Hið mikla vindhögg.

Þau gerast stór vindhöggin í íslenskum stjórnmálum þessa dagana.

Utanríkisráðherra leggst í bréfaskriftir án þess að spyrja kóng eða prest, með þeim afleiðingum að viðtakendur skilja hvorki haus né sporð.  Að slíta viðræðum merkir að halda þeim áfram og halda áfram viðræðum merkir eiginlega að þeim sé slitið.  Ekki nema von þó að Evrópusambandið bendi mönnum vinsamlegast á að þeir skuli annast sín innaríkismál sjálfir án utanaðkomandi aðstoðar. 

Maður veit ekki hvort maður eigi að hlægja eða gráta.  Hátt var reitt til höggs, nú skyldi svo aldeilis þagga niður í stjórnar andstöðunni, að ekki sé talað um þessa bölvuðu þjóð eða þetta þing sem alltaf er að þvælast fyrir.  En höggið var vindhögg vegna þess að það virðist í raun engin áhrif hafa nema það að setja allt stjórnkerfi landsins í uppnám. 

Menn eru búnir að snúa fyrstu grein stjórnarskrárinnar á haus og tala um stjórnarbundið þing en ekki þingbundna stjórn.  Það er næstum því hægt að segja að við séum komin aftur til stéttaþinga einveldistímans í Evrópu.  Þingið á bara að vera til ráðgjafar í stjórnvöldum í einstökum málum, má leggja gott til, getur að vísu fræðilega borið fram vantraust á stjórnina en það er einungis fræðilegur möguleiki þar sem við sjáum ekki flokkshundana á þingi rísa upp og setja ríkisstjórn af.  Hversu mjög sem hún klúðrar málum og hversu mjög hún traðkar á stjórnarskárbundnu þingi. 

Auðvitað ætti utanríkisráðherra að viðukenna það sem augljóst er að hann ræður ekki við embætti sitt.  Hann myndi njóta virðingar ef hann viðurkenndi þetta, segði af sér en afturkallaði áður bréfið og seldi ákvörðunarrétt í málinu til þjóðarinnar.  Í því efni er enginn ómöguleiki til.  Samþykki þjóðin aðildarviðræður er einboðið að annaðhvort rjúfi forsætisráðherra þing eða evrópusinnuð minnihlutastjórn stýri landinu fram að næstu kosningum efir tvö ár.


Loftkastalar.

Það gengur mikið á á Suðurnesjum. 

Þar hrynja nú loftkastalar hver á fætur öðrum.  Aumingja Árni Sigfússon lýsir allri ábyrgð á hendur sér en dregur svo nokkuð í land.  Sveitafélagið rambar á barmi gjaldþrots, þó svo að sveitafélög geti víst ekki orðið gjaldþrota. 

Fyrir þessu ástandi eru sossem ýmsar ástæður.  Þarna varð að sjálfsögðu ákveðin kreppa þegar herinn fór nokkuð skyndilega, enda ekkert gert til að undirbúa Suðunesin undir það að verða herlaus og hermangsgróðinn að mestu fluttur til Reykjavíkur.  Ekki voru gerðar ráðstafanir til að finna ný atvinnutækifæri, t.d með því að flytja landhelgisgæsluna og sérsveit ríkislögreglustjóra til Keflavíkur.  Mest um vert er þó þessi vitleysa sem menn fóru í vegna ímyndaðs álvers í Helguvík.  Farið var í gríðarlega húsnæðisuppbyggingu og aðrar framkvæmdir, sveitafélagið skuldsett úr hófi fram út af einhverjum loftkastala sem aldrei var byggður.  Við þetta bættist umtalsverð spilling og fyrigreiðslupólitík af ýmsu tagi, og því fór sem fór. 

En þetta er mjög miður því fá landssvæði hafa meiri tækifæri til atvinnusköpunnar og orkunýtingar en Suðurnes, með allan jarðhitann, gjöful fiskimið og alþjóðaflugvöllinn í túnfætinum.  En til að þessi tækifæri nýtist verða menn að hætta að einblína á stóriðjur með að mestu vinnuafli úr Reykjavík og huga frekar að nýtingu auðlindar lands og sjávar til nýsköpunnar og uppbyggingar.


Glatað sakleysi.

Íslendingar hafa löngum trúað því að þeir lifðu í hreinu landi norðurljósa og fannhvítra jökla.  Menn hafa löngum vitnað í Hulduljóð og talað um land langt frá heimsins vígaslóð.  En í gær var birt skýrsla frá Greiningadeild ríkislögreglustjóra þess efnis að möguleikar væru á því að hér yrðu framin hryðjuverk, vitað væri um hættulega menn sem hér byggju og hér streymdu í gegn menn frá Norður-Ameríku til Sýrlands til að berjast þar í þágu hins islamska ríkis, öfgasamtaka sem jafnvel sjálft Islam hefur afneitað. 

Það vekur athygli að skýrsla þessi kemur fram um svipað leyti og innaríkisráðherra viðrar hugmyndir sínar um einhverskonar þjóðaröryggisstofnun, en það er í rauninni bara fínt orð yfir leyniþjónustu.  Nú má vel vera að einhverjar slíkar hættur kunni að skapast hér, þó ólíklegt sé, en athyglisvert er að við höfum áður misst sakleysi okkar, t.d í sambandi við innrás Vítisengla eða Breivik harmleikinn í Noregi.  Í bæði skiptin vildu inninríksráðherrar að lögreglan fengi forvirkar rannsóknarheimildir og líklega ekki algjör tilviljun að þjóðin skuli glata sakleysi sínu þegar þessi umræða fer í gang.  Sem fyrr segir kann að vera að við þurfum að vera viðbúin svona atburðum, en hitt er svo annað mál að við getum ekki veitt lögreglunni auknar heimildir því reynslan hefur sýnt að hún hefur freistast til að misnota þær heimildir sem hún hefur, t.d til símhleranna, í þágu spilltra og valdagráðugra stjórnmálamanna.


"Upplýsingar" Péturs.

Það eru margir litríkir karakterar á þingi og oft má hafa af þeim nokkurt gaman.  En stundum getur fyndnin dálítið misst marks eða það sem sagt er getur stundum verið fyndið, þó svo ekki sé það ætlunin.  Nú í dag var verið að ræða lítið frumvarp heilbrigðisráðherra okkar, þess efnis að leyft yrði að auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi.  Flokksbróðir ráðherrans, Pétur H.Blöndal flutti þar innblástna tölu til varnar auglýsingum.  Kvað hann auglýsingar vera nauðsynlegar upplýsingar til varnar neytendum en ekki áróður.  Þetta er svoldið fyndið, því maður hefur alltaf haldið að auglýsingar væru í besta falli dulbúinn áróður, samanber það þegar ekki mátti við stofnun ríkisútvarpsins vera þar með auglýsingar, heldur var talað um tilkynningar sem auðvitað eru ekkert annað en áróður, dulbúinn sem upplýsingar og kallað tilkynningar.  Eðli auglysinga er auðvitað að hampa einhverri tiltekinni vöru eða þjónustu og fá fleiri til að kaupa hana.  Sem í öðrum áróðri er mikið notast við endurtekningar og klisjur og oft um að ræða illa dulbúinn heilaþvott.  En heilaþvotturinn er, þegar vel tekst til, matreiddur þannig að hann rennur niður eins og fínustu kræsingar eða ljúfustu vín.


Kalli vikulegi.

Hinn vikulegi Kalli í París stækkaði í dag svo um munar.  Blaðið hefur svona yfirleitt verið prentað í um 60 þúsund eintökum en að þessu sinni er þegar búið að prenta 3 milljónir eintaka og amk 2 milljónir eintaka til viðbótar eru boðaðar. Þetta er árangurinn af hryðjuverkinu á dögunum.  12 menn voru drepnir eins og í hálfgerðu auglýsingaskyni fyrir þetta skopblað.  Svo virðist sem þessa islamista skorti alla rökhugsun.  Í stað þess að þegja og láta þetta koðna niður, auglýstu þeir vitleysuna með hegðun sinni.  Fyrir utan það að þeir ötuðu múhameðstrú blóði.  Eitt lítið dæmi um vitleysuna má sjá hér á Íslandi þegar vitgrannur þingmaður lagði til að kannaður yrði bakgrunnur allra þeirra 1500 múslima sem á Íslandi búa.  Maðurinn fellur í þá sömu gryfju og margir aðrir illa upplýstir aðilar.  Hann gerir ekki greinamun á islam sem trúarbrögðum og islamistum sem nota vilja trúnna sjálfum sér til framdráttar.  Hann skilur ekki að það sem rétt er að gera er raunverulegt kristið umburðarlyndi, að við föðmum múslima að okkur og lýsum yfir samúð okkar með þeim vegna þess að trú þeirra skuli vera notuð sem yfirskyn glæpaverka, mannréttindabrota og ógnaverka.  Kalli hinn vikulegi hefur orðið að boðbera umburðalyndis og kærleika, í margra hugum.


Styttur snævarins

Styttur snævarins standa hvítar og keikar meðfram veginum og horfa stjörfum augum á ferlibílinn sem mjakast í áttina út í Þorp.  Og hérna er ferliþjónustan ókeypis.  Styttur snævarins horfa undir gráleitum himninum, sem bíður næsta éls og þær hugsa og vorkenna fatlaða fólkinu í Reykjavík sem þarf að greiða fyrir þjónustu, sem er meira að segja í hinum mesta ólestri.  Hún er svoldið skrítin stundum jafnaðarstefnan hjá þeim þarna fyrir sunnan.  Að maður skuli á lágum örorkubótum sínum þurfa að greiða 175 kr. fyrir hverja ferð hjá ferliþjónustunni og 1100kr ef farið er fleiri en 60 ferðir á mánuði.  Líklegt er að ástæðan fyrir þessu sé sú að borgarsjóður sé tómur vegna eyðslu í allskonar pjatt og tildur sem keyrt hefur um þverbak í borgarstjóratíð Jóns Gnarr, sem illar tungur segja að nú stefni á Bessastaði.  Eitthvað kostar að vera með skákborg, bókmenntaborg, kvikmyndaborg og Guð má vita hvað allar þessar borgir heita, að vitbættri þessari friðarstofnun sem áðurnefndur Jón Gnarr hefur verið settur yfir á meðan hann bíður forsetakostninganna.  En það er umhugsunarvert að landsamtök öryrkja hafa ekki amk hótað því að flytja höfuðstöðvar sínar frá Reykjavík og td hingað til Akureyrar, þar sem líklega er þróaðasta þjónustan í málefnum fatlaðra á íslandi.  Yfir þessu ráðslagi hrista styttur snævarins höfuðið.


Brauðmolar í ársbyrjun.

Nú í ársbyrjun eru menn á fullu í að framkvæma brauðmolakenninguna svokölluðu, þó svo að virtir hagfræðingar hjá alþjóðastofnunum hafi afneitað henni og bent á að ójöfnuður leiði til minnkandi hagvaxtar og lífsgæða.  Eitt skýrasta dæmið um brauðmolakenninguna er það sem kallað er skuldaleiðrétting og byggir á því að skuldir eru gefnar upp hjá fólki sem margt hvert hefur þá vel efni á því að greiða þessar skuldir, með það fyrir augum að hagvöxturinn af eyðslu þessa fólks leiði til bættra lífskjara fyrir hina.  Þetta verður þó auðvitað ekki raunin, öryrkinn eða einstæða móðirin munu fá svo litla brauðmola að þeir munu ekki sjást, eða verða gleyptir af hrægömmum bankakerfisins. 

Þetta er eins og með lýðheilsustefnu Sigmundar Davíðs, en fyrsta skrefið í henni var að lækka kókið í verði en hækka mjólkina.  Menn sömdu um ríflegar hækkanir til lækna og víglundarnir með silfurskeiðar sínar biðja almenning um að sætta sig við 3,5 prósentin sín svo kaupmáttur megi hækka um 5 prósent, hvernig sossem það er fundið út.  Menn tala um miklar kjarabætur og bætt lífskjör og fólkið á að trúa þessu.  Þeir eru sennilega að fara eftir hinni frægu Göbbers kenningu sem segir að sé lygin endurtekin nógu oft þá verði hún að sannleika. 


Sjúkrahús og flugvellir.

Þá eru blessaðir læknarnir búnir að semja.  Búnir að fá einhverja leiðréttingu, eitthvað í áttina við það sem gengur og gerist í útlandinu, enda auðvitað skítt að bera sig saman við hin lélegu lífskjör á Íslandi. 

Svo virðist sem samúð almennings og fjölmiðla hafi verið þónokkur með læknunum, hvað sossem þessi samúð nær langt þegar að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði kemur.  En það er athyglisvert við fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga, að svo virðist sem eina sjúkrahúsið á Íslandi sé Landspítalinn, rétt eins og Reykjavíkurflugvöllur er í augum fjölmiðla, hin eina sanna miðstöð innanlandsflugs á Íslandi.  Og þessi mál tengjast raunar einkennilega. 

Ein af þeim réttlætingum sem sett er fram fyrir því að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni er að hann sé svo nálægt Landsspítalanum og svo er bygging nýs Landsspítala m.a réttlætt með því að hann sé svo nálægt flugvellinum, sem þó margir Reykvíkingar vilja helst sjá úti í hafsauga. 

En það er ekki bara hægt að stórhækka kaup læknanna og byggja margmilljarða nýjan spítala.  Einhversstaðar verður að fá peninga í þetta og maður undrast stundum stórlega hvers vegna ekki er reynt að finna einhverja ódýrari lausn, amk næstu áratugina.  Af hverju er td heil hæð á sjúkrahúsinu í Keflavík látin standa auð, þó þetta sjúkrahús sé í næsta nágrenni við alþjóða flugvöll.  Hvað þó það víst vera einhver skilyrði fyrir því að flugvöllur fái viðurkenningu að þar sé sjúkarhús í nánd og afhverju er ekki ráðist í að reisa stórt alþjóðlegt sjúkrahús á Akureyri, sem til að mynda gæti ráðið við atburði á borð við það ef kviknar í skemmtiferðaskipi úti fyrir norðurlandi.  Svo virðist sem almannavarnir hafi enga hugsun á því að slíkt geti gerst.  Nei, menn vilja byggja stóran kassa við Hringbrautina með tilheyrandi umferð og útblástursmengun og ofan í kaupin vilja menn eyða 20 milljörðum í að byggja nýjan flugvöll einhversstaðar uppi á heiði í stað þess að nota stóra dýra alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.


Brauðmolar

Á sama tíma og þetta er skrifað er fjárlaganefnd alþingis að dekka veisluborð, eða eigum við að segja, að kaupa aflát fyrir syndir ríkisstjórnarinnar í lekamálum og öðru. 

Brauðmolar munu falla af veisluborðinu, til handa þurfalingum þessa lands og hugsanlega munu einhverjir þeirra jafnvel lenda á landsbyggðinni, samanber fiskistofu.  Þeir duga þó skammt til að sefa hungrið hjá almúganum á landsbyggðinni sem horfir á dýrðina fyrir sunnan. Það er ekki nóg með að menn tali um nýjan Landsspítala, kórónu kísilvera í kringum Reykjavík og meira að segja 100 milljarða borgarhlutann hans Dags. 

Maður er næstum farinn að efast um það hvort að Reykjavík sé fær um að vera höfuðborg áfram, eins og veislugestirnir þar haga sér stundum gagnvart landsbyggðinni.  Hroki, heimóttaskapur og eigingirni virðast ríða þarna húsum, menn vilja Landsspítala en ekki flugvöll.  Læknar láta landsbyggðarfólk fara sneypuför suður og sitja á samningafundum svo þeir geta ekki skrifað á ferðavottorð, þannig að þetta fyrirbæri sem kallast sjúkratryggingar, sem upphaflega var stofnsett til að búa til bittling handa kunnum sjálfstæðismanni, greiða ekki ferðakostnaðinn.  Sjálfsagt í anda hagræðingar þeirra og sparnaðar sem Vigdís Hauksdóttir talar svo fjálglega um.  Auðvitað sparar það ríkinu að þurfa ekki að greiða þann kostnað og nýju borgarfötin hans Dags mun ekki fyllast af fólki sem nú býr við okurleigu, heldur eins og Breiðholtið gerði forðum, mun þessi borgarhluti fyrst og fremst hýsa efnahagslega flóttamenn af landsbyggðinni.


Höfuðborgin til Þórshafnar.

Mikið fjaðrafok varð um síðustu helgi þegar sá ágæti rithöfundur, Einar Kárason birti bloggfærslu um hið eldfima flugvallamál.

  Eitthvað hefur hinn ágæti rithöfundur verið utan við sig eða hann þekkti ekki vel íslenskt mál, þegar hann talaði um hyskið á landsbyggðinni.  Sagði reyndar eftir á að hann sæi eftir þessu, þegar hann sá eftir á hvaða merking liggur í orðinu hyski.  Þetta er ekki bara hljóðvarp af orðinu hús. 

Tilgangur hans var annars sá að benda á þá staðreynd að sjálfstæði sveitafélaga er tryggt í stjórnarskrá.  En annað vekur dálitla athygli, hugmyndin um að flytja höfuðborgina á Þórshöfn.  Auðvitað er þetta grín, en máltækið segir að öllu gríni fylgi nokkur alvara. 

Það sjónarmið hefur nefnilega ekki heyrst í öllu þessu fjaðrafoki um flugvöllinn að finna megi lausn á þessu deilumáli með því einfaldlega að dreifa stjórnsýslu og þjónustu um landið, t.d með upptöku millistjórnsýslustigs þannig að menn gætu til að mynda ákveðið rækjukvóta eða ítölu heima í byggðunum, í stað þess að leita til miðstýrðra stjórnsýslu í Reykjavík og í rauninni snýst málið líka hreinlega um almannavarnir. 

Á það hefur verið bent, hversu landið myndi gjörsamlega lamast ef flóð yrði á Þjórsársvæðinu og einnig má bæta við þvílíkt óefni landið kæmist í ef alvarlegur uppskerubrestur yrði á suðurlandi. 

En þjóðin er því miður föstu í þeim hlekkjum hugarfarsins að allt skuli eiga sitt upphaf og endi í Reykjavík, þó svo að Reykjavík vilji raunar ekkert með þetta hyski á landsbyggðinni, sveitavarginn á hundaþúfunum og allt það hafa. Þá skulu eggin öll vera í einni og sömu körfunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband