25.2.2008 | 17:36
Fatlafól á Tenerife
Fatlafólið er nú snúið heim frá Tenerife. Eftir undarlega draumkennda viku í loftslagi sem meira minnti á einhvern óraunverulegan hita, júlídaga sem sjaldan koma á Íslandi en kuldann, snjóinn og rokið heima. Að koma aftur á klakann var eins og að vera vakinn upp af ljúfum draumi. Staddur í ísköldu fangelsi sem gætt er af illum bankastjórum í okurhug og enn verri fyrrverandi borgarstjórum sem þekkja sinn vitjunartíma. Vera kominn allt í einu á ný heim í alla reyfisleysuna, okurvextina, týndu loðnuna og sjávarútvegsráðherrann sem kominn er í heilagt stríð við landsbyggðina. Þegar loðnan týnist í nokkra daga er þjóðráðið bara að banna veiðar og senda rútu með fiskverkakonurnar á skaganum til að kíkka á lálaunastörfin á Hrafnystu. Nei þá er nú betra að sitja yfir bjórglasi úti á hótelbarnum á Green Golf og fara síðan niðrí strandbæinn á Tenerife. Þessi strandbær lítur að sönnu út eins og ein allsherjar tískubúð og er sennilega dæmi um hina nýju markaðssetningu Spánar sem ferðamannaland. Forkólfar í ferðaþjónustu þar hafa nefnilega uppgötvað þann sannleika að leiðin að pyngju eiginmannsins liggur í gegnum greiðslukort eiginkonunnar. Þetta hafa Íslenskir fjárfestingagaurar auðvitað löngu uppgötvað samanber allar Kringlurnar og Smáralindirnar. Spurningin er bara; hvað verður um allar þessar Kringlur og Smáralindir þegar bankakerfið lokar á lánsféð og konurnar átta sig á því að það er miklu sniðugra að versla í sólskyni og sæmilegu verðlagi, heldur en rigningu og okri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.