10.10.2011 | 22:14
Safnað fyrir blokk
Fyrir tuttugu og tveimur árum efndu mænuskaðaðir til landssöfnunar í því skyni að byggja blokk fyrir sig í Reykjavík. Mun þetta hafa verið í fyrsta skipti sem efnt var til slíkrar landssöfnunar í sjónvarpi. Síðast liðið föstudagskvöld var svo leikurinn endurtekinn..... nú til að safna peningum upp í viðhald á þessari hinni sömu blokk sem auðvitað er farin að láta á sjá eftir tuttugu og tvö ár..... og það svo að menn töluðu um að viðhaldið gæti farið hátt upp í að kosta 60 milljónir.
Nú gefur auga leið að þeir sem hafa orðið fyrir mænuskaða þurfa á sérhönnuðu húsnæði að halda en spurningin er hvort það sé ekki svolítið gamaldags hugsunarháttur að safna öllum einstaklingum með sömu fötlun í eina blokk á sama landssvæðinu. Og það er hreint ekki víst að Reykjavík sé endilega besti staðurinn fyrir fatlað fólk. Þjónusta við fatlaða er nefnilega ekkert endilega þróaðri í Reykjavík en annars staðar enda samfélagið það fjölmennt að einstaklingurinn hverfur í fjöldann og þjónustan verður ef til vill dálítið vélræn. Maður spyr sig hvort ekki væri rétt af samtökunum að selja blokkina og kaupa sérhannaðar íbúðir, eða láta byggja þær vítt og breitt á stöðum þar sem eru góðir endurhæfingarspítalar og fullkomin þjónusta við fatlaða nú eftir að málefni þeirra flytjast til sveitarfélaga um áramót. Að vísu verður maður að taka þennan flutning með fyrirvara, mörg lítil sveitarfélög á landsbyggðinni geta ekki komið upp viðunandi þjónustu. Annars staðar er hún til mikillar fyrirmyndar eins og á Akureyri þar sem sveitarfélagið hefur annast þessa þjónustu um nokkurra ára bil. Sennilega hefði það fyrirkomulag verið betra að þessi þjónusta væri í höndum svæðisbundinna stjórna og veitt út frá þjónustubyggðakjörnum. Allavega þá hlýtur stefnan í málefnum fatlaðra í framtíðinni að vera sú að þeir fái að búa í heimabyggð sinni eða þá í þeim þéttbýliskjarna sem er á þeirra þjónustusvæði ef þeir svo kjósa, í stað þess að þeim sé öllum smalað í kaldranalegar blokkir í Reykjavík..... keyptar og viðhaldið með væmnum landssöfnunarþáttum í sjónvarpi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2011 | 20:59
Heilög sifjaspell
Ríkisútvarpið hefur verið undirlagt af heilögum sifjaspellum núna síðustu dagana. Tilefnið er bók sú sem fyrrum starfsmaður þess Elín Hirst hefur skráð um meint kynferðisbrot Ólafs biskups Skúlasonar gegn dóttur sinni. Nú eru það engar nýjar fréttir að biskupinn hafi stundað þessa iðju en það sem ef til vill kemur fram í bók þessari er að brot hans hafi verið enn grófari og óviðfelldnari en menn hafi hingað til haldið og einnig virðast fleiri hafa brugðist en áður var talið. Kirkjan auðvitað með þöggun sinni til að forðast hneyksli en einnig margir aðrir svo sem áfengisráðgjafarnir á Vogi sem ekki virðast hafa gert neina tilraun til að athuga af hverju áfengismisnotkun Guðrúnar stafaði. Þá er hlutur Kalla okkar biskups nokkuð óljós, hann virðist að minnsta kosti hafa átt auðvelt með að gleyma áríðandi bréfum, kannski af ásettu ráði. Einnig honum hefur verið umhugað um að forðast hneyksli.
Í sambandi við umfjöllum Ríkisútvarpsins vekur það nokkra athygli að það skuli einmitt hafa verið Elín Hirst sem skráði þessa sögu. Einnig hitt að viðtalið við Guðrúnu var sýnt á besta sýningartíma á sunnudagskvöldi, á nákvæmlega sama tíma og samkeppnisaðilinn var að frumsýna fyrsta þátt í nýrri seríu frá aðstandendum hinna geysivinsælu Vaktaþátta. Sé það rétt að samkeppnissjónarmið hafi haft eitthvað með þessa tímasetningu að gera er hér um stór alvarlegan hlut að ræða..... misnotkun á skelfilegum, persónulegum harmleik í hagnaðarskyni fyrir fjölmiðla og fyrrverandi starfsmenn hans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2011 | 21:01
Réttur Palestínu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2011 | 20:40
Skuldasúpan
Ein ágæt súpa er á matseðlinum flestra ríkja um þessar mundir, svo kölluð skuldasúpa, sem bragðast misvel en er þó yfirleitt frekar ólystug þótt sum ríki hafi borðað yfir sig af henni eins og til að mynda Grikkland. Yfirleitt virðist hún allsstaðar hafa valdið eins konar matareitrun á mismunandi háu stigi og yfirleitt er alltaf reynt sama meðalið. Ráðist er á ríkisfjármálin, þar skert og skorið niður en peningum skattborgara ausið í björgunaraðgerðir löngu gjaldþrota banka, það er eins og það sé lífsnauðsynleg að halda þessum bönkum á floti hvað sem það kostar, jafnvel virðist það í lagi þó að þegnarnir svelti. Og auðvitað er fólkinu ekki sama þótt hingað til hafi mótmælin verið fremur dauf og stefnulaus. Hér á Íslandi hafa nokkrar hræður safnast saman á Austurvelli og barið bumbur og kastað eggjum án þess að hafa nokkra sameiginlega hugmyndafræði aðra en eitthvað orðagjálfur um skuldir heimilanna, en þessar skuldir eru sem kunnugt er að miklu leyti til orðnar vegna afgangs að ómældu ódýru lánsfé sem menn höfðu aðgang að til að kaupa fínni jeppa og stærri flatskjá en fúll á móti. Lánsfé sem í rauninni var oft á tíðum ekki til eða veitt út á veð í væntingum sbr. kvótakerfið. Auðvitað gat þessi hagfræði ekki gengið, spilaborgin hrundi en svo virðist sem menn séu að reyna að reisa hana aftur. Víst er að innan ekki margra ára mun nýr diskur fleytifullur af skuldasúpu verða borin fram fyrir þjóðinni og glæsijepparnir byrjaðir á ný að aka ónýtuvegina beinustu leið til glötunar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 20:38
Þjóðaróvinur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2011 | 22:26
Fjölmiðlar að hausti
Eitt af því sem er óbrigðult merki haustsins er það að þá klæðast fjölmiðlar vetrarskrúða. Dagskráin verður fjölbreyttari og á að minnsta kosti að vera áhugaverðari en um sumarið enda fólk nú komið inn og farið að fylgjast meira með fjölmiðlum heldur en á hinu stutta, íslenska sumri. En ekki er að sjá að nýbreytni verði mikil hjá fjölmiðlunum þetta haustið. Yfirleitt virðist þetta vera sama gamla tuggan sem borin er fram handa þjóðinni. Kexið sem verksmiðjurnar framleiða er lítið betra en undanfarin ár. Menn virðast ekkert lagnari við að baka kex en að smíða hringekjur. Þetta virðist alltaf sama draslið.
Og Spaugstofan er harðlæst inni í skáp. Er nú ekki kominn tími til að hún verði opnuð og hleypt til þjóðarinnar? Spaugstofan er þjóðargersemi og það er algjörlega forkastanlegt að menn skuli þurfa að greiða himinháar upphæðir til að njóta hennar. Fjölmiðlamenn eru haldnir þeim misskilningi að þeir séu að reka fjölmiðla í sjálfs síns þágu þegar staðreyndin er sú að fjölmiðlar eiga að starfa í þágu fólksins, þjóðarinnar sem kostar þá. Og það hljómar til dæmis ekki trúverðugt þegar þjónusta við landsbyggðina er skorin niður og á sama tíma blásið til danskeppni með milljón í verðlaun.
En samkeppnin er grimm og líkast til munu einhverjir glápa á þetta, aðrir ættu að stofna hóp á Facebook um það að Stöð2 manni sig í það að opna Spaugstofuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2011 | 21:00
Guðmundur og Gnarr
Tímamót eru að eiga sér stað í stjórnmálum á Íslandi. Nýtt og nokkuð óvænt bandalag er að myndast inni á hinni pólitísku miðju landsins sem er að fá til liðs við sig nokkra aðila sem meðal annars skrifa handrit að nýjustu sjónvarpsseríunni... Þingvaktinni. Það vakti nokkra athygli þegar Guðmundur Steingrímsson yfirgaf Framsóknarflokkinn sem hann var tiltölulega nýgenginn í og ákvað að efna til bandalags við frjálslynda miðjumenn, Evrópusinna og óánægða framsóknar- og sjálfstæðismenn. Þess vegna virkar þetta bandalag við Þingvaktarmanninn dálítið einkennileg viðbrögð, það er eins og manni finnist svo sem þarna hafi hann slegið falskan tón á nikkuna. Þetta er nefnilega ekkert voðalega klókt. Þó svo að svona óánægjubandalag kunni að fá slatta af þingmönnum og geti jafnvel gegnt lykilhlutverki við stjórnarmyndun þá kennir sagan manni að svona framboð lifa ekki nema í eitt, mesta lagi tvö kjörtímabil. Hvort sem þau heita Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn, Þjóðvaki eða Borgaraflokkurinn. Öll svona framboð hafa geispað golunni eftir eitt kjörtímabil eða tvö þar sem þau hafa ekki haft neina afgerandi stefnu eða lím til að halda pólitísku lífi.
Ef Guðmundur hefði aftur á móti haldið sig við upphaflega áætlun hefði hann hugsanlega getað komið á fót afli sem í dag er ekki til staðar... frjálslyndum miðjuflokki, Evrópusinnuðum flokki og alþjóðlegum sem næði til sín hluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar og jafnvel einhverjum Vinstri grænum sem líður illa í þeim þröngsýna þjóðernishyggjuflokki sem á sér þann draum að þjóðin búi í torfkofum, borðandi hundasúrur og glápi á norðurljósin í öruggu skjóli frá heimsins vígaslóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2011 | 20:46
13. Málið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2011 | 22:08
Stígum í vænginn
Félagi Lenín var einkar framsýnn maður. Í byrjun þriðja áratugarins var hann að funda með einhverjum í Moskvu og benti þar á Ísland á landakorti og lét þau orð falla að þetta land yrði mikilvægt hernaðarlega innan skamms tíma vegna legu þess. Um þetta fjallar Þór Whitehead í nýrri bók sinni Sovét-Ísland sem er einkar athyglisverð þó svo að sjálfsagt megi deila um ýmislegt í sagnfræði bókarinnar enda hún lituð af fremur öfgafullum skoðunum höfundar. Eitthvað er þó örugglega af sagnfræði þarna innan um og líklega er rétt farið með þennan áhuga Leníns á Íslandi.
Hann var fyrsti maðurinn sem fékk þennan áhuga en ekki sá síðasti eins og síðar kom í ljós þegar Bretar töldu það nauðsynlegt að hernema Ísland meðfram til að ráða yfir Norðurhöfum vegna siglinga milli austurs og vesturs. Og þetta mikilvægi Íslands var enn til staðar í Kalda stríðinu og allt í einu vorum við farin að hafa vit á því að spila á þetta. Líkur benda til þess að Bandaríkin hafi með leynd ýtt okkur út í að stinga Dani með rýtingi í bakið árið 1944 og eftir stríðið drógu Bandaríkjamenn okkur inn í NATO og byggðu hér upp herstöð. Roðinn í austri skelfdi.
En landhelgisdeilur okkar við Breta gerðu það að verkum að við hófum nána samvinnu við Rússa og mikil viðskipti. Við seldum þeim akureyskar ullarvörur fyrir olíu, reyndar einnig bíla, vinnuvélar og fleira. Og Bandaríkin, til að hafa okkur góð, jusu í okkur dollurum sem að vísu fóru ekki svo mikið í atvinnuuppbyggingu heldur runnu í vasa nokkurra fjölskyldna í Reykjavík og Rússagróðinn fór í Sambandsveldið í Reykjavík. Þannig að landið var á mörgum sviðum mjög vanþróað þegar það opnaðist endanlega fyrir alþjóðaviðskiptum árið 1994 en þá hurfu helmingaskiptaveldin eins og dögg fyrir sólu. Ísland var ekki lengur eins hernaðarlega mikilvægt og gat því ekki lengur leikið þann leik að stíga í vænginn.
Nú er aftur á móti að renna upp sá tími að við getum farið að leika þessa jafnvægislist aftur. Kína er mætt á svæðið og er þegar að reyna að seilast til áhrifa á Norðausturlandi. Auðvitað eigum við að stíga í vænginn við þá en við eigum ekkert að vera að leyna því í Brussel og gerum það sennilega ekki því allt í einu er Evrópusambandið orðið undarlega samningalipurt. Það er sennilega best að við nýtum okkur þetta, stígum í vænginn við báða og reynum að hagnast á því. Því miður er það staðreynd að íslenska lýðveldið byggir að miklu leyti á fjöllyndi, því skyldi því ekki vera haldið áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2011 | 22:31
Spítalabruðl
Það stendur til að byggja nýjan Landsspítala. Áætlað er að framkvæmdin kosti 40 milljarða, það er að segja bara fyrsti áfanginn. Heildarkostnaður er áætlaður um 100 milljarðar og eins og öllum er kunnugt þá mun sú áætlun ekki standast. Það hefur aldrei gerst að kostnaðaráætlun hafi staðist við byggingar á Íslandi. Við þetta má bæta einhverjum kostnaði til dæmis við umferðarmannvirki því þótt sumir haldi því fram að þau mál muni leysast með auknum almenningssamgöngum þá vitum við það að slíkt gerist ekki..... erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja. Það vekur athygli að á sama tíma og þetta er auglýst þá auglýsir Endurmenntun Háskóla Íslands námskeið í faglegri norsku fyrir heilbrigðisstéttir.
Einnig vakti athygli um daginn frétt um að lækningatæki Landsspítalans væru flest orðin gömul og ónýt og jafnvel sprautunálarnar ryðgaðar. Nú vaknar sú spurning hvers vegna á að reisa fínan lúxusspítala yfir ónýt lækningatæki og ryðgaðar sprautunálar eða láglauna heilbrigðisstarfsfólk sem ekki fær vinnu í Noregi. Sighvatur Björgvinsson kom með nokkuð góða skýringu á þessu í viðtali á dögunum. Þar útskýrði hann að ef til vill væri farið út í þetta spítalabruðl fyrir þrýsting frá verktökum sem ekki hafa haft mikið umleikis að undanförnu, hér má einnig bæta við hönnuðum og arkitektum.
Nú má benda hér á að sitthvað má gera í heilbrigðismálum fyrir 4o milljarða. Hækka má verulega laun heilbrigðisstarfsfólks svo það hlaupi ekki allt til Noregs, kaupa má nothæf lækningatæki á sjúkrahús landsins og efla verulega sjúkrahúsin á landsbyggðinni, ekki síst hér á Norðausturlandi í ljósi þeirrar uppbyggingar sem hér kann að verða vegna olíuleitar og lúxusferðamennsku á Hólsfjöllum. Það má segja að bráðasjúkrahús fyrir þá fínu ferðalanga sem þar gista, staðsett í Reykjavík, sé helst til langt í burtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)