21.11.2008 | 14:42
Reykvíkingar
Reykvíkingar eru þjóðflokkur sem líkt og margar kindur halda sig helst í túninu heima. Er slíkt fólk oft kallað heimóttarlegt. Þjóðflokkur þessi hefur á undanförnum árum orðið hvað frægastur fyrir að byggja glæsilegar hallir og babelsturna Mammoni til dýrðar. Þetta var auðvitað allt gert fyrir peninga sem ekki voru til og eftir dýrðarveislurnar í höllum þessum komu svakalegir timburmenn svo ákafir að þjóðfélagið nánast féll á hliðina. En Reykvíkingar dóu ekki ráðalausir. Þegar krónan okkar blessuð var orðin nógu djúpt sokkin tóku þeir að bjóða útlendingum í veisluna. Enda veisluföngin ennþá ekki uppurin. Að sjálfsögðu hafa Reykvíkingar fyrir löngu gleymt því að eitthvað sé til sem heitir landsbyggð. Hún má bara éta það sem úti frýs og varla það. Ekki er þó eingöngu illsku þeirra að kenna heldur líka fordómum sem eins og aðrir fordómar spretta af vanþekkingu. Hér skal sögð lítil saga sem sýnir þetta.
Nokkuð lengi hefur til staðið að sá sem þetta ritar fari í augnaðgerð suður á Landspítala, gott og vel. Eftir margar ferðir fram og aftur milli Akureyrar og Reykjavíkur er nú loks komið að stóru stundinni. Hringt var síðdegis á fimmtudegi og viðkomandi beðinn að mæta kl. 11:00 daginn eftir. Það gleymdist að athuga að viðkomandi bjó ekki í Breiðholtinu heldur á Akureyri og þurfti ég að segja aumingja stúlkunni að hann þurfti að taka flugvél til að komast í læknaskoðunina, gott og vel. Málinu var frestað í viku. Þá skal viðkomandi vera mættur kl. 11:00 fyrir hádegi í forskoðanir. Síðan skal aðgerðin gerð næsta mánudag. En auðvitað er ekki hægt að skreppa til Akureyrar yfir helgina, jú fræðilega en ekki sakir kostnaðar. Því hér á milli eru ekki strætóferðir en þetta er auðvitað ofar Reykfirskum skilningi. Svo er þetta blessaða fólk undrandi á því að landsbyggðarvargurinn skuli heimta það að fá að kjósa. Væri nú ekki ráð Reykvíkingar fari að hugsa um það hvað orðið höfuðborg merkir. Það merkir ekki einasta forréttindi heldur ekki síður skyldur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.