12.12.2008 | 21:17
Neikvæður jöfnuður Stjána
Stjáni Blái sem eitt sinn var bæjarstjóri á Akureyri mætti í Kastljósið í gærkvöldi til að eiga orðastað þar við Steingrím J. Sigfússon frá Gunnarstöðum. Hugðist bæjarstjórinn fyrrverandi nú heldur betur taka hinn vinstri græna bóndadurg í bakaríið og hóf upp miklar tölur um það að nú þyrfti heldur betur að spara og draga saman. Ein var sú speki sem hlaut að munni hins fyrrverandi bæjarstjóra þess sem reyndar er búinn að hrökklast frá að minnsta kosti tveim sveitarfélögum áður en hann kom til Akureyrar og það er sú speki að bótaþegar þurfi að taka á sig skerðingu rétt eins og aðrir. Nú kann rétt að vera að bótaþegar þurfi að taka á sig skerðingu, nema hvað, þeir tóku bara aldrei á sig neitt af góðærinu með það var og hét. Það voru ekki bótaþegar almannatrygginga sem voru með 62 milljónir í mánaðalaun, þeir hafa fæstir keypt sér dýra jeppa eða flatskjái og enn færri eignast digra sjóði til að hlaupa með í þrot! Rétt er það, þeir sem fá 150 þúsund á mánuði fá að halda sínu en óskaplega er það nú eitthvað lítið þessi 150 þúsund kall í allri verðbólgunni. Auðmenn sem aldrei hafa þurft að taka þátt í samneyslunni verða enga skerðingu að þola, þeir fá allir verðhækkanir umyrðalaust og meira að segja var með hraði fyrir nokkru breytt reglugerðum svo vínbúðirnar gætu hækkað nógu oft þegar þeir fengju verðin frá heildsölunum. Raunar datt engum í hug að fara nú að setja á hátekjuskatt. Hátekjuskatturinn á að vera vinnuletjandi og helst leggjast á ungt framtæknasamt dugnaðarfólk. Það kemur svo sem ekkert á óvart þó að svona heyrist úr munni sjálfstæðismanns. Sjálfstæðismanns sem meira að segja hefur svikið sína heimabyggð nokkrum sinnum í atkvæðagreiðslum á þingi í von líklega um ráðherrastól sem hann ætti þó að vita að búið er að ráðstafa stólnum fyrir löngu handa Engeyjarættinni. Hitt vekur furðu að Samfylkingin skuli dröslast með í þessa vitleysu. Það er jafnvel alveg slokknað á geislabaugnum hjá heilagri Jóhönnu. En víkjum aftur að bæjarstjóranum okkar fyrrverandi sem ætlaði sér án efa mikils ferils í pólitík. Illar tungur á Akureyri segja að hann hafi verið kosinn á þing eingöngu til þess að losna við hann úr bæjarstjórn en af því er best er vitað situr hann þar þó enn sem fastast. Líklega vegna launanna. Því þó hann álíti að bótaþegar almannatrygginga eigi að taka skerðingu þá gildir ekki það sama um fyrrverandi brottrekna bæjarstjóra!
Athugasemdir
Með allri virðingu við hann Kristján Þór þá hef ég enga trú á honum. Þessi maður afhenti kvótann okkar Vestfirðinga til samherja.
Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 21:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.