18.4.2008 | 15:41
Störf Alþingis
Vor daglega spaugstofa, sú sem við köllum venjulega Alþingi stóð svo sannarlega fyrir sínu í gær. Nú átti að afkasta miklu koma mörgum málum frá og ráðherrar flytja mikilvægan boðskap en eitthvað hafði gleymst. Í ljós kom að viðkomandi ráðherrar höfðu ýmsum öðrum hnöppum að hneppa þennan daginn en að standa fyrir máli sínu í þinginu. Handboltadómarinn og kynbomban í menntamálaráðuneytinu þurfti að huga að nýja opinbera leikfanginu sínu, það er að segja ríkisútvarpinu og mátti því ekkert vera að því að vera að ræða um opinbera háskóla fyrr en seinna. Samgönguráðherra áttaði sig allt í einu á því að hann hafði ekki nema takmarkaðan tíma til þess að mæla fyrir viðauknir um vegaáætlun af því hann áttaði sig allt í einu á því að hann þurfti að mæta á eitthvað samgönguþing. Nú eru góð ráð dýr en einhvernvegin tókst að púsla saman einhverju sem kalla mátti dagskrá en með þeim afleiðingum að ámótamikill tími fór í umræður um störf þingsins og fundarstjórn forseta eins og öll mikilvægu málefni ráðherrana. Uppákomur á borð við þessa eru svo sem ekkert nýtt. Það er eins og eitthvað svona gerist á hverju ári undir lok þingsins, nema hvað menn skipta stundum um hlutverk eins og framsókn og samfylkingin gerðu núna. Umræður þeirra á milli voru nefnilega nákvæmlega eins og í fyrra með öfugum formerkjum þó. Ekki er hægt að segja að svona uppákomur auki virðingu manna fyrir blessuðu þinginu og gera þingmennirnir sér sennilega ekki grein fyrir því hversu miklir bjálfar þeir sýnast í augum þjóðarinnar þegar farið er að sjónvarpa frá þinginu. Á þessu fínasta málfundarklúbbi Íslands ægir líka saman alls konar fólki. Þarna má finna kjaftfora sjóara, fyrrverandi tukthúslimi ekki svo hagsýnar húsmæður, pokapresta og misheppnaða lögfræðinga. Lagasetningar þeirra verða líka oft einstakt klúður samanber það þegar þeir óvart gerðu vændi löglegt á Íslandi og sumt í áfengislögunum er auðvitað hlægilegt, samanber bannið við áfengisauglýsingunum sem enginn virðir. Svo er nú komið að fólk lætur sér fátt um finnast hvað þetta lið er að bralla þarna við Austurvöll. Sennilega væri best að skera þetta lið niður um helming og sjá til hvort ekki yrði þá meira um gæði en magn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.