27.8.2012 | 20:21
Ég sé Akureyri
Það ríkir gleði í Akureyrarbæ þessa dagana. Hefðarfrúin á 150 ára afmæli, höfuðdaginn þann 29. ágúst og að sjálfsögðu verður mikið um dýrðir þó svo Menningarnótt, stjórnmálaátök og aðrar gúrkur veki meiri athygli sunnanfjölmiðlanna. Stórafmæli Akureyrar hlýtur þó að teljast merkisviðburður á landsvísu.
Akureyri hefur óneitanlega lagt ýmislegt til íslenskrar menningar og lista. Segja má einnig að til sé eitthvað sem við getum kallað akureysk menning sem þróast hefur á mjög sérstæðan hátt og óvenjulegan ef mið er tekið af öðrum stöðum á Íslandi. Hér á Akureyri myndast mjög einkennileg blanda þar sem saman fara dönsk og alþjóðleg áhrif og íslensk alþýðumenning sem hér verður líka fyrir miklum áhrifum frá iðnaðarsamfélagi því sem hér byggðist upp og verður til þess að á Akureyri myndast aldrei menning sjávarþorpa. Hér þróast einkennileg blanda alþjóðlegrar hámenningar og innlendrar alþýðumenningar og sést þetta til dæmis í tónlistarlífinu sem mjög var sérstakt. Má að sjálfsögðu persónugera það að miklu leyti í Ingimar Eydal sem var um leið hámenntaður tónlistarmaður en þó mjög alþýðlegur hljómsveitarstjóri, öfugt við menn á borð við Svavar Gests eða Ólaf Gauk. Og vonandi stendur þessi menningararfleifð enn fyrir sínu og verður ekki einhvers konar fjölþjóðlegri eða sunnlenskri útþynningu að bráð.
Ég sé Akureyri sem framsækinn, akureyskan bæ, miðstöð norðurslóðamenningar á heimsvísu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2012 | 20:21
Gúrkur og kínakál
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2012 | 21:20
Frá Slóveníu í Kristnes
Þá er blessað sumarfríið á enda. Kominn heim í nýuppgerða íbúðina og hversdagslífið sem óðast að taka völdin á ný. Búinn að verja sumarfríinu í Slóveníu eða öllu heldur Kristnesi með viðkomu í Slóveníu. Vikuferðin til Slóveníu í beinu flugi frá Akureyri var einkar vel heppnuð þó svo að við lægi að maður væri grillaður þarna. Hitinn fór varla niður fyrir 35 stig og mun hafa náð 40 stigum einn daginn.
En Slóvenía er einkar fallegt og áhugavert land og maður lærði heilmikið um stríðið í Júgóslavíu sem reyndar stóð aðeins 10 daga í Slóveníu, enda munu víst Ítalir hafa hótað því að senda NATÓ á Serbana ef þeir hefðu sig ekki hæga. Annars þá fékk maður dálítið nýja sýn á þetta stríð. Maður hafði eiginlega ímyndað sér að þetta hefði verið stríð sem ætti rót sína að rekja til aldagamals menningarmismunar. Að vissu leyti er það rétt en líklegri skýring er þó sú sem maður heyrði þarna að stríðið hefði fyrst og fremst staðið vegna þess óréttlætis sem fólk taldi sig verða fyrir með því að einræðisstjórn Títós (sem reyndar sjálfur var Króati og Slóveni) dró allt fjármagn frá lýðveldunum til fámennrar, spilltrar, serbneskrar yfirstéttar í Belgrad. Sem sagt stríð milli arðræningja og arðrændra eins og flest stríð eru sjálfsagt.
Eftir skemmtilega og lærdómsríka ferð, drjúgan skammt af hvítvíni og Lasko-bjór var gott að hvíla sig í Kristnesi í nokkra daga, borða góðan mat og njóta hæfilegrar þjálfunar og fallegs umhverfis í faðmi Eyjafjarðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2012 | 20:00
Útþynnt þjóðhátíð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2012 | 21:58
Hið nýja skurðgoð
Árið 2004 varð þjóðin allt í einu agndofa. Forseti Íslands notaði í fyrsta sinn synjunarvald sitt sem hann hafði samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar og það var sem allt stjórnkerfið hefði orðið fyrir hjartaáfalli. Menn héldu að þetta væri ekki hægt, forsetinn mætti ekki haga sér svona, nú hlytu allar stofnanir landsins að líða undir lok.
Ástæðuna fyrir synjun forsetans þekkja allir. Ráðamenn reyndu að beita Alþingi til að knésetja ákveðið fyrirtæki í samkeppnisrekstri, með þegjandi samþykki og jafnvel fyrir forgöngu Davíðs Oddssonar. Þessir menn ýttu forseta út í ystu myrkur og töldu hann bæði óalandi og óferjandi.
Nú er öldin önnur. Þeir hinir sömu og mest hötuðust við forsetann hafa nú gert hann að hinu nýja skurðgoði. Heiðbláustu frjálshyggjumenn á borð við Baldur Hermannsson og fleiri mega vart vatni halda yfir ágæti hins nýja guðs sem frelsa muni þjóðina frá Evrópusambandinu og annarri þeirri vá sem að steðji. Eitt er það þó sem þetta lið hugsar ef til vill ekki út í. Ef Ólafur Ragnar ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér og vera þjóðkjörinn fulltrúi en ekki puntudúkka, þá hlýtur hann að stöðva mál hinnar nýju ríkisstjórnar sem að öllum líkindum mun taka hér við eftir kosningar ef hann telur þessi mál stangast á við vilja þjóðarinnar. Hann mun vonandi ekki ljá máls til dæmis á einkavæðingu raforkunnar eða afsals auðlinda þjóðarinnar til útlendinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2012 | 21:27
Þjóðirnar hennar Þóru
Þóra Arnórsdóttir var síðust forsetaframbjóðendanna til að mæta í yfirheyrslu hjá Morgunútvarpi Rásar 2 nú í morgun. Hér var um mjög svo áhugavert viðtal að ræða. Í ljós kom að Þóra mun verða fremur leiðitamur forseti, lítt umdeildur og nokkuð vel kynntur.
Eitt atriði í viðtalinu vakti athygli. Hún talaði um þjóðirnar tvær sem hún segir landið byggja. Talaði um muninn sem væri á þeim spurningum sem hún fengi annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Nú er oft talað um þessar tvær þjóðir sem landið byggi, höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina en spurningin er hvort þetta sé ekki dálítil einföldun. Við eigum jú eitt höfuðborgarsvæði sem er nokkuð einsleitt þó svo innfæddir Gaflarar eða Kópavogsbúar neiti því. En það er aftur á móti öllu erfiðara að tala um eina landsbyggð því vitaskuld eru hinar svokölluðu landsbyggðir margar og margvíslegar. Hlutirnir ganga allt öðruvísi fyrir sig til dæmis á Ísafirði en Egilsstöðum og einnig má segja að Akureyri og Suðurnes séu á mörkum þess að geta kallast eiginleg landsbyggð. Að öðru leyti skilgreina menn almennt landsbyggðina sem allt það sem undir Reykjavíkurvaldið er sett og það er æði mikið í miðstýrðu þjóðfélagi eins og hér er.
Draumur Þóru um eina þjóð á sennilega ekki eftir að rætast á næstunni til þess þarf svo róttækar breytingar á stjórnsýslu og efnahagskerfi. Til að byrja með þarf að koma hér á byggðastefnu en hún er engin á Íslandi sem kunnugt er. En vera má að fjölmiðlagæsir geti sungið einhuga íslenskri þjóð lof og dýrð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2012 | 20:23
Keisarans skegg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2012 | 20:07
Smámunasemi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2012 | 21:26
Forsetar og fjölmiðlagæsir
Næstkomandi sunnudagskvöld er áhorfendum Stöðvar 2 boðið til veislu. Fram verður borin fjölmiðlagæs með forseta. Sjálfsagt afar gómsætur kvöldverður en mörgum þykir sem meðlætið með gæsinni sé svona í fábreyttara lagi eða aðeins einn lítill forseti.
Nú segja þeir Stöðvarmenn að máltíð þessi sé framreidd eftir bestu erlendu fyrirmyndum. Það þekkist víða að aðeins efstu frambjóðendum í kosningum sé boðið í umræðuþætti. Vissulega er það rétt að margir líta á Ólaf Ragnar og Þóru sem tvo turna í þessari kosningabaráttu en þó verður að telja þessa ráðstöfun Stöðvar 2 frekar hæpna. Við erum ekki með tvöfalda umferð í forsetakosningunum hér eins og til dæmis í Frakklandi. Og þar sem allir frambjóðendur taka þátt í endanlegu kjöri hljóta þeir að hafa lýðræðislegan rétt til jafnræðis.
Það má svo sem segja að sitthvað fleira sé frekar hæpið í rekstri þessarar stöðvar, enda fyrirtækið rekið í gróðaskyni svo hæpið sem það er í hinu litla íslenska þjóðfélagi. Sem dæmi má nefna þessa heimsku að læsa landsleikjum Íslendinga í boltaíþróttum. Svona gera ekki aðrir forsvarsmenn fjölmiðla en þessir gömlu atvinnurekendajálkar sem stjórna Stöð 2 og því batteríi öllu. Eiginlega ættu yfirvöld að setja reglur um það hvaða sjónvarpsefni megi læsa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2012 | 21:14
Sól og sumar.....
Hringekja árstíðanna snýst sinn kúrs rétt eins og hún hefur alltaf gert og lítil breyting er á því að þessu sinni Eftir hið sígilda vorhret með hvítum maísnjónum brast hann skyndilega á með þvílíku sumri að maður minnist varla annars slíks hin síðustu ár, að minnsta kosti svona snemma.
Mikið óskaplega vorkennir maður þeim sem þurfa að kúldrast innanhúss í saggafullum kuldanum, til dæmis skólanemendum í próflestri og þingmönnunum í sínu endalausa málþófi, jafnt nætur sem daga að maður tali nú ekki um allt þetta aumingja fólk sem þarf að hanga inni við til að annast um fatlaða og sjúka á lúsarlaunum hins opinbera Þeir ætla kannski að hækka launin hjá þessu fólki með peningunum sem þeir fá í kassann fyrir veiðileyfin
Og nú eru allar bæjarhátíðirnar að byrja, þær bæjarhátíðir sem ekki eru fyrir fjölskylduna eru fyrir alla fjölskylduna og virðist sama hvar hoppukastalinn og andlitsmálunin eru, menn vita hvort sem er ekkert hvar þeir eru þegar þeir detta í það
Fjölmiðlarnir dásama sólina og blíðuna í Reykjavík þar sem krakkarnir eru alltaf að leika, en auðvitað gleymist að það er víðar gott veður en í þessum nafla alheimsins. Og bráðum fær þjóðin að kjósa sér forseta, himininn er heiður og blár og sólin skín skært á Bessastaði
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)