19.10.2007 | 16:27
Borgarstjórablús
Um það bil vika er nú liðin síðan meirihluti borgarstjórn Reykjavíkur sprakk með þvílíkum látum að slikt hefur ekki gerst síðan fyrir allmörgum árum þegar ríkisstjórn sprakk í beinni sjónvarpsútsendingu. Eins og með allar sprengjur þá hafa afleiðingar þessarar ekki enn komið fyllilega í ljós en það sem meira er enginn virðist vita í raun hvað olli henni. Sumir tala um Júdas í bjarnarlíki en aðrir segja að Villi hafi verið svolítið viðutan og slept því að lesa eitthvert minnisblað sem menn skildu eftir heima hjá honum. Menn týndu upp sprengjubrotin og klömbruðu saman meirihluta á þrem og hálfum tíma, skiptu í snarhasti á milli sín áhrifamestu stöðunum en geymdu smáatriði eins og málefnasamning og byttlingaverslun til síðari tíma. Síðastliðna viku hafa fjölmiðlar verið algerlega undirlagðir undir þetta mál og sjálfsagt er þjóðin löngu orðin þreytt á þessu en það er ýmislegt sem ekki hefur farið mjög hátt í allri þessari umræðu og má þar til nefna meðal annars þau áhrif sem þessi nýja staða hefur á landsbyggðina. Fyrst af öllu ber þar að nefna hið svokallaða flugvallarmál. Þeir Dagur og Björn hafa báðir lýst því yfir að Reykjavíkurflugvöll skuli flytja úr Vatnsmýrinni annað hvort upp til heiða eða út á sjó og að sveitavarginum komi þetta mál ekkert við. Þeim félögum skal hér vinsamlega bent á að vilji þeir flytja Reykjavíkurflugvöll þá er það yfirlýsing um að þeir vilji að Reykjavík hætti að vera höfuðborg landsins og rétt sé að aðrir taki þar við. Annað mál er þá eftirvill enn nær í tíma og það er ákvörðun dags um að setja 269 milljónir í að hækka laun umönnunarstétta, gott mál segja allir og þetta mál kann svo sannarlega að vera gott þó það lykti svolítið af þessu venjulega að skjóta fyrst og spurja síðan með því að fara að hækka laun þessarar stétta eru önnur sveitafélög sett í vanda og eftir að Hafró týndi þorsknum í vor standa ýmis sveitafélög mjög illa, það illa að þau standast ekki samkeppni við Reykjavík þar sem öll þenslan er. Mikið hefði manni nú fundist borgarstjóri betur hafa haft samráð við aðrar sveitastjórnir í landinu áður en hann hóf að leika þennan blús sinn. Eitt getum við hugsanlega lært af öllu þessu ef til vill er hér um að ræða fyrsta merkið um það að landið sé að þróast hættulega mikið í átt til borgríkis. Þarna varð sprenging í einu sveitafélagi sem skókoll allt þjóðfélagið, þetta gerðist í Aþenu, þetta gerðist í Róm og er ef til vill að gerast á Íslandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.