Hið vannýtta Ísland.

Íslenskur hagfæðiprófessor í New York var í fjölmiðlaviðtali um daginn og ræddi m.a um það hversu lífskjör á Íslandi væru í rauninni bág, miðað við það að sennilega væri Ísland ríkara land af auðlyndum en jafnvel Noregur. 

Benti hann á ýmsa þætti máli sínu til stuðnings, ekki síst það hversu fáir nytu afrakstursins af auðlegð landsins, t.d fiskimiðum, hversu mikið af efnahag landsins væri í höndum fákeppnisaðila og einokunnarfyrirtækja og ýmislegt fleira taldi hann til. 

Eitt var það þó sem hann kom því miður ekki inná, en það er sú staðreynd hversu byggðamynstur á Íslandi er óhagkvæmt og landið í raun vannýtt. 

Í landinu ber risastórt, meira og minna ósjálfbært borgarsamfélag ægishjálm yfir alla byggð í landinu og landið svo stórt og víðlent sem það er, er gróflega vannýtt. 

Allar auðlyndir þess fara í raun í það að halda við þessu borgarsamfélagi, en eru ekki í höndum þjóðarinnar. 

Fjarðarbyggð kvað afla 30 % af gjaldeyristekjum þjóðarinnar en varla fær hún aftur nema sossem 5% þeirra og í stað þess að byggja upp iðnað og nýta orkuna sem víðast og dreyfa ágóðanum sem víðast, er fjármunum sóað í hverskyns dellu. 

Við gætum t.d kannað betur hvort ekki megi flytja orku um sæstreng til Bretlands.  Það er dæmi um vannýtingu landsins, að ekki skuli ráðast í þær virkjanir og framkvæmdir sem nauðsynlegar eru á sama tíma og sérfræðingar segja að hætta skuli notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum við næstu aldamót.  Steingrímur okkar frá Gunnarsstöðum ætti frekar að hugleiða þetta í staðin fyrir það að berjast eins og naut í flagi gegn því að leggja veg og raflínur um Sprengisand. 


Hlaðborð af skít.

Þjóðinni er boðið í fína veislu.

  Við inngang glæstra salarkynna standa tvær bísperrtar löggur með nýjar gljáfægðar hríðskotabyssur, gjöf frá ástsælum norskum frændum. 

Fagurlega dúkuð borðin svigna undan kræsingum. 

Það er hlaðborð af skít í ýmsum myndum.

  Matarskattur, kvótabrask og misskipting í forrétt. 

Ónýtir spítalar, falskir tónlistakennarar og skuldaleiðréttingar, flestar óþarfar, í aðalrétt og eftirréttirnir eru klúður af ýmsu tagi, hroki og niðurlægingar og drykkurinn hann er sko ekkert eðalvín, heldur er hann heimabrugg af lélegustu tegund, bruggaðar af skattalækkunum handa auðmönnum, lækkuðum veiðigjöldum og allskyns niðurskurði. 

Heimabrugg sem er ekki meira af gæðum en heimabruggið hans ömmubróður míns heitins.  Það hafði sín áhrif en maður gat líka orðið fárveikur eftir að hafa drukkið það. 

Jú það er reynt að bragðbæta þetta með því að sýna fram á lága verðbólgu, auknar fjárfestingar og eitthvað bætt lífskjör fyrir suma, en þetta er álíka og að segja við krabbameinssjúkling að mein hans sé læknað þegar hann er hættur að finna til, vegna þess að hann er kominn á morfín og á sennilega ekki langt eftir. 


Hross og beinagrindur.

Hið þversagnarkennda stríð milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis tekur á sig ýmsar myndir þessa dagana og svo þversagnarkennt sem það er þá þykjast báðir aðilar hvorugur án hvors annars verið, en eiga samt í heiftugu stríði sem tekur á sig ýmsar myndir. 

Fiskistofumálið stendur auðvitað enn og menn þar ekki búnir að segja sitt síðasta orð.

Þá klofnar landssamband hestamanna þegar stjórn þess segir öll af sér, eftir að ákveðið er að standa við gerða samninga og halda landsmótið árið 2016 í Skagafirði.  Snobbliðið fyrir sunnan vill auðvitað fá mótið á höfuðborgarsvæðið, þó menn viti að þar rigni rétt eins og á Rangárvöllum og reyndar áratugahefð fyrir því að landsmót hestamanna séu blaut, jafn innst sem yrst. 

Nýjasta dæmið er svo steypireyðurinn. 

Forsætisráðherrann okkar missir það út úr sér á kjördæmisþingi framsóknar á Hallormsstað, að ætlunin sé að koma beinagrindinni af steypireiðinni, sem rak á Skaga á sínum tíma, fyrir á Hvalasafninu á Húsavík.  Síðar dró hann nú í land með þetta og segir að vissulega fái beinagrindin að vera á Húsavík í einhver ár, þangað til búið verði að byggja náttúrugripasafn í Reykjavík, sem þjóðin hefur auðvitað engin efni á að byggja. 

Húsvíkingar fá þó í sárabætur að halda eftirlíkingu af beinagrindinni, líklega úr plasti.  Nú ætti að vera hægur vandi að búa til svona eftirlíkingu handa Reykvíkingum nú þegar, þá skiptir engu máli hvort um plast eða bein er að ræða.  Reykjavík þarf ekki á fleiri ferðamönnum að halda, en Sigmundur þarf sjálfsagt að friða einhverja flokksbrodda í borginni.


Í lögguleik.

Fjölmiðlar landsins eru komnir í hörku lögguleik. 

 DV birti forsíðufrétt um það að löggan væri allt í einu búin að vígbúast, án þess að spyrja kóng eða prest og meira að segja væri hún komin með byssur sem maður les um í glæpasögum. 

Ja það er sko að verða fjör að búa á Íslandi. 

Auðvitað spyrja menn sig hvort að fjárveiting sú sem samþykkt var í fyrra hafi farið í þessi byssukaup, en aðstoðarmaður forsætisráðherra segir hríðskotabyssurnar 200  gjöf frá norðmönnum, sem endugjöld fyrir góða samvinnu eða eitthvað svoleiðis.  Líklega hafa þeir ekkert þarfara að gera við olíukrónurnar sínar en að verja þeim í að kaupa byssur handa löggunni hjá frændþjóð sinni.  Hver veit nema það sparist eitthvað fé þegar Gunnar Smári er búinn að gera Ísland að fylki í Noregi. 

En sú spurning vaknar, hvern fjandann lögreglan á Íslandi hefur að gera með hálfsjálfvirkar skammbyssur og hríðskotariffla ef hún þarf aðeins að fást við einhverja geðsjúklinga eða fíkla sem brjálast hafa og maður spyr sig af hverju meiri þörf er fyrir vopnaburð á vestfjörðum en annarsstaðar.  Nú hélt maður að glæponarnir létu aðallega til sín taka á höfuðborgarsvæðinu eins og allir aðrir, enda enginn markaður fyrir glæpi á guðsvolaðri landsbyggðinni.


Framsókn á Akureyri.

Enn er mikið rætt um tilvonandi flutning Fiskistofu til Akureyrar. 

Atvinnuvegaráðherra stendur fast á sínu og allir reykvískir vælukjóar með BHM og HÍ í broddi fylkingar, skæla framan í þjóðina og fréttamennirnir taka undir. 

Það má vissulega deila um aðferðarfræðina við þennan flutning, sem þó er alls ekki ný hugmynd eins og fram kom í ræðu Brynhildar Pétursdóttur á þingi og verður að telja málflutning hennar mjög skynsamlegan, þar sem hún leggur til að þetta verði gert á uþb fimm árum. 

En Framsókn hefur svo sannarlega ekki alltaf sýnt Akureyri þessa umhyggju, sú var tíðin að Framsókn þýddi sama og Sambandið, sem hafði nánast einokun á allri atvinnustarfsemi og viðskiptum á Akureyri. 

Fólk lifði í fátækt, þó vissulega hafi atvinnuöryggi verið meira en víða annarsstaðar.  Arðurinn var í milljarðavís fluttur suður til að halda þar uppi ákveðnum hluta yfirstéttarinnar og einnig skulum við minnast þess að Halldór nokkur Ásgrímsson barðist hatrammlega gegn því að Byggðarstofnum yrði flutt til Akureyrar á sínum tíma. Nú hefur henni verið holað niður af einhverri ástæðu í bólinu hjá Framsókn á Sauðárkróki. 

Segja má að í dag súpi landsbyggðin seyðið af þessari gamaldags byggðarstefnu Framsóknar, sem einkum miðaði að því að halda hinni svokölluðu landsbyggð á því stigi, að hún væri aflögufær svo Reykjavíkurvaldið hefði sem mestan hag af.


Þjóðlegt íhald.

Vilhjálmur Bjarnason heitir þingmaður einn. 

Í gær lét hann í ljós miklar áhyggjur af því sem þjóðlegur íhaldsmaður, að búið væri að færa íslenska lagið fyrir fréttir fram í dagskrá rásar 1 og guðlasta þar að auki með því að flytja þar leiknar auglýsingar.  Auðvitað má þarna ekki flytja auglýsingar, heldur tilkynningar sem erfitt er þó að gera sér grein fyrir hvort eru auglýsingar eða ekki. 

Í dag bætti svo hið þjóðlega íhald um betur þegar hann kvartaði yfir því að ef skipt yrði um gjaldmiðil á Íslandi myndi hann ekki lengur getað greitt fyrir kaffið sitt og vínarbrauð með gömlu góðu krónunni.  

Vitaskuld þá áttar maðurinn sig ekki á því að blessuð krónan þjónar því hlutverki fyrst og fremst, eins og Hannes Hólmsteinn hefur hreinskilningslega viðurkennt,  að lækka laun án blóðsúthellinga.  Að uppfylla að fullu lögin sem Skúli Thoroddsen beytti sér fyrir árið 1901 um að laun skyldu greitt í gjaldgengri mynt er sjálfsögðu hin mesta árás á íslenskt þjóðerni og íslenska menningu. 

Þjóðin á að fá laun sín í platkrónum sem borga má með kaffið sitt og vínarbrauð meðan hlustað er á síðasta lag fyrir fréttir í Útvarpi Reykjavík.


Bárðarbunga í Reykjavík.

Það rignir eldi og brennisteini uppi á öræfum. 

Gos sem Ómar Ragnarsson kallar listaverk.  Líklega hefur Guð verið í einhverju stuði þarna. 

 Þetta gos kemur eftir einhverra vikna skjálftavirkni í Bárðarbungu og þar um kring.  Þetta er auðvitað mikill viðburður, samt er athyglisvert að horfa á hlut fjölmiðla í þessu.  Manni virtist Bárðarbunga, einhverra hluta vegna, eiginlega vera flutt til Reykjavíkur.  Beinar sjónvarpsútsendingar úr einhverri svokallaðri Samhæfingarstöð voru áberandi og lengi vel vissu menn ekki hvort gos hefði orðið þarna eða ekki. 

En einhverjir þjóðverjar fengu fréttir um gos og öskufall og eitt þarlent flugfélag aflýsti flugi til Íslands þannig að senda þurfti einhvern íslenskan unmennahóp frá Berlín til Munchen í veg fyrir íslenska flugvél, enda vissu íslensku flugmennirnir auðvitað að ekkert gos væri hafið. 

En gosið hófst og menn önduðu eiginlega léttar, vegum hafði þá ekki verið lokað til einskis og almannavarnir kvaddar á vaktina í Reykjavík í plati. 

Verst að þetta gos er þannig staðsett að menn eiga ekki auðvelt að komast í námunda við það, en vonandi heldur það áfram einhverja mánuði svo vélsleðamenn geti farið að leika sér að fara sér að voða þarna, enda ómögulegt að loka öræfunum fyrir vélsleðum, nema hægt sé að flytja Bárðarbungu svo til Reykjavíkur að ekkert þurfi að fara til að sjá.


Reykjavíkurmiðað.

"Upplifðu gömlu höfnina í Reykjavík". 

Þetta er ekki tilvitnun í einhvern túristabækling frá höfuðborgarstofu, heldur er þetta kynning á einum af þeim mörgu leikjum sem öðruhverju eru að dúkka upp á útvarpi allra landsmanna Rás 2, sem mér finnst að vísu stundum ansi Reykjavíkurmiðuð. 

 Mikið var talað um að ýmislegt myndi breytast hjá ríkisútvarpinu í haust og maður vonaði að ný og fersk yfirstjórn myndi einhverju breyta.

En það er eins og þessi nýja yfirstjórn hafi ekki almennilega áttað sig á því hvort setja ætti gamla vínið á nýja belgi eða hvort setja ætti nýja vínið á gamla belgi.  Sumt bendir til þess að gömlu belgirnir séu þarna ennþá stagbættir, t.d hefur ekki ennþá verið hreyft við þessu hvimleiða "Útvarp Reykjavík" ávarpi. 

Eitthvað var talað um að efla landsbyggðina og ekki hvað síst hlut kvenna á landsbyggðinni þarna, e.t.v eru þessar æfingabúðir fyrir stelpur í Gettu betur, sem hafnar eru í Efstaleitinu, gott ef ekki á kostnar RÚV,  hluti af þessari vitleitni um að auka hlut kvenna af landsbyggðinni, sjálfsagt þurfa þær a.m.k að taka þátt í aukakostnaði. 

 Eiginlega hélt maður að nýr útvarpsstjóri myndir gera betur, en e.t.v á hann erfitt eftir að menn tóku upp á því að fara að stjórnmálavæða ríkisútvarpið á ný, með þeim afleiðingum m.a að einn vinsælasti og virtasti rithöfundur landsisn þurfti að víkja úr stjórn þess fyrir einhverjum hundleiðinlegum framsóknarlúða sem enginn þekkir, en hafði þó einhverntíman gagnrýnt fréttaflutning þarna.


Hreppaflutningar.

Það er mikið talað um hreppaflutninga þessa dagana. 

Fyrir nokkrum vikum ákvað kvótakóngur í Grindavík að flytja til starfsemi á þrem stöðum til Grindavíkur svo þeir væru nær alþjóðaflugvellinum, án þess að spyrja kóng eða prest. 

Jú það var eitthvað talað um hreppaflutninga, en fólkinu samt boðið að koma og skoða dýrðina í Grindavík.  Og nú er talað um öfuga hreppaflutninga, það á að flytja Fisikistofu til Akureyrar. 

Þetta er tilkynnt með litlum fyrirvara og jafnvel sjálfur bæjarstjórinn á Akureyri vissi ekki af þessu fyrr en daginn áður.  En nú er umfjöllunin önnur, það þarf að veita fólkinu áfallahjálp líkt og eftir náttúrhamfarir eða stórslys.  Hamfarirnar reyndar þær að flytja að flytja á stofnunina til einhvers fegursta bæjar á Íslandi og veðursælasta, þó vissulega sé Hafnarfjörður hinn ágætasti staður. 

 Vissulega má deila um aðferðafræðina sem þarna var viðhöfð, hún lyktar að sjálfsögðu mjög af þessari hörku, ósveigjanleika og valdníðslu sem svo mjög einkennir því miður störf núverandi ríkisstjórnar. 

Hér hefði mátt fara mun gætilegar í sakirnar og taka allt að fimm árum eða meira í þetta og nota þannig að verulegu leyti starfsmannaveltu þannig að ekki þyrfti að rífa upp heilu fjölskyldurnar með rótum. 

Síðast hefði svo mátt flytja yfirstjórnina.  Það breytir því þó ekki að þessi ráðstöfun er sennilega mjög skynsamleg þegar til lengdar lætur og í anda þeirrar stefnu sem mest ber á í byggðarmálum í Evrópu, að efla svokallaðar míkróborgir, þ.e.a.s borgir sem eru frekar litlar, hafa flesta kosti raunverulegra borga, en eru það smáar að þær losna við galla stórborga. 

En þá þarf að fylgja þessari stefnu áfram og ekki aðeins að henda ýmsum stofnunum hingað og þangað út um hvippinn og hvappinn.


Tuðruspark í Brasilíu

Þeir eru að sparka tuðrum í Brasilíu þessa dagana. Rándýrum, löggiltum tuðrum sem framleiddar eru af barnavinnuafli í Pakistan. Og heimsbyggðin situr stjörf við skjáina og glápir á.

Menn hlæja og gráta á víxl, sumir fyllast þjóðarstolti og aðrir tala um þjóðarharmleik, eftir því hvernig strákunum gengur að pota tuðrunni í netið. En það er ekki svo að allir séu jafnt settir þegar njóta skal skemmtunarinnar, það kostar nefnilega peninga að sýna frá dýrðinni og ýmsir aðilar maka krókinn.

Við höfum kynnst forsmekknum af þessu núna á Íslandi. Því er nefnilega þannig varið að hluti leikjanna er harðlæstur fyrir öðrum en þeim sem greitt geta háar fúlgur í áskriftarverð. Aumingja staurblanka RUV-ið okkar hafði ekki efni á að sýna alla leikina og varð að selja réttinn til keppinautanna sem auðvitað læstu fyrir dýrðina. Það stoðar ekkert þó að Illugi hafi hleypt RUV inn á þennan harða keppnismarkað auglýsingabransans, hann er búinn að svipta fyrirtækið meiri tekjustofnum en það fær fyrir auglýsingarnar og ekki hefur hefur hann nokkra löngun í sér til að setja reglugerð um það hvaða efni beri að sýna í opinni dagskrá eins og víðast hvar er búið að gera. Enda heggur sá er hlífa skyldi. Sjálft KSÍ mun vera andvígt því að slíkar skyldur verði settar á fjölmiðla.

Meðan Spánverjar krýna nýjan kóng situr þjóðin í sárum eftir mikla niðurlægingu. Þannig er heimur fótboltans, leikur eða trúarbrögð. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband