27.8.2009 | 16:17
Aðgengislaust fyrir alla
Því er oft haldið fram að á Akureyri sé veitt besta þjónusta við fatlaða á landinu. Þetta má rétt vera að mörgu leiti t.d. hvað varðar búsetuúrræði, liðveislu og annað það sem að bæjarfélaginu snýr. En margt er það samt sem úr má bæta. Í öllum bænum er ekki eitt einasta kaffihús fyrir utan te og kaffi í eymundsson þar sem aðgengi er fyrir hjólastóla og klósettin á þessum stöðum eru yfirleitt annað hvort uppi á lofti eða niðri í kjallara. Í göngugötunni svokölluðu sem reyndar hefur ekki verið göngugata í manna minnum er ekki að finna eitt einasta bílastæli merkt fötluðum. Reyndar má segja að ef til vill sé það stundum til einskis að merkja þessi stæði fötluðum því þau ertu oft upptekin af heilbrigðu fólki og löggan auðvitað hvergi sjáanleg. Menn tala mikið um að færa þurfi upp alls konar kostnað vegna verðbólgu samanber fréttina í sjónvarpinu í gær um ódýru skólamáltíðina. Þetta ætti bæjarstjórn Akureyrar að athuga svolítið. Hreyfihamlaðir hafa um árabil fengið niðurgreiddan leigubílakostnað. Niðurgreiðsla þessi var á sínum tíma ákveðin 600 kr. Síðan eru liðin 15 ár og menn hafa allan þann tíma verið duglegir að uppfæra alls konar kostnað vegna verðbólgu þeirrar sem verið hefur en ekki þetta. Halda mætti að bæjaryfirvöld álíti að leigubílar kosti það sama nú og fyrir 15 árum. Því er hér vinsamlega beint til bæjaryfirvalda að þau kanni þetta hjá leigubílastöð bæjarins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.