8.1.2008 | 17:21
Ráðherrar kvellspringa
Jólin og áramótin eru búin með öllu tilheyrandi ofáti, sprengingum og neyslufylleríi. Það voru ekki bara hefðbundnir flugeldar sem sprungu eins og aldrei fyrr. Ráðherrar í ríkisstjórn vorri hafa sprungið sem hinar dýrmætustu rakettur þótt deila megi um fegurð ljósanna. Raunar beið dómsmálaráðherra ekki áramótanna til að sprengja flugeld sinn sem að reyndar þorði ekki að kveikja sjálfur í heldur lét dýralækninn, vin sinn úr Hafnafirði sjá um skítverkið og skjóta syni Davíðs Oddsonar norður og austur á land. Ekki var strákurinn látinn nema staðar á Hólmavík eins og venjan er þegar menn hefja feril í dómskerfinu, slíkt var að sjálfsögðu ekki hægt þar sem flokkurinn hefði litið á það sem pólitíska útlegð og gæti valdið óróa í seðlabankanum en þó er ekki alltaf svo þægur stjórnvöldum sem skyldi. Óvíst er þó hvernig Akureyringar og Austfirðingar taka þessari jólagjöf að sunnan. Áramótin komu svo og þá vildi Össur leika sér að flugeldum líka. Skipaði hann orkumálastjóra einhvern náunga sem heitir Guðni og býr í Stokkhólmi en fremur fátt er um það vitað nema hann hvað hafa einhverja súperdoktorsnafnbót úr einhverjum háskóla í Svíþjóð. Kona ein sem verið hafði staðgengill orkumálastjóra taldi sig eiga rétt á starfinu þó ef til vill væri hún ekki eins vel menntuð og Guðni þessi enda víst eitthvað tuðað um jafnrétti kynjanna í stjórnarsáttmálanum. Jafnréttið virtist svo vera alveg í lagi þegar hann skipar konu sem ferðamálastjóra sem minni menntun hefur en aðrir umsækjendur og snýst nú dæmið algjörlega við. Sá grunur læðist að manni að þetta hafi eitthvað með flokkskírteinið að gera en sennilega fer það mjög fyrir brjóstið á mörgum ærlegum samfylkingarmanni ef ráðherrar flokksins fara að gera eins og allir hinir, líta á flokkskírteinið og ætternið áður en litið er á hæfnina. Samfylkingin hefði betur barið í borðið þegar Þorsteinn Davíðsson var skipaður héraðsdómari þó svo það hefði kostað stjórnarslit, hún væri flokkur að meiri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.