13.11.2008 | 15:44
Sof þú mitt Þing
Um daginn var á dagskrá Alþingis liður sem nefnist störf þingsins. Komu þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu í pontu hver á eftir öðrum og kvörtuðu yfir því hvað þeir hefðu lítið að gera og hversu lítið mark væri svona yfirleitt tekið á þessu þingi. Rétt er það að talsvert hefur verið rætt um það að undanförnu að þingið sé orðið að einhverskonar afgreiðslustofnun fyrir ríkistjórnir. Einhverskonar lifandi stimpilpúði og virðingin fyrir þessum kjaftaklúbbi þarna við Austurvöll hefur ekki verið ýkja mikil. Verst af öllu er þó að þingmennirnir gera sér ekki grein fyrir því að þeir geta haft töluverð völd ef þeir taka sig til. Í stjórnarskránni segir Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn en ekki eins og margir halda Ísland er lýðveldi með stjórnbundnu þingi. Ef að þingmenn myndu nú einu sinni gleyma flokkskírteinunum og bitlingunum þá er þeim í lófa lagið að hafa völd. Þeir gætu einfaldlega samþykkt vantraust á ríkisstjórnina og yrði hún þá að sjálfsögðu að fara frá og í kjölfarið neyddist forsætisráðherra líklega til að rjúfa þing og þar er sennilega komin ástæða til þess að menn gera þetta ekki. Mönnum þykir nefnilega svo óskaplega vænt um stólana sína og allar nefndirnar og ráðin að þessu vilja þeir ekki fórna fyrir áhættunni á að tapa í kosningum. Þess vegna er þingið svona áhrifalaust og við segjum bara rólega: Sofðu, sofðu þingið mitt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.