Gnarrinn og utangarðsmennirnir.

Jón Gnarr er einn þekktasti grínari landsins og mörgum þótti það nokkurn veginn rökrétt framhald af öllu gríninu þegar hann mætti á BORGARVAKTINA.  Segja má að Gnarrinn sé sossem hinn ágætasta fulltrúi síns byggðarlags, þó stundum verði honum dálítill fótaskortur á  í hagsmunagæslunni.  Nú á dögunum urðu nokkrar umræður um vanda útigangsmanna í borginni.  Tók hann þátt í umræðu þessari, taldi vanda þennan að sjálfsögðu mikinn og nefndi meðal ástæðna hans að útigangsmennirnir leytuðu allir til Reykjavíkur, sama hvaðan þeir kæmu að á landinu, enda væri ekkert úrræði til fyrir útigangsmenn annarsstaðar en í Reykjavík.  Vildi hann færa rök fyrir því að önnur sveitafélög tæku þátt í kosnaði þeim sem Reykjavík hefði af þessu.  Nú skal þess getið að hér gætir svolítils misskilnings.  Það eru enginn úrræði til fyrir útigangsmenn utan Reykjavíkur, vegna þess einfaldlega að þar eru nánast engir útigangsmenn til, jafnvel hér á Akureyri hafa tilraunir til að koma á fót stétt útigangsmanna ekki borið árangur.  Til þess er bærinn allt of fámennur og félagsþjónustan líklega of góð.  En etv ætlast Gnarrinn til að þjóðin borgi fyrir þann lúxus að eiga svona dásamlega höfuðborg, með alla sína leiki en ekkert brauð, enda engir peningar til að sinna félagsþjónustu.

Okrað á sjúklingum.

Það fer víst ekki framhjá neinum að heilbrigðismál eru í hinu mesta ólestri á Íslandi í dag.  Nýjasti hluturinn á þessu máli og etv sá alvarlegasti er skýrsla ein sem birt hefur verið um kosnaðarþáttöku sjúklinga, sem á Íslandi er mun meiri en annarsstaðar á norðurlöndum, reyndar þarf ekki mikið til því kosnaðarþáttakan er sumsstaðar engin, td í Danmörku.  Sagt hefur verið frá krabbameinssjúklingi sem þurfti að fara til tannlæknis vegna hliðarverkanna af lyfjagjöf, en kostnaður hans slagaði hátt í milljón.  Aðspurður sagði hinn pólitíski bittlingur, forstjóri sjúkratrygginga, að engar sannanir lægju fyrir um að þetta væri vegna lyfjagjafar og fékk hann því neitun á endurgreiðslu og forstjórinn bætti um betur þegar hann sagði að einhverjar reglur kæmu í veg fyrir það að 140 milljónir sem voru afgangs mætti nota til að borga þennan kostnað.  Það mátti næstum því finna lyktina af hroka þeim og virðingarleysi gagnvart öðrum sem maðurinn sýndi í sjónvarpsviðtalinu.  Sagt er að íslendingar greiði óhæfilega háa skatta en fái lítið sem ekkert fyrir vegna áralangrar óstjórnar í efnahagsmálum, sem leitt hefur til þess að landið er skuldugt upp fyrir haus.  Af þessari braut verður að snúa hið fyrsta, líklega þarf að hugsa öll heilbrigðismál á Íslandi upp á nýtt. Það sem gera þarf strax er að heilsugæsla verði gjaldfrjáls og um leið að koma á tilvísunarkerfi, hækka þarf allar endurgreiðslur hjá fólki sem á þarf að halda þannig að efnahagur ráði ekki lengur því hvaða læknisþjónusta er veitt.  Við verðum að hætta að hugsa um steinsteypu og fara að hugsa um manneskjur.


Vonlaus vonarhátíð.

Trúarsöfnuðir landsins blása til uppákomu mikillar í Reykjavík í lok september.  Er þjóðkirkjan meðal þeirra sem samþykkt hafa að taka þátt í samkundu þessari sem kennd er við vonina, þó svo manni sýnist í augnablikinu að hátíðin sé næsta vonlaus.  Svo slysalega vill nefnilega  til að einhverjir forsprakkar hátíðarinnar buðu hingað sem aðalstjörnu syni hins fræga predikara Billy Graham, sem af mörgum er talinn einskonar tákngervingur hinnar hægri sinnuðu kristni í vesturríkjum Bandaríkjanna, sem hvað skýrast hefur komið fram í svokallaðri teboðs hreyfingu innan republikana flokksins. 

Piltungi þessi er hvað þekktastur hér á landi fyrir andúð sína á samkynhneygðum, sem ekki rímar alveg við boðun þjóðkirkjunnar og maður spyr sjálfan sig hvaða erindi þessi maður eigi á samkristilegri samkomu á Íslandi.  Sú spurning vaknar hvort það hefði jafnvel ekki verið meira við hæfi að bjóða t.d páfanum, sem að sönnu hefur ekki lýst yfir samstöðu með samkynhneygðum en hefur að mörgu leyti sýnt gott fordæmi með því að fara eftir kenningu krists um einfaldleika og fátækt. 


Framsóknarvelferð.

Hún Eygló okkar velferðarráðherra hefur sína sérstöku skoðanir á velferðarmálum.  Öðrum en framsóknarmönnum er ekki almennilega treystandi til að sjá um þessi mál.  Vinsælum og vel metnum manni hefur verið ýtt út úr stjórn, svokallaðar MPA miðstöðvar af því að virðist eingöngu vegna þess að hann var ekki með flokksskírteinð í lagi.  Aumingja Eygló treystir ekki manni af því að hann var í starfi áður en að hún kom.  Annars er þetta mál svolítið dæmigert, á Íslandi snúast stjórnmál ekki um hugsjónir eða stefnur....heldur bittlinga.  Þar af leiðandi er enginn fær um að skipuleggja nýja þjónustu fyrir fatlaða nema hann sé framsóknarmaður, eingöngu vegna þess að ráðherrann er framsóknarmaður, líkt og gerðist í sumar með lánasjóðinn þar sem Illugi setti eingöngu flokksgæðinga og vini í stjórn með þeim afleiðingum að það kostaði tap ríkissins í dómsmáli.  Og það er fleira sem er svolítið sérstakt við framsóknarvelferðina, þegar bæta skildi bótaþegum almannatrygginga skerðinguna sem varð í hruninu, var það að sjálfsögðu forgangsmál að bæta þeim skerðinguna sem best stóðu að vígi, einkum handfylli af velstæðum eftirlaunaþegum.  Venjulegir öryrkjar og ellilífeirisþegar verða sennilega að bíða þar til næsta hrun skellur yfir.


Framhaldssagan um flugvöllinn

Enn heldur framhaldssagan um flugvöllinn áfram. Þessi endalausa saga um það hvort flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni eða hvort Vatnsmýrin skuli afhendast byggingabröskurum borgarinnar.

Undirskriftasöfnun er senn í lengingu og kvað hafa gengið svo vel að jafnvel slær Icesave út. En það verður að segjast að þessi deila er svolítið hlægileg. Baldur frændi og fleiri góðir Reykvíkingar átta sig ekki á þeirri staðreynd að það mun koma verst niður á Reykjavík af öllum stöðum ef flugvöllurinn fer. Það munu ekki aðeins tapast um það bil þúsund störf heldur munu helstu forsendur ofurmiðstýringarinnar á stjórnkerfi Íslands bresta.

Þetta er ekki bara galli því það mun loks neyða landsbyggðina til að fara að bjarga sér sjálf án þess að bíða eftir dúsunum að sunnan. Og það er enginn sem segir að hátæknisjúkrahúsið þurfi að vera þarna við Hringbrautina ef sjúkraflugið leggst af. Allt þetta sýnir manni fram á þá staðreynd að líklega mun flugvöllurinn aldrei fara úr Vatnsmýrinni.

Önnur hætta sýnu meiri en lokun Reykjavíkurflugvallar stafar að innanlandsfluginu.

Svo fáránlega vill til að það getur nú oft verið ódýrara fyrir Reykvíking að fara til Kaupmannahafnar eða London heldur en til Akureyrar. Innanlandsflugið er á góðri leið með að verðleggja sig út af markaðnum og ekki mun bæta úr skák það sem þegar heyrist að kolvetnislosunarheimildirnar sem Evrópusambandið mun selja muni enn hækka hið háa verð á innanlandsflugi. Ögmundur gerði sitt til að skattleggja innanlandsflugið í topp en ekki afnam nýja stjórnin þennan skatt heldur skyldi lækka skattinn sem útlendingar borga fyrir hótelgistingu. Og ekki hafa heyrst tillögur um að gera hér eins og til dæmis tíðkast á Spáni þar sem flug er niðurgreitt fyrir vissa íbúa landsbyggðarinnar. Heldur er stefnan sú að reyna að loka fyrir alla þá sem bjóða upp á ódýrari samgöngur til hinnar ástsælu höfuðborgar.   


Veðurfréttir

Það hefur mikið verið spjallað og skrafað um veðrið í fjölmiðlum þetta sumarið.  Fram eftir öllu lá drungi og rigning yfir fjölmiðlum landsins ásamt meðfylgjandi kulda og þunglyndi.  Þjóðin þ.e.a.s Reykvíkingar ( samheiti yfir Íslendinga) var blaut í gegn, þ.e.a.s að sá hluti þjóðarinna sem ekki átti peninga til að fara til sólarlanda, en ekkert var talað um hina sem fóru norður og austur.  Þetta var liðið sem ekki átti aur og þess vegna töldust það ekki menn með mönnum á nýja landinu.  En allri rigningu slotar og allt í einu var rigningin horfin.  Fólkið tók gleði sína og þegar kuldinn nánast gjöreyðilagi Eina með öllu um verslunarmannahelgina á Akureyri, sögðu fjölmiðlarnir fyrir sunnan allt að því....gott á Akureyringa, þeir eru búnir að hafa það svo gott.  En verðufréttir þessa sumars eru skólabókardæmi um það hvernig miðstýrt og heimóttarleg íslensk fjölmiðlun er orðin, hvort sem það eru skattgreiðendur eða fyritækin sem hana kosta, þó í rauninni sé munurinn á þessu í sjálfu sér enginn. 

Hinseginn eða þannig.

Það er mikið hinseginn í fjölmiðlum þessa dagana og það svo að mönnum finnst stundum að hinseginn sé orðið allt að því hið venjulega, eða þannig.  Þetta gerist alltaf einu sinni á ári, viku eftir verslunarmannahelgi þegar haldin er hátíð til heiðurs samkynhneigðum í Reykjavík.  Nú spyr maður sjálfan sig hvort samkynhneigð sé ekki venjuleg nema eina viku á ári.  Maður spyr sig hvort samkynhneigðir líti enn á sig sem eitthvað öðruvísi, vissulega eru þeir öðruvísi en aðrir, það eru líka fatlaðir, örvhentir, dvergvaxnir, akfeitir og þvengmjóir.  Allt er þetta fólk einhvernveginn öðruvísi af Guð gert og samkynhneigðir eru það líka þó menn haldi að einhverju öðru máli gegni um samkynhneigða.  Þess má þó geta að sumir hinna fyrrnefndu hafa þó mátt til skammst tíma þolað  fordóma líkt og samkynhneigðir og etv. verður þess ekkert of langt að bíða að samkynhneigð verði álitin álíka eðlileg eins og t.d. sjóndepra eða þroskahömlun, sem er í raun miklu meira tálmandi fyrir fólk.  Samkynhneigð er einfaldlega einhverskonar líffræðilegur eiginleiki sem enginn veit af hverju er sprottinn og verður ekki læknuð frekar en önnur mannsins hörmung, en samkynhneigðir verða þá líka sjálfir að líta í eigin barm og gerast fullir og eðlilegir þáttakendur í samfélagi án mismunar.  Ekki dettur fötluðum manni í hug að koma út úr skápnum og auglýsa fötlun sína á götum og torgum. 

Hæfniskröfur Illuga.

Mörgum þykir amerískar sápuóperur ekkert sérlega merkilegt sjónvarpsefni, en þó eru þær vinsælar og sama serían gengur jafnvel árum og áratugum saman.  Ein svona syrpa hefur lengi gengið á stöð 2 og heitir The bold and the beautiful, eða eitthvað í áttina glaður og fallegur.  Þessa syrpu þýðir í verktöku kona ein sem píratarnir gerðu þá reginskyssu að velja sem sinn pólitíska vörð í stjórn ríkisútvarpsins.  Illugi sá þetta og honum varð það hverft við og heimtaði að rannsökuð yrði hæfni þessarar ágætu konu.  Auðvitað var voðinn vís að fara að hleypa einhverr gellu sem þýddi sápur hjá keppinautnum inn í sjálft musteri íslensku menningar.  Að sjálfsögðu hlýtur Illugi að eiga miklar þakkir skilið fyrir að hafa komið þarna íslenskri tungu og menningu til bjargar þegar svo harkalega var að henni vegið að einhverju útlensku píratahyski.  Vonandi mun honum áfram takast vel upp að kanna hæfni þeirra sem sinna munu menningarmálum þjóðarinnar.  Til Kollu Halldórs gerði hann engar hæfniskröfur, lögunum var einfaldlega breytt.

Furðuleg forgangsröðun.

Hún er svoldið furðuleg forgangsröðunin á blessuðu alþinginu núna.  Menn eru hver í kapp við annan að samþykkja frumvörp sem annaðhvort rýra tekjur ríkissjóðs eða þá auka útgjöld hans.  Allt á að gera fyrir hina betur settu, hinir mega éta það sem úti frýs.  Menntamálaráðherra ásamt jábræðrum sínum hjá lánasjóði þrengir hag námsmanna en má þó varla vera að því svo mikið liggur á að koma Kollu Halldórs burt úr stjórn Ríkisútvarpsins.  Nú skal það tekið fram að sá sem þetta ritar er ekki einn af einlægustu aðdáendum Kollu, hún var á sínum tíma einhver leiðinlegasti þingmaður sem um getur en um þekkingu hennar á menningarmálum þarf ekki að efast og því á hún fyllilega heima í stjórn Ríkisútvarpsins, amk miklu betur en það þingmanna lið sem ætlar sér að fara að stjórna því, vitanlega með það að leiðarljósi að koma því undir vökula stjórn Flokksins.  Þeim nægir ekki bláskjárinn hans Ingva Hrafns heldur verða þeir einnig að sölsa undir sig eign almennings í landinu sem er Ríkisútvarpið.  Ef þetta á að verða forgangsröðunin næstu 4 ár fer sennilega að harðna mjög á dalnum fyrir lýðræði og skoðunarmyndun í þessu landi, en brauð og leikir munu framreiddir fyrir auðstéttina. 

Persónunjósnir

Persónunjósnir hafa nokkuð verið til umfjöllunar að undarförnu, ekki síst eftir uppljóstranir Snowdens um víðtækar hleranir Bandaríkjastjórnar á símum og tölvusamskiptum.  Þessi Snowden sem Hanna Birna vill víst alls ekki sjá segir að sama eigi að gilda um hann og alla aðra fljóttamenn, en persónunjósnir hafa einnig komið svolítið til umræðu hér vegna frumvarps sem nú liggur fyrir alþingi þess efnis að Hagstofunni verði heimilað að afla upplýsinga um fjárhag, bæði heimila og fyrirtækja.  Ekki er þó ljóst hvort þetta nái til allra skulda einstaklinga, til að mynda greiðslukortaskulda, en ljóst er að þá er komið ansi langt inn á svið einkalífs manna.  Allt er þetta gott og blessað, en í öllu þessu máli verður fyrst og fremst að hafa í huga að fyllstu persónuverndar sé gætt.  En það er eitt sem benda má á í þessu sambandi, hér á landi eru þessar fjárhagsupplýsingar til, einkafyrirtæki safnar þessum upplýsingum og afhentir fjármálafyrirtækjum, gott ef ekki gegn gjaldi.  Segja má að þetta skítafyrirtæki Kredit info hagnist þannig á ógæfu annarra.  Maður getur lent fyrir litlar sakir inn á svartan lista þar en það getur jafngilt fjárhagslegri bannfæringu í 5 ár.  Áður en menn fara að huga að því að koma upp fjárhagsnjósnum hjá Hagstofunni ætti maður fyrst að gera gangskör á því að loka fyrir svona starfsemi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband