Fækkar í fjósinu

Af því hafa borist fregnir að farið sé að fækka í fjósi því sem kallað er Ísland og sem meðal annars er þekkt fyrir þá megnu lykt sem frá því leggur um öll fjármálakerfin í Evrópu. Rotturnar, það er að segja útrásarvíkingarnir hafa þegar yfirgefið sökkvandi skipið og fleiri hugsa sér til hreyfings. Að áliti mannfjöldafræðinga er þó atgervisflótti ekki hafinn enn heldur sé hér fyrst og fremst um að ræða erlent farandvinnufólk sem hingað var flutt sem eins konar eldiviður á þennslubálið. Líklega er þetta rétt ályktað þar sem fækkunin er hvað mest á austurlandi og í Reykjavík. En aftur á móti fjölgar fólki t.d. á hinum voluðu Vestfjörðum. Ef til vill er bankaliðið að uppgötva það að peningar vaxa ekki á trjánum. Við getum þó ekki útilokað það að hér bresti á atgervisflótti þar sem líklegt er að þeir sem verst verða fyrir barðinu á kreppunni sé fólk á neyslualdri, þetta 18-40 ára. Fólk með risavaxnar skuldir og oft mikla ómegð. Fólkið sem á máli stjórnmálamanna er kallað heimilin í landinu. Erfitt er að sjá hvernig stemma má stigu við þessu, auðvitað þyrfti einhvernveginn að auka neyslu í þjóðfélaginu með öðrum orðum: bæta lífskjörin en það er víst ekki á dagskrá heldur hið gagnstæða. Við erum þess vegna í vítahring stöðnunar og fátæktar sem menn hafa komið okkur í en neita að biðjast afsökunar. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband