Enn af dularfulla Kínverjanum

Dularfulli Kínverjinn okkar hefur enn og aftur verið mikið í fréttum fjölmiðla þessa síðustu daga. Menn skiptast á skoðunum um fyrirætlanir hans hvort hann ætli að fylla Norðurland af litlum, gulum þrælum eða hvort hann ætli barasta að kaupa sér land sem enginn fær aðgang að nema hann eigi sand af peningum. Sjálfsagt vilja flestir íbúar Norðausturlands fá þessa innspýtingu í atvinnulíf svæðisins en eðlilega er nú nokkurt hik á honum af því að hann athugaði ekki að fá leyfi hjá Kommúnistaflokknum sínum til að gera þetta. Og þeir hjá kínverska sendiráðinu hafa verið búnir að heyra eitthvað af tuðinu hjá innanríkisráðherra og ályktað sem svo að það lýsti þjóðarvilja enda ekki til siðs í Kína að þjóðin hafi aðrar skoðanir en ráðamenn. Nú vissulega áttu allir að vita að þessi maður þyrfti leyfi Kommúnistaflokksins til að leggja í þessa fjárfestingu, enginn verður ríkur í Kína án leyfis Flokksins þó hins vegar sé nú kominn fram þar allfjölmenn yfirstétt og kommúnisminn í raun ekkert orðinn annað en ríkistrúarbrögð eins og þau gerast alltaf hvort sem þau heita islam eða Maoismi. Trúarbrögð og stjórnmál eru hættuleg blanda hvar sem er. Við verðum að taka dularfulla Kínverjanum af fullri varúð og gera honum ljóst að hyggist hann til dæmis koma hér með kínverskt vinnuafl verður það að njóta fulls launajafnréttis og fullra mannréttinda á við innfædda. Hann verður að skilja það að hér er enginn vilji til að koma á einhvers konar alþýðulýðveldi norðursins.

Rómantískt strit

Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru hugtök sem mikið eru í umræðunni um þessar mundir. Allt á að vera sjálfbært, lífrænt og umhverfisvænt og út í þennan kokteil er blandað hugtökum á borð við lýðræði, mannréttindi og feminisma. En líklega hefur það fólk sem aðhyllist þessa óljósu og dálítið útópísku hugmyndafræði ekki alveg gert sér grein fyrir út á hvað sjálfbærni og allt það gengur.

Ef við nú tökum til dæmis landbúnað þá myndi maður segja að sjálfbær landbúnaður væri mjög í ætt við það sem við köllum gamaldags, íslenskan landbúnað..... enginn tilbúinn áburður, engar vélar, ekkert rafmagn. Menn myndu nota húsdýraáburð á túnin, heyja með orfi og ljá, nota kertaljós og kynda upp með taði svo nokkuð sé nefnt. Þetta verkar jú óskaplega rómantískt en því miður er þetta ekki laust við líkamlegt erfiði..... ekki hvað síst hjá konunum sem í gamla dag máttu líka oft þola bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi og heyrðu auðvitað aldrei orðið feminismi.

Auðvitað getum við aldrei farið út í svona landbúnað þó við Íslendingar eigum miklar náttúruauðlindir geta þær aldrei orðið sjálfbærar. Við verðum að treysta á utan að komandi aðila með viðskipti til að geta hagnýtt þær. Hitt er svo annað mál að við þurfum auðvitað að fara með gáð varðandi nýtingu þessara auðlinda og verðum að gæta þess að það séum alltaf við sem eigum síðasta orðið..... að það geti engir útlendingar slökkt á virkjununum eða þurrausið vatnslindirnar okkar.   

Afmælisár

29. ágúst árið 2011 er fyrir margra hluta sakir merkilegur dagur. Þennan dag árið 31 eftir Krist segir sagan að höfuðið á Jóhannesi skírara hafi verið borið fram fyrir Herodes konung á silfurfati þó ekki fylgi sögunni hvað hann gerði við það síðar. Þennan dag fyrir 14 árum fékk sá er þetta ritar fyrra heilablóðfall sitt af tveimur og síðast en ekki síst þennan dag á hún Akureyri afmæli.

Eitthundrað og fimmtugasta afmælisár bæjarins er að hefjast. Þótt enn sé langt í stórafmælið eða rétt ár er aldrei of snemmt að fara að huga að því. Það er aldeilis kominn tími til að Akureyringar sletti úr klaufunum og láti vita af tilveru sinni. Það er ekki nógu gott að Kastljósið haldi upp á afmæli Akureyrar með því að spila syrpu af Reykjavíkurlögum undir viðtali um myndir af íbúum Reykjavíkur árið 1910.

150 ára afmælið mun bera upp á miðvikudag þar sem árið 2012 er hlaupár. Það er þess vegna ekkert mjög praktískt að halda Akureyrarvöku annan hvorn laugardaginn fyrir eða eftir þennan dag, lausnin er auðvitað sú að taka bara viku í þetta. Margt er hægt að gera sér til gamans..... tónleika, menningarviðburði (jafnvel á heimsmælikvarða), íþróttakeppnir og taka á móti kínverska ísbrjótnum. Vel mætti hugsa sér að Rás 2 efndi til samkeppni um Akureyrarlag, slík lög eru ekki mörg en hins vegar urmull af Reykjavíkurlögum og jafnvel Eyjalögum. Jafnvel mætti hugsa sér að halda tónleika Rolling Stones eða U2 á Akureyrarvelli, setja heimsmet í planki eða gera eitthvað annað sem ekki er hægt.

En fyrst af öllu..... Akureyringar þurfa að koma sér upp úr þeim doða og metnaðarleysi sem hefur einkennt bæjarlífið á undanförnum árum og sem náði hámarki með kosningu hóps lýðskrumara í bæjarstjórn í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Þungir Bítlar

Þær voru þungar margar útsetningarnar á gömlu góðu Bítlalögunum sem heyra mátti á Græna hattinum síðast liðið föstudagskvöld. Það hefði mátt halda að maður væri staddur á tónleikum þar sem U2 FootinMouth spiluðu Bítlalögin með sínum hætti..... þung, kröftug og ágeng tónlist. En þarna var líka mjög margt vel gert.  Einna hæst náði flutningurinn í túlkun Egils Ólafssonar á lagi Lennons Working Class Hero. Einnig flutningurinn á blúskennda laginu I Want You að ónefndri Abbey Road svítunni.....Whistling 

Eina feilsporið þetta kvöld var flutningurinn á lagi Lennons Strawberry Fields Forever aðallega vegna þess að það var sungið í kolrangri tóntegund.....Errm En í heildina má segja að þetta hafi verið ánægjuleg kvöldstund og svo fangaði hún hugann að maður drakk ekki nema einn bjór allt kvöldið.....W00t 


Kínverjarnir koma

Hugurinn hvarflar aftur til bernskuáranna..... ég er á leið austur á Hérað til afa og ömmu í gráu hermannarútunni hans Fúsa. Kolsvartir sandarnir teygja sig svo langt sem augað eygir. Allt í einu birtist brúin, skjannahvít í kolgrárri auðninni. Stutt í Grímsstaði.

Síðan eru liðin mörg ár og mikið vatn er til sjávar runnið. Og nú eru Kínverjarnir væntanlegir þarna á svæðið og ætla að byggja fimm stjörnu hótel með golfvelli og öllu tilheyrandi þarna mitt í auðninni. Íbúar Norðausturlands fagna flestir en allt í einu kemur babb í bátinn..... það þarf víst leyfi frá innanríkisráðuneytinu til að aðili utan Evrópska efnahagssvæðisins megi kaupa jarðnæði hér. Og Kínverjinn hafði ekki hugsun á því að útvega lepp innan svæðisins því innanríkisráðherra er síður en svo jákvæður. Nú er það svo sem engin nýlunda að Ögmundur Jónasson sé neikvæður, maður minnist þess eiginlega ekki að hann hafi nokkurn tímann verið jákvæður út í nokkurn hlut og hingað til hafa vinstri grænir ekki verið mjög áfjáðir í að efla atvinnulífið á Norðausturlandi. Þar ráða öllu þessir náttúrverndarsinnar sem lepja kaffi latte í 101. Og einn þeirra er einmitt Ævar Kjartansson frá Grímsstöðum, hinn brauðlausi útvarpsprestur sem á einhvern jarðarpart á Grímsstöðum sem hann neitar að selja.

Það má segja að auðvitað beri að fara með gát í sambandi við þetta mál en varla er hægt að tala um að Ögmundur sé hér eins konar Einar þveræringur. Litlar líkur verður að telja á því, ef við gætum að því að hafa stjórn á hlutunum að lítið alþýðulýðveldi rísi á Hólsfjöllum. En þetta getur orðið mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið á Norðausturlandi ef rétt er á málum haldið. Líka verður að passa upp á að milliliðir í Reykjavík geti hér ekki makað krókinn. Hér verður að koma til metnaður Norðlendinga og löngun þeirra til að stjórna eigin málum sjálfir.


Vernda og virkja

Þá er nú blessuð rammaáætlunin um nýtingu og verndun náttúruauðlinda komin fram. Ætla má að þetta sé nokkuð gott plagg því allir eru misjafnlega óánægðir með það hvort sem það eru verndunar- eða virkjanasinnar. Hvorugum finnst nógu langt gengið og báðir hafa nokkuð til síns máls. Það er ekki hægt að vernda allt sem vernda þyrfti og ekki er hægt að virkja allt sem virkja þyrfti. Við Íslendingar erum svo heppnir að búa við meiri græna orku en flestar aðrar þjóðir og hana verðum við að nýta, líka til að geta dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis til að mynda í samgöngum.

En engum dettur í hug að virkja allt sem hægt er að virkja. Það dettur til dæmis engum í hug í dag að fara að virkja Gullfoss eða Dettifoss, það eru náttúrperlur sem allir eru sammála um að þurfi að vernda. En annað er umdeilanlegt, spurningin er til dæmis hvort það sé þörf fyrir allar þessar virkjanir í Þjórsá og hvaða rök séu fyrir því að friða Gjástykki sem fáir komast til að skoða. Maður kvíðir svolítið fyrir því að þegar blessaðir þingmennirnir okkar fara að fjalla um þetta þá leysist umræðan upp í talgangslaust þvaður og tuð um smáatriði sem engu máli skipta ásamt meðfylgjandi hrossakaupum. 


Úr flokki í flokk

Menn brugðu sér í smávegis pólitískan harmonikkuleik nú um helgina. Guðmundur Steingrímsson lék fyrir dansi og brá sér svona rétt einu sinni flokk úr flokki eða öllu heldur úr flokki í einleik svona fyrsta kastið en boðar stofnun nýs flokks á næstunni. Þessi nýi flokkur á að vera svolítið frjálslyndur eins og gamla framsókn og halda hinu græna ívafi hans en bæta við Evrópustefnu samfylkingarinnar og einhverju af markaðskapítalisma sjálfstæðisflokksins. Vera má að einhver eftirspurn sé eftir svona flokki, menn hafa talað um eitthvert gat á miðju stjórnmálanna..... það vanti flokk fyrir miðjusækna Evrópusinna sem eru ekki alveg jafnaðarmenn. Auk þess kann þessi flokkur að geta náð í eitthvað óánægjufylgi af ýmsu tagi og fengið þannig hugsanlega nóg fylgi til að samfylkingin geti skipt þeim inná fyrir vinstri græna og þar með haldið Evrópudraumnum lifandi meðan allt er í biðstöðu í Evrópu.

Spurningin um þetta flokkaflakk Guðmundar og annarra er einnig um það hvort þetta sé siðlegt gagnvart kjósendum, hvort maður sé fulltrúi sjálfs síns eða flokksins í kosningum. Ef til vill eru hugmyndir um aukið persónukjör til þess fallnar að leysa þetta vandamál en persónukjör getur hins vegar einnig haft það í för með sér að kosningar fari að snúast um persónur og útlit jafnvel meira en um menn og málefni.  


Lömbin þagna

Þá er nú blessuðu sumrinu sem aldrei kom að ljúka. Ungviðið fer í skólana, berin eru tínd og lömbin þagna, það er að segja þau eru rekin af fjalli, send í sláturhús og hætta þar með jarmi sínu. Síðan er kjötið selt, sumt innanlands og annað ótollað til útlanda enda hátollavara hér á Íslandi þannig að enginn hefur efni á að kaupa þessa dýru lúxusvöru hvort sem hún er framleidd hér innanlands eða annars staðar.

Að vísu er til eitt fyrirbrigði sem hvergi er minnst á..... það hefur mér vitanlega hvergi verið tekið saman hversu mikið af svörtu kjöti fer á markað á hverju hausti. Líklega vegna þess að svo mikið er búið að skera niður hjá löggunni að hún hefur ekki efni á því að fylgjast með þessu né heldur heimabrugginu sem lekur í stríðum straumum niður í maga íslenskra unglinga meðan meðferðarbransinn ber sér á brjóst og þakkar hinu háa áfengisverði það hversu mikið áfengissalan hefur minnkað.

Menningin mun taka að blómstra á ný, leikhúsin að opna og hver kjaftur sem heldur lagi hefur upp raust sína. Brátt ríkir hinn íslenski vetur, bráðum byrjar þingið og mikið verður þá gaman.


Draumaland borgarstjórans

Mikið óskaplega eiga Reykvíkingar skemmtilegan borgarstjóra. Jón Gnarr virðist vilja gera allt skemmtilegt sem hann snertir. Það nýjasta eru skólarnir. Skólarnir eru svo óskaplega leiðinlegir að við það verður ekki unað og auðvitað verður að bylta skólakerfinu til að gera þá skemmtilegri. Og fyrirmyndin er fundin..... afnemum skólaskylduna svo að blessuð börnin þurfi ekki að mæta ef að skólarnir eru leiðinlegir og tökum upp bandaríska kerfið þar sem skólarnir eru svo frjálsir. Jú, afleiðingin..... hún verður náttúrulega sú að það verða til nokkrir dýrir, vel búnir og fagmannlegir einkaskólar og síðan allmargir lélegir, niðurníddir grunnskólar reknir af ríki og/eða sveitarfélögum þar sem börn undirstéttarinnar munu koma og fá ítroðslu að því lágmarki sem nauðsynlegt mun þykja. Eins og við vitum þá er árangurinn af bandaríska kerfinu sá að megnið af Bandaríkjamönnum eru illa upplýstir fjölmiðlaneytendur sem varla skeyta um nokkurn hlut fyrir utan bæ sinn, bæjarhluta eða fylki. Heimurinn er ekki til. Og við skulum ekki tala um unglingana sem alla jafna mæta vopnaðir í skólann.

Heimakennsla er svo annar hlutur sem hugnast Jóni Gnarr. Heimakennsla er mikið þjóðfélagsvandamál í Bandaríkjunum. Dæmi eru um börn sem kennt er heima af foreldrum sem eru tengdir öfgahreyfingum og sértrúarhópum þannig að heimakennslan verður í reynd heilaþvottur þar sem börnin kynnast engu nema hinni þröngu heimssýn foreldranna. Þau hafa til dæmis oft ekki heyrt minnst á hluti eins og þróunarkenninguna eða það að jörðin sé hnöttótt. Sjálfsagt eru mjög margir af kjósendum Teboðshreyfingarinnar sprottnir úr þessum jarðvegi.

Það getur vel verið að skólarnir okkar séu ekkert voðalega skemmtilegir, þeir búa þó við nokkurn veginn félagslegan jöfnuð og lágmarks fagmennsku. Bandaríska frjálsræðið tryggir slík gæði ekki.


Fjörbrot Gaddafis

Nafnið Trípoli hljómar nú mikið í fjölmiðlum..... þetta nafn sem maður heyrði fyrst sem nafn á bíói í Reykjavík dregið af nafni hinnar fjarlægu höfuðborgar Lýbíu. En í dag er þessi borg sem eitt sinn var svo fjarlæg eiginlega komin alveg inn að gafli hjá okkur. Maður fylgist með fjörbrotum gamla einræðisherrans Gaddafis nánast í beinni útsendingu. Gamli maðurinn er nú búinn að ríkja með harðri hendi í landi sínu í rúmlega 40 ár en hann komst upphaflega til valda með byltingu. Upphaflega virðist hann hafa haft einhvers konar hugmyndafræði að leiðarljósi... hann gaf út á fyrstu valdaárum sínum svokallaða Græna bókþar sem hann reyndi að blanda saman islam og einhvers konar sósíalisma en áttaði sig auðvitað ekki á þeirri staðreynd að islam og sósíalismi geta aldrei farið saman. Muhamed var aldrei neinn jafnaðarmaður heldur var hann kaupahéðinn og síðar herforingi og trú hans mjög af því lituð. Meðan finna má eitthvað sem líkist frumstæðri jafnaðarstefnu í kenningum Jesús Krists sem líklega hefur komist þangað fyrir áhrif frá grískum mannúðarheimspekingum.

Það er fróðlegt að fylgjast með fréttum af fjörbrotum Gaddafis. Að mörgu leyti minnir þetta á frásagnir af falli annarra einræðisherra á borð við Hitler, Saddam Hussein eða jafnal Sadat. Gaddafi reyndi þarna að leika eftir það sem Rússakeisari og síðar Stalín gerðu þegar þeir ginntu óvinaheri inn í mitt Rússland með skipulögðu undanhaldi..... nema hvað gildran hans Gaddafis virðist hafa mistekist líklega vegna þess að hann hefur ofmetið fylgi sitt í borginni. Hann hefur ekki þá skynsemi í brjósti að gefast upp til að spara mannslíf. Persóna hans er mikilvægari en allt annað. Ef hann á að glatast skal þjóðin glatast með honum.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband