11.4.2008 | 14:11
Björgum súlunum
Af því hafa borist fréttir að fjármálaráðherra gerist einkar kræfur í þjóðlendukröfum sínum þessa dagana. Gerir ríkið nú tilkall til súlnanna bæjarfjalls Akureyringa auk efsta hluta hlíðarfjallsins. Af viðbættum vatnsbólum bæjarins. Er ekki laust við að mörgum Akureyringnum hafi orðið kveld við, við þessar fréttir að ríkið skuli nú ætla að svipta okkur bæjarfjallinu okkar og einhvern veginn þá veit maður ekkert hvaða tilgangi þetta þjónar. Af hverju mega Akureyringar ekki eiga súlurnar sínar í friði og reyndar er það óskiljanlegt hvers vegna lagt var upp í þess þjóðlenduvitleysu á sínum tíma. Má vera að það hafi verið gert til að útvega einhverjum lögfræðingum í Reykjavík vinnu eða þá að tryggja ríkinu auðlindarrétt á hálendinu. Alla vegana þá er þessi vitleysa búin að kosta skattborgarana ófáar milljónir. Fyrir utan mannréttindabrot sem felast í eignaupptöku frá einstaklingum og sveitafélögum. Maður spyr sig: Af hverju í ósköpunum ekki mátti hafa það kerfi sem reynst hefur okkur vel í 1000 ár. En svo við snúum okkur að súlunum þá ætti nú bæjarstjórn Akureyringa einu sinni að sýna svolítið frumkvæði, meira en blessaðir þingmenn kjördæmisins sem flestir eru búnir að gleyma því hvaðan þeir komu. Jafnvel fyrrum bæjarstjóri á Akureyri sem var ósköp daufur í dálkinn þegar þetta mál var rætt á Alþingi enda ekki einu sinni maður til að loka fyrir túlann á bróður sínum þulnum sem ávarpar útvarp Reykjavík með síþynnkurödd sinni. Bæjarstjórn ætti ef kostur er að stækka lögsagnarumdæmi bæjarins þannig að það nái yfir bæði Glerárdal, Súlurnar og Hlíðarfjall. Ekki þarf að sameina hér sveitafélög þar sem engir eru íbúarnir. Fordæmið er fyrir hendi, fyrir nokkrum árum innlimaði Reykjavík Kjalarnesið og sagði Ingibjörg Sólrún við það tækifæri að nú væri Esjan komin heim, sem frægt er. Við Akureyringar hljótum að feta í fótspor hennar og heimta súlurnar heim. Björgum Súlunum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.