25.11.2009 | 15:25
Blásið til útþynningar
Í gær þriðjudaginn 24.nóvember sameinuðust svæðisútvörpin á norður og austurlandi og var til þeirrar útþynningar blásið með miklum bæslagangi nokkrum dögum fyrr. Talað var um hið nýja öfluga svæðisútvarp með heilum 5 fréttamönnum. Menn gleymdu því bara að fréttamennirnir voru jafnmargir áður bara í tveim stöðvum en nú verða þeir formlega á einni stöð. Þarna er auðvitað um útþynningu að ræða vegna þess að umfjöllunin um málefni hlýtur alltaf að verða yfirborðskenndari eftir því sem útsendingarsvæðið stækkar. Svæðisútvörpin voru upphaflega sett á laggirnar til að annast staðbundna fjölmiðlun þar sem með réttu var álitið að Ríkisútvarpið væri mjög svo Reykjavíkurmiðað. Enda kallaði það sig útvarp Reykjavík og gerir svo enn. Það gefur auga leið að hin staðbundna fjölmiðlun verður ekki staðbundnari með því að stækka útsendingarsvæðið. Manni grunar að þetta sé ef til vill fyrsta skrefið í þá átt að leggja svæðisútvörpin niður eins og reynt var í fyrra. Næst verði allar stöðvarnar sameinaðar í eina og hún svo sameinuð þeirri fyrir sunnan. Þetta er sama stefna og í ýmsum öðrum málum, þannig á t.d. að gera landið að einu skattumdæmi, stofna einn héraðsdóm fyrir allt landið og jafnvel síðan einn lögreglustjóra. Vitanlega verður enginn sparnaður af þessu en nú verður bara hægt að stjórna öllu landinu alveg frá einum litlum bletti í miðborg Reykjavíkur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.