27.5.2012 | 20:52
Vaðlaheiðaralþingismálþófsmiðnæturþvælulangavitleysa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2012 | 20:28
Arfleið kynslóðanna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2012 | 20:00
Þing og þjóð
Mikið óskaplega er manni farið að leiðast þetta málþóf um stjórnarskrármálið sem búið er að standa yfir svo dögum og nóttum skiptir. Fátt vitlegt heyrist þarna hjá blessuðum þingmönnunum og stundum er lopinn teygður ansi langt t.d. þegar Árni Jónsen, álfakóngur með meiru, fór að tala um sjómannafslátt. Svo virðist sem blessaðir þingmennirnir beri ósköp lítið skynbragð á stjórnmálafræði eða stjórnmálaheimspeki. Þeir eiga meira að segja í mesta basli við að skilgreina hvað auðlind er og þjóðareign á auðlind. Þannig taldi t.d. Illugi Gunnarsson að ekki væri hægt að tala um þjóðareign því að þjóðin sem slík gæti ekki sýslað með auðlindir heldur yrði ríkið að gera það. Illuga skal því bent á að þjóð og ríki eru tveir aðskildir hlutir. Ríkið er einskonar tæki jafnvel verktaki þjóðarinnar til að framkvæma það sem hún þarf að gera en það er ekki ég eins og Lúðvík sólkóngur sagði í eina tíð. Afraksturinn af auðlindum þjóðarinnar nýtur hún að sjálfsögðu á þeim stað þar sem hún er stödd á, og auk þess njóta hans gestir þjóðarinnar rétt eins og íslenskir gestir erlendis njóta auðlinda þeirra þjóða og þjónustu þar sem þeir búa. Þjóð og ríki er ekki það sama í einu ríki geta búið margar þjóðir og dæmi eru líka til um það að sama þjóðin sé klofinn í tvö ríki. Þessa hluti ættu Illugi og félagar að hugleiða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2012 | 14:20
Vorverkin við Austurvöll
Vorið ætlar að láta svolítið á sér standa þessa dagana, að minnsta kosti hér norðan- og austanlands. Ýmis merki vorsins má þó sjá ef vel er að gáð. Sauðburður stendur sem hæst og einhverjir voru búnir að sá og plægja.
Og vorverkin eru á fullu við Austurvöll. Menn hanga í málþófi svo tímunum skiptir við að ræða ekki neitt. Og raunar er það að ýmsu leyti hið besta mál, meðan þeir kjafta svona út af engu gera þeir engar vitleysur á meðan. Illa ígrunduð mál og vitlaus liggja í salti en öðru hverju bráir þó af þeim þingmönnunum svo þeir hespa af nokkrum lögum sem á einn eða annan hátt takmarka einhver réttindi hjá einhverjum. Dæmi um þetta er þessi della sem áfengislagafrumvarpið hans Ögmundar er. Þar er verið að koma í veg fyrir að menn fari á svolítið skondinn hátt í kringum lög, nokkuð sem er jú ekta íslenskur plagsiður. Einhvern veginn tókst mönnum líka að böðlast í gegnum þingið með lög um Stjórnarráðið sem lýst hefur verið yfir að verði afnumin eftir næstu kosningar en lagasetningin mun samt víst kosta einhver milljónahundruð fyrir tóman ríkiskassann.
Væri nú ekki meiri mannsbragur að því að menn tækju sig saman í andlitinu, samþykktu hluti sem þarf að samþykja strax, til dæmis lög um bætt réttindi flóttamanna, Vaðlaheiðargöng og þjóðaratkvæði um stjórnarskrána. Fara síðan heim og njóta sumarblíðunnar ef hún einhvern tímann kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2012 | 14:02
Hvítur maí
Nýliðinn aprílmánuður var grænn að minnsta kosti suður í Reykjavík. En lítið fór fyrir þessum græna apríl annars staðar þar sem forvígismenn hans voru eilíft að tala um umhverfismál í borginni sinni sem er svo sem gott og blessað nema hvað Ísland er ekki bara borgin okkar heldur ekki síður náttúran okkar og umhverfið.
En svo kom maí og hann varð hvítur. Á svipuðum tíma og í fyrra brast á með norðanhreti miklu svo snjó tók að kyngja niður um allt norðan og austanvert landið. Aumingja fuglarnir áttu ekkert skjól og blessuð litlu lömbin varð að setja á hús ef pláss var fyrir þau. Þeir fyrir sunnan fórna höndum að vera allt í einu minntir á að við búum á Íslandi en ekki á Kanaríeyjum. Og þetta virðist stundum gleymast í allri umræðunni um umhverfismál. Við bölvum stundum fyrri kynslóðum fyrir að hafa brennt skógana okkar en gerum okkur það ekki ljóst að þetta gerði fólk hreinlega til að það kæmist af. Svo til verði komandi kynslóðir þurftu hinar fyrri að lifa hretin af. En þetta hugsa sumir umhverfissinnar ekki til enda þegar þeir tala um að við þurfum að skila landinu til komandi kynslóða.
Vissulega þurfum við að skila landinu áfram en til þess verðum við að geta þraukað áfram hinn hvíta maí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2012 | 13:47
Arabískir flóttastrákar
Fyrir nokkrum dögum komu tveir strákar til landsins og framvísuðu fölskum vegabréfum. Strákar þessir voru af norðurafrískum uppruna og sögðust vera 15 og 16 ára gamlir.
Móttökurnar voru samkvæmt venju. Þeir voru í snatri leiddir fyrir rétt og dæmdir í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi. Og ekki þýðir víst að deila við dómarann þótt þarna hafi hann ef til vill brotið fleiri en ein lög og alþjóðasamninga. Fyrir það fyrsta þá eru þessir strákar samkvæmt einhverri alþjóðaskilgreiningu börn þó þeir séu það í raun og veru ekki. Hitt er verra að við brutum hér alþjóðasamninga um flóttamenn, því flóttamenn má ekki dæma í fangelsi en þessum strákum var víst stungið inn, gott ef ekki á Hraunið, þó síðar hafi þeir verið leystir úr fangelsi og annar fengið inni á arabísku heimili og hinn í flóttamannabúðum.
Ögmundur innanríkisráðherra virðist alveg koma af fjöllum og segir að hér verði að breyta lögum einhvern tímann í haust. Gallinn er bara sá að það er ekki hægt að bíða til hausts með að breyta lögum og reyndar þyrfti nú þegar að taka þessi mál flóttamanna til afgreiðslu. Setja þyrfti Útlendingastofnun undir Velferðarráðuneytið og ráða félagsráðgjafa í stað lögfræðinga. Mál flóttamanna eiga ekki að þurfa að taka eitt ár eða meira, jafnvel enga sex mánuði. Venjulegt mál ætti auðveldlega að vera hægt að leysa á klukkutíma þótt sérstök mál þyrftu ef til vill lengri athugunar við. Hvort sem um er að ræða svokölluð börn eða fullorðna þá eru þessi mál okkur til vansa.
Í málefnum strákanna tveggja þá hefðum við átt að verðlauna þá fyrir að komast hingað norður í Ballarhaf á fölskum skilríkjum, hleypa þeim inn í landið og ráða þá í vinnu við ráðgjöf flóttamanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2012 | 13:28
Kornabarn á Bessastaði
Þóra Arnórsdóttir Hannibalssonar er hin mætasta manneskja og sómir sér vafalaust vel sem húsráðandi á Bessastöðum. Eitt hið fyrsta sem hún benti á í kosningabaráttu sinni var það að fólk óskaði eftir fjölskyldu á Bessastaði og virðist hún ætla að framkvæma það í verki þar sem hún kvað vera kona eigi einsömul og gæti þess vegna verið búin að eiga áður en varir.
Nú er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að ung móðir setjist að á Bessastöðum og í anda nútímajafnréttis að faðirinn taki fullan þátt í umönnun barnsins. Hefur hann enda rétt á fæðingarorlofi í því skyni. En starf forseta Íslands er barátta ekki venjulegt starf. Og maður hlýtur að spyrja sjálfan sig að því hvernig er fyrir kornabarn að alast upp í hinu, að sumu leyti mjög svo óvenjulega umhverfi forsetaembættisins.
Fyrir það fyrsta mun barnið líkast til lítið sjá af móður sinni sem verður framar öllu að uppfylla hinar margháttuðu skyldur þjóðhöfðingja; taka á móti gestum, fara í opinberar heimsóknir, halda ríkisráðsfundi og svo framvegis. Og líklega mun þetta barn ekki hafa mikil samskipti við önnur börn, jafnvel minni samskipti en börn hinnar venjulegu íslensku yfirstéttar. Þetta barn hlýtur þannig að þroskast við nokkuð sérstakar aðstæður burt séð frá öllum femínisma og slíku. Þetta verður frambjóðandinn að hafa í huga nái hann kosningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2012 | 21:03
Af sjúkdómum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2012 | 20:47
Bakgrunnstékk
Ríkislögreglustjóri ætlaði að sýna þjóðinni hversu barngóður hann væri þegar hann tjáði innanríkisráðherra að óheimilt væri að kanna bakgrunn barna sem ráðin væru til vinnu á flugvallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Reyndar kom í ljós að ekki var um nein börn að ræða heldur 17 ára unglinga sem lofað var einhverri vinnu við afleysingar þar í sumar. En maður verður dálítið hugsi þarna. Það vekur athygli að til skuli vera til reglugerð sem heimili lögreglu að kanna bakgrunn fólks allt að fimm ár aftur í tíma. Þarna er um að ræða ýmis störf sem varða flugöryggi en það hlýtur að vera hægt að koma því svo fyrir að menn geti gert grein fyrir sjálfum sér á fullnægjandi hátt án þess að vera að pukrast með það í einhverjum lögregluherbergjum. Svona rannsóknir verða að vera undir mjög ströngu eftirliti persónuverndar og þeir sem upplýsingarnar veita verða að vera vel meðvitaðir um það hvaða upplýsingar eru veittar og hvernig er með þær farið. Og auðvitað má ekki krefjast upplýsinga um stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð umsækjendanna. Hvað unglinga sérstaklega varðar þá hlýtur það sama að gilda um þá og aðra. Þó svo að íslenskir unglingar séu tæpast félagar í hryðjuverkasamtökum sem lofa 72 hreinum meyjum gerist þeir píslavottar geta þeir oft á tíðum verið í slæmum félagsskap til dæmis dópsala sem gætu freistast til að notfæra sér þessa unglinga til þess að taka þátt í smygli. Hér er annars um mjög viðkvæmt og vandasamt mál að ræða. Menn verða að taka höndum saman við að leysa þetta mál þannig að sjálfsagðir öryggishagsmunir alþjóðaflugs séu virtir en um leið sé full virðing sýnd mannréttindum almennings og fullt tillit sé tekið til einkalífs fólks.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2012 | 20:51
Jafnaðarlausnir
Frakkar kusu sér nýjan forseta í dag og Grikkir sendu ráðandi stjórnmálaflokka út í hafsauga. Þetta eru athyglisverð úrslit og er nú spurningin sú hvort Evrópubúar séu nú loksins að verða reiðir á þessari leið niðurskurðar, samdráttar og kjaraskerðingar sem alþjóðlegar fjármálastofnanir hafa viljað fara að undanförnu, og einkum byggir á því að lausn allra meina sé aðhald og sparnaður í ríkisfjármálum og alls ekki hefur mátt leggja í neinar arfbærar framkvæmdir. Auðvitað er þetta firra. Auðvitað verður engin mjólk til handa börnunum á heimilinu ef engar eru mjólkurkýrnar og ekki dugir heldur að slátra mjólkurkúnum eins og gert hefur verið. Þetta hefur verið gert með því að ríkiskassarnir hafa verið tæmdir til þess að borga einhverjar skuldir, oft einkaskuldir í stað þess að bjarga sveltandi fólkinu. Kosningarúrslit dagsins í dag sýna að fólkið í Evrópu er farið að þrá jafnaðarlausnir. Félagslegar lausnir vandamálanna sem kostaðar eru með því að ýta af stað afbærum verkefnum þannig að gróðinn lendir ekki í vasa handfylli nokkurra auðjöfra og bankabraskara, til þess ætla þjóðirnar af nýju leiðtogunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)