Nýju fötin Bjarkar

Það ríkir víst kreppa í fjármálum þjóðarinnar og ef til vill ekki síður í hugarfari hennar. Menn tala allir um orsakir og afleiðingar, úrræði og lausnir og má segja að í þessari umræðu séu allir sótraftar á sjó dregnir. Undanfarið hefur borið nokkuð á okkar ástsælu söngkonu Björk í þessu sambandi og í gær mætti hún í Kastljósið ekki í svansbúningnum heldur í nýjum, nokkuð smekklegum, svörtum að lit. Hún var að tala fyrir einhverju sem hún nefndi nýtt ísland sem manni virtist vera einskonar auglýsing fyrir nýtt lag sem hún var að senda frá sér. Í viðtalinu komu svosem fram hugmyndir sem eru út af fyrir sig góðra gjalda verðar en geta ekki talist neitt voðalega frumlegar. Þetta eru hugmyndir sem meðal annars vinstri grænir hafa nokkuð haldið á lofti um alls konar smáiðnar og smáfyrirtæki. Þess vegna vekur það athygli að Björk skuli þarna vera í slagtogi við meðal annars prumpháskólann í Reykjavík sem þrátt fyrir himinhá skólagjöld fær sama stuðning frá ríkissjóði og aðrir háskólar með þeim afleiðingum að öll alvöru háskólamenntun er í fjársvelti. Það er laukrétt hjá Björk að við getum ekki eingöngu treyst á áliðnað frekar en fisk eða fjármálastarfsemi. En einhverja undirstöðu þurfum við að hafa undir efnahag okkar. Sú pizza væri ekki lystug sem hefði aðeins úrvals álegg og sósu ef botninn vantaði. En botninn má hins vegar gera úr fleiru en einu hráefni. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband