16.12.2008 | 17:49
Kjaftshögg á Lýðræðið
Lýðræðið fékk á sig svolítið kjaftshögg í gær þegar upplýst var að ritstjórn DV hefði hafnað frétt eða grein eins blaðamanna sinna vegna þrýstings frá eigendum sínum. Upp um strákinn Tuma komst þegar spiluð var upptaka af símtali milli ritstjórans og umrædds blaðamanns. Allt þetta kemur nokkuð á óvart. Reynir Traustason hefur í augum margra verið eitt helsta tákn ágengrar rannsóknablaðamennsku hér á landi og stundum gengið nokkuð langt. Eins og þegar hann lét stúlku ráða sig á elliheimilið Grund til að geta skrifað umdeilda úttekt á starfseminni þar. En nú bregður svo við að Reynir virðist allt í einu vera orðinn þægur þjónn Björgólfs eða einhverra annarra. Má vera að hann hafi tekið þessa ákvörðun til að bjarga störfum blaðamannanna en ólíkt hefði manni nú fundist það stórmannlega ef hann hefði hreinlega birt fréttina og aðra frétt um það að hann hefði verið beittur þrýstingi. Einnig hefði hann sem best getað lekið henni til annarra fjölmiðla og skýrt þannig frá því að hann þyrði ekki að birta hana. Það gefur auga leið að nú á þessum myrku krepputímum er frjáls, óháð og ágeng fréttamennska nauðsynleg sem aldrei fyrr. Manni finnst allt of mikið um það, að fréttamenn hlífi ráðamönnum. Auk þess sem miskunnarlaust er skorið niður á fréttastofum svo þær geta ekki með góðu móti valdið hlutverki sínu. Þess í stað er Gróa á leiti orðin fyrirferðamesti og hugsanlega áhrifamesti fjölmiðill landsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.