Þingeyskt loft

Eftir fréttir Stöðvar 2 á sunnudögum er á dagskránni þáttur sem nefnist Um land allt og er eins konar útgáfa Stöðvar 2 á Landanum hans Gísla Einarssonar á RÚV, þó að sumu leyti sé hann nokkuð ólíkur. 

Í gær var þessi þáttur staddur í Mývatnssveit og viðfangsefnið eiginlega það sem við getum kallað þingeyskt loft, en fjallað var um athafnamanninn Leif Hallgrímsson sem fyrst vakti athygli þegar hann spilaði með hinni vinsælu hljómsveit Hver, en stofnaði síðar flugfélagið Mýflug sem rekið hefur verið á sömu kennitölunni í um 20 ár. En þetta flugfélag byrjaði með eina litla rellu en hefur stækkað í það að sjá í dag um nærfellt allt sjúkraflug á Íslandi. Það er því þingeyskt loft sem flytur sjúklingana á sjúkrahús ef svo ber undir.

Sitt hvað athyglisvert kom fram í þessu viðtali og meðal annars sá ásetningur Leifs að halda höfuðstöðvum þessa flugfélags heima í sinni kæru Mývatnssveit, þar sem hann einnig rekur mjög sérstæða ferðaþjónustu meðal annars í fjósi.  En það var athyglisvert að hugsa um sjúkraflugið sem er svo mikilvægt í þessu stóra og afar strjálbýla landi og manni varð á að hugsa hvort að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé ekki svolítið á rangri vegferð núna. Maður spyr sig hvort það sé virkilega í þágu heilbrigðisþjónustu á Íslandi að reisa einhvern risavaxinn kumbalda í miðborg Reykjavíkur. Ekki síst ef þau áform ganga eftir að flytja innanlandsflugið burt. Það kom fram að oft er það spurning um mínútur hvort sjúklingur kemst undir læknishendur í tæka tíð. Nú spyr maður hvort að ekki væri vitlegra til dæmis að byggja upp miðstöð bráðaþjónustu á Akureyri, meira en orðið er ekki síst í ljósi þess að Akureyri verður líklega í framtíðinni miðstöð þjónustu við olíuleit. Einfaldlega vegna þess að hér er þegar fyrir hendi fjárfesting og ekki grundvöllur fyrir að byggja loftkastala austur á Langanesi eða annars staðar.

Eftir sem áður getum við gert nauðsynlegar endurbætur á Landsspítalanum en uppbygging á Akureyri mundi einnig létta af honum álaginu sem nú er. Við verðum að fara að hætta að hugsa svona miðlægt um hlutina. Ríkið er ekki bara Reykjavík, við erum öll þátttakendur í því.


Verðbólga gegn verðbólgu

Jólamálþófið er á fullu hjá þingmönnum þessa dagana. Það hyllir undir að fjárlögin verði loks afgreidd eftir langa og erfiða fæðingu og sjálfsagt fylgir hinn árvissi bandormur í kjölfarið á næstu dögum.

Hann er annars dálítið skondið fyrirbrigði þessi bandormur. Sagt er að þegar menn eru farnir að rétta sig af, eins og það er kallað, eftir fyllerí þá séu þeir farnir að eiga við áfengisvandamál að stríða. Þannig er þessu að nokkru leyti varið með bandorminn. Þar er verið að ýta undir verðbólgu með því að hækka ýmis gjöld í samræmi við verðbólgu síðasta árs. Verðbólgan sem hlýst af hækkuninni reiknast inn í framfærsluvísitölu og næsta ár þarf að framkvæma sömu hækkanirnar til að bæta upp verðbólguna sem hið fyrra frumvarp olli. Og hin svokölluðu lán heimilanna hækka og hækka með hækkun lánskjaravísitölunnar. Það er undarlegt að mönnum skuli ekki detta í hug eitthvert ráð til að rjúfa þennan vítahring, til dæmis mætti gera það með því að setja lög um að hækkanirnar í bandorminum fari ekki inn í lánskjaravísitölu.

Að fresta timburmönnum með því að drekka meira áfengi er engin lækning við þeim heldur er það aðeins frestun á vandanum.


Jólaþras

Bráðum fara jólasveinarnir að tínast til byggða einn og einn eins og venjulega á þessum tíma árs. Á sama tíma fara aðrir jólasveinar að tínast frá byggðum ef svo má segja, þið vitið þessir þarna við Austurvöll. Og að vanda er jólaþrasið byrjað hjá þeim þó svo ekki heyrist mjög mikið í Grýlu með gráa hárið og geislabauginn.

Að venju talar stjórnarandstaðan um ýtarlega umræðu um málin, umræðu sem stjórnarliðar kalla málþóf. Og vissulega má oft greina ýmis málþófseinkenni á umræðunni síðustu daga þegar menn standa í pontu og horfa yfir næstum auðan salinn þyljandi einhverja speki sem enginn heyrir og enginn hefur raunar áhuga á, en verður samt alltaf að hafa sinn gang formsins vegna. Þjóðin er auðvitað löngu hætt að fylgjast með þessu, hún er upptekin af öllum jólalögunum, jólaljósunum og síðast en ekki síst öllu auglýsingaflóðinu sem dynur á okkur og býður hitt og þetta sem ómissandi jólagjafir og alltaf fyrir alla fjölskylduna.

Jólin eru vissulega fjölskylduhátíð en reyndar er þessi fjölskylduhátíð orðin nokkuð útþynnt því allan ársins hring glymur klisjan "fyrir alla fjölskylduna" í eyrum okkar. Og enginn veit lengur hvernig skilgreina á fjölskyldu, erum við ekki bara öll ein stór fjölskylda ef út í það er farið?


Hið árlega kaupæði

Aðventan er varla gengin í garð, samt er hið árlega kaupæði þegar runnið á landsmenn. Í fjölmiðlum glymja auglýsingarnar, þarfar jafnt sem óþarfar jólagjafir, og allir eru komnir með jólin til þín.

Það er búist við að nokkur aukning verði á jólaverslun í ár miðað við undanfarin ár og Rannsóknarsetur verslunarinnar segir meira að segja að jólagjöfin í ár verði íslensk tónlist. Talið er að hver meðal Íslendingur eyði 43 þúsund krónum í jólagjafir og er þá líklega ekki þar með talin öll önnur eyðsla sem fylgir hátíðahöldunum, eins og til dæmis matur, drykkur, skreytingar og annað.

Verslunarstéttinni þykir sjálfsagt gott að fá þessa búbót fyrir áramótin þó svo virðist sem hún sé ekki alveg á flæðiskeri stödd miðað við þær ofboðslegu fjárfestingar sem eru hér á landi í verslun. En að sjálfsögðu er verslunarrými á Íslandi hið mesta á mann á Norðurlöndum og gott ef ekki jafnvel í fermetrum líka og það þrátt fyrir okurverðlagið í landinu. Raunar hlýtur hin gífurlega offjárfesting í verslun að eiga einhverja sök á þessu. Maður á erfitt með að skilja hugsunargang verslunareigenda sem reka sömu búðina á tveimur stöðum, nánast í göngufær hvora við aðra. Varla geta þessir menn verið að keppa við sjálfa sig með þessu. Maður hefur að minnsta kosti ekki heyrt að ein verslunin auglýsi lægra verð í Kringlunni heldur en hún auglýsir í Smáralindinni. Auðvitað gefur það auga leið að rekstrarkostnaðurinn er tvöfaldur þar sem að talsverðu leyti hljóta það að vera sömu viðskiptavinirnir sem versla í þessum tveimur búðum.

Þegar verslunin segir að þetta ástand sé að kenna sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu sem öll vilji fá verslun í sitt sveitarfélag þá eru þeir eiginlega að hengja bakara fyrir smið. Varla er það mikið í óþökk þessara verslunareigenda ef þeim er boðin verslunaraðstaða í einhverju sveitarfélagi. En neytandinn virðist láta þetta sér vel líka, hann mætir í búðina og kaupir jólagjafirnar á okurverði.

Neyslufylleríið er í algleymingi en timburmennirnir koma svo í febrúar en þá er alltaf hægt að rétta sig af með því að mæta í ræktina. Friða samviskuna með því að ná af sér jólakílóunum og greiða fyrir himinhátt verð enda líkamsræktin auðvitað miklu hollari ef vel er borgað fyrir hana.


Stolinn alheimur

Hann Bubbi okkar Morteins er í dálitlum vandræðum þessa daganna, hið stóra ÉG ætlaði að gefa út jólaplötu og setja þar á gullfallegt lag eftir John Lennon, Across the univers við texta Þórarinns Eldjárns. Er texti þessi mjög vönduð og góð þýðing á texta Lennons og flutningur Bubba allur hinn ágætasti. Samt sem áður var útgáfa plötunnar stöðvuð, ástæðan var sú að aðstandendum hennar hafði láðst að fá leyfi þeirra sem með höfundarrétt fara. Einmitt þessa daganna er verið að herða mjög allar reglur varðandi notkun á höfundarrétti og verður það til dæmis framvegis afar erfitt fyrir íslenska tónlistarmenn að setja á plötur svokallaðar ábreiður, lög sem einhver annar hefur samið en með þýddum eða frumsömdum íslenskum texta. Það mun oft verða erfitt að fá slík leyfi og að sögn Jakobs Frímanns Magnússonar nánast vonlaust ef til dæmis bítlalög eiga í hlut. Þó virðist Íslandsbanka líðast að nota bítlalag í auglýsingum sínum en hefur líklega þurft að punga út einhverjum milljónum fyrir og eru menn ekki að tala eitthvað um að rekstrarkostnaður banka sé mikill á Íslandi. En Bubbi á sjálfsagt engar milljónir enda lét hann útrásarvíkinga plata sig og þar af leiðandi er ekki líklegt að hann hafi miklil tækifæri til þess að stela þeim fallega alheimi John Lennon.


Sneypuför sjóarans

Björn Valur Gíslason, hinn Roð- og beinlausi skipstjóri úr Ólafsfirði, fór enga frægðarför suður til Reykjavíkur um helgina. Ætlunin var að sækja þangað gull og græna skóga í formi atkvæða handa sér í prófkjöri, en reyndin varð sú að hann fór að flestra dómi hina mestu sneypuför, náði ekki einu sinni 6. sætinu, enda ef til vill aldrei von til þess að hann fengi mikið brautargengi meðal hinna vinstri grænu umhverfissinna í 101 þar sem máltækið er ekki "þeir fiska sem róa" heldur öllu heldur "þeir stunda rányrkju sem fiska". Í því viðhorfi er vissulega ekki mikil sjómennskuviska fólgin. Líklega er þessi sneypuför samt eitt ljósasta dæmið um hinar tvær þjóðir sem sagðar eru byggja land þetta.

Ef til vill má segja að Sigmundur Davíð sé annað slíkt dæmi en öfugt. Þar ætlar höfuðborgarbúi að fara að gera sig gildan á landsbyggðinni, sjálfsagt án þess að þekkja nokkuð til mála þar.  Og má segja að hann sýni þarna nákvæmlega sama dómgreindarskort og skipstjórinn. Reyndar segja illar tungur að með framboði sínu sé Sigmundur Davíð að búa í haginn fyrir það að ná í eitthvað af væntanlegum olíugróða í sínu nýja kjördæmi og feta þar í fótspor fjölskyldunnar sem á sínum tíma náði sér í mikla og dýra Kögun með pólitískum bellibrögðum.

Vonandi sýna nú Framsóknarmenn á Norðurlandi eystra sömu skynsemi og hinir vinstri grænu Reykvíkingar sem höfnuðu aðskotadýrinu sem leitaðist eftir að troða sér inn á lista þeirra.


Veðurfréttir

Síðustu helgar hafa verið nokkuð svo leiðinlegar hér á Norðurlandi hvað veður snertir. Eilíf stórhríð með tilheyrandi fannfergi, ófærð og truflunum á samkomuhaldi.

Veðurstofan hefur svo sem staðið sig sæmilega í því hlutverki sem hún gegnir en sennilega háir það henni hve mjög hana skortir fjármagn. Veðurspásvæði eru stór og veðurlag getur verið með ýmsu móti innan þeirra svo nokkuð erfitt er að sjá fyrir hvernig það verður á hverjum einstökum bletti.

Stærð spásvæða er þó ekki eini vandinn því jafnvel getur veður verið mismunandi á tveimur stöðum hlið við hlið. Þannig finnst manni stundum svolítið hlægilegt að þeir skuli birta spá fyrir Höfuðborgarsvæðið þegar þar geta verið á sama tíma að minnsta kosti fjórar eða fimm tegundir af veðri sem sumar hverjar standa ekki nema nokkrar mínútur á hverjum stað.

Örugglega mætti þó bæta veðurfréttirnar. Manni skilst að til dæmis í Noregi séu gerðar svo nákvæmar spár að hægt sé að kalla upp spána fyrir nánast hvern sveitabæ á Íslandi. Mikið óskaplega væri nú gaman ef menn spýttu í lófana hjá Veðurstofunni og færu að gera alvöru spár fyrir fleiri staði en Höfuðborgarsvæðið.  


Útþynnt jól

Það er kominn 15. nóvember, dagurinn sem menn segja almennt að skammdegið hefjist. 

Jólin eru í nánd..... eða svo sýnist manni. Farið er að minnast á jólin í annarri hverri auglýsingu og jólaskreytingar eru farnar að sjást á götunum, svo ekki sé talað um búðirnar sem óðum fyllast af jólavarningi. Meira að segja mjólkin er komin í jólafötin. Það eru þó enn þá um það bil sex vikur til jóla..... en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Verslunin má alls ekki missa af jólagróðanum.

Samkvæmt könnun sem nýlega var greint frá telst meðal Íslendingurinn eyða liðlega 43 þúsund krónum í jólahaldið. Og hin sígilda fjögurra manna fjölskylda eitthvað tæpum 200 þúsundum. Bókaflóðið skellur á með miklum krafti og plötuflóðið kemur í kjölfarið. Allt er á hverfandi hveli.

En óskaplega finnst manni þetta allt byrja eitthvað snemma nú í ár. Hætt er við því að þegar blessuð jólin loksins koma verði flestir búnir að fá nóg af þeim og ef satt skal segja þá eru jólin í dag orðin svolítið úþynnt. Lítið fer fyrir hátíðleika og kyrrð. Svo langt er þetta gengið að manni er sagt að fólk sé jafnvel hætt að fara í hátíðarföt á jóladag og mæti jafnvel í jólaboðin íklætt gallabuxum og stuttermabol.

Nú var Jesús Kristur líklega alls ekki fæddur á jóladag og ekki heldur það ár sem við miðum fæðingartíma hans við. Samt fer ágætlega á því að við höldum upp á afmælið hans á þessari hundheiðnu hátíð þegar ljósið sigrar myrkrið. Og þeir sem hindra börn sín í því að njóta jólahátíðarinnar, fremja gróft mannréttindabrot. Mannréttindabrot sem menn hyggjast nú jafnvel stjórnarskrárverja. Jólin eru nefnilega annað og meira en trúarhátíð. Þau eru beinlínis nauðsynleg í myrkri norðursins til að sýna fram á það að ljósið sigrar myrkrið alltaf. En þau á ekki að útþynna. Við eigum að byrja seinna að undirbúa þau og fara fram með gleði en ekki óhófi.


Veður gerast válynd

Blessunin hún Svandís hefur farið með miklum látum allt sunnan úr Karíbahafi og norður um til austurstrandar Bandaríkjanna, skiljandi eftir sig slóð dauða og eyðileggingar. Það er svo sannarlega skap í henni blessaðri stúlkunni. Af hennar völdum hefur meira að segja þurft að loka einu stærsta musteri peningagræðginnar í heiminum, Kauphöllinni í New York.

Til eru þó þeir sem segja má að njóti nokkurs góðs af tilburðum hennar. Fyrir Obama forseta er hún að vissu leyti happafengur eins konar lottóvinningur, svona réttri viku fyrir kosningarnar. Hún hefur nefnilega gefið honum óvænt tækifæri til þess að vera í sviðsljósinu og stappa stálinu í þjóðina og virðist nokkuð vel hafa til tekist.

En það er víðar sem veður gerast válynd. Hér á Íslandi er nú að byrja það sem sumir kalla gamaldags stórhríð á Norðurlandi og er henni spáð í allt að fimm daga, jafnvel meira, með tilheyrandi samgöngutruflunum, rafmagnsleysi, niðurfellingu á kennslu í skólum og öllu þessu. Þrátt fyrir okkar miklu tækni og vísindi er eins og við kunnum ekkert ráð þegar náttúran bregður sér í þennan ham. Ljósin slokkna, bílarnir festast, flugvélar fara ekki á loft og mannamótum verður að aflýsa eða fresta. Jafnvel pólitíkin leggst í einhvers konar dróma, því allir hafa um annað að hugsa.

Sunnanfjölmiðlarnir hafa þó meiri áhyggjur af því þó að einhverjar hljómsveitir komist ekki á þessa Iceland airwawes tónleika, heldur en að fólk og fénaður fenni í kaf fyrir norðan. Fyrir margan höfuðborgarbúann er íslenska landsbyggðin nefnilega miklu fjarlægari í vitundinni en austurströnd Bandaríkjanna.


Ráðherrann bláeygði

Á þessum vettvangi hefur oft verið fjallað um blessaðan innanríkisráðherrann okkar og enn getur maður ekki orða bundist. Þannig er að í síðustu viku spunnust miklar umræður á milli hans og Sivjar Friðfinnsdóttur út af lögreglumálunum. Verið var að ræða frumvarp hans um skýrari lagaheimildir til handa lögreglu, varðandi símhleranir og aðra slíka vöktun í sambandi við rannsókn sakamála. Inn í þessar umræður blönduðust nefnilega þær hugmyndir sem komið hafa fram um að koma á svokölluðum forvirkum rannsóknarheimildum lögreglu. Siv taldi mjög áríðandi að lögregla fengi þessar heimildir en innanríkisráðherra vildi fara varlegar í sakirnar. Taldi hann þessar heimildir óþarfar þar sem glæpamennirnir hefðu örugglega það góða samvisku að þeir færu ekki að brjóta af sér sem ekki væri fyrirsjáanlegt, eða svo mátti túlka orð hans. Hugsanlega er ráðherra svona ótrúlega bláeygður því það er eitthvað nýtt ef glæpamenn eru komnir með svona ríka samvisku. Vissulega má misnota þessar ofvirku heimildir og með þeim þörf að hafa með þeim sterkt og öflugt eftirlit en við verðum samt að bíta í það súra epli að glæpir þekkja ekki lengur nein landamæri. Þó að Ísland sé lítið land þá er það ríkt land og hér er eftir ýmsu að slægjast ekki síst ef lögreglan er vanbúinn að gegna skyldu sinni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband