4.2.2009 | 17:36
Gamla vínið
þá er nú gamla vínið komið á splunkunýja belgi. Heilög Jóhanna og Steingrímur farin að sænga saman og hyggjast halda sínum samförum áfram að minnsta kosti til 25. apríl. Jú, þetta eru nýir belgir. Minnihlutastjórn með ópólitískum ráðherrum en heldur er nú vínið í þessum nýju belgjum orðið gamalt. Rósrauð Jóhanna ásamt firrum þjóðvakastelpu og svo hinn veginn, gamli góði Steingrímur frá Gunnarstöðum ásamt liði sem sérhæfir sig í neikvæðni og hippaleg stúlka líklega sófa náttúruverndarsinni komin í menntamálin. Fyrir utan sérfræðingana tvo er hérna ekki um neitt stórfenglegt nýnefni að ræða enda sýnist manni fólkið eiga svolítið erfitt með að komast upp úr hjólförunum og hvorugur virðist vilja vægja í sérmálum sínum. Þannig vill Kolla stúta álverinu á Húsavík, Steingrímur norska krónu en Jóhanna evru og enginn veit sitt rjúkandi ráð. Framsókn hitnar svo eins og púkinn á fjósbitanum vitandi það að hún er allt í einu orðin valdamest flokka á Íslandi þó fylgið sé bara 7%. Að sönnu lék hún afleik í stjórnarmyndunarviðræðum af því að hún hélt að hún ætti að fá að vera með í stjórninni. En það er ekki bara á vinstri vængnum sem nýir belgir eiga að fara að birtast. Sjálfstæðisflokkurinn boðar nýja forustu og óháða, þar er vonarpeningurinn. Maður sem ber eitt fínasta pólitíska nafn á Íslandi; Bjarni Benediktsson náfrændi fyrrverandi dómsmálaráðherra og fæddur inn í eina fínustu ætt landsins. Til nýjunga má nú teljast að hann hefur verið við stjórn olíufélags. Keppinautar hans eru álíka mikið nýnæmi, kynbomban úr menntamálaráðuneytinu og fyrrum heilbrigðisráðherra sem afrekaði það helst að taka upp innritunargjald á sjúkrahús og flytja skurðstofur úr hafnarfirði til vina sinna í Keflavík. Sjálfsagt með viljugu vitund Eyjapeyjans sem þar er bæjarstjóri en sem einnig er nefndur til formennsku. Þá má að lokum geta þess að ekki er allt sem sýnist með endurnýjunina hjá framsókn. Það hefur hvergi komið fram í fjölmiðlum að nýr formaður hennar er sonur fyrrverandi þingmanns framsóknar Gunnlaugs Símonsonar sem frægur var þegar hann í gegnum fyrirtækið sitt Kögun komst yfir alla þjónustu við ratsjárstöðvar NATO hér um árið. En þetta var einn feitasti biti sem hægt var að ná í þá.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.