Rónana á Raufarhöfn

Nýjustu fréttir segja manni að það séu 179 útigangsmenn í Reykjavík. Menn sem í daglegu tali nefnast rónar og njóta ekki mikillar virðingar í samfélaginu þó margt sé þetta fólk sjúklingar og frekar aumkunarvert fólk. Á sama tíma hefur verið frá því sagt að allt sé á vonarvöl austur á Raufarhöfn og að þar séu nú húsin til sölu á spottprís.

Í þessum fréttum er svolítið samhengi. Af hverju dettur engum í hug að bjóða þeim rónum sem það vilja að flytjast austur á Raufarhöfn og búa í einhverjum af þessum verðlausu húsum, sem eru að minnsta kosti betri kostur en hriplek gistiskýlin í borginni? Þessu fólki mætti einnig veita einhverja fjármuni til að koma undir sig fótunum, til dæmis kaupa sér trillu með kvóta eða byrja ferðaþjónustu. Vafalaust myndu einhverjir geta reist sig við, ef slíkt væri í boði þó ef til vill væru einhverjir sem ekki væri við bjargandi.

En það er stundum eins og menn skorti hugmyndir þegar vandamálin hrannast upp.


Fitlað við sköpunarverkið

Fregnir berast af því að vestur í Bandaríkjunum sé verið að gera einstaklega merkilegar tilraunir með stofnfrumur. Meðal þess sem þær eru taldar geta leitt af sér er tækni sem gerir það kleift að í framkvæmd eigi börn þrjá foreldra og á þetta að gerast með því að nota tvær eggfrumur ásamt sæðisfrumu. Tilgangurinn er svo sem nógu göfugur, að reyna að útrýma ýmsum arfgengum sjúkdómum.

En þessu fylgja líka ýmsar áleitnar, siðferðilegar spurningar. Við vitum að í dag getur blanda tveggja foreldra leitt af sér þriðja einstaklinginn, sem er að einhverju leyti líkur báðum en þó um leið ólíkur. Líkt og vetni og súrefni mynda vatn sem er gjörólkt þessum lofttegundum. Og nú spyr maður hvað gerist þegar foreldrarnir verða orðnir þrír. Blöndunin hlýtur að verða enn flóknari.

Allt þetta fitl við sköpunarverkið hlýtur að orka nokkuð tvímælis. Við vitum að það er sama hversu göfugur ásetningur það er sem vísindamenn hafa, uppgötvanirnar hafa alltaf tilhneigingu til þess að vera misnotaðar, samanber dýnamítið sem Alfreð gamli Nóbel fann upp í góðum tilgangi en hann fékk mikið samviskubit af vegna misnotkunar.

Maður freistast til að hugsa hvort skammsýni miðaldakirkjunnar, þegar hún vísvitandi reyndi að hylja alla mannlega þekkingu, hafi ef til vill, eftir allt verið framsýni. Maður spyr sig hvort mannkynið gangi til góðs við að öðlast meiri og meiri þekkingu. Spurningin er hvort það sé hlutverk mannanna að fitla við sköpunarverkið.


Krossferðin Ögmundar

Hann Ögmundur okkar innanríkisráðherra er að hefja enn eina krossferð sína gegn öllum óvitum þessa lands, eina af mörgum sem hann hefur staðið í undanfarin ár. Það á að hækka bílprófsaldur, takmarka enn áfengisauglýsingar sem er beinlínis þráhyggja ráðherra og það á að á einn eða annan hátt að þrengja að réttindum ýmissa annarra en atvinnuglæpamanna en manni sýnist ráðherra og flokksmenn hans mjög varkárir  í málefnum þeirra.  Nýjasta  krossferð ráðherra í þessum dúr eru happdrættin. Vissulega er spilafíkn vandamál í þjóðfélaginu en ekki er líklegt að hugmundir Ögmundar um hömlur á starfsemi happdrætta verði til bóta frekar en aðrar þær hömlur sem hann er alltaf að rembast við að setja, og erfitt er að átta sig á því hvernig hann ætlar að loka fyrir fjárhættuspil á netinu. Manni skilst að norðmenn hafi eitthvað verið að reyna þetta með litlum árangri. Það vill nefnilega svo til að netið virðir ekki nein landamæri. Hugsanlega mætti eitthvað takmarka innheimtu erlendra spilafyrirtækja á Íslandi en sennilega væri besta leiðin eins og í öðru aukin fræðsla og jafnvel að ríkið komi sér upp einhverju svona fyrirtæki þannig að ágóðinn af þessari fíkn renni þó  til einhverra góðra mála í landinu. Forsárhyggjutilburðir innanríkisráðherra okkar virka einkennilega gamaldags á gervihnattaröld en virðast samt ganga í augun á alltof mörgum þingmönnum sem haldnir eru þeim misskilningi að þeir séu miklu vitrari og betri en háttvirtir kjósendur þeirra. Þeir öðlast þó sitt vit  á fjögra ára fresti.

Hvítt og svart

Hvítur er stafurinn sem leiðbeinir hinum blinda gegnum eilífa svartnættið og það er dagur hvíta stafsins í dag, 15. október. Þetta eru andstæður; hvítt og svart, ljós og myrkur. Sumir ganga í ljósi og aðrir í myrkri. Sumir þurfa ljós til að lýsa sér, aðrir geta þurft myrkur til að dyljast fyrir ljósinu. En það eru hinir fyrrnefndu sem við beinum sjónum okkar að á þessum degi. Það fólk sem ekki getur notið ljóssins að einhverju eða öllu leyti.

Það hlýtur að vera nokkuð erfitt fyrir fólk með fulla sjón að ímynda sér hvernig það er að lifa við skerta sjón eða enga. Rétt eins og það er mjög erfitt eða ómögulegt fyrir sjóndapran mann að ímynda sér hvernig það er að hafa fulla sjón, eða jafnvel fyrir eineygðan að sjá með báðum augum.

Mjög mikið hefur á undanförnum árum áunnist í málefnum blindra og sjónskertra, ekki síst fyrir tilstuðlan Sjónstöðvar Íslands sem í dag heitir að vísu einhverju ægilega flóknu og leiðinlegu nafni sem enginn hefur getað útskýrt hvers vegna var klínt á hana. Tæknin á hér mikinn hlut að máli, þannig er til dæmis hið alræmda punktaletur nánast úr sögunni, í staðinn eru komnir hljóðdiskar eða talgervlar og handan við hornið eru ýmsar talandi tölvur, símtæki og fleira því um líkt.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að mörg þessara tækja eru dýr í innkaupum, hátolluð og hjálpartækjabankar eru mjög tregir til að viðurkenna slíkar tækninýjungar sem hjálpartæki. Þetta á raunar við um ýmis fleiri hjálpartæki fyrir fatlaða. Halda mætti að þessir hjálpartækjabankar störfuðu í því skyni að spara ríkisstjóð en ekki aðstoða fatlaða.

En hvað um það, hlutunum fleygir fram, blindir fá sýn þó hún verði að miklu leyti í gegnum tölvur og tæknitól.


Nýtt lýðveldi

Næstkomandi laugardag gengur íslenska þjóðin að kjörborðinu og greiðir um það atkvæði hvort setja skuli landinu nýja stjórnarskrá samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs. Með öðrum orðum, hvort stofnað verði í rauninni nýtt lýðveldi á Íslandi í stað þess raunverulega bráðabirgðalýðveldis sem sett var á fót árið 1944.

Þessi atkvæðagreiðsla er í rauninni mjög merkileg svo og allur aðdragandi hennar þótt ýmsum þyki hún ómerkileg og ómerk. Og segja má að hin nýja stjórnarskrá sé að flestu leyti framfaraspor þótt á henni séu ennþá ýmsir ágallar sem Alþingi þarf að hafa vit á að lagfæra. Þannig orkar það til dæmis tvímælis að veita náttúrunni einhver mannréttindi og ef til vill er of lágur þröskuldurinn sem veittur er til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá eru spurningarnar sem spurt er sumar hverjar svolítið óljósar, til dæmis þetta með þjóðkirkjuna og svo þetta með jöfnun kosningaréttar. Réttlátara hefði verið að spyrja líka um það hvort færa skyldi meira vald til landshluta samfara jöfnun kosningaréttar. Öll ákvæði vantar um dreifræði í nýju stjórnarskrána og er það miður.

En sem fyrr segir þá eru þessi drög nokkur framfaraspor. Ekki er þó nóg að skipta um stjórnarskrá, það þarf einnig að skipta um hugarfar. Hverfa frá þetta reddast stefnunni til stefnu ábyrgðar og framsýni. En vel fer á því ef það skref sem stigið verður á laugardaginn endar á nýrri, nútímalegri og lýðræðislegri stjórnarskrá handa lýðveldinu Íslandi á sjötugsafmæli þess þann 17. júní 2014.


Sauðamessa

Gísli Einarsson hefur vafalítið verið við sauðamessuna í Borgarnesi síðast liðinn laugardag og enn voru eftirhreytur hennar í Landanum á sunnudaginn, þegar hann fór að vitja kinda í einni af úteyjum Vestmannaeyja. Og enn hélt sauðamessan á RÚV áfram og nú í heimildamynd einni sem Herdís Þorvaldsdóttir leikkona er skrifuð fyrir. Ekki er þó hægt að segja að þarna hafi verið um heimildamynd í eiginlegum skilningi að ræða, heldur öllu frekar um frekar lélega og einhæfa áróðursmynd. Án þess að í myndinni kæmu fram nokkur almennileg rök var því haldið fram að blessuð sauðkindin væri búin að ganga svo frá gróðurlendi landsins að það ætti sér ekki viðreisnar von. Ef til vill væri þó hægt að bjarga því sem bjargað yrði með því að banna lausagöngu búfjár.

Það vekur athygli að langflestir sem þarna voru leiddir fram eru Reykvíkingar sem margir hverjir hafa sennilega ekki mjög mikið vit á búskap. Menn gera sér ekki grein fyrir því hversu erfitt það yrði í framkvæmd að girða af öll beitilönd fyrir sauðfé á Íslandi. Ef talað er um ofbeit nú þegar þá myndi ofbeitin auðvitað ekki minnka ef féið myndi fara að bíta gras allt árið um kring á litlum, afmörkuðum svæðum. Þar við bættist auðvitað að lambakjötið okkar dásamaða myndi fljótt missa sitt frábæra bragð ef féið hætti að ganga á villtum afréttum. Villibráðarbargðið er einmitt eitt helsta sérkenni íslensks lambakjöts. Og ef fækka ætti sauðfé svo um munaði er erfitt að sjá hvað við ætti að taka í landbúnaði hér á landi.

Það er ekki blessuð sauðkindin okkar sem ein hefur valdið uppblæstri og gróðureyðingu, sú neyð sem skapaðist á Íslandi við kólnun loftslags eftir um fimmtánhundruð átti sennilega stærstan þátt í því að fjallkonan er nú ef til vill farin að hrópa á hjálp.


Mannréttindi hér og þar

Á þessari stundu berst fjórtán ára stúlka fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Pakistan. Hún var særð alvarlegu skotsári af náungum sem ekki höfðu önnur rök gegn því að stúlkur gengju í skóla.

Við fyllumst auðvitað viðbjóði að menn skuli á þennan hátt misnota trúarbrögð. Það stendur örugglega hvergi í Koraninum að stúlkur sem óski sér menntunar eigi að deyja fyrir. Og þetta sýnir okkur að hinir svokölluðu Talibanar eiga sér engan þegnrétt í samfélagi þjóðanna.

En nú vaknar spurningin: Erum við Vesturlönd algjörlega saklaus hvað varðar mannréttindi? Jafnvel við Íslendingar getum ekki með öllu fríað okkur að þessu leyti. Hér hefur það gerst til dæmis að börn hafa verið tekin frá móður sinni með lögregluvaldi og flóttamönnum hefur verið hent út í óvissuna þegar sjálfur innanríkisráðherra treystir einhverjum erlendum stjórnvöldum.

Með lögum skal land byggja segir fornt spakmæli, en ofar lögum hljóta mannréttindi að teljast. Byssur geta ekki þaggað niður í sannleikanum, orðið mun alltaf sigra.  


Bjarnarflag í brennidepli

Í einhver ár hefur staðið til að virkja í Bjarnarflagi og gott ef ekki er búið nú þegar að virkja eitthvað þar. Sveitarstjórn hafði að ég held veitt framkvæmdaleyfi og til er einhver viljayfirlýsing ríkisstjórnar og heimamanna í Þingeyjarsýslu um iðnaðaruppbyggingu. Eitthvað mun vera byrjað að undirbúa þessar framkvæmdir þarna í Bjarnarflagi og enginn svo sem tekið mikið eftir því þegar allt í einu birtist frétt um það að einhverjir hafi eitthvað við þessa framkvæmd að athuga. Menn tala allt í einu um að framkvæmdirnar geti stefnt viðkvæmu lífríki Mývatns í hættu.

Það er merkilegt að menn skuli ekki hafa áttað sig á þessu fyrr, en fari nú allt í einu að reyna að stöðva framkvæmdirnar og fer þar hún Svandís okkar fremst í flokki. Nú er auðvelt að vera umhverfissinni og drekka sitt kaffi latte í 101. Mývatn er langt í burtu og því er allt í lagi að vernda það. En menn ættu stundum að líta sér nær. Hugsanlega er Reykjavík eitt versta náttúruslys Íslandssögunnar. Þarna er öllu saman safnað svo úr verður eitt hrikalegt umferðarkraðak með tilheyrandi mengun og enn á að bæta í með byggingu stórs landsspítala á sama svæðinu.

En umræðan um umhverfismál á Íslandi nær ekki til þess. Umræðan um umhverfismál á Íslandi fjallar í raun ekki um umhverfismál heldur um það að veita náttúrunni mannréttindi svo hún geti óhindrað haldið áfram að tefja fyrir lífskjarabata barnanna okkar. 


Ofneytendur borgi

Nokkra athygli hefur vakið hugmynd sem Gunnar Smári  og félagar hjá SÁÁ hafa sett fram þess efnis að hluti áfengisgjalds renni í sérstakan sjóð sem þeir geti sótt í sem orðið hafa illa úti vegna misnotkunar sjálfra þeirra á áfengi eða fjölskyldur þeirra. Rökin eru þau að um fjórðungur þeirra sem áfengi kaupi, kaupi um það bil 3/4 áfengismagns af því áfengi sem keypt er.Þetta kann rétt að vera en þó má þess geta að þarna gleymist ef til vill að nefna það fólk sem kaupir ef til vill mikið magn áfengis einu sinni til tvisvar á ári vegna sérstakra tækifæra svo sem afmæla, brúðkaupa eða stórveislna á borð við ættarmót. Hvað um það hugmyndin er alls ekki vitlaus og við getum útfært hana til fleiri sviða, þannig má hugsa sér að einhver hluti bensíngjalds og hraðasekta renni í sjóð sem efnalítið fólk geti sótt í vegna umferðaslysa sem það lendir í. Við getum hugsað okkur líka að ákveðin upphæð af skatti á sælgæti og gosdrykki renni í sjóð sem efnalítið fólk geti sótt í  til að fjármagna tannviðgerðir og ýmis fleiri mál mætti vafalaust finna þar sem þeir sem neyta einhvers hluta í óhófi greiði beint eða óbeint gjald sem standi straum af þeim afleiðingum sem tiltekin ofneysla veldur. 


Þeir eru komnir í jólin

Það var svolítið sérstakt að skreppa niður á Glerártorg í dag, 4. október. Engu er líkara en þeir séu þegar komnir í jólin þar, þó enn þá séu um það bil þrír mánuðir fram að hátíðinni miklu. Þegar mátti sjá smákökur og jólaöl sem þarna var stillt út og sjálfsagt verður ekki langt í fyrstu jólaskreytingarnar.

Þetta er í raun hluti af ákveðinni þróun sem að manni virðist gera vart við sig, að jólaundirbúningurinn sé stöðugt að færast lengra fram og einnig er viss tilhneiging til þess til dæmis að láta jólaljós loga eitthvað fram í janúar.

Ekki er að efa að sjálfsagt verður jóladansinn stiginn af engu minni krafti en undanfarin ár. Má jafnvel gera ráð fyrir að neyslan verði enn meiri en í fyrra því eitthvað virðast meiri peningar vera í umferð nú, þó vitanlega séu sennilega enn fleiri sem þurfa að leita á náðir hjálparstofnana en áður. Og aldrei skín fátæktin eins út og um jólin. Það er eins og ljós jólanna skerpi skuggatilveruna enn frekar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband