokun á borgarnafinu samkvæmt sveitastjórnarlögum. Og hugsanlega er hún eini bærinn á Íslandi sem getur borið þennan titil með réttu, þó það sé sjálfsagt óþarfi að binda þau réttindi í lög. Allavegana er það dálítið vafasamt að kalla Kópavog frekar borg en önnur sveitafélög, eða hverfi sem ekki eru sveitafélög eins og Grafarvogur, Grafarholt Breiðholt og jafnvel Árbær. En þau hafa í raun að bera allt það sem fyrirfinna má í Kópavogi, nema auðvitað Salinn og Óperuna sem Gunnar Birgisson fékk aldrei að byggja. Svo er það líka spurninginn, hvað er það sem príða má eitt stykki borg? Er það Íbúafjöldinn, fjölbreytni atvinnulífs, stjórnsýsla hlutverk sem þjónustumiðstöð og ýmislegt annað. Í öðrum tungumálum eru ekki skýr mörk milli bæja og borga og oft hefðin sem ræður því hvort staður kallast bær eða borg þó sjaldan sé talað um París, Kaupmannahöfn eða London sem bæji og sjaldan sé talað um sveitarþorp sem borgir. Oftast virðist þó það vera kallað bæjir sem eru með þetta tíu til tuttugu þúsund íbúa og farið að tala um litlar borgir þegar íbúar ná um tuttugu þúsundum. Ef þessri skilgreiningu er haldið á Íslandi er lítið um borgir, jafnvel Akureyri á ennþá svolítið í land með að ná þessu.

Týnda sumarið

Það er komið fram í ágúst. Mörg merki má sjá þess að sumri sé tekið að halla og haustið sæki að. Skólarnir eru að byrja, berin farin að spretta og enski boltinn að byrja. Þetta er ótrúlegt. Fyrir marga er ekki nema rétt um mánuður síðan sumarið byrjaði. Megnið af því týndist í norðannepju, þokusúld og kulda svo vikum skipti.

Ekki þó alls staðar því dag eftir dag mátti á sjónvarpsskjáum landsmanna sjá brosandi barnsandlit í sólarljósi höfuðborgarsvæðisins. Og illkvittnir þulirnir sögðu: "Er ekki veðrið alltaf best á Norðurlandi?" Menn gerðu jafnvel tilraun til að loka hluta af Laugarveginum fyrir bílaumferð og heppnaðist hún að sögn vel enda veðursæld slík að ekki gerist nema um það bil tíunda hvert ár að meðaltali. Auðvitað hefur þetta sérstaka sumar haft sín áhrif á ferðaþjónustuna en þar hefur hátt bensínverð og almennur kaupmáttarsamdráttur bæst ofan á óhagstæða veðráttu. Og ekki hefur alþýðan getað skroppið til útlanda til að skemmta sér út af vesalings krónunni okkar en golfferðir haustsins hváðu vera að fyllast og góð sala er líka í löngum og dýrum lúxusferðum til framandi staða.


Skattur á gengisgróðann

Ein frumlegasta hugmyndin sem komið hefur fram um skattamál að undanförnu er tillaga sem Lilja Mósesdóttir hagfræðingur setti fram á Sprengisandi Bylgjunnar síðast liðinn sunnudag. Þar lagði hún til að lagður yrði á sérstakur skattur á útflutning. Í rauninni er þetta hið sama og að leggja skatt á gengisgróða eða gengismun þann sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa búið við síðustu mánuði á sama tíma og þjóðin hefur að stórum hluta lapið dauðann úr skel, að miklu leyti bæði beint og óbeint út af hinu lága gengi.

Þessi tillaga virkar við fyrstu sýn dálítið fáránleg enda illa tekið af eigendum útflutningsatvinnuveganna eins og vænta mátti. En ef til vill er hún ekki eins vitlaus og ætla mætti. Menn hafa ekki enn viljað viðurkenna það að stærstu efnahagsvandamál Íslendinga í dag eru hinu lága gengi krónunnar að kenna. Jú útflutningsatvinnuvegirnir græða og græða vel en sá gróði kemur þjóðarbúinu ekki að neinu gagni. Peningarnir liggja bara í sjóðum í bönkum án þess að þeir séu sendir í nokkra vinnu og afsökunin einhver óvissa. Og meðan útflutningsfyrirtækin safna krónum eru þessar krónur verðlausar hjá lágtekjufólki sem ekki má eiga gjaldeyri samkvæmt lögum. Gjaldeyririnn á að liggja óhreyfður hjá auðmönnum og á sama tíma étur verðtryggingin allt upp.

Önnur tillaga Lilju virkar í fyrstu dálítið hjákátleg en hún er sú að afnema verðtrygginguna og láta verðbólgu éta upp skuldirnar. Sama má reyndar einnig gera með því að verðtryggja laun og væri ansi þægileg leið til að koma okkur út úr þessum vítahring. Kostnaðurinn gæti orðið 100% verðbólga og ofþensla en erfitt er að sjá hvernig hægt er að fara aðra leið til að forða öllu þjóðfélaginu frá allsherjar gjaldþroti.


Hraustasta konan

Íslendingar hafa átt sterkasta mann í heimi, fallegustu konu í heimi og nú síðast bættist hraustasta kona í heimi í þennan hóp. Fyrir að ná þessum titli hlaut hún í verðlaun 29 milljónir króna, verðlaunafé fyrir íþrótt sem er þó eiginlega ekki íþrótt. En hér kemur babb í bátinn. Samkvæmt gjaldeyrislögum þá má stúlkan ekki eiga dollarana sína heldur verður hún að skila þeim í bankann sinn heima og þá er skattmann mættur og tekur sitt. Hér er um að ræða galla í lögum eins og oft vill verða. Lögin eru svo ósveigjanleg að þau gera aldrei ráð fyrir svona jaðartilvikum. Svona verðlaun eru alltaf skattlögð hvort sem þau eru fyrir íþróttaafrek, menningu eða eitthvað því um líkt. Það er reyndar fleira sem er svolítið skrítið í skattamálum. Þannig sætir furðu að framfærslustyrkir sveitafélaga skuli vera skattlagðir eða til dæmis styrkir sem sveitafélög veita fötluðum til tækjakaupa. Ýmsa fleiri skondna hluti má eflaust finna í skattakerfinu. Það sem verður að gera er að setja lög eða reglur um að svona óvæntir hlutir eins og verðlaun, styrkir og fleira þess háttar verði undanþegið gjaldeyrislögum og skatti. Jafnvel mætti athuga hvort til dæmis ekki mætti afnema skatt á til dæmis tekjutryggingu almannatrygginga. Það er nú með þetta eins og svo margt annað, blessaðir þingmennirnir okkar sjá ekki trén fyrir skóginum, sjá ekki þá staðreynd að skógurinn minnkar ekki mikið þó nokkur tré séu felld.

Kreppa misréttis

Margt bendir til að önnur heimskreppa, hálfu verri en sú fyrri, sé jafnvel að líta dagsins ljós. Hlutabréfavísitölur falla, ríki geta ekki borgað skuldir og jafnvel aumingja Sámur frændi er lasinn. Margir spurja sig hvort þetta séu endalok markaðshagkerfissins. Eftir að kommúnisminn féll trúðu margir því að markaðshagkerfið væri hið eina rétta og það var notað sem einhver trúarbrögð við stjórnarríkin. En eins og kommúnisminn þá er líklega þetta markaðshagkerfi útópía, eiginlega af sömu ástæðu og kommúnisminn. Kerfið byggir á því sama í grunninn, það er að segja, mannlegri eigingirni. Bæði kerfin hafa  að leiðarljósi jöfnun lífskjara, en í rauninni geta þau hvorugt þrifist vegna þess að þau byggja bæði, á ólíkan hátt þó, á misrétti. Sú kreppa sem við í dag erum að upplifa á sér líklega upptök sín í því að með thatcherismanum í Bretlandi var innleidd þvílík misskipting að hún gat ekki til lengdar staðist og af því súpum við seiðið með óeirðunum í London. Svo nærri er gengið að hinum fátæku í baráttu við að halda jafnvægi í ríkisfjármununum að það gengur ekki legnur upp. Þetta hlítur að valda félagslegum óróa á einn eða annan hátt. Við þurfum varla að nefna Ísland í þessu sambanadi, landið er í raun gjaldþrota og líklega ekki hægt að bjarga því út úr vandamálum nema ef til vill með því að strika út allar skuldir þjóðarinnar annaðhvort með því að láta bankanna afskrifa þær beint eða með því að setja verðtryggingu á laun eða afnema alla verðtryggingu þannig að skuldirnar þurrkist út í óðaverðbólgu. Ef við gerum þetta ekki er sjálfsagt bara best að segja sig til sveitar í Noregi. Stór hluti þjóðarinnar er hvort sem er flúin þangað.

Heimskreppa og hungur

Rás 2 "grillar innan í mér" meðan börnin deyja úr hungri í Sómalíu og Kenýa og hlutabréfamarkaðirnir í heiminum skjálfa.  Bandaríkin næstum farin á hausinn og Evrópa að liðast í sundur, alveg að kikna undan skuldabagganum. Evran er að leysast upp meðan lambakjötið er ekki til í búðum, búið að gefa það feitum Ameríkönum og Evrópumönnum. Íslenskir skattgreiðendur eru örlátir.

Einhvern veginn er erfitt að finna samhengi í öllu þessu. Við vitum að Vesturlandabúar eru ofaldir en Afríkubúar ekki. Ekki aðeins vegna þurrka eða spilltrar óstjórnar að viðbættum Múslimum sem heldur vilja fólkið undir Sharialögum þótt dautt sé, þá virðist eitthvað ekki alveg ganga upp í markaðshagkerfinu okkar. Það er eins og það geti hreinlega ekki gengið nema einhverjir séu ofaldir og einhverjir líði skort. Og eitthvað hlýtur að vera að þegar sjálf Bandaríkin ramba á barmi gjaldþrots, ekki er þar um að kenna ofþróuðu félagslegu kerfi sem mikil tíska er að kenna öllu um. Skýringanna er líklega að leita í því að menn hafi misst stjórn á þessu kerfi, það sé farið að stjórna þjóðfélaginu líkt og kirkjan á miðöldum.

Markaðskapítalisminn mun sennilega alltaf valda reglulegum heimskreppum og hann mun sennilega líka alltaf valda hungursneyðum reglulega í þriðja heiminum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband